Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009

Þú hefur drýgt hór...

Ritstjóri AMX vandar mér ekki kveðjurnar fyrir þær sakir að vera honum ekki samstíga í Icesaveskruminu. Svarar reyndar engu efnislega en gerir mjög að því skóna að ég sé ekki marktækur þar sem ég hafi sagt af mér þingmennsku. Hvað má þá segja um þá menn sem gengið hafa ævilangt með þingmanninn í maganum og aldrei náð að komast svo langt þó mikið hafi verið reynt...

En þetta er alltaf skemmtilegt samt þegar farin er þessi sérstæða rökfærsluleið, svona eins og þegar við litlir sögðum einfaldlega pabbi minn er sterkari en pabbi þinn og þú ert með hor. Skemmtilegasta sagan af slíkum viðbrögðum er af frænda mínum í Grímsnesi sem sat innikróaður milli tveggja dætra sinna en sagði frekar en að játa sig sigraðan:

- Þegi þú Helga, þú hefur drýgt hór... Meira hér.


Mikið væri gott að trúa Mogganum...

Mikið væri nú gott að trúa Mogganum og stjórnarandstöðunni þegar kemur að Icesave.

Að Íslendingar geti gert miklu betri samninga um Icesave.

Að Alþingi geti einfaldlega sagt hvað eigi að standa í samningunum sem íslenska ríkisstjórnin fari svo og segi Bretum og Hollendingum -  sem væntanlega hneigja sig fyrir hinum göfugu eyjaskeggjum.

Að Steingrímur J. hafi vitaskuld sett illviljaða og lata kjána í samninganefndina og allir aðrir geti búið til betri samninganefndir og fengið betri niðurstöðu. 

Að það sé ekkert því til fyrirstöðu að fella nú Icesave og hleypa þar með stjórnarandstöðunni að samningaborðinu. Sömu flokkum og sköpuðu það ástand sem nú er unnið úr. Sjálfstæðisflokknum sem talar út og suður í málinu og lagði sjálfur drög að Icesave-samningum sem voru sínu verri en þeir vondu samningar sem nú liggja fyrir.

En mikil má Moggatrúin þá vera!

Morgunblaðið talar um vondan dag í sögu þingsins verði Icesave samþykkt. Það er enginn vafi á að þetta eru vondar skuldbindingar en það benda allar staðreyndir til að þetta sé samt það besta sem hægt er að gera í stöðunni. Það var möguleiki að taka fast á málinu í upphafi og neita að borga skuldir sem enda eru ekki okkar sem þjóðar heldur orðnar til vegna fárra fjárglæframanna. Þeim möguleika var klúðrað af ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks og það er miður. Þá voru lögð drög að þeirri leið sem núverandi ríkisstjórn hefur ekki getað snúið frá nema valda þjóðinni enn þungbærari skaða en orðinn er.

Einn svartasti dagurinn í sögu þjóðarinnar hin seinni er þegar Alþingi var blekkt til að samþykkja skuldsetta yfirtöku á ríkisbönkunum. Þar og í EES samstarfinu liggur grunnur að ófarnaði þjóðarinnar nú og þeir sem að því verki stóðu hafa fráleitt gert hreint fyrir sínum dyrum. 

Þess í stað draga Mogginn og hans þingmenn fram að Ingibjörg Sólrún segi nú að kannski hafi hún nú ekki alveg meint þetta svona þegar hún var í embætti. Þetta eru hreint merkilega ómerkileg rök og mætti halda að Mogginn telji grínlaust að Icesave samningaviðræðurnar séu milli stjórnar- og stjórnarandstöðu. Reyndin er að þetta eru samningaviðræður við ríkisstjórnir sem beina trítilóðri reiði sinni að íslensku samninganefndinni og gæfu miklu meira en lítið fyrir hvað Ingibjörgu Sólrúnu finnst eftir á að hún hafi meint...


Spikið eftir í Haukadalsskógi

Við hjónakornið gengum af okkur jólaspikið í Haukadalsskógi í dag og nutum þess að hitta engan eftir að hafa hitt gríðarlega marga í jólabókavertíðinni og jólaboðunum. Enduðum í heitu kakói í túristasjoppunni á Geysi sem er ágæt en samt flest annað en sjarmerandi.

Hefi annars notað jóladagana til að sofa og hvílast milli þess sem ég hefi barist í gegnum ÓVÍD sem er í senn frjóvgandi fyrir hugsunina og unaðsleg hvíld frá nútímanum. Nútíma sem hefur líklega aldrei verið truntulegri.

Já og svo því sé nú til haga haldið þá var það mitt spik sem varð eftir í skóginum, Elín mín hafði af engu að taka og gekk jafn grönn úr skóginum og hún fór inn í hann klukkustund fyrr. Og blés ekki úr nös enda göldrótt.

Gleðilega rest...


Jólaskúringum lokið...

Engum dylst að skúringar eru með leiðinlegri verkum en það fylgir þeim samt ákveðin vellíðan þegar þeim er lokið. Þorlákurinn er eini fasti skúringadagur ársins og líka sá mikilvægasti. Nú þegar þeim er lokið er engu lengur að kvíða og ekki annað eftir hjá pattaralegum bókakaupmanninum en að telja saman gróðann...

Gleðileg jól öll og látum nú enga anorexíudellur samtímans spilla hinni sönnu jólagleði áts og afslöppunar.


Dapurlegir kálbögglar og ómöguleg kuff-félagsbúð...

Tuttugasti og annar desember er síðasti venjulegi matardagurinn því á morgun er skata og svo veislur á veislur ofan svo langt sem augað eygir.

Þessvegna var um að gera að elda eitthvað nógu alþýðlegt, ódýrt, venjulegt og meinlætalegt og ég rakst á að kjötbúðingurinn í kufffélaginu hérna (eðahvaðþaðernúsemsúbúðnúafturheitir), já kjötbúðingurinn var á afslætti og ákvað að sjóða kálböggla sem eru ef einhver skyldi ekki vita það  soðnar kjötfarsbollur með hvítkáli, rófum og gulrótum en viti menn, kuff-félagið (eðahvaðþaðernúsemsúbúðnúafturheitir) átti þá ekkert hvítkál og raunar ekki annað kál en innflutt brokkkál og blómkál sem var líka innfluttur þverri ef ekki hreinlega óþverri.

Endirinn var að éta kálböggla með engu káli en því meira smjöri sem var gott - en samt var ég svoldið hnugginn yfir þessu að hafa ekkert kál í sjálfu landbúnaðarhéraðinu.

Ég fékk heldur ekki villihrísgrjón í þessari búð og ekki helminginn af því kryddi sem ég ætlaði að kaupa til jólanna. Ég er farinn að sakna gamla alvöru kaupfélagsins og sakna jafnvel Nóatúns eins og það búðarheiti var nú samt afkáralegt hér í Flóanum.

Nú þykist kuff-félagshúsið okkar vera lágvöruverðsverslun sem er eitt skrumhugtakið en eftir það uppnefni er hvergi í plátzinu hér almennilegt kjötborð og það er mikil lífskjaraskerðing. Gvendur fisksali bjargar því að hér er þó fiskborð.

Þegar það svo bætist við að það er ekki heldur hægt að kaupa hér hvítkál þá er fokið í flest skjól og full ástæða til að einhverjir af okkar athafnasömu strákum sem áður kepptust við að smíða hús fari í að reka alvöru kjörbúð. Og hana nú!


Undarleg umræða um bófa

Það er vægast sagt undarleg umræðan nú á aðventunni um Bónus annarsvegar og Werne Holding Björgólfs Thors hinsvegar. Mér dettur í hug að einhver jólaandi sé að brengla dómgreind manna. Það nær vitaskuld ekki nokkurri átt að menn sem stundað hafa hvítflibbaglæpi í þeim mæli að hagkerfið er í sárum næstu áratugina haldi áfram í viðskiptum og það í skjóli stjórnvalda.

Steingrímur J. segir að við verðum að takast á við þetta á forsendum réttarríkisins og vitaskuld á að taka á brotum þessara manna á þeim forsendum. En pólitískar ívilnanir í skattakerfinu geta engan vegin komið til greina fyrr en þau mál eru öll að baki og breytir þá engu þó einhverjir sjái eftir gagnaveri sem ekki er einu sinni orðið að veruleika.

Með því að stjórnvöld setji þau skilyrði að Björgólfur Thor fari út úr verkefninu er líka langlíklegast að við tryggjum framgang þess - eða hvernig halda menn að framgangur þess verði yfirhöfuð þegar rannsóknarskýrslur hafa sett forsvarsmann fyrirtækisins á sakamannabekk.


Lesið og trommað í bókakaffinu í kvöld

Það stefnir í met fjör á upplestrarkvöldi hjá okkur í kvöld en þá mæta meðal annarra stórsnillinga hingað í Bókakaffið okkar Árni Matthíasson og Guðmundur Steingrímsson að kynna ævisögu þess síðarnefnda, Papa Jazz. Sá fyrrnefndi les en Guðmundur tekur nokkur sóló á trommuna!

Og skáldagyðjan fær líka sinn skammt því að þessu sinni mæta bæði Þórarinn Eldjárn sem óþarft er að kynna frekara og Selfyssingurinn Sölvi Björn Sigurðsson. 

Og fleiri til. Gunnlaugur Júlíusson hlaupari kemur. Ég veit ekki hvort hann verður á bíl og svo mæta þau Þorsteinn Antonsson og Norma Samúelsdóttir með búsetusögu sína úr Hveragerði.

Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Lestur hefst klukkan 20:00.


Jólakúlurnar hrein snilld

Kreppuráð okkar Íslendinga ná nýjum hæðum í jólakúlum sem ein sælgætisgerðin sendir nú frá sér, innan í pakkanum eru semsagt innpökkuð páskaegg - en það er enginn málsháttur í þeim. Allavega ekki þessu sem ég keypti í Krónunni í dag en súkkulaðið var ágætt og hver segir að ekki megi nýta umfram-páskaegg með þessum hætti. Snilldin ein...

Það sem aldrei getur gerst getur samt gerst aftur og aftur

Eitt skemmtilegasta orðtæki landsmanna hljómar svo:

Það sem aldrei hefur gerst getur alltaf gerst aftur.

Þetta eru auðvitað öfugmæli og kalla jafnt á kátínu og umhugsun. Sama á í raun og veru við það máltæki sem ég heyrði innan úr viðskiptalífinu nú í morgun að:

Það sem aldrei getur gerst getur samt gerst aftur og aftur!

Fyrir liðlega ári var gjaldþrot bankanna talið óhugsandi og samt varð það. Eftir að þeir voru farnir á hausinn töldu bókforleggjarar og fleiri sig samt örugga með það gæti aldrei gerst að sjálfur Eymundsson færi kollskít - en svo gerðist aftur það sem aldrei gat gerst...

Þá sögðu forleggjarar vísast, það var þá eins gott að við höfðum Bónus, þar fengum við þó greitt fyrir bækurnar! En nú er eins gott að muna að það sem aldrei getur gerst getur samt gerst aftur og aftur og aftur...


Montinn bloggari

Mont er löstur og leiðinlegur kvilli en þegar það dettur í mann er best að kannast við montið strax. Og sjálfur er ég ósegjanlega montinn þessa dagana yfir þeim viðtökum sem bók mín Svo skal dansa hefur hlotið bæði meðal almennra lesenda sem ég hitti og bókagagnrýnenda.

Síðast í gær skrifaði Hallfríður Þórarinsdóttir á Kistuna og særir mig þar til að skrifa meira. Áður hafa m.a. Árni Matthíasson á Morgunblaðinu farið lofsamlegum orðum um bók þessa og sama gerði Ólafur Guðsteinn Kristjánsson á sama blaði. Á Fréttablaðinu fékk bókin sömuleiðis afbragðs dóm frá Kolbeini Proppé og á Pressunni gaf Ólafur Arnarson bókinni fjórar stjörnur af fimm mögulegum, sjá hér. Loks er skylt að geta hér um dóm sem var mér ekki síður hagstæður og raunar eins og hinir miklu betri en ég á skilið. Sá er frá Kristni Kristmundssyni og birtist í Sunnlenska fréttablaðinu, sjá hér. 

 stjana_i_knellu_ofl.jpg

 

Það sem gerir mér einkanlega mögulegt að lifa með þessu monti er að ég yfirfæri með sjálfum mér montið yfir á langömmur mínar sem ég er að skrifa um og held að eigi miklu meira í þessu en nokkurn rennir í grun. Montið nær svo hæstum hæðum þegar ég hitti fyrir gamlar vinkonur þessara kvenna sem segja mér að þær hafi lesið bókina og líkað vel og fullyrða við mig að mér hafi tekist að fanga það andrúm sem þær mundu. Ein þessara kvenna er Helga Bjarnadóttir sem sendi mér skemmtilegt bréf í morgun og þar með nokkrar gamlar myndir, þar á meðal þessa sem hér birtist. Á henni er verkafólk á Fáskrúðsfirði á fyrri hluta 20. aldar. Hér sést ein af höfuðpersónunum í bókinni, Kristjana Stefánsdóttir í Knellu sem ég kalla Sjönu en var í reyndinni kölluð Stjana. Hún er hér fyrir miðri mynd og áberandi lágvaxin kona með dökka skuplu á höfði. 

Aðrir á mynd þessari eru f.v. Gísli á Sómastöðum, Dagmar á Sólvangi, Þóra í Stafholti, Stefanía í Gullbringu, Guðlaug Emerentiana á Bjargi, Stefán í Pétursborg, Guðbjörg í Nýborg, fyrrnefnd Stjana í Knellu, Þorsteinn í Gilstungu, Ágúst í Pétursborg, Guðrún á Gestsstöðum, Þórhallur í Sólvangi, Jónína í Nýja-Bæ, Jóhanna í Gilstungu og Ingólfur í Þingholti. (Sbr. Almanak Fáskrúðsfirðingafélagsins 2003).


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband