Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Spillingin hefur andlit

Spilling í stjórnmálum á Íslandi eignaðist óvænt nýtt andlit í vikunni, andlit Jóhönnu Sigurðardóttur.

Forsætisráðherra sem sýknar vinkonu sína úr ræðustól Alþingis og heldur því fram að lög eigi ekki að gilda af því að þau séu asnaleg á lítið eftir af trúverðugleika.

Fyrir mörgum okkar eru þetta vonbrigði. Sjálfur hefi ég alltaf bent á Jóhönnu þegar ég hef verið spurður hvort ég sé ekki hrifinn af neinum krata.


Stormur í vatnsglasi og einlægur brotavilji

Það er ótrúlegur pilsaþytur í umræðunni um Landsdóm þessa dagana og kostulegur. Það er annars karlremba að nota orðið pilsaþytur um hégóma og nær að tala um storm í vatnsglasi. Það hefur lengi tíðkast að refsa mönnum fyrir vanrækslu og gáleysi. Slík lög hafa náð yfir alþýðu manna hvort sem um er að ræða bókara í fyrirtækjum eða mjólkurbílstjóra.

Nú þegar svipuðum reglum er ætlað að ná yfir æðstu leiðtoga þjóðarinnar ætlar allt um koll að keyra og því er í alvöru haldið fram að ekki megi ákæra nema sekt liggi fyrir. Verði hinir ákærðu sýknaðir hljóti ákærendurnir að segja af sér í þingmennsku o.s.frv. o.s.frv. Mikið væri gott að vera glæpon í því landi þar sem ríkissaksóknarar mættu aldrei tapa máli án þess að missa sjálfur höfuðið. 

Mér er ekkert kært að sjá þau Björgvin, Ingibjörgu, Geir og Árna á sakamannabekk. Þetta er allt saman fólk sem mér þykir vænt um og hefi álit á fyrir marga mannkosti þeirra. En ég vorkenni þeim minna heldur en manni sem óvart skriplar til á bíl á svelli og er dæmdur fyrir, eða bókara sem óvart borgar reikninga í rangri röð og lendir úti með vörsluskatta þegar fyrirtæki kemst í þrot.

Þegar litið er á umræðuna frá haustinu 2008 þá liggur mér stundum við að halda að hér hafi verið um ásetningsbrot að ræða. Ég man vel eftir þegar við komum til þings það haust og Ingibjörg Sólrún hafði slegið því fram í fjölmiðlum að í landinu væri engin kreppa. Engin kreppa. Og það var haustið 2008! 

2. september 2008 flutti Ingibjörg ræðu á Alþingi sem við í stjórnarandstöðunni mótmæltum harðlega enda sagði hún þar að það væru í mesta lagi váboðar í samfélaginu, ekkert óveður og engin kreppa, engin eiginfjárvandi banka o.s.frv. 

Það þarf enginn að leggja á sig að lesa níu binda rannsóknarskýrslu og aðra skýrslu um skýrslu til að sjá að viljinn til fela og vanrækja vandamálið á þessum síðustu dögum gamla Íslands var einlægur og mér liggur við að segja ófyrirleitinn. 

Það eina sem ég geri athugasemdir við að er ekki skuli fleiri ákærðir, þ.á.m. núverandi utanríkisráðherra en sakfelling þeirra sem nú eru nefndir hlýtur að kalla á endurskoðun þeirra mála.


Í landi þar sem mútur eru löglegar

Í lögunum er hins vegar hvergi lagt bann við því, að framkvæmdaaðili greiði kostnað vegna vinnu við aðal- eða deiliskipulag.  Samkvæmt 5. tl. 34. gr. greiðist kostnaður við gerð deiliskipulags úr sveitarsjóði, með þeirri undantekningu, sem greinir í 1. mgr. 23. gr. laganna, þar sem landeiganda, eða framkvæmdaraðila, er heimilað að gera tillögu til sveitarstjórnar að deiliskipulagi eða breytingu á því á sinn kostnað.  Felur ákvæðið fyrst og síðast í sér  skýlausan rétt framkvæmdaraðila til að koma með tillögu að deiliskipulagi eða breytingu á því, gegn því að hann greiði þann kostnað...

(Úr dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Flóahrepps gegn íslenska ríkinu, 17. september 2010)

Það er hægt að hafa misjafnar skoðanir á því hvort virkja eigi neðri hluta Þjórsár og það er mikilvægt að bæði virkjanasinnar og virkjanaandstæðingar í þessum sveitum virði hvorir aðra.

En eftir þennan dóm er erfitt að bera mikla virðingu fyrir þeirri lagatúlkun að mútur skuli heimilaðar. Það er vonandi að ráðherra heykist ekki á að áfrýja málinu. Staðfesti Hæstaréttur dóminn verður að virða rétt hreppanna í þessu tilviki en það er þá jafnframt hlutverk Alþingis að skerpa á reglum um óháða og vandaða afgreiðslu stjórnvalda.


Hjalti Bjarnason im memoriam

Hjalti Bjarnason frændi minn lést í síðasta mánuði. Minningagrein sem ég skrifaði um hann birtist í síðasta tölublaði Sunnlenska en hana má líka lesa hér.

Einstakar gersemar í stærstu netbókaverslun landsins

IMG_9714

Sunnlenska bókakaffið rekur netverslun sem lumar á gersemum frá fyrri öldum. Meðal merkra gripa má nefna Eyrbyggjuútgáfu frá 1787 og fjöldi af kvæða- og guðsorðabókum fyrri alda. Sjá nánar hér. Bókakaffið (http://www.bokakaffid.is/) er líka stærsta netbókaverslun landsins í titlum talið, með yfir 10 þúsund titla á skrá, notaða og nýja og verðið hvergi hagstæðara.

(Þetta er nú að verða skelfilega kaupmannslegur texti en svona verður nú innrætið hjá okkur sem teljum aura alla daga. Þið fyrirgefið!)


Bretar vilja út úr ESB

Nýleg skoðanakönnun sýnir að af þeim sem afstöðu taka vilja 58% Breta ganga úr ESB en 42% vera þar áfram. 47% á móti 33% af heildinni. Sjá einnig um málið hér.

 Þetta er mjög merkileg niðurstaða því að í ESB löndum er fátt til sparað að halda fram ágæti aðildar. Stjörnufánar ESB blakta víða og varla er svo ráðist í nokkurt verkefni að það hafi ekki einhvern ESB stimpil á sér, vegna styrkja eða annarrar íhlutunar.

Meðal ESB sinna hér á landi er algeng varnarræða að segja; eru Frakkar og Bretar þá ekki fullvalda þjóðir? Kannski er breskur almenningur að svara þeirri spurningu.


Hefur evran jafnað lífskjör í Evrópu?

Ein af röksemdum ESB-sinna er að með evrunni og Evrópusamrunanum hafi tekist að jafna lífskjör meðal Evrópubúa. Við fyrstu sýn getur þetta litið svo út en bakvið blasir við ólystugri mynd.

Í heildina er viðskiptahalli evruríkjanna ekki nema 60 milljarðar evra sem er lítið miðað við stærð þess. En þegar þess er gætt að ríkin þrjú, Þýskaland, Holland og Austurríki eiga samtals 240 billjónir í viðskiptaafgang blasir við að hin 13 evrulöndin eru með viðskiptahalla sem nemur 300 milljörðum evra og það slagar í viðskiptahalla allra ríkja Bandaríkjanna.

Sænski hagfræðingurinn Stefan de Vylder vék aðeins að þessum málum í fyrirlestri sem hann hélt í Háskóla Íslands nú í haust. Þar kom skýrt fram að í stað þess að auka jöfnuð í álfunni hefur myntbandalagið orðið til að auka ójafnvægi milli ríkja. Því fer vitaskuld fjarri að Evrópa sé eitt hagsvæði með sama hætti og til dæmis Bandaríkin þó vitaskuld geti sú þróun orðið á löngum tíma og er eiginlega óskandi úr því að þegar hefur lagt upp í þessa vegferð. En fram til þessa hefur evrusamstarfið stuðlað að því að styrkja til muna útflutningsatvinnuvegi ríku landanna en veikja hagkerfi þeirra fátækari. Fyrir því eru ekki flókin rök.

Gengi evrunnar fer einfaldlega bil beggja, þ.e. mitt á milli þess sem væri með gjaldmiðil sem bara þjónaði ríku löndunum og þess sem gjaldmiðlar fátækari evrulandanna myndu gera. Þar af leiðandi er evran lægra skráð en vera ætti fyrir t.d. Þýskaland og hærra skráð en hentar t.d. Ítalíu. Gjaldmiðill sem er of lágt skráður ýtir undir útflutningsatvinnuvegi og hamlar innflutningi. Gjaldmiðill sem er of hár drepur heilbrigða framleiðsluatvinnuvegi en ýtir undir skuldasöfnun. Fáir þekkja þetta betur en Íslendingar.

Margt í styrkjaumhverfi ESB hefur í orði miðað að jöfnun lífskjara í álfunni. En í reynd hefur allt það verið sem dropi á móti því sem evran hefur unnið i öfuga átt.

(Birt í Morgunblaðinu 7. september 2010)


Saga eftirlifenda ef efnilegt stórvirki

Bókin Saga eftirlifenda, Höður og Baldur, kom út nú á haustdögum hjá Nykri. Höfundur er Emil Hjörvar Pedersen. Hér er á ferðinni stórvirki sem hélt mér föngnum frá fyrstu blaðsíðu. Eiginlega ævintýrasaga úr óræðri framtíð og grárri forneskju og á sér helst systur í skáldaheiminum í sögum Tolkiens.

Bókin er eins og sögur Tolkiens ævintýrabók fyrir börn og ekkert síður fullorðna. Hér er stokkið fram og til baka um aldir enda sögupersónurnar hinir ódauðlegu æsir og vættir þeirra sem hafa ranglað hér um jarðarkringluna um árþúsundir.

Gallalaust er verkið ekki. Þess verður mjög vart við lesturinn að höfundur hefði mátt slípa það betur, jafnvel bara góður prófarkalestur hefði gert mikið.  Bókin öll minnir á efnilegt barn sem vantar þá ögun og vandvirkni sem þarf til að stórvirki þetta eigi möguleika á að vera kallað meistaraverk.

Höfundur hefur boðað að þetta sé fyrsta bókin af þremur í þríleik um æsina ódrepandi, Höð og Baldur. Það er vonandi að hinn ungi höfundur nái að slípa seinni hlutana betur því andagiftina á hann nóga til verksins.  Ég býð spenntur eftir framhaldinu. /-b.


Gróf íhlutun og mútutilraun

Eðlilega er ágreiningur um hugsanlega ESB aðild Íslands. Bæði ESB-sinnar og við sem erum andsnúin aðild getum verið sammála um það. Um leið hljótum við að viðurkenna að í þessum ágreiningi hljóti meirihlutinn að ráða og að tekist skuli á um þetta ágreiningsmál í jafnræði, heiðarleika og bróðerni. Eða hvað?

Nú bregður svo við að auk þessara tveggja fylkinga landsmanna er þriðji aðilinn farinn að blanda sér í slaginn, sem er Evrópusambandið sjálft. Það hefur nú boðað að hundruðum milljóna króna verði varið til að breyta íslenskri stjórnsýslu á samningstímanum, stórum upphæðum verði einnig varið í byggðastyrki og fjölda Íslendinga boðinn ferðakostnaður á fundi og kynningar hér heima og erlendis.

Það er vitaskuld enginn erlendur utanaðkomandi aðili sem kemur að ágreiningi þessum frá hinni hliðinni og regnhlíðarsamtökin Heimssýn sem berjast gegn aðild eiga nú 23. ágúst á reikningum sínum 475.658 krónur. Samtökin halda úti einni skrifstofu með hálfu stöðugildi en Evrópusambandið boðar nú að það muni opna tvær upplýsingaskrifstofur í landinu, eina norðan heiða og hina í Reykjavík. Það er gróft að kalla þetta mútur þegar við vitum ekki hvernig þiggjendur bregðast við en án efa er þetta mútutilraun gefanda.

Það má líkja þessu við það ef að landsliðið kæmi inn á völlinn á pollamóti í fótbolta og gengi í lið með Selfossi á móti Keflavík. Þann veit ég þó mun á ungum fótboltamönnum á Selfossi og íslenskum ESB-sinnum að pollarnir hér myndu alltaf mótmæla því að fá svo ósanngjarna hjálp í baráttunni. Íslenskir ESB-sinnar eru aftur á móti hvorki drengilegir né vandir að meðulum og fagna því flestir grófri íhlutun stórveldis í innanlandsmál.


Fjárfesting í Húsasmiðjunni er kjánagangur

Það sér hvert mannsbarn í landinu að fjárfestingar lífeyrissjóðanna í Húsasmiðjunni eru broslegur kjánaháttur, líkastur því sem gerðist hér á kjánaárunum þegar Íslendingar héldu að peningar yxu á út um eyrun á Björgólfi Thor.

Líklega verða lífeyrissjóðagreifarnir seinastir manna að fatta hvað hefur breyst í þessu landi.

Staðreyndin er að jafnvel miðað við uppganginn sem þá var í byggingaiðnaðinum var búið að offjárfesta í verslunarhúsnæði með nagla og skrúfur. Nú þegar byggingariðnaðurinn er í rúst er alls ekki þörf á opinberri spýtubúð til þess að drepa niður þá sem lifðu kreppuna af.

Ríkisrekstur á samkeppnisfyrirtækjum er slæmur en ég veit ekki nema lífeyrissjóðarekstur sé verri.


mbl.is Ályktun á misskilningi byggð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband