Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

Hvað hættir Þorgerður lengi?

Það er ljótt að smjatta á óförum annarra og það vil ég ekki gera. En þær eru ekki stórmannlegar plat-afsagnir þingmanna þessa dagana. Illugi og Björgvin G. segja sig frá störfum þangað til það sama hefur verið sannað í hvað, þriðja eða fjórða sinn. Þá ætla þeir aftur á þing!

Útyfir tekur þó Þorgerður sem bíður svo sem einskis af nefndum eða dómstólum en augljóst er að hún var óeðlilega flækt í peningabrall Kaupþings. Hún hefur því ekki við neitt að miða þegar kemur að hinu tímabundna leyfi en af henni mátti samt skilja að hún ætli að segja af sér fram yfir kosningar því ekki má skemma fyrir FLOKKNUM.

Þegar lýðurinn hefur svo kosið til sveitarstjórna má einu gilda hvað hann hrópar.


Landafræðiþekking fréttamanna

Það er ekki laust við aumingjahroll þegar fylgst er með gosfréttum hér austanfjalls. Ekki af því að fréttamenn séu ekki nógu kjarkaðir að fara á staðinn heldur vegna þess hvað öll þekking þeirra á svæðinu er í molum.

Á fimmtudagskvöldið var hrópað á fólk í Fljótshlíð að yfirgefa bæi sína vegna flóðs sem æddi niður Markarfljót. Síðan kom lögreglan og taldi upp hvaða bæir þetta voru og nefndi 10 eða 15 bæi í Landeyjum og á Bakkabæjunum. En útvarps- og sjónvarpsmenn héldu samt áfram að tönglast á Fljótshlíðinni. Þegar raunveruleg vá er fyrir dyrum getur skipt máli að fréttamenn þekki til staðhátta en það gera þeir ekki. Í gærkvöldi birtist svo á vef RÚV:

Í kjölfarið ákvað lögregla að loka þjóðveginum austan Víkur sem og veginum um Mýrdalssand.

Þegar kemur að raunverulegri vá eða rýmingu í Vík þá skiptir máli að fréttamenn RÚV viti að leiðin austur frá Vík liggur um Mýrdalssand!


Að lofa upp í annarra ermi

Fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis tvíhenti á lofti gamalt vegaloforð í grein í Morgunblaðinu í vetur og var tilefnið skrif undirritaðs.

Nú hefur komið í ljós upp í hver ermi þau loforð voru gefin. Ríkissjóður ætlar ekki að ráðast í þessar vegbætur af vegafé heldur skulu Sunnlendingar sjálfir greiða aukalega fyrir vegi sína. Með hugmyndum um vegtolla boðar vinstri stjórnin meiri markaðs- og frjálshyggju í vegamálum heldur en við höfum áður heyrt um á þessum vettvangi, hérlendis. Eða hvernig á þá að fjármagna aðra vegi þar sem umferð er minni en samt mikil nauðsyn á vegbótum. Það er langt síðan landsmenn áttuðu sig á að það væri ekki farsælt ef í landinu eiga að gilda tvennskonar lög í senn.

Vegtollahugmyndin er líka fáheyrð ósvífni nú þegar bensínverð er í hæstu hæðum og tekjur ríkissjóðs af hverjum kílómetra sem ekinn er því meiri en nokkru sinni áður. Allar hugmyndir um það að nauðsynlegt sé að fjórfalda leiðina milli Reykjavíkur og Selfoss byggja á þeim hugmyndum að umferð fari stórlega vaxandi. Og voru þó mjög yfirdrifnar miðað við það sem aðrar og ríkari þjóðir telja fullkomlega ásættanlegt við mikið meiri umferð.

Við efnahagshrun og hækkandi olíuverð hefur dregið mjög úr umferð og notkun almenningssamgangna aukist að sama skapi. Útfrá umhverfissjónarmiðum er óskandi að aukning almenningssamgangna aukist frekar en hitt og ráð að stjórnvöld verji til þess fé frekar en fara í vegaframkvæmdir sem eru langt umfram þarfir og fjármagni svo þarfleysur sínar með ólíðandi gjaldtöku. Vegbætur á leiðinni milli Selfoss og Reykjavíkur eru fyrir löngu orðnar mjög aðkallandi en kostnaður af því að gera alla leiðina þrefalda og koma upp hjólastíg við hliðina eru brot af því sem það kostar að setja upp fjórfaldan veg. Slíkar úrbætur sem munu gera leið þessa mjög örugga taka líka aðeins brot af þeim tíma fjórföldun hlýtur að taka og langlundargeð okkar Sunnlendinga eftir hættuminni vegi er löngu þrotið.

(Birt í Dagskránni Selfossi 15. apríl 2010)

Nei, Steingrímur

Margt ferst núverandi ríkisstjórn ágætlega en mýrarljósin eru þar líka. Steingrímur J. sem annars stóð sig ágætlega í Kastljósi gærkvöldsins vék þar að nauðsyn þess að sameina og stækka ríkisstofnanir. Ég hefi þvert á móti sannfæringu fyrir því að í okkar litla landi eigum við að byggja á hagkvæmni smæðarinnar, hafa stofnanir litlar og frekar fleiri en færri. Hagkvæmnisrök stærðar eiga einfaldlega ekki við í jafn fámennu landi. Gleymum ekki Parkinsonslögmálinu!

Nú reiddust goðin

Nú gýs í Goðasteini og þarf þá ekki að efast um að goðin hafa reiðst. Þau eru vísast búin að lesa skýrsluna.

Góð skýrsla og fyndnir stjórnmálamenn

Skýrsan góða er góð, miklu betri en ég þorði að vona. Þar kemur vissulega fram að meginábyrgðin er bankanna en frumorsökin liggur í glæpsamlegri einkavæðingu. Best gæti ég trúað næst fái hausar að fjúka, bæði á Alþingi og í viðskiptalífinu. 

Og stjórnmálamenn eru fyndnir. Björgvin segir af sér öðru sinni, - án þess þó að segja af sér. Yfirklór og það frekar máttlaust.

Bjarni Ben segir í ræðustól: Mér, líkt og öllum landsmönnum...misbauð sú lýsing sem þar var borin á borð vegna framferði eigenda og stjórnenda stóru viðskiptabankanna.

Þetta eru mismæli ársins. Samkvæmt orðanna hljóðan blöskrar nafna mínum vegna þess hvað skýrsluhöfundar tala illa um þotufélaga hans. Bjarna "misbauð sú lýsing sem þar var borin á borð" en það er sjálft framferði útrásarvíkinganna sem misbýður okkur hinum!

Og auðvitað er það svo um Bjarna Ben líka. En það á samt við um hann og allmarga aðra þingmenn að þekktu þetta allt úr eigin lífi og tóku miklu meiri þátt í þessum dansi heldur en þeir hafa opinberlega gert grein fyrir...


Óeðlileg viðskipti með skýrslu

Þrátt fyrir fögur orð um siðferði og bætta viðskiptahætti fellur Alþingi á prófinu þegar kemur að viðskiptum með Skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis sem samkvæmt ákvörðun átti að kosta 6000 krónur sem er vitaskuld alltof hátt verð og við bóksalar vildum gjarnan selja á lægra verði.

Fyrirtæki sem þegar hefur óeðlilega einokunarstöðu á bókamarkaði er falin dreifing og heildsala og sama fyrirtæki notar sér þá stöðu með því að bjóða plagg þetta á lægra verði (5100) en nokkur annar getur gert enda er þetta eina fyrirtækið sem fær að kaupa skýrsluna beint af Alþingi.

Forlagið sem hér á í hlut er með sambærilega stöðu í bókamarkaði og Baugur í matvöruverslun og er arfur frá þeim heimskutíma þegar ótal litlum fyrirtækjum var rennt saman í risaeðlur. Á sínum tíma gerði Samkeppnisstofnun athugasemdir við þessa einokun en vitaskuld var farið í kringum þær athugasemdir.

Fyrirtæki þetta keppir í smásöluverslun á netinu við aðra smásala. Ég fullyrði að enginn annar söluaðili geti sér að skaðlausu selt skýrsluna á Forlagsverði enda enginn annar sem fær hana á heildsöluverði.


Skýrslan kemur í Sunnlenska bókakaffið 13:15

Sunnlenska bókakaffið fær fyrstu eintök af SKÝRSLUNNI klukkan 13:15 í dag.

Kannski af því að ég gerði mér ekki miklar vonir - þá er það sem komið er vonum framar greinagott. Bíð nú eftir að heyra eitthvað um hvað er í kafla 22 þar sem sagt er frá atriðum sem nefndin tilkynnti sérstökum saksóknara. 


Pútín og Jón Ásgeir

Lát Póllandsforseta er fyrst og fremst mjög skrýtinn atburður og enn skrýtnara að strax á eftir er tilkynnt að Pútín ætli sjálfur að rannsaka málið. Ég ætla að vona að það sé rétt að þetta hafi verið slys.

Það var aftur á móti ekkert skrýtið að Jón Ásgeir sendi Steingrími Joð bréf með hótunum, hann er eins og aðrir útrásarvíkingar löngu farinn á taugum. Hótunarbréfið til ráðherrans er eitt og sér útspil sem spillir enn fyrir stöðu þessa víkings sem minnir helst á afturgöngu. Og það frekar hvumleiða eins og sagt var í sveitinni í gamla daga um drauga þá sem engin virðing var borin fyrir. 

 


Góður Villi

Útspil Vilhjálms Bjarnasonar lektors í gærkvöldi var snilld, bara tær snilld, ekki bara þetta að vinna keppnina heldur líka hitt að koma á framfæri mikilvægum skilaboðum þar sem þjóðin stendur að baki. Það getur vel verið að við komust ekki af i daglegu lífi nema versla við glæpamenn, ýmist mat eða flugfar en við þurfum ekki að þiggja af þessum mönnum gjafir. Ég veit að Vilhjálmur gerir ekkert tilkall til að vera fulltrúi þjóðarinnar en hann var það samt í þessum gerningi. Okkur er velflestum farið eins og Megas orðaði það svo snilldarlega... ég hef ógeð, ég hef andstyggð og mér væmir við!
mbl.is Gjöfin í Útsvari tæpast óviðeigandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband