Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Fyrsti jólabókakvöldið, Steinunn, Óttar og Haukur
10.11.2011 | 10:35
Sunnlenska bókakaffið heldur upp á jólin með heimsóknum rithöfunda nú þegar jólabókaflóðið hellist yfir.
Við byrjum í kvöld, fimmtudagskvöldið 10. nóv. með þremur frábærum höfundum. Húsið verður opnað klukkan átta með kakó og vöfflum en lestur hefst um hálfníu.
Steinunn Sigurðardóttir sem les úr nýrri skáldsögu sinni Jójó. Óttar Norðfjörð les úr spennusögu sinni Lygarinn og Haukur Ingvarsson sem les úr sinni fyrstu skáldsögu, Nóvember 1976.
Ókeypis aðgangur og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5 ára afmæli
13.10.2011 | 21:01
Sunnlenska bókakaffið fagnar fimm ára afmæli sínu á laugardaginn kemur með útgáfu tveggja nýrra bóka og sérstakri sýningu á fornbókum úr Hrappsey, Leirá, Hólum o.v. Dagskráin hefst klukkan tvö með kaffi og kleinum fyrir gesti og gangandi, allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Höfundarnir sem kynna nýjar bækur eru Gunnar Marel Hinriksson en bókaútgáfa okkar gefur út ljósmyndabók hans Selfoss sem er afar sérstætt átthagarit. Þá gefur bókaútgáfan Sæmundur út ljóðabók Sigríðar Jónsdóttur skáldbónda, Kanil sem fjallar um kynlíf frá sjónarhóli höfundarins.
(Myndin er tekin eftir jarðskjálftann 2008 en á laugardaginn verða flestar bækurnar í hillunum...)
1000 ævisögur í stafrófsröð ...
21.8.2011 | 16:44
Það gilti nú um helgina gagnvart því verkefni að raða ævisöguvegg netbókabúðarinnar í stafrófsröð.
Í dag birti Morgunblaðið viðtal sem Pétur Blöndal stórsnillingur þar á bæ tók við mig, afar líflega skrifað og gott. Ef hann hefði bara sleppt því að drótta að mér að ég myndi aldrei koma því verk að flokka ævisögurnar mínar þúsund í stafrófsröð þá hefði ég getað legið í rúminu fram að hádegi og sófanum eftir hádegi.
En í staðin, Pétur, hefi ég nú bisað við þetta daglangt, utan smá slæpingshátt úti í Hveragerði um miðjan daginn. Og bíddu bara, næst þegar þú kemur um Selfoss þá verður ævisöguveggurinn betur flokkaður en fælar Pentagon ...
Hversvegna ekki bara að kjósa?
20.8.2011 | 18:32
Á fésbókinni fer nú fram athyglisverð keppni ESB-aðildarsinna og andstæðinga aðildar þar sem spurt er hvort draga eigi aðildarumsóknina til baka. Þegar þetta er skrifað eru andstæðingar aðildar yfir með um 3200 atkvæði á móti liðlega 2800 en fyrsta sprettinn voru aðildarsinnar yfir.
Kjósendur geta jafnframt lagt inn sínar athugasemdir og einn þeirra sem er á móti því að draga umsóknina til baka skrifar þar:
Styðjum íslensku samningarnefndina til að ná eins góðum samningi og hún getur til þess hefur hún umboð Alþingis Hef trú á að nú sé lag á góðum kjörum. Síðan tekur þjóðin afstöðu í kosningum þegar við vitum um hvað er í húfi.
Þetta hljómar vel og hversvegna vill fólk ekki leyfa samninganefndinni að klára?
Staðreyndin er að milliríkjasamningar eru ekki leikfang. Það sem við samþykkjum í samningaviðræðum við ESB mun hafa áhrif á stöðu okkar í heimsmálum í víðara samhengi. Við getum til dæmis ekki fallist á yfirráð erlendra þjóða yfir landhelginni án þess að það hafi svo áhrif á stöðu okkar gagnvart öðrum viðsemjendum. Það er ekki fallegur svipur á því að neita að ljá máls á einhverju við vini okkar Norðmenn sem við jánkum gagnvart Brussel. Sama má segja um
Ofmat krónunnar var mannanna verk - en hvaða manna?
15.8.2011 | 22:02
Ofmat krónunnar var mannanna verk. Það varð ekki vegna þess að markaðurinn kynni ekki að lesa rétt eða af einhverjum yfirskilvitlegum aðstæðum.
Það varð vegna þeirrar stefnu sem þáverandi (og þó einkanlega núverandi) ráðamenn Seðlabankans mörkuðu að halda verðbólgu niðri með ofurvöxtum.
Þetta með verðbólguna mistókst en hér tókst að búa til ofurvaxtagjaldmiðil sem varð mjög vinsæll í braski um allan heim. Fyrir vikið sköpuðust hér kjörskilyrði til skuldasöfnunar, fjárglæfra og óráðsíu.
Þannig var Seðlabankinn óbeint aðal gerandi í kreppunni og þeir sem vilja kenna Davíð Oddssyni um geta svosem gert það. Staðreyndin er samt að þessi vonda stefna var þar eldri en hans vera í bankanum og upphaflega skrifuð af þeim sem núna leiða sama banka...
Ofmetnasti gjaldmiðillinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Einstaklega göfugt nes
4.8.2011 | 22:19
Sem barni þótti mér Langanes alltaf frekar asnaleg tota út úr landinu, alltof montið á kortinu miðað við hvað það er mjótt. En nú hefir mér í fyrsta sinn hlotnast að eyða nokkrum dögum á nesi þessu og tek aftur alla fordóma mína. Fá nes eru jafn göfg og Langanesið í látlausri fegurð sinni, djúpviturri kyrrð og andagt.
Við Elín fórum á honum Yngra Rauð eins og langt og hjólin báru okkur áfallalaust en gengum frá bænum Höfn þvert yfir heiðar og mýrlendi, endalaus grjót og mosa, bungur og kvompur sem lyktuðu af íslenskri mýri, lambaspörðum og austrænni naumhyggju. Beygðum stundum og gengum svo beint eða aðeins austar en það. Í fjarska sá ég Brandkrossa á sundi til Noregs og skálaði við hann í neskaffi.
Eftir 10 kílómetra tramp þar sem reyndi á ökkla í vegleysum komum við að heimreiðinni að Skálum sem er stórt sjópláss við ysta haf, engan veg og enga höfn. Fyrst sáum við tvilembu, þá herstöð, síðan bæ Jóhanns bónda og nokkuð frá flæðarmáli var bryggja sem aldrei náði sambandi við sjó. Þar voru og grunnar að kotum og höllum þannig að staðurinn minnti helst á Sviðinsvík. Austan við bryggjuna var svolítið stjórnargrjót og manndrápslending.
Eftir að hafa hvílt þar örmagna bein og étið nesti gengum við til baka og vorum undir kvöld komin að bílnum en líka að fótum fram - gömlu hróin.
Að reykja fyrir heilli lóð
31.7.2011 | 12:45
Lankes er nískur maður. .. Níska hans er kerfisbundin: Þegar einhver gefur honum sígarettu dregur hann tíu pfennínga pening upp úr vinstri buxnavasanum, vegur hann í lófa sér eitt andartak og lætur myntina síðan renna ofan í hægri buxnavasann ..
(GunterGrass, Blikktromman frá 1959, kom út á íslensku 1998-2000 í þýðingu Bjarna Jónssonar)
Fimleiki þýska nóbelverðlaunahafans Gunters Grass í hugmyndasmíð og lýsingu hughrifa, tilfinninga og hugsana er með miklum eindæmum.
Bókin Blikktromman er afar óvenjuleg og full af frásögnum af venjulegu fólki sem gerir óvenjulega hluti.
Í næstu málsgrein hefur Lankes málari flutt svo marga tíu pfenníga yfir í hægri vasann að hann á nóg til að kaupa sér lóð. 'Hann reykti semsé fyrir henni.'
Tónskáldið brillerar
22.7.2011 | 10:51
Tónskáldið hér á Sólbakka brillerar um þessar mundir. Hún er staðartónskáld í Skálholti og dvelur þar langdvölum en við kötturinn erum einir hér á Sólbakka.
Á morgun, laugardaginn 23. júlí verður frumflutt eftir hana verkið Þangað sem árnar renna munu þær alltaf renna.
Tónleikarnir hefjast klukkan þrjú en klukkutíma áður verður staðartónskáldið Elín með fyrirlestur um tónsmíðar sínar í Skálholtsskóla.
Það er öllum opið og ókeypis aðgangur á bæði fyrirlestur og tónleika.
Brauðbakstur við 37 gráður
19.7.2011 | 21:22
Það er sagt, að Hannes stutti hefði í æsku verið í sjálfsmennsku með móður sinni og haft lítið af mat, en þó minna eldsneyti. Höfðu þá fátæklingar þessir ekki önnur ráð til þess að geta borðað brauðbita, en að sitja á því, svo að það harðnaði lítið eitt. Þegar sulturinn tók að sverfa að þeim, átti konan að hafa sagt: Heldurðu þessi sé ekki fullsetin, Hannes minn? Eða ef hann varð fyrri til: Heldurðu þesi sé ekki fullsetin, manna?
(Gömul kynni, Ingunn Jónsdóttir, 1946)
Nú er spurt, hvað ætli brauð sé lengi að bakast við 37 gráðu hita?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Magatónlist í dómkirkju
15.7.2011 | 08:42
Sat í gærkvöldi magnaða tónleika í Skálholtsdómkirkju þar sem slagverksleikarinn Lucie Antunes frá París lék tónverk á hin ýmsu hljóðfæri.
Og ekki verra að eitt besta stykkið var frumflutningur á verkinu Saman eftir Elínu mína og vakti mikla hrifningu.
Tónleikunum lauk svo með slagverki sem listakonan lék með lófum á nakið hold sitt, einkum maga en einnig, hár, eyru og aðra líkamsparta.
Undir morgun hlotnaðist mér svo að keyra Lucie og kaþólska prestinn Steinbjart á flugvöll í sól og dalalæðu sem gerir lífið bæði töfrandi og dularfullt.
Þeir sem misstu af tónleikunum geta hlustað á brot hér.