Er Árborg á hausnum? Önnur grein
9.5.2010 | 11:14
Búhyggindi taka í engu mið af hægri eða vinstri. Hér hafa verið gerð mistök í ýmsu en í heildina er staðan góð og sparnaðarráðstafanir eru nú að skila sér.
Við getum borið okkur saman við Reykjanesbæ þar sem tap bæjarins og stofnana hans í rekstri nam 571 þúsundi á hvert mannsbarn en sambærileg tala hér í Árborg var 172 þúsund. Meðaltalið á landsvísu var árið 2008 342 þúsund króna tap á hvert mannsbarn. Sjá nánar
Fögnuð ég finn...
7.5.2010 | 10:09
Það er ljótt að gleðjast yfir óförum annarra og eiginlega finn ég til með ólánsmönnunum úr Búnaðarbankanum sem gistu á Hverfis í nótt.
En mér er samt eins og þjóðinni mestallri létt að það er þó eitthvað að gerast. Verk þessara manna hafa kostað þúsundir og aftur þúsundir skuldafangelsi og eignamissi. Vonandi er þetta bara byrjunin.
Ég fann aftur á móti ekkert til með ódáminum honum Brown sem átti það meira en skilið að falla þó ég efist svosem um að nokkuð skárra taki við hjá Tjöllum.
Guðrún frá Lundi
6.5.2010 | 13:42
Dalalíf Guðrúnar frá Lundi virkar á fyrstu tuttugu blaðsíðunum eins og frekar leiðinleg bók, eiginlega eins leiðinleg og Kristmann eða Hagalín þegar þeir eru hvað leiðinlegastir. Ég áttaði mig á því þegar ég fann ofan í bókakössum fyrsta bindið af þessu mikla verki, frumútgáfu reyndar, að ég hafði byrjað á þessari bók áður og lagt frá mér.
En nú varð ég að halda áfram því einhverntíma í vetur lofaði ég vini mínum Guðjóni R. rithöfundi að mæta á ráðstefnu í sumar um þessa merku konu.
Og viti menn smám saman nær frásagnartækni Guðrúnar valdi á lesandanum, sögupersónurnar verða meira lifandi en vanalegt er í sambærilegum bókum og allur þessi dalur Dalalífsins vaknar raunverulegur og áleitinn.
Þegar bækur Guðrúnar komu út voru þær lítils metnar af bókmenntaelítum landsins en hafa smám saman hlotið meiri virðingu og viðurkenningu. Er það vel og enn skemmtilegra að nú skuli vera framundan ráðstefna um þessa merku konu.
Hvernig fengu menn háu styrkina?
5.5.2010 | 19:22
Var að hlusta á viðtalið við Guðlaug Þór um stóru styrkina sem hann fékk og hefi heyrt varnarræður fleiri stjórnmálamanna í svipaðri stöðu. Það sem vekur mesta furðu mína er að enginn þessara svarar því hvernig menn fara að því að fá tugmilljóna styrki.
Sjálfur hefi ég farið í prófkjör og safnað fé til að standa straum að því. Hæsti styrkurinn sem ég fékk frá einum aðila voru 200 þúsund (Landsbankinn) og þannig er það algengast meðal venjulegra stjórnmálamanna.
Hákarlarnir í þessu eru ekki öfundsverðir - hvorki nú né þá því ég tel fullvíst að til að fá hálfar og heilar milljónir hafi þurft einhvað annað og meira að koma til en bara það að óskað væri eftir framlagi í kosningasjóð. Við þessir venjulegu skrifuðum bréf og fylgdum þeim eftir með símtali.
Þetta er aðalatriði í styrkjaumræðunni - hvernig fór fólk að sem fékk Baug, bankana og alla hina til að afhenda sér milljónir á milljónir ofan. Hvað lét það eða lofaði í staðin. Þegar það hefur svarað því getum við talað um að búið sé að hreinsa andrúmsloftið og kannski eru skýringarnar svo rosalega, rosalega eðlilegar að það telur sér þá sætt áfram. En meðan þessari spurningu er ósvarað verður engin sátt, enginn friður og ekkert traust.
Einelti og undarleg umræða um fuglafriðland
5.5.2010 | 16:21
Svolítil umræða hefur verið hér í bæjarfélaginu í dag um Fuglafriðlandið okkar í Flóagafli eftir að Fréttablaðið sló upp einhverju sem lítur út eins og hörku ágreiningur um það hvort Fuglavernd sé treystandi til að fara með forræði svæðisins. Ég ætla ekki að mæla stóryrðum í þeirri frétt bót en langar að fara yfir sögu þessa.
Upphaf þessa má rekja til greinar sem Eyþór Arnalds skrifaði í Sunnlenska fréttablaðið í síðustu viku þar sem hann gagnrýnir harðlega að fuglaáhugamenn eigi sér draum um uppbyggingu svæðisins. Að bæjarfulltrúar banni mönnum drauma er fráleitur málflutningur í kosningabaráttu.
Síðan segir Eyþór og talar þar væntanlega gegn betri vitund:
Nú hafa borist fréttir af því að einhverjir hafi dreift fuglahræjum um friðlandið og bendir það ekki til þess að samgangur manns og óspilltrar náttúru sé eins og best er á kosið.
Þegar bæjarfulltrúinn skrifar þetta veit hann alveg að Fuglavernd stendur hér að því að fóðra ránfugla sem eru í útrýmingarhættu svo alþekkt sem það er að fuglaverndarmenn gera það, hér sem erlendis. Sjálfur hefi ég ekki sérfræðiþekkingu á því hvaða áhrif það hefur eða hvernig því er best hagað en treysti vinnubrögðunum þegar að verki standa vandaðir fagmenn á borð við Jóhann Óla Hilmarsson, en hann er formaður Fuglaverndar. Fáein fuglshræ að vetri til eru vitaskuld ekki til mengunar eða skemmda á þessu svæði, villtum dýrum er eðlilegt að enda líf sitt sem hræ úti í guðsgrænni náttúrunni.
Félagið Fuglavernd hefur unnið mjög merkilegt starf í friðlandinu sem nýtist ekki bara félagsmönnum þess og fuglunum, heldur einnig ferðaþjónustu á svæðinu. En það er leiðinleg og allt að því ófyrirleitin pólitík sem byggir á því að leggja einn lítinn hóp áhugamanna í einelti og gera menn sem unnið hafa sveitarfélaginu mikið í sjálfboðavinnu tortryggilega - fyrir þær einar sakir líklega að þeir eru á V-lista en ekki D.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Á kvöldsiglingu hjá Kjartani
4.5.2010 | 17:16
Í kvöld þarf ég að vera á tveimur stöðum í senn og það er hægt með hjálp nútímatækni. Klukkan sex fer ég í upptökur hjá Kjartani Björnssyni í viðtalsþátt á Útvarpi Suðurland FM963, þætti sem heitir Kvöldsigling.
Sá þáttur verður spilaður klukkan 20:30 en á þeim tíma verð ég uppi í mínum ástkæru Tungum á spjalli við bændur á Kaffi Kletti.Er Árborg á hausnum - fyrsta grein
4.5.2010 | 17:08
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Allir í Hótel Selfoss klukkan sex
3.5.2010 | 17:05
Núna klukkan sex verður Steingrímur J. á opnum fundi VG í Hóteli Selfoss og við höfum tekið loforð af honum að hann flytji ekki langar ræður heldur verða hann, Kata Jak og við á VG listanum hér til þess að hlusta á fólk og svara spurningum.
Mætum öll.
Fíflaleg ósvífni að hækka laun seðlabankastjóra
3.5.2010 | 09:07
Sú hugmynd Láru V. Júlíusdóttur að hækka þurfi laun Seðlabankastjóra er ekkert annað en fíflaleg ósvífni. Það segir sína sögu um firringu í hinum íslensku fílabeinsturnum að tillaga sem þessi komi frá fyrrum framámanni í Alþýðusambandi Íslands.
Seðlabankastjóri er fullsæmdur með þeirri milljón sem hann fær og það að leggja til að laun hans hækki um 400 þúsund er úr öllum takti við samfélagið.
Það er lágmarkskrafa að tillögunni verði vísað frá og alþýðuleiðtoginn Lára V. Júlíusdóttir segi af sér sem formaður bankaráðs.
![]() |
Laun seðlabankastjóra hækki um 400 þúsund |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Höfðingi og fræðasjór til moldar borinn
1.5.2010 | 22:56
Í annríkinu fór það framhjá mér að það var í gær sem kær vinur minn Árni Magnússon frá Flögu var til moldar borinn. Árni sem var fæddur árið 1917 var mikill hafsjór að fróðleik. Þegar ég starfaði við þjóðsagnaskráningu hér í Árnessýslu fyrir áratug kynntist ég Árna vel.
Hann var þá strax sá Flóamanna sem langbest kunni skil á kennileitum, örnefnum og sögum úr Villingaholtshreppi.
Með Árna hverfur okkur mikill menningarauður þó margt af hans fróðleik hafi ratað á blað, undan hans penna og annarra.
Sigrún, börn og aðrir aðstandendur fá mínar innilegustu kveðjur um leið og ég þakka fyrir góð kynni.
(Myndin hér til hliðar er tekin í eftirminnilegri ferð okkar Árna um Villingaholtshreppinn og hann er hér staddur við leiði danska matsveinsins í gamla kirkjugarðinum í Villingaholti - en matsveinn þessi var fyrir löngu vakinn upp og hefur oft komið við sögu síðan.)