Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Bókavertíð og stórskáld á leiðinni
10.12.2009 | 13:01
Það gefst ekki mikill tími til bloggs hér í búðinni þessa dagana, enda bóksöluvertíð sem aldrei fyrr. Nú er líka opið lengur hjá okkur og veitir ekki af. 5% afslátturinn sem við veitum af öllum bókum er að virka þannig að æ fleiri gera sér nú grein fyrir að það er ódýrara að versla allar bækurnar hér og fá um leið vitræna ráðgjöf.
Hér er annars talsverð eftirvænting því nokkur af flottustu ljóðskáldum landsins koma hingað í kvöld og lesa upp.
Til leiks mæta ljóðskáldin Eyþór Árnason, Matthías Johannessen, Gyrðir Elíasson, Gunnar M.G., Draumey Aradóttir, Bjarni Bjarnason og Steinunn Hafstað.
Húsið opnar klukkan 20 fimmtudagskvöldið 10. desember en upplestur hefst stundvíslega klukkan 20:30. Ekki missa af einstökum menningarviðburði. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.
...meðan höfuðpaurarnir ganga lausir
9.12.2009 | 22:14
Dæmdir fyrir markaðsmisnotkun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stormur í vatnsglasi og aumkunarverð stjórnarandstaða
7.12.2009 | 20:02
Uppákomur í Icesave-málinu eru einn stöðugur farsi. Í dag upplýstist að gögn sem enginn raunverulegur trúnaður var á birtist á Wikilekia og Morgunblaðið sló því upp sem stórfrétt.
Reyndin er að í bréfum Indriða og AGS er sárafátt merkilegt og þessi bréf hafa verið aðgengileg þinginu um nokkurn tíma. Af sama tagi er sá æsingur að formenn fjárlaganefndar telja það vitaskuld ákvörðun nefndarinnar en ekki þingflokksformanna hvernig nefndin hagar störfum sínum. Skandalar í þessu máli gerast ómerkilegri og ómerkilegri með hverri vikunni og allt hugsandi fólk er komið með grænar.
Staðreyndin er að frekari tafir þessa máls þjóna ekki íslenskum hagsmunum og málþóf stjórnarandstöðunnar opinberar þann nöturlega sannleika að þingmenn hugsa meira um hag sinna flokka en sinnar þjóðar.
Það er í raun og veru enginn pólitískur ágreiningur um það að Icesave-samnningarnir eru ósanngjarnir og tilkomnir fyrir þvingun og ofbeldi gamalla nýlenduvelda en það er samt engin önnur leið fær í augnablikinu en að loka málinu með þeim fyrirvörum sem náðst hafa í samningum. Það að draga málið getur orðið til að veikja stöðu okkar enn meira og gera skuldafjallið enn illvígara ef afleiðingin verður enn frekari gengisfelling og verra lánshæfismat.
Ríkissjónvarpið í lið með gangsterum
6.12.2009 | 12:23
"Samkvæmt heimildum fréttastofu kosta algengar fartölvur nú um eitt hundrað þúsund krónur í verslunum en rétt er að benda á að samskonar gripi má fá á svörtum markaði fyrir innan við helming þess verðs."
Ofanritað er ekki tilvitnun í Fréttastofu Ríkisútvarpsins né neina aðra þekkta fréttastofu enda hefði tæpast farið framhjá almenningi ef fréttamenn leyfðu sér með slíkum hætti að beina viðskiptum til ómerkilegra smákrimma sem versla í skúmaskotum með þýfi.
Á Íslandi gildir að vera stórtækur og þessvegna birtist í liðinni viku frétt í Ríkissjónvarpinu þar sem íslenskum bókaunnendum var sérstaklega bent á að kaupa jólabækurnar í Bónus en sniðganga bókaverslanir.
Verslanakeðjur eins og Bónus og Eymundsson hafa nú þegar orðið uppvísar að því að skila ekki svo sem skila ber andvirði þess sem þær selja. Fyrir vikið eru móðurfélög beggja í skiptameðferð.
Nú bendir ekkert til að þjóðin fylgi þessum endemis boðskap RÚV enda veit almenningur sem er að í stórmörkuðum eru aðeins örfáir auglýstir titlar settir niður í verði en aðrir jafnvel seldir á yfirverði. Á sama tíma bjóða margar af bókabúðum landsins staðgreiðsluafslætti og sérkjör sem jafnast í heild á við gyllboð Bónusmanna. Þegar við bætist vönduð ráðgjöf og þjónusta sérverslana má fullyrða að takmörkuðum jólagjafapeningum sé víðast betur varið en á svokölluðum kjarapöllum stórmarkaða.
Heiðarleg samkeppni verslana byggir á skilvísi. Eymundsson og Bónus eru fyrirtæki sem hafa gengið á undan í rándýru auglýsingaskrumi nú fyrir jólin þar sem fyrirtækin reyna að halda því að neytendum að þrátt fyrir gjaldþrot séu þau ennþá að bjóða bestu kjör. Ekkert er fjær sanni og þegar við bætist að skattgreiðendur munu borga milljarða á milljarða ofan í meðgjöf með þessum fyrirtækjum má með sanni segja að bókabrask þessara aðila sé þjóðinni dýrkeypt.
(Áður birt í Mbl.)
Draugaleiðsögn er vandmeðfarin
5.12.2009 | 11:49
Falsaðar sögur af látnum ekki líðandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Upplestur í bókakaffinu á fimmtudag
2.12.2009 | 13:14
Það verður skemmtilegur kokkteill í bókalestri vikunnar í Sunnlenska bókakaffinu sem verður að vanda á fimmtudagskvöldinu klukkan 20:30. Fyrir kaffihlé verða kynntar tvær unglingabækur: Annarsvegar verðlaunasagan Þvílík vika eftir Eyrbekkinginn Guðmund Brynjólfsson. Sagan hlaut íslensku barnabókaverðlaunin 2009. Hinn unglingabókarhöfundurinn, Harpa Dís Hákonardóttir er sjálf aðeins 16 ára og á allar ættir að rekja í Flóann, frá Holti og Vorsabæ. Bók hennar heitir Galdrasteinninn og útgefandi er Salka.
Eftir kaffihlé lesa Anna Ólafsdóttir Björnsson úr ævisögubókinni Elfa Gísla og Finnbogi Hermannsson úr bókinni Í fótspor afa míns. Elfa Gísla á sér ævintýralega sögu og hefur frá blautu barnsbeini orðið að standa á eigin fótum. Finnbogi Hermannsson sendir nú frá sér annað bindi í þríleik sem byrjaði með uppvaxtarsögunni Í húsi afa míns. Eins og í þeirri fyrri er sögusviðið að nokkru á Njálsgötunni en sagan berst líka austur í Flóa þar sem drengurinn Finnbogi lendir í sveit á Litlu-Reykjum.
Fögnum fullveldi meðan Evrópumenn gráta Lissabonsáttmála
30.11.2009 | 18:04
Íslendingar fagna 91 árs fullveldisafmæli 1. des. og af því tilefni er Heimssýn með fullveldishátíð í Salnum í Kópavogi klukkan 17 þar sem fulltrúar þriggja stjórnmálaflokka flytja ávörp og frumflutt verður verk eftir Atla Heimi. Sjá nánar hér http://www.heimssyn.is
Kostulegt að á sama tíma og við fögnum fullveldisafmæli gengur Lissabonsáttmálinn í gildi í sem dregur enn úr sjálfræði þeirra landa sem eru í ESB. Það er samningur sem í reynd hefur verið felldur í þjóðaratkvæðagreiðslum í þremur löndum og öðrum þjóðum hefur verið meinað að kjósa um hann. Lissabonsáttmálinn er því ekki fagnaðarefni frekar en yfirleitt þegar völd eru færð frá heimamönnum inn í stórar og ólýðræðislegar stofnanir Brussel.
Ómerkilegt skrum eða mikilmennskubrjálsemi
27.11.2009 | 21:43
Krafan um að forseti Íslands synji Icesavelögum staðfestingar er ekki sett fram með þjóðarhag að leiðarljósi. Þeir sem halda henni fram telja sig geta gert BETRI samninga við Breta og Hollendinga en það er nákvæmlega ekkert sem bendir til að þeir hinir sömu hafi rétt fyrir sér. Það að setja Icesave málið í upplausn núna er ekkert annað en ábyrgðarlaus sjálfumgleði þeirra manna sem láta sig engu varða þó að þeirra eigið skrum setji þjóðina í verri vanda en áður. Það er ekkert sem segir að næsta samningalota okkar við Breta myndi ekki bara skila verri niðurstöðu.
Þegar bankarnir féllu heyrðust strax þær raddir að Íslendingar ættu ekki að taka á sig neinar skuldir eða skuldbindingar bankanna og ekki að hleypa Alþjóða gjaldeyrissjóðnum inn í landið. Meðal annarra héldum við Guðni Ágústsson þessu fram inni á þingi og innan Framsóknarflokks. Það er skemmst frá því að segja að hvorki í okkar flokka né í þjóðþingi landsmanna var nokkur minnsti möguleiki á því þá að vinna þessari skoðun meirihlutafylgi. Nú er það er of seint! (Mátti kannski einu gilda hvað ofan á yrði í Framsóknarflokki sem um sömu mundir var falinn Valgerði Sverrisdóttur til umsjónar.)
Það sem gerðist í þessu máli var að stjórnin sem þá sat undir forystu Geirs Haarde tók þá afstöðu að íslenska ríkið stæði að baki innistæðum bankanna og jafnframt var ákveðið að hleypa AGS inn í landið. Í framhaldi var gerður samningur (kallað minnisblað en skiptir engu) við Hollendinga um málið og ríkisstjórnin gaf öll fyrirheit um að ganga með sambærilegum hætti frá málinu við Breta. Eftir það og eftir að AGS kom inn í landið er algerlega út í hött að halda að íslensk stjórnvöld geti boðið heiminum öllum birginn.
Slík sýn á málin er eins og fyrr segir klassískt stjórnarandstöðuskrum - að vísu afar óviðeigandi vegna þess hvað hagsmunir þjóðarinnar eru miklir. Það eru reyndar margir sem gangast inn á sömu sjónarmið en ég átta mig ekki alltaf á hvað mönnum gengur til, hvort þar er á ferðinni einhverskonar naív einfeldni eða eða þá mikilmennskubrjálsemi þess sem trúir að Ísland geti ákveðið hvað kemur út úr nauðasamningum okkar við stórþjóðir.
Það var slík mikilmennskubrjálsemi sem hélt útrásarbyltingunni á floti og það er kannski réttast að skipa utanþingsstjórn með mönnum úr þeirri hirð...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (64)
Upplestur í kvöld kl. 20:30
26.11.2009 | 15:08
Fjórir rithöfundar lesa úr verkum sínum í Sunnlenska bókakaffinu á fimmtudagskvöldið og þrjú þeirra fjalla um konur en sú fjórða um Stefán í Möðrudal sem var fjarri því að vera kvenlegur þó að raddbeiting hans væri á köflum sérkennileg. Höfundarnir eru Sindri Freysson sem les úr bók sinni Dóttir mæðra minna, Pjetur Hafstein Lárusson sem les úr bók sinni Fjallakúnstner segir frá, Bjarni Harðarson sem les úr bók sinni Svo skal dansa og Hildur Halldóra Karlsdóttir les úr þýðingu sinni á bók Menna Van Praag, Karlmenn, peningar og súkkulaði.
Upplestrarkvöldið hefst klukkan 20:30 en húsið opnar 20:00 og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Notaleg kaffistemmning yfir bókum og spjalli.
Þá þýðir Arion svindl
23.11.2009 | 18:20
Arion fær tilboð um 1998 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |