Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Kosning um ESB-umsókn er mikilvæg

blank_page

Aðildarviðræður að ESB ganga gegn Stjórnarskrá lýðveldisins sem miðar að verndum fullveldisins.

Þessvegna er mjög eðlilegt að það sé ekki farið í slíka vegferð nema það sé aukinn meirihluti þjóðarinnar sammála því að leggja fullveldið þannig í skjalatösku hjá Össuri Skarphéðinssyni.

Það er von mín að Alþingi samþykki tillögu stjórnarandstöðunnar um atkvæðagreiðslu. Það er ljóst að hún á mikinn stuðning inni á þinginu og margt sem bendir til að Samfylkingin sé að einangrast í þessu máli.

Þegar að þessari kosningu kemur er mikilvægt að við höfum reynsluna af Icesave í huga og gáum að því að það er ekkert víst að við fáum annað tækifæri til að hrinda ásókn stórveldanna eftir landi okkar og miðum.

Íslandi allt.


Til hamingju Össur

Það eiga allir menn sína hamingjudaga og margt sem bendir til að Össur Skarphéðinsson hafi verið á hátindi síns ferils í gær, föstudaginn 10. júlí en þá gerðist það tvennt sem ráðherrann hefur lengi dreymt að verði að veruleika.

valholl_mynd_kr_bj.jpg
Valhöll á Þingvöllum brann til grunna og Alþingi Íslendinga tók til umfjöllunar tillögu sem miðar að því að leggja af sjálfstætt þjóðríki á Íslandi.

Sjálfur lenti ég í mjög svo svæsnu orðaskaki við ráðherrann þegar ég fyrir tveimur árum lagðist gegn sameiginlegum fyrirætlunum Össurar og Kristjáns Einarssonar slökkviliðsstjóra að rífa hús þetta en Össur vildi á þeim tíma byggja í stað hótels fyrir almenning nýmóðins ráðstefnusal fyrir Alþingi.

Nú er hálfnað Össurar-verkið við Valhöll sá draumur og orðið að veruleika að Alþingi ræði nú af alvöru um að ráða völd undan landinu til erlendra valdastofnana.

Mín trú og von er samt sú að áður en lýkur lúti vindbelgurinn Össur í gras, Íslendingar felli allar tillögur sem miði að skerðingu fullveldis og Valhöll verði endurreist í sem upprunalegastri mynd.


Land sem lyktar af reiði og ódámum

Landið lyktar af þeirri reiði sem útrásarvíkingarnir valda okkur og stjórnvöld keppast við að slá um þá skjaldborg. Í því efni er samt stjórnarandstaðan stjórninni verri.

Nú fara Björgólfsfeðgar fram á afslátt af kaupverði Landsbankans,- þeir voru ekki einu sinni búnir að borga bankann og gátu samt verið útausandi á fé eins og þeir ættu allan heiminn.

Um daginn þegar viðskiptaráðherra sagði réttilega að íslenska fjármálahneykslið líktist Enron-hneykslinu hljóp stjórnarandstaðan á fætur og varði kappana sem komið hafa landinu á kaldan klaka.

Ennþá berast okkur fréttir af umsvifum þessara manna sem skulda samt trilljónir og skrilljónir sem við þurfum að borga. Og það er ekkert gert.

Húsleitirnar eru eins og glæta í því myrkviði spillar og fýlu sem liggur yfir landinu en fráleitt nema aumleg viðleitni. Í öðrum siðuðum löndum væru tugir þessara manna í stofufangelsi ef ekki gæsluvarðhaldi. Hér rífa þeir kjaft í blöðum sem þeir eiga líka sjálfir!

Ég er farinn á fjöll og verð næstu daga á röltinu á Kjalvegi hinum forna. Þar ku enginn mannaþefur...


Kaupfélagsstuldur sem forleikur að útrásarævintýri

Á skrollinu heitir heitir nýr útvarpsþáttur í Útvarpi Suðurlands sem undirritaður sér um og byggir á 10 mínútna pistli um allt og ekki neitt, mest þó pólitík. Fyrsti þátturinn var á fimmtudaginn kl. 16 þar sem ég fjallaði lítillega um það þegar Kaupfélaginu okkar hér á Selfossi var stolið um hábjartan dag og hvernig sá stuldur var um margt skyldur útrásarvitleysunni sem þjóðin stendur nú í flórnum af...

Sjá nánar hér, http://bjarnihardar.blog.is/blog/bjarnihardar/entry/909089


Það heitir semsagt meðvirkni...

Ég hef enga djúpa sannfæringu fyrir því að Davíð Oddsson hafi rétt fyrir sér í gagnrýni sinni á Icesave samninginn og tel raunar að það mál allt sé gríðarlega flókið. Meðal annars vegna margra og misvísandi yfirlýsinga þriggja síðustu ríkisstjórna um ágæti bankakerfisins hér og ábyrgð okkar.

En mig furðar á svörum Steingríms J. Sigfússonar sem svarar engu efnislega, hvorki í gagnrýni Davíðs né nokkurs annars þó svo að honum standi til þess allir fjölmiðlar opnir. Sem kjósandi Vg í síðustu kosningum vona ég að það sé handvömm blaðamanns hvernig lokaorð viðtalsins við Steingríms líta út en þar segir hann um Davíð:

„Ég hélt nú satt best að segja að þessum kafla í íslenskri stjórnmála- og fjölmiðlasögu væri lokið að allt færi af hjörunum þegar heyrist í Davíð Oddssyni. Ég var farinn að vona að hann væri sáttur við sitt hlutskipti, hættur í stjórnmálum og kæmist vel af en menn ætla seint að komast út úr þessari meðvirkni.“

Ef það er raunverulega ætlan fjármálaráðherra að halda því fram að hvorki Davíð Oddsson né aðrir sem ekki eru á launaðir stjórnmálamenn megi skipta sér af stjórnmálum og það flokkist undir meðvirkni að hafa áhyggjur af kratastjórninni sem situr- ef það er svo Steingrímur, þá skuldarðu okkur kjósendum þínum afsökunarbeiðni. Við erum mörg lýðræðissinnar og viljum að allir hafi rétt til að taka þátt í hinni pólitísku umræðu.


mbl.is Ósvífin og ódýr afgreiðsla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýlendustefna í nýjum fötum

Fylgjendur ESB aðildar Íslands halda því mjög á lofti að eftir seinni heimsstyrjöldina hafi hafist tímabil yfirþjóðlegra yfirráða og alþjóðastofnana. ESB sé einfaldlega staðfesting og fullkomnun í þeirri þróun. Hér gætir nokkurs misskilnings í túlkun á mannkynssögunni.

Mannkynssagan er saga af yfirgangi og yfirþjóðlegum yfirráðum og af þeim þætti er lítið nýjabrum. Krafan um sjálfsákvörðunarrétt þjóða og þjóðabrota er ung í þeirri sögu en hefur stöðugt vaxið ásmegin á allra síðustu áratugum. Aukið lýðræði og sjálfstæði ganga hér í takt. Samhliða hafa slaknað yfirráð fornra heimsvelda yfir leppríkjum, áhrifasvæðum og nýlendum.

Skýrasta dæmið um þetta er þróun mála í Afríku og Asíu en jafnvel þó misjafnlega hafi tekist til í stjórnarháttum í þessum álfum hafa löndin þar náð meiri árangri í þróun og hagvexti en þau gerðu sem nýlendur hinna evrópsku stjórnarherra. Engin lönd hafa farið eins illa út úr þessari þróun minnkandi yfirþjóðlegra yfirráða eins og gömlu nýlenduveldin sem mynda í dag kjarna Evrópusambandsins.

En heimsvaldastefnan lætur ekki að sér hæða og klæðist á nýjum tímum nýjum fötum. Vel má til sanns vegar færa að þau klæði hafi náð ákveðnu þróunarstigi með hinum afar torskilda og fræðilega búningi sem Evrópufræðingar sveipa stefnu þessa í dag. En undir og bakvið glittir jafnan í sama og sést best á yfirlýstum áhuga ESB forkólfa á áhrifum á Norðurheimsskautssvæðinu. Í þeim landvinningum er ESB aðild Íslands mikilvægur biti.

Aukin alþjóðasamvinna fullvalda ríkja í gegnum stofnanir Sameinuðu þjóðanna og starf eins og það sem Íslendingar taka þátt í með öðrum Norðurlandaþjóðum er jákvæð og helst í hendur við kröfuna um lýðræði og sjálfsákvörðunarrétt. Heimsvaldastefna feyskinna stórvelda er alltaf andstæð almennu lýðræði og frelsi smáþjóða.

(Glósað eftir fyrirlestur hjá Eiríki Bergmann á Bifröst - birt í Mbl. í sl. viku).


Hélt að þið væruð hjón!

oli_clausen.jpg

Lenti í dægurútvarpi RÚV áðan ásamt Ólafi Arnarsyni Clausen sem ég kann jafn vel við sem persónu eins og ég er ósammála greiningu hans á íslenska hruninu.

En fyrr má nú vera vináttan millum okkar.

Í þetta sinn var útvarpað af litlu borði á Austurvelli og þegar viðtali var lokið stóðum við Clausen á tali við fleiri þegar að okkur vindur sér ungur maður og réttir öllum í hópnum myndarlegt blað um hina árlegu og stórglæsilegu gay-pride daga í borginni sem verða reyndar ekki fyrr en eftir mánuð. Það er að segja, ég fékk eitt eintak, Linda Blöndal eitt eintak, Sigurður frá Umferðarstofu eitt eintak og svo framvegis en Ólafur fær ekki neitt. 

Líst þér svona illa á Ólaf segi ég í stríðni við manninn en hann var svo sannarlega með munninn fyrir neðan nefið því  hann svarar að bragði:

-Fyrirgefðu, ég hélt að þið væruð hjón!

 


Icesave er verðmiðinn á ESB

Ég er sammála séra Halldóri Reynissyni presti á Reynivöllum sem skrifaði nýlega í pistli að Icesave sé verðmiði en okkur klerkinn greinir á um hvað fæst fyrir þann miða. Halldór vill meina að það sé traust. Sjálfur tel ég að þar gæti misskilnings.

Með Icesave kaupum við Íslendingar ekki traust heldur aðgang að þægilegum viðræðum um ESB aðild. Samhengið milli þessara tveggja mála, Icesave og ESB, er augljóst nú eftir birtingu gagna. Samhengið milli trausts og Icesave er vægast sagt görótt og byggir á ruglanda í röksemdafærslu.

Séra Halldór Reynisson sem orðar hlutina mjög skýrt segir í grein sinni m.a.:

„Málið er lagatæknilegt, fjárhagslegt, það snýst um grunntraust á fjármálastarfsemi heillar álfu; að fólk geti lagt sitt sparifé inn í banka við lágmarksáhættu án þess að eiga það á hættu að spariféð gufi upp."

Þetta er rétt hjá Halldóri en það er líka dagljóst af fullyrðingunni að fjármálakerfi heillrar álfu var illa grundað og gallað í sinni uppbyggingu. Um það atriði er raunar ekki deilt. Deilan snýst um það hvort að ESB-löndunum sé heimilt að leggja ábyrgð á þessum galla á Íslendinga öðrum fremur, sem nær vitaskuld ekki nokkurri átt.

Réttlætishugsun ESB-landanna bakvið það plan er að með ESB-aðild verði ábyrgð og byrðar hinna 700 milljarða skuldbindinga hvort sem er jafnað yfir á alla Evrópubúa og við Íslendingar berum þá að tiltölu langt innan við 0,1% af heildinni.

Allt er þetta í trausti þeirrar vissu að áður en til afborgana kemur innan 7 ára verður ESB orðið að stórríki, Bandaríkjum Evrópu. Við Íslendingar eigum þar brotabrot af prósenti og eigum þá líka bara brotabrot af prósenti í auðlindum Íslands og Íslandsmiða.

Ef Icesave snerist um traust á Íslendingum mætti vitaskuld skjóta málinu til dómstóla. Það megum við ekki og samningsniðurstaðan er því ekki sæmandi fullvalda ríki. Niðurstaða málsins fyrir Alþingi snýst um það hvort kjósendur geti treyst þingmönnum til að standa með þjóð sinni og fylgja sannfæringu sinni framar en flokksskrúfum.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband