Misheppnuð hópíþrótt
28.3.2013 | 21:12
Ásta Ragnheiður hefur staðið sig vel sem forseti Alþingis, ekki síst á lokasprettinum. En það er haldlítið að segja að vandi Alþingis og virðingarleysi þingsins sé vegna þess hverjir hafi valist þar til setu. Þjóðin fær vitaskuld þá þingmenn sem hún kýs og það að telja þá ómögulega felur þá í sér að betra sé að einhver annar en þjóðin velji.
Ég held að virðingarleysi gagnvart þinginu og skrípaleikurinn þar inni væri sá sami þó að þar hefðu verið einhverjir aðrir einstaklingar. Vandinn er það fyrirkomulag þingstarfa að þar fari fram liðakeppni.
Hópíþróttir ágætar fyrir þá sem þær vilja stunda og það getur fylgt því spenna að fylgjast með þeim. En þær eru ekki sérstaklega skapandi eða vitsmunalegar. Á Alþingi virkar þetta eins. Ef einhver í gula liðinu segir eitthvað þá áttu að hjóla í það og reyna að eyðileggja hugmyndina. Alveg sama hvað þér finnst um hana. Ef að einhver sem er doppótta liðinu eins og þú sjálfur segir einhverja bölvaða vitleysu áttu helst að bakka það upp og reyna að tjasla utan á það nokkrum rúsínum svo að það virðist bara ágætt og þegar hugmyndin er orðin að einhverskonar veruleika sem bitnar á þjóð þinni áttu að kenna þeim í gula liðinu um allt saman.
Og svo er þessu sjónvarpað heim í stofu hjá hverjum manni!
Traust á Alþingi en ekki þingmönnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fullveldi og ferskleika í stjórnmálin
28.3.2013 | 11:29
Allt þetta kjörtímabil hafa okkur borist fréttir af því að útrásarvíkingar þeir og örlagabraskarar sem fóru langleiðina með Ísland á hausinn séu nú að taka við sínum fyrri fyrirtækjum. Þeir eru fjáðir og endurnærðir með undanskotssjóði og lausir við gömlu skuldirnar. Þær hefur þjóðin fengið í fangið.
Vitaskuld er slíkt ráðslag með öllu ólíðandi en þegar horft er til stjórnmálanna er staðan litlu skárri. Þar horfa landsmenn nú fram á að þeir stjórnmálaflokkar sem stóðu fyrir því að gefa vildarvinum sínum banka og önnur stórfyrirtæki fái völdin aftur á silfurfati. Þeir gjafagerningar voru ásamt EES aðild Íslands grunnur að hruni okkar 2008. Almenningur er að vonum ráðvilltur í þeim frumskógi nýrra framboða sem spretta upp og margir hallast þá að því að kjósa gömlu settin, þrátt fyrir fortíð þeirra. Enn eru þó margir óráðnir og flökt í fylgi hefur aldrei verið í líkingu við það sem við nú sjáum.
Sá sem hér stingur niður penna sat á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn um skamma hríð og sagði af sér eftir nokkrar ófarir sem alkunnar eru. Í því efnu er ég stoltur af því einu að hafa axlað ábyrgð á eigin gjörðum. Við þá ákvörðun var mér mjög til stuðnings að hafa þá áttað mig á að sá flokkur sem ég hafði trúað fyrir atkvæði mínu í tvo áratugi hafði misfarið svo með vald sitt við einkavæðingu íslenska bankakerfisins að fáheyrt verður að teljast. Fram til þess hafði ég líkt og margir trúað að þrátt fyrir allt hefðu bankarnir verið seldir en ekki gefnir vildarvinum flokkanna sem sátu í ríkisstjórn. Enn hefur ekkert uppgjör farið fram innan flokkanna vegna þeirra mála og engin trygging er fyrir því að ekki verði á ný efnt til sambærilegra gerninga gegn íslenskum þjóðarhag.
Síðan þetta var hafa aðrir flokkar spreytt sig á sama og ekki síst VG sem hefur sýnt eindæma árvekni við að brjóta á kosningaloforðum og stefnuskrá sinni. Þar líkt og í bankaeinkavæðingunni hefur komið skýrt fram ágalli íslenska flokkakerfisins. Forystumenn VG hafa slag í slag farið með mál andstæð eigin loforðum fyrir litlar og lokaðar flokkssamkomur þar sem frávikin eru blessuð með handauppréttingum.
Með framboði Regnbogans nú gefst kjósendum val á framboði sem hefur einarða og skýra stefnu í ESB málum en er einnig stefnt gegn flokkakerfinu sem slíku. Umfjöllun um stjórnmálamenningu landsmanna bíður næsta pistils.
(Birt í Sunnlenska fréttablaðinu 26. mars 2013)
Stjórnmálaflokkar, fullveldi og loforð
27.3.2013 | 17:46
Varaformaður Sjálfstæðisflokksins steig fyrir skemmstu fram í silfurslegnum ESB þætti og gaf undir fótinn með að svíkja stefnu sem samþykkt var á landsfundi flokksins í ESB málum. Tilefnið er fremur málefnaleg og góð samþykkt Sjálfstæðismanna um að loka beri áróðursskrifstofu þeirri sem ESB rekur á Íslandi. Nei, á varaformanninum er að heyra að þarna hafi grasmaðkanir farið yfir strikið. Gildir þá einu þó að starfsemi Evrópustofu ESB gangi þvert á alþjóðasamninga um að erlendir sendimenn megi ekki reka pólitískan áróður. Um nýafstaðna helgi bætti formaður flokksins um betur og er greinilega hættur við að slíta viðræðunum.
Þetta er sagan endalausa af samspili loforða og stjórnmálaflokka.
Ósiðlegir IPA styrkir
Þegar ríkisstjórnin keyrði í gegnum þingið árið samþykkt um að ESB mætti ausa hér fé á báða bága með IPA styrkjum var stjórnarandstöðunni í lófa lagið að stöðva málið enda þingmeirihlutinn veikur. En ekkert slíkt átti sér stað og sem fyrr sannaðist að peningar smjúga betur en vatn.
Síðan hafa sveitarstjórnarmenn, forstöðumenn stofnana og hundruðir annarra Íslendinga staðið frammi fyrir gylliboðum um styrki til hvers sem vera skal í óafturkræfum styrkjum. Þeir sem vinna að nýmælum og atvinnuuppbyggingu áttu áður vonir um nokkur hundruð þúsundir króna úr mögrum héraðssjóðum en sjá nú von í milljónastyrki og skilyrðin eru oftar en ekki léttvæg. Með IPA styrkjunum annarsvegar og rekstri hinnar evrópsku áróðursskrifstofu var loku fyrir það skotið að nokkuð gæti lengur verið lýðræðislegt við aðlögunarferli Íslands að ESB.
En er ekki gott að hingað komi óafturkræfir ESB styrkir, kann einhver að spyrja. Er ekki sama hvaðan gott kemur? Fyrir nokkrum misserum var umræða um fjárfestingastefnur lífeyrissjóða og opinberra aðila og þar var meðal annars vitnað til frænda okkar Norðmanna sem hafa lagt siðferðilega mælikvarða á fjárfestingar. Í þessum efnum megum við margt læra og vitaskuld gildir sama um styrki. Við hljótum að leggja siðferðilega mælikvarða á þá eins og annað sem við gerum.
Í Suður Evrópu gengur meirihluti ungs fólks atvinnulaus og vonlítill um sína framtíð, skortur á brýnustu nauðþurftum hrjáir milljónir og framleiðsluatvinnuvegirnir hafa verið lagðir af til að rýma fyrir markaðsvörum frá herraþjóðum ESB. Fá þessar þjóðir sambærilega styrki og þá sem er verið að bjóða okkur?
Nei, það fást ekki IPA styrkir til þessara landa því þeir eru aðeins veittir þjóðum sem eru ókomnar inn í ESB. Rétt eins og nammið utan á sætabrauðshúsi Hans og Grétu. En þessar þjóðir greiða í IPA sjóðina sem okkur veitt úr.
Það er vitaskuld fyrir neðan allar hellur af Íslendingum að þiggja þessa óafturkræfu styrki frá bláfátækum kreppuþjóðum. Og meðan þeim er veitt inn í landið er verið að bera fé á dóminn og enginn sem ann lýðræði getur samþykkt kosningar um mál sem brenglað er með ómældum fjáraustri frá erlendu heimsveldi.
Fylgishrun Sjálfstæðisflokks
Undirritaður hóf þessa grein með því að víkja að óheillaskrefum Bjarna og Hönnu Birnu sem keppast nú við að snúa út úr nýlegum samþykktum eigin landsfundar. Slíkar trakteringar hafa Sjálfstæðismenn áður séð, síðast í Icesaveafstöðu formanns síns.
Hinir ESB sinnuðu fjölmiðlar landsins hafa hamrað á því að undanförnu að Sjálfstæðisflokkur uppskeri nú fylgishrun fyrir harðar samþykktir í ESB málum. Slíkt eru miklar staðleysur enda ljóst af skoðanakönnunum sem framkvæmdar eru af Gallup og öðrum marktækum aðilum að mikill meirihluti vill stöðva aðlögunarferlið að ESB og stendur vörð um fullveldið. Að því leyti náði Landsfundur Sjálfstæðisflokksins að endurspegla afstöðu meirihluta þjóðarinnar.
Fylgishrun Sjálfstæðisflokks er í fyrsta lagi vegna þeirrar umræðu sem hefur verið um stöðu formanns flokksins en í öðru lagi vegna þeirrar óvissu sem margir eru í um afstöðu bæði formannsins og þingflokksformanns til ESB mála. Og nú í þriðja lagi kemur svo óheppileg eftirgjöf varaformanns sama flokks í samtali við umræðustjóra ríkisins, Egil Helgason. Kjósendur verða að hugsa sig tvisvar um áður en þeir setja atkvæði ESB andstöðu yfir á Sjálfstæðisflokkinn.
(Birt í Morgunblaðinu í dag, 27. mars 2013)
Yrsa er langbest
27.3.2013 | 13:54
Ég er latur við að lesa reifara - eða á ég að orða þetta öðruvísi. Ég les ekki reifara nema í einhverju sérstöku leti eða flensukasti. Nú var meira en ár síðan ég hafði lesið slíka bókmennt en tók smá törn og er nú að klára þann sjötta í beit. Það er gott að detta í þetta öðru hvoru og alveg sérstaklega þegar heilastöðvarnar þurfa einhverja sérstaka tegund af afslöppun.
Í þessum bunka sem nú liggur hér við náttborðið eru auðvitað Arnaldur og Yrsa og eins og svo oft áður er niðurstaðan sú að Yrsa er langbest. Þegar bókmenntaelítan er að hnýta í þessa drottningu glæpasagnanna þá er það bara af því að fólk skilur ekki út á hvað spennusaga á að ganga. Það tekst engum að halda ógnvekjandi spennu eins lengi og svakalega eins og þessi höfundur. Bókin sem ég er að klára núna er Brakið sem mig minnir til að hafi hlotið misjafna dóma en er rafmagnaður andskoti.
Úrelt og spillt fyrirkomulag þingstarfa
27.3.2013 | 01:01
Almenna reglan í þingstörfum er að ekkert kemst til atkvæðagreiðslu nema flokkarnir samþykki það. Þetta fyrirkomulag er gersamlega úrelt og á ekkert skylt við lýðræði.
Þjóðin átti auðvitað heimtingu á að vita hvernig Alþingi skiptist gagnvart mislukkuðum stjórnarskrártillögum. En í stað þess endar þetta einkennilega mál með fjölda annarra sem uppsóp undir teppinu inni á fundum þingflokksformanna.
Eðlilegast er að tiltekinn hluti þingsins - t.d. þriðjungur - geti knúið fram atkvæðagreiðslu um umdeild mál eftir tiltekinn ákveðinn umræðutíma. Fyrir vikið vissu kjósendur betur hvernig þeir stæðu gagnvart sínum fulltrúum en í dag tekst þingmönnum að fela afstöðu sína í viðkvæðum málum og almenna reglan er einhverskonar ofbeldi. Annarsvegar ofbeldi meirihlutans sem neitar að taka mál á dagskrá. Hinsvegar ofbeldi málþófsins sem kemur í veg fyrir eðlileg vinnubrögð.
Jafnvel við Flóamenn sjáum að þetta gengur ekki svona.
Birgitta mátti ekki segja frá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Óþolandi Afríkufordómar
26.3.2013 | 15:16
...en mér skilst að tannheilsa íslenskra barna sé verri en tannheilsa barna í Mósambík, segir formaður Tannlæknafélags Íslands.
Þetta er ekki i fyrsta skipti sem við sjáum ummæli af þessu tagi. Hér er eitthvað svooooo vont að það er jafnvel verra en í Afríku.
Tilfellið er að þrátt fyrir eilífar fréttir af hörmungum í Afríku þá er margt þar mjög gott. Það eru engin náttúrulögmál að þar eigi ekki og megi ekki vera heilbrigðisþjónusta. Sjálfur hef ég tvisvar komist í tæri við Afríska spítala, var einu sinni svæfður á svoleiðis í afskektum fjallasal í Úganda og hef einu sinni lagt ungling inn á spítala í Mombasa. Svo fylgdist ég grannt með því þegar dóttir mín leitaði sér lækninga á hátæknisjúkrahúsi í Nairobí. Það er einn besti spítali í heimi þegar kemur að hitabeltissjúkdómum. Reynslan af öllu þessum heimsóknum var frekar góð og það er langt því frá að fátækar þjóðir geti ekki staðið vel að hlutum.
Ég hef aldrei komið til Mósambík og kannski misst af einhverri frétt um tannheilsu þar en við eigum einfaldlega ekkert með að tala með svona virðingarleysi um fjarlægar þjóðir þó þar sé ekki alveg sami flottræfilsháttur á og hér heima.
Og bara í lokin - vissulega þurfum við að taka okkur á þegar kemur að tannheilsu barna og koma tannlækningum undir sama hatt samhjálpar og aðrar lækningar.
Tannheilsan er verri en í Mósambík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bankaáhlaupi afstýrt en almenningur blæðir
25.3.2013 | 13:25
Það er fagnaðarefni að ESB hefur líklegast tekist að afstýra bankaáhlaupi í Kýpur. Slík staða er eins og sinueldur og hefði breiðst út um nálæg lönd, þrátt fyrir votan sjó millum landa.
En björgunaraðgerðirnar þarna eru ekki gerðar án þess að það bitni á almenningi. Allt tal manna hér við upphaf bankakreppunnar á Íslandi um að okkur vantaði skjól verða hjákátlegar í ljósi frétta. Í evrulöndunum er ekkert skjól og engin miskunn fyrir lítilmagnann.
Kýpur missir heilan áratug | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
Lykilatriði að örva fjárfestingu
24.3.2013 | 12:50
Þetta viðtal á Moggavefnum er athyglisvert og hér kemur vitaskuld fram að gjaldeyrishöftin hamla fjárfestingu. Það er engin ástæða til að efast um það en þau eru engu að síður óhjákvæmileg eins og er. Það er engin hókus pókus lausn til svo við getum losnað við þau strax og allar tilraunir í þá átt geta orðið heimilunum og hagkerfinu í heild hættulegar.
En hitt er að líta að almennt eru fjárfestingar milli landa litlar og vandamálið er ekki bundið við litla Ísland. Miðað við íbúafjölda er hún meiri hér en í Danmörku og Frakklandi en nær vitaskuld ekki austurevrópuríkinu Ungverjalandi (sjá nánar hér hjá AGS en tölur miðast við árslok 2011).
En við vitum að það er mikið af fjármagni í kerfinu hér heima sem vantar farveg enda ávöxtun í bönkum léleg. Skattaafslættir fyrir innlenda fjárfesta eru lykilatriði til að koma fjarfestingum af stað og svo þarf að standa við loforð sem gefin voru um tímabundnar skattahækkanir í byrjun kreppunnar.
Draumórar um ríku útlendingana | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Góður Böðvar og skrýtnir dómar
22.3.2013 | 20:27
Það er svoldið tvíbent af mér að tala illa um bókadóma. Fékk nefnilega mjög góða dóma fyrir þessi jól, 4-5 stjörnur fyrir Mensalder sem er ansi gott.
Ein sú bóka sem ekki hlaut góða dóma var aftur á móti Töfrahöllin eftir Böðvar Guðmundsson. Samt er þetta með betri bókum þessara jóla. Vitaskuld mjög epísk og blátt áfram framsetning en um leið ágætis samtímalýsing. Þarna koma saman allir hinir venjulegu þátttakendur lífsins í kringum okkur, lúserinn, gæran, oflátungurinn, svarti sauðurinn, krakkaskíturinn, hóran, dílerinn og bara allir.
Þetta er hressileg bók eftir Böðvar og ég sé mest eftir að hafa ekki lesið hana fyrr. Ef ég hefði lesið hana strax í haust hefði ég getað selt slatta af henni fyrir jólin en svona er líf bóksalans...
Gegn fátækt á Íslandi
21.3.2013 | 12:13
Nú á lönguföstu hefur farið fram mjög virk og mikil umræða um stöðu heimilanna í landinu og er það vel. Sitjandi ríkisstjórn hefur þrátt fyrir mörg góð verk brugðist í því verki að endurreisa fjárhag og eignastöðu heimilanna. Endurreisnarverkefni næsta kjörtímabils eru fjölmörg.
Heil kynslóð íbúðarkaupenda var við hrunið skilin eftir með neikvæða eiginfjárstöðu eftir að hafa keypt á þenslutíma og lent síðan í stökkbreytingu lána. Lítill hópur þessara fékk leiðréttingu fyrir atbeina Hæstaréttar en stór hluti situr eftir með óbærilega skuldastöðu. Eðlilegast er að stjórnvöld bæti úr með því að gefa embætti umboðsmanns skuldara raunverulegar laga- og fjárheimildir til að létta af ákveðnum skuldum eða niðurgreiða þær með almannafé. Flöt afturvirk endurgreiðsla getur vitaskuld aldrei náð til allra óháð tekjum og íbúðastærð enda er slíkt ekki endilega réttlátt.
Í framhaldi af aðgerðum í þágu þessa hóps þarf að losa um bönd verðtryggingar, tryggja stöðugleika og létta á landlægu vaxtaokri. Það var miður að ekki var notað tækifærið við gjaldþrot banka og bankakerfið dregið saman í eðlilega stærð miðað við fólksfjölda en hátt verðlag á vöru og þjónustu liggur öðru fremur í offjárfestingu í þjónustu- og verslunargreinum.
Stétt fátækra
En íslenskt samfélag á sér annan misgengishóp hrunsins sem er algert forgangsverkefni að mæta með skilvirkum aðgerðum. Staðreyndin er að það kostar okkur miklu mun minna en að mæta misgengishóp verðtryggingar en samt er umræðan um þennan hóp sáralítil. Kannski af því að hann þykir ekki nógu töff.
Þetta eru hinir lægst launuðu í landinu. Fyrir hrun voru heimili láglaunafólks og bótaþega á mörkum þess að geta framfleytt sér. Við kaupmáttarhrunið 2008 lenti þessi sami hópur langt undir framfærslumörkum með tekjur sínar og hefur síðan átt um sárt að binda. Sitjandi ríkisstjórn hefur vissulega komið lítillega hér til móts en miklu betur má ef duga skal
Skilvirkasta leiðin er vitaskuld hækkun skattleysismarka og í framhaldinu þurfum við að lækka og helst afnema matarskatt.
Skömm Íslands
Þegar horft er til þess hverjir töpuðu mestu í hruninu verða ef til vill á vegi okkar gamlir og ærulausir útrásarvíkingar. En þeir hinir sömu áttu í leyni poka með skotsilfri. Sá hópur sem lifir við nauð eftir hrunið eru þeir sem lægstu tekjurnar hafa. Lægstu launin gátu dugað fyrir húsaleigu og mat á velmegunartímanum meðan krónan var sterk en eru langt frá því marki nú.
Skömm okkar er mikil að á sama tíma og við heyrum af stórfelldum kjarabótum hálaunaaðals og sérgæðinga sitja hinir lægstu enn eftir og við tökum því sem gefnu að hér sé stór hópur réttlítilla bónbjargarmanna.
(Birt í Morgunblaðinu 21. mars 2013)