Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2012

Loksins kvennafar

systur

- Yes, this is first class.

- Sure.

- See, your ticket... This is your seat.

Pakistan er land karlmanna. Hvar sem maður kemur eru aðeins kallar; í búðum, á götuhornum og hótelum. Konur eru ekki aðeins sjaldséðar. Ef þær ber fyrir þá sést einfaldlega ekki í þær.

Það var því óvænt ónægja þegar þrjár blómarósir með slegið hér tóku á móti mér í lestinni milli Lahore og Multan. Hér er enskukunnátta mjög fátíð en þessir englar töluðu hana og snerust í kringum mig eins og ég væri prinsinn á hvíta hestinum sem þær hefðu einmitt verið að bíða eftir.

Þegar þær höfðu vísað mér til sætis og voru horfnar kom móðir þeirra, breiðleit og fríð kona á fimmtugsaldri með allar þrjár með sér og sagði blátt áfram eftir að hafa heilsað mér. maedgur

- Do, you vant a company?

Þegar ég jánkaði því skildi hún englana þrjá eftir en fór sjálf að eitthvað að sýsla. Kom svo skömmu síðar og sat hjá okkur í þægilegu og frjálslegu spjalli fyrsta hálftíma ferðarinnar. Ég var sem betur fer alltof ringlaður af þessari athygli til þess að leiða hugann að nokkru sem ekki má og eins gott því vitaskuld voru þetta börn, 14, 18 og 20 ára.(Þannig talið frá hægri m.v. myndina. Á neðri myndinni er sú í miðið ásamt móður sinni.)

Þá kom einn af þessum óborganlegu pakistönsku lestarmiðamönnum í einkennisbúningi og með fimm hringa á hvorri hendi. Hann skoðaði miðann minn og rak mig yfir í lúxusvaginn.

Þar voru bara kallar!


Prentarar í Pakistan

prentari

Ég hef birt myndir úr mjólkurbúi og af ritvélamönnum hér í Lahore. Nú er komið að prentarastéttinni. Þprnet2essi prentsmiðja þar sem starfa 5 prentarar er í tæplega 20 fermetra húsnæði í gömlu borginni í Lahore í Pakistan. Þessi stærð á fyrirtækjum er reyndar algeng, þetta er svona einn markaðsbás. Heildarlofthæðin hér er um 3 metrar og þessvegna var hægt að koma fyrir millilofti þar sem tveir starfa við pökkun og eitthvað fleira. Kallinn hérna fremst á myndinni var að prenta á einhverskonar merkimiða en fyrir innan voru tveir á skurðarvél að skera til reikningseyðublöð. Minni myndin sýnir betur stærðina á prentsmiðjunni.


Ritvélamennirnir

ritvelam_m

 

Ritvélamennirnir í Anarkalihvefinu í Lahore sitja prúðir gengt verslun í með ritföng. Þeir taka að sér að vélrita fyrir almenning hvort sem það eru bréf til stjórnvalda eða verkefni skólabarna. Annar þeirra segir mér að hann hafi unnið í ráðuneyti um skeið og sem fyrrverandi ráðuneytisstarfsmaður eigi ég strax atvinnumöguleika ...


Svona er það hjá mógúlum

mogul1Við grípum þetta stundum að þessi eða hinn sé mógull í merkingunni höfðingi og það er enginn vafi að gömlu mógúlarnir voru miklir höfðingjar. Og enn meiri þrælapískarar. Þjóðhöfðingjar með þessu heiti réðu því sem í dag kallast Afganistan, Pakistan og Indland um aldir á nýöld. Þeir komu hingað frá Uzbekistan og voru múslimar. Meðal þeirra frægustu menja er Taj Mahal rétt sunnan við Dehli í Indlandi. En hér í Lahore er líka stór mógúlakastali enda var borgin höfuðborg alls mógúlaríkisins.

Fór í dag og skoðaði kastalann í Lahore og lenti á eftir á kaffihúsi sem var heldur dýrara en Sunnlenska bókakaffið. Kaffibollinn kostaði 300 rúbíur eða 420 krónur. Algengt verð á tebolla hér er annars 15 rúbíur og verðlag á götunni er allt svona 10-20% af því sem er heima. En í lífi hástéttar Pakistana er verðlag á mörgu svipað og heima.

P1220091Á leiðinni ókum við framúr konu sem var að viðra síamskettina sína og eftir heimsókn í kastalann skoðaði ég mjólkurbú. Þetta bú er minna en Mjólkurbú Flóamanna, telur líklega 15 fermetra að gólffleti. Þar voru tveir mjólkurtankar og kannski gerilsneyðingartæki en hreinlæti ekki alveg eins og við erum vön. Hér er mjólkin alltaf soðin fyrir neyslu og mest notuð í te. Helmingur mjólk, helmingur tevatn. Ég hef gefist upp á að biðja um svart te, ef það fæst þá er það yfirleitt mjög þunnt!

 

Mynd 1: Mógúlakastali frá 17. öld. siamskettir

Mynd 2: Moska við hlið kastalans.

Mynd 3: Úti að viðra kettina.

Mynd 4 og 5: Mjólkurbú.

mjolkurbu_heramandi 

mjolkurbu2_heramandi


Bannað að tala...

Þegar maður ver tíma sínum á netinu í að skilja Pakistönsk stjórnmál þá verða þau íslensku grátbrosleg. Nú les ég um gríðarlega reiði gagnvart Ögmundi og einhverjum fleirum af þau vilja leyfa umræðu um Landsdóm á Alþingi.

Ekki að Ögmundur hafi orðað það að skjóta Geir undan, eða tekið afstöðu til málsins að öðru leyti.

Fólkið sem skaut vinum sínum og sjálfu sér undan og allt hitt fólkið sem trúir á samsæriskenningar um bláu höndina – allt þetta undarlega fólk er hrætt við eigin skugga.


Góðu guðir, geriði mig að riskjav-ökumanni

Hér í Indusdalnum hafa hinir vísustu menn fyrir satt að eftir dauðann endurfæðumst við til nýrrar ævi. Sumir sem geit, aðra getur hent að verða prins eða froskur.

  motorc_riksja rikjsa2

Sjálfur á ég mér draum um að verða ökumaður á riksjav. Það er að vísu óhentugt ökutæki á Íslandi en líkurnar á að endurfæðast þar eru frekar litlar. Þar eru hlutfallslega svo fáir og andaheimurinn er hafinn yfir landamæri...

riksja3En semsagt, riksjavdriver! Riksjavin er þríhjóla farartæki með litlum tvígengis mótorhjólamótor. Í gerðinni bara mótorhjól með tveimur afturhjólum og bekk þar ofan á hásingunni. Í aftursæti komast tveir vestrænir ferðalangar eða fjórir heimamenn. Þessi farartæki smjúga hér um allt og eru mikið hentugri í ruglingslegri stórborgarumferð heldur en bílar.

Fyrst þegar ég kom hingað í austursveitir - sem var til Dehli 1985 - þá voru þesluxusriksjasi farartæki kölluð auto-riksjav til aðgreiningar frá eldri gerð sem var reiðhjól með þremur hjólum og bekk. Slík hjól hafa nýverið komist í tísku á ferðamannastöðum í Evrópu, t.d. í hef ég setið svoleiðis farartæki í Berlín og Versölum við París.

En vélknúnu riksjurnar eru komnar um allan þriðja heiminn. Ég hef setið svoleiðis tæki í Perú, Eþjópíu, Marokkó, Kenía og Úganda að ógleymdu Indlandi og nú Pakistan. Og einu sinni fékk ég að keyra sjálfur, það var á bökkum Amazon. Fyrir okkur dellumenn um mótorhjól er það nokkuð þægileg tilhugsun að verða riksjav-ökumaður í næsta lífi.

Fullkomnust þessara tækja eru svokallaðar mótorhjólariksjur sem eru einfaldlega heimamixaðar úr skellinöðru. Þær eru líka kallaðar gingang sem mig minnir reyndar að sé eitthvað líkt því orði sem var notað um elstu gerð riksjunnar sem var einfaldlega bekkur á hjólum með kjálkum framan á sem manni var beitt fyrir.

Mótorhjólariksjan er yfirleitt ekki með nema um 70 cc vél, eins og skellinaðra á Íslandi, en fer samt létt með að draga hús með sex til átta manns, - það eru bekkir beggja vegna ofan á afturöxlinum. Ég veit ekki hver vélarstærðin er í venjulegri riksju en þær eru með tvígengisvél og einhverra hluta vegna gaskút sem heimamenn hafa ekki getað skýrt fyrir mér hvaða hlutverki þjónar.

skokallinnMyndir: Riksjur og aftur riksjur.

Neðsta mynd: Svo geta menn lent í að endurfæðast sem skóverðir við stórar moskur. Frekar táfýlulegt starf.


Hélað land í holtstöglum Himalaja

helaLandið utan við lestargluggann er hélað. Fallega mótaðar mykjukökurnar sem nota á í brenni eru gaddaðar ofan í svörðinn, klakaskán í pollum. Það er harðavetur í Pakistan. Fjallaskörðin hér ofar hulin snjó. Vinir mínir í Rawalapindi hrista höfuðið þegar ég segi að mig langi upp til Gilgit og helst enn ofar þar sem búa bláeygir og heiðnir afkomendur Alexsanders mikla. Ekki núna, kannski eftir tvær vikur.

Þessvegna er ég á leiðinni til Lahore með frosnar tær í fyrsta klassa í hraðlest sem stoppar í hverju þorpi. Nestaði mig af peningaseðlum í City Bank í Islamabad í gær. Eftirfarandi var hljóðritað á götu í Rawalapindi:

- City Bank, Blue area.

- Blue area.P1200001

- Yes, City Bank.

- City, yes, blue area.

- City bank.

- Yes, city, yes, city bank, don‘t vorry. City, blue area. Bank, yes, yes.

Ég enda á að ganga 5 kílómetra eftir endilöngu viðskiptahverfi Islamabad sem er ræma milli tveggja breiðgatna. Hverfið er algjör andstæða hinna austrænu borga, allt stórt, víðáttumikið og hvergi þrengsli af fólki. Suðurlandsbrautin er líflegri.

Á áfangastað bíður mín orðsending á dyrum hraðbankans. Hér er tekið við framlögum til styrktar forsetanum Asif Al Sardari sem þarf að svara til saka fyrir dómstólum. Svona á að gera þetta, Geir, hugsa ég í prakkaraskap. Ég tek út 40 þúsund rúbíur sem jafngildir nærri 60.000 þúsund íslenskum krónum. Minna má það ekki vera eftir 5 kílómetra labb!haena

Þá er nú þægilegra að vera í lest og láta færa sér kjúkling með tómatsósu. Vindsorfnir leirkambar minna á kúrekalandslag, eins og örmyndir af klettum í Arizona. Héðan koma þorpin, kynslóðirnar hafa tekið hér leir í húsbyggingar sínar og vindurinn séð um listaverkin sem verða eftir. Sorphirða er hér ekki tilefni spillingar, verkfalla eða útboða eins og víða í hinum vestræna heimi. Sorpi er einfaldlega ýtt út fyrir lóðamörk og myndar þar hvítar plastskellur í landinu. Plastið er leiðinlegur eldsmatur en flest annað fer undir pottana.

Fyrir níu að morgni er öll héla farin, hérna niður á 500 metra hárri sléttunni í holtstöglum Himalajafjalla. Ofar eru byggðir í þúsunda metra hæð huldar snjó.

Mynd 1: Morgunkulið út um lestarglugga.

Mynd 2: Á leið í City Bank.

Mynd 3: Morgunmatur í lest.


Ahmed og Óli Ket

P1200020Ahmed leigubílstjóri er kominn af léttasta skeiði og ber með sér að hafa lært að keyra hjá Ólafi Ketilssyni. Kannski ekki þessum sem bjó á Laugarvatni en þá andlegum bróður hans. Hann á sér þá meginreglu að aka fremur hægt og þegar sést í hvít brotin strik á malbikinu hefur hann þau sem næst undir miðjum bíl. Þessi akstursaðferð hefur ótal kosti, meðal annars þegar skipta þarf um akrein án þess að líta í spegil. Sá sem er þannig búinn að helga sér tvær akreinar getur fyrirvaralaust valið aðra.

Hraðbrautin milli Islamabad og Rawalapindi er áttbreið og umferðarþunginn er mikill. En þegar tappar myndast á þessari miklu samgönguæð þá sést vel hvað aðlögunarhæfileiki leigubílstjóranna er mikill. Í stað þess að mynda 8 einfaldar raðir er fjöldi bíla í hverri breidd misjafn, allt frá fimm upp í fjórtán. Svo er flautað.

Í vegköntum eru vopnaðir hermenn, tilbúnir ef Talibanar og Phastunar láta sjá sig - sem þeir vitaskuld ekki gera.

Ég tek Ahmed í mína þjónustu í höfuðborginni Islamabad en þaðan til Rawalapindi er ekki lengra en neðan af torgi suður í Hafnarfjörð. Karl veit ekkert hvar Antepara hótelið er niðurkomið og keyrir inn á nálæga bensínstöð. Hann fær hjá mér nafnspjald hótelsins og saman fara hann og nokkrir bensínafgreiðslu að bollaleggja um þetta. Svo koma þeir auga á símanúmer og ákveða að hringja á staðinn. Rétta mér svo símann. Ég rétti þeim hann aftur og segist ekki vilja tala við hótelið þar sem enginn talar heldur ensku heldur bara komast þangað. Þar fór það. Stundum verður vandræðagangur heimamanna gagnvart útlendingum broslegur en broslegastir eru sjálfsagt við þessi bakpokalýður sem mætum hingað mállausir og bjargarlitlir.

Ferðin er ævintýri og það er oft stoppað til að rýna ofan í nafnspjaldið. Í lok ferðar gerir hann heiðarlega tilraun til að rukka mig um fjórfalt gjald sem ekki tekst. En þeir fiska sem róa og við skiljum vinir.

Mynd: Fyrir utan gluggann minn í Rawalapindi.


Af tannlitlum manni sem drekkur af undirskál

18. janúar klukkan 23:49 að staðartíma.

Hef stundum velt því fyrir mér hvernig það hefur verið að liggja án sængurfata undir grófu brekáni líkt og áar okkur gerðu. Nú veit ég hvernig það er. Meðal pakistana eru rúmföt óþekkt fyrirbæri. Hér fylgja gróf teppi með herberginu og það er full ástæða til að vefja þeim fast að sér.

Það er kalt í Rawalapindi, 10 stiga hiti í dag og fer niður undir 0 á nóttunni. Ég lenti hérna um tvöleytið og var að berjast í hótelmálum fyrstu tvo tímana eftir að ég komst inn í landið. Leigubílstjórinn reyndist hinn mesti hrappur og fór með mig allt annað en ég bað hann um. Þegar til átti að taka voru fyrstu hótelin sem ég vildi kanna full og þegar komum aftur til frænda leigubílstjórans sem stýrir hótelgreni i milliflokki var þar ómögulegt að hýsa mig vegna þess að ég er ekki með vegabréfsáritun. Þad vill til að íslendingar þurfa ekki vegabréfsáritun til Pakistan. Það geta greinilega verið vafasöm hlunnindi.

Undir morgun var mér holað niður í frekar vondu og dýru hóteli sem heitir Islamabad þó að það sé í Rawalapindi. Fór svo á stúfana í dag og fann skemmtilegt hótel hér í Raja basarnum, ódýrt og mjög hlýtt samanborið við það sem ég var á í nótt. Enda er herbergið hvergi við útvegg en gluggar snúa inn á hótelgang!

Reynslan er sú sama hér og víða í þriðja heiminum að milliklassahótelin eru yfirleitt verri en þau ódýru. Munurinn liggur í mublum og herbergjastærð en sturturnar eru jafn óvirkar, þjónustan hraklegri o.s.frv. Hér í Ansalat hóteli eru líflegir drengir við stjórn og umhverfið mjög litríkt. Borgin er ekki enn sofnuð þó komið sé að miðnætti.

Í kvöld sat ég á móti tannlitlum manni sem drakk af undirskál eins og hann væri alinn upp í íslenskri sveit.

19. jan. – hádegi

Ég er fastur í íslenskum tíma, vakti fram á Pakistanska nótt og skrifaði og var að vakna nú á hádegi. Hér er enn svalt, smá gola og sólin nær ekki að hita loftið. Og það er rafmagnslaust í miðbænum en lífið gengur sinn gang. Matur er allur eldaður á gasi og kolum. Ég er eini ferðamaðurinn hér á staðnum og eftir því bera heimamenn mig á höndum sér.


Ferðagleði

imagesMeðan krakkarnir voru yngri var eg næstum læknaður af ferðabakteriunni en svo kom eg þeim a bragðið aður en þau komust til manns. Nu erum við þrju um að mæla upp i hvort öðru heimshornaflakk um þriðja heiminn. Samanlagt er vafamal að margar fjölskyldur leggi jafn mikið til hagkerfa hinna fatæku.

Bara a siðasta ari var Egill halft ar i Vestur Afriku, Eva tvo eða þrja i Kasmir og nu er eg lagður upp i reisu til Pakistan þar sem eg verð næstu vikurnar. Flaug hingað til Dubai i gær og svaf a hoteli ur gulli, borðaði indverskt spaðket i morgunmat og hef vafrað um ruglingslega götumenningu þessa furstadæmis sem er eitt það alþjoðlegasta i heimi.

Eiginlega svo alþjoðlegt að þegar ESB hefur endanlega lagt aftur augun er eina vitið hja Samfylkingunni að sækja um aðild Islands að Sameinaða arabiska furstaæminu. Her kostar kaffibollinn ekki nema 20 kronur islenskar og allir eru frekar brunir a litinn sem þykir fint.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband