Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Af tannlitlum manni sem drekkur af undirskál

18. janúar klukkan 23:49 að staðartíma.

Hef stundum velt því fyrir mér hvernig það hefur verið að liggja án sængurfata undir grófu brekáni líkt og áar okkur gerðu. Nú veit ég hvernig það er. Meðal pakistana eru rúmföt óþekkt fyrirbæri. Hér fylgja gróf teppi með herberginu og það er full ástæða til að vefja þeim fast að sér.

Það er kalt í Rawalapindi, 10 stiga hiti í dag og fer niður undir 0 á nóttunni. Ég lenti hérna um tvöleytið og var að berjast í hótelmálum fyrstu tvo tímana eftir að ég komst inn í landið. Leigubílstjórinn reyndist hinn mesti hrappur og fór með mig allt annað en ég bað hann um. Þegar til átti að taka voru fyrstu hótelin sem ég vildi kanna full og þegar komum aftur til frænda leigubílstjórans sem stýrir hótelgreni i milliflokki var þar ómögulegt að hýsa mig vegna þess að ég er ekki með vegabréfsáritun. Þad vill til að íslendingar þurfa ekki vegabréfsáritun til Pakistan. Það geta greinilega verið vafasöm hlunnindi.

Undir morgun var mér holað niður í frekar vondu og dýru hóteli sem heitir Islamabad þó að það sé í Rawalapindi. Fór svo á stúfana í dag og fann skemmtilegt hótel hér í Raja basarnum, ódýrt og mjög hlýtt samanborið við það sem ég var á í nótt. Enda er herbergið hvergi við útvegg en gluggar snúa inn á hótelgang!

Reynslan er sú sama hér og víða í þriðja heiminum að milliklassahótelin eru yfirleitt verri en þau ódýru. Munurinn liggur í mublum og herbergjastærð en sturturnar eru jafn óvirkar, þjónustan hraklegri o.s.frv. Hér í Ansalat hóteli eru líflegir drengir við stjórn og umhverfið mjög litríkt. Borgin er ekki enn sofnuð þó komið sé að miðnætti.

Í kvöld sat ég á móti tannlitlum manni sem drakk af undirskál eins og hann væri alinn upp í íslenskri sveit.

19. jan. – hádegi

Ég er fastur í íslenskum tíma, vakti fram á Pakistanska nótt og skrifaði og var að vakna nú á hádegi. Hér er enn svalt, smá gola og sólin nær ekki að hita loftið. Og það er rafmagnslaust í miðbænum en lífið gengur sinn gang. Matur er allur eldaður á gasi og kolum. Ég er eini ferðamaðurinn hér á staðnum og eftir því bera heimamenn mig á höndum sér.


Ferðagleði

imagesMeðan krakkarnir voru yngri var eg næstum læknaður af ferðabakteriunni en svo kom eg þeim a bragðið aður en þau komust til manns. Nu erum við þrju um að mæla upp i hvort öðru heimshornaflakk um þriðja heiminn. Samanlagt er vafamal að margar fjölskyldur leggi jafn mikið til hagkerfa hinna fatæku.

Bara a siðasta ari var Egill halft ar i Vestur Afriku, Eva tvo eða þrja i Kasmir og nu er eg lagður upp i reisu til Pakistan þar sem eg verð næstu vikurnar. Flaug hingað til Dubai i gær og svaf a hoteli ur gulli, borðaði indverskt spaðket i morgunmat og hef vafrað um ruglingslega götumenningu þessa furstadæmis sem er eitt það alþjoðlegasta i heimi.

Eiginlega svo alþjoðlegt að þegar ESB hefur endanlega lagt aftur augun er eina vitið hja Samfylkingunni að sækja um aðild Islands að Sameinaða arabiska furstaæminu. Her kostar kaffibollinn ekki nema 20 kronur islenskar og allir eru frekar brunir a litinn sem þykir fint.


Kvöldkaffi með dýralækninum

gunnlaugurskulason.jpgUppsveitakonur bjóða í kvöld klukkan 8 til samkomu á Hótel Geysi til heiðurs tengdaföður mínum Gunnlaugi Skúlasyni dýralækni sem hefur nú látið af störfum sem dýralæknir.

Það þarf ekki að taka fram að samkoma þessi verður skemmtileg.

(Á myndinni er dýralæknirinn ásamt hinni kvartaldargömlu Snæfríði.)


Skortur á dómgreind

Við ráðum fólk í háar stöður vegna mannkosta. Í embætti Seðlabankastjóra eigum við að hafa mann sem hefur góða dómgreind og skilning á þjóðfélagsmálum. Már Guðmundsson hefur gagnrýnt launahækkanir almennra launþega og telur sig geta styrkt krónuna með erlendu lánsfé,- svona milli þess sem hann og aðrir starfsmenn bankans tala sömu krónu niður. Málaferli bankastjórans nú ættu að vera kærkomið tækifæri fyrir stjórnvöld til að gera starfslokasamning við bankastjórans sem getur þá snúið aftur til ofurlauna sinna erlendis.

 


Mörður er mannkostamaður

Mörður Árnason alþingismaður á hrós skilið fyrir að segja satt um ESB ferlið.

Það hafa mjög fáir ESB-sinnar gert fram að þessu. Í stuttu viðtali við Moggavefinn segir Mörður sem satt er að við inngöngu í ESB gildi alfarið lög ESB og ekki sé til neins að ræða um undanþágur frá því.

Fyrir alla þá sem vilja "kíkja í pakkann" er þessvegna fljótlegast að skreppa til Evrópu. Eða þá að lesa Lissabonsáttmálann. Að því loknu geta þeir gengið til liðs við okkur hin um að leggja umsóknina til hliðar. 


Blair kominn upp á Vaðlaheiði

Þó svo að markaðstrúarmönnum hafi mistekist að koma á veggjaldi við vitlausa fjórbreiða veginn á Sandskeiði eru þeir hinir sömu ekki af baki dottnir. Umræðan um veggjald í fyrirhuguð Vaðlaheiðargöng er spottin af sama Blair-ismanum sem tröllríður öllum hinum vestræna heimi og er hættulegastur af öllum hægri villum samtímans.

Sama gróðasjónarmiðið réði yfirstandandi falli hins vestræna heims og innan um rústirnar standa menn sem ekkert hafa lært. Ennþá sitja um allar koppagrundir litlir kallar og reikna út gróðann af því að aka frekar þennan veg en hinn og alla þá þjóðhagslegu hagkvæmni sem fylgir sama gróða.  

Fyrir Íslendinga og aðra sem eiga strjálbýl lönd eru svona markaðskenningar um vegi sérlega vitlausar. Auðvitað á að taka umræðuna um bæði Vaðlaheiðagöng og aðra vegi út frá pólitískri sýn en ekki reikningslegum barnaskap.


Jón og séra Jón í ruslinu

Sveitarfélagið Árborg hefur verið kært til Kærunefndar útboðsmála. Þetta kom fram á bæjarstjórnarfundi sem ég var að koma af. Kærandi er Gámaþjónustan sem átti nú í haust lægsta tilboð í sorpútboði hér í bæ en meirihlutinn ákvað að taka ekki tilboðinu heldur semja við annan bjóðenda um að hann taki að sér verkið. Sá heitir Íslenska gámafélagið.

Ástæða fyrir þessari einkennilegu ákvörðun bæjarins var að Íslenska gámafélagið taldi útboðið ólöglegt þó langt væri þar seilst til röksemda. Í desember gilti að úr því að Íslenska gámafélagið ætlaði að kæra þá væri sjálfsagt að hætta við allt saman.

Í dag gildir aftur á móti að þó svo að Gámaþjónustan leggi fram kæru þá er bara sjálfsagt hjá bænum að taka því. Skrýtið eða hvað. Íslenska gámafélagið á reyndar einn eða jafnvel fleiri fulltrúa í bæjarstjórninni en það á Gámafélagið ekki.


Ekki sjúkdómar ...

Það er ótrúlegt að á okkar öld skuli þurfi dómstóla til að fyrirtæki á Íslandi fallist á að alkóhólismi og þunglyndi séu sjúkdómar.
mbl.is Fær veikindalaun vegna þunglyndis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kostnaður við ESB umsóknina og barnaskapur RÚV

Ríkisútvarpið birti í vikunni útreikninga sína á heildarkostnaði íslenska ríkisins vegna aðildarviðræðna við ESB. Niðurstaða RÚV er að 100 milljónir hafi fallið til verkefnisins fyrstu 9 mánuði ársins 2011. Þar af hefur ferlið kostað forsætisráðuneytið 18 þúsund krónur íslenskar á nefndu tímabili eða sem svarar 2000 krónum á mánuði. Svo sannarlega fréttaumfjöllun í Norðu-Kóreskum stíl.

Sjá nánar


Hin íslenska bókaþjóð og rammvilltur kapítalismi

Íslendingar eru bókaþjóð. Að minnsta kosti á tyllidögum. En fáar þjóðir stunda jafn villimannsleg viðskipti með bækur og Íslendingar. Hér eru bækur á himinháu verði við útgáfu rétt fyrir jól og eftir áramót er verði sömu bóka steypt niður um tugi prósenta. Samkeppnin í þessum geira minnir helst á kartöfuævintýri þau sem hér urðu fyrir 20 árum og lyktaði með gjaldþrotum óteljandi bænda og afurðafyrirtækja.

Neytendur fengu að borga þau gjaldþrot og þeir fá líka að borga gjaldþrot í bókageiranum. Bókaverslanir og bókaútgáfur í landinu eru eins og fiðrildi og það segir sína sögu að nær öll þessara fyrirtækja eru með kennitölur frá þessari öld,- voða fínt að vera með nýja kennitölu og hafa sett svo og svo margar milljónir í fang almennings!

Staðreyndin er að óheft og villimannsleg samkeppni eins og sú sem hér tíðkast gagnast ekki neytendum heldur bitnar á þeim. Nýleg frétt RÚV um Office 1 í vikunni sýnir þetta vel og hundruða milljóna meðgjöf með Pennanum er af sama meiði. 

Menningarþjóðir hvort sem er í hinu sæla Evrópusambandi eða vestanhafs umgangast bókaviðskipti með allt öðrum hætti. Bækur eru þar á föstu verði og ef við tækjum okkur raunverulegar bókaþjóðir til fyrirmyndar gætu bækur verið til muna ódýrari í verslunum fyrir jól og kaupendur þyrftu ekki að fá á tilfinninguna að þeir hafi verið snuðaðir eins og nú er þegar þeir sjá nýja bók á hálfvirði mánuði eftir jól! 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband