Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Jóns Arasonar minnst í bókakaffinu
11.11.2009 | 15:30
Nú á fimmtudagskvöldið 12. nóvember kl. 20:30 verður sérstök dagskrá í Sunnlenska bókakaffinu helguð skáldinu, baráttumanninum og biskupinum Jóni Arasyni. Þá koma hér góðir gestir sem eru hjónin Ásgeir Jónsson fræðimaður og Gerður Bolladóttir einsöngvari. Ásgeir stóð að útgáfu ljóðmæla Jóns Arasonar og mun ræða þá útgáfu og lesa úr formála hennar en Gerður syngur nokkur af ljóðum Jóns við þjóðlög og lög yngri skálda.
Jón var sem kunnugt er hálshöggvinn í Skálholti kaldan nóvembermorgun haustið 1550 ásamt sonum sínum tveimur, þeim Ari og Birni. Þeir þrír höfðu verið handteknir í síðustu fólkorrustu á Íslandi, byssubardaga í Dalasýslu við Daða Guðmundsson í Snóksdal. Daði sat einnig fastur í Skálholti þetta haust með liðsmönnum sínum - "hinum hraustustu sveinum úr Breiðafjarðardölum" sem stóðu vörð, bæði nótt og dag, alvopnaðir í kringum staðinn. Hvorki Skálholtsbiskup né Kristján skrifari, umboðsmaður Dana á Íslandi mátti til þess að hugsa að Daði færi með menn sína frá staðnum þá yrðu þeir ofurseldir reiði Norðlendinga.
Jón var þá síðasti kaþólski biskupinn sem eftir stóð í N-Evrópu. Þrátt fyrir ítrekaðar umleitanir, neitaði hann öllum samningum við Dani og Lúterstrúarmenn. "Á jólum verðum við Hólum" lýsti hann aðeins yfir. Þá var loks ákveðið að "Öxin og jörðin geymdi þá best".
Dagskráin sem markar upphaf í árlegum jólabókalestri 2009 hefst klukkan 20:30, allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Ljóðmæli Jóns Arasonar verða á sérstöku tilboðsverði þetta eina kvöld.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.11.2009 kl. 16:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Óklæðilegur Bjarni Ben.
10.11.2009 | 18:26
Mikið óskaplega sem það klæðir Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokksins illa að vera í stjórnarandstöðuhlutverki og hrópa brjálæði, brjálæði í þingsölum. Og það yfir skattahækkunum sem illt er að komast hjá eftir frjálshyggjuútrásarbóluna.
Það klæðir Ingibjörgu Sólrúnu líka frekar kjánalega að tala nú um reiðina þegar enn hefur fátt verið gert til að sefa reiði almennings. En hún heldur kannski að það sé sérstaklega fallið til að gleðja alþýðuna ef að Bónusfeðgum verða gefnar upp sakir enda þar á ferðinni bjargvættir alþýðunnar í þessu landi.
Það væri í rauninni miklu meira áhyggjumál ef þessi þjóð skipti ekki skapi yfir því hvernig útrásarvíkingar hafa einkanlega í skjóli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks rúið þjóð sína inn að skyrtunni. En kratar vilja sjálfsagt að þjóðin sé bara ligeglad yfir öllu... (jú, jú Framsóknarflokks líka, ekki skal ég þræta fyrir það!)
Lásí lífeyrissjóðsbrandari!
8.11.2009 | 12:25
Mogginn í dag skrifar ekki færri en þrjá pistla um yfirráð Jóns Ásgeirs yfir Bónusi og af þeim er Reykjavíkurbréfið best. Agnes er sem fyrr mikið ólíkindatól og stingur upp á að lífeyrissjóðir landsmanna yfirtaki Bónusbúðirnar. Ég geng að vísu út frá því að þetta eigi að vera brandari enda sér hver maður sem vit hefur á að Bónus er langt því frá að vera björgulegur rekstur eins og þeim Jóhannes og Jóni hefur tekist að hrauka upp skuldum.
En brandara eins og þessa á að fara með af varúð því fréttir liðinna vikna segja mér að hinir eldkláru forsvarsmenn sömu lífeyrissjóða gætu tekið þetta alvarlega og þá yrði illa komið fyrir ellisparnaði okkar flestra.
Bónus á að taka til ríkisvæðingar og selja síðan burt í litlum einingum sem er eina leiðin til að reka verslanir arðvænlega í jafn fámennu landi. Og stuðlar um leið að samkeppni.
2007 fnykur af sjúkrahúsi
5.11.2009 | 18:32
Það er margt enn í loftinu sem sýnir að flottræfilsháttur þenslunnar er ekki enn að baki og draugarnir þar ganga enn aftur. Í slangmáli samtímans kallað 'svona 2007 eitthvað.'
Hafa menn ekkert lært hljótum við að spyrja þegar við horfum á þau Álfheiði Ingadóttur og Arnar Sigurmundsson skrifa undir byggingu nýs spítala í Reykjavíkinni. Fréttamenn tala fjálglega um hvað þetta væri þjóðhagslega hagkvæmt verkefni og þessvegna væri sjálfsagt að sturta lífeyri framtíðarinnar í þessa arðbæru fjárfestingu - gríðarlega hagkvæmt að geta hætt að nota spítalahúsið í Fossvogi og yfirleitt hætt að nota öll hús sem ekki eru splunkuný.
Hvað lengi ætlum við að láta algjörlega úrelt sjónarmið neyslufrekju og sóunar ráða ferðinni?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
Hreini Loftssyni á lofti haldið!
3.11.2009 | 19:20
Það er ánægjulegt að Hreinn Loftsson skuli kallaður til í fréttatíma RÚV Sjónvarps svo hann megi vitna um að rekstur Jóns Ásgeirs sé einkar góður. Lifi hlutleysið. Sjálfur kóngurinn Jón er ekki að óhreinka sig með að halda slíku fram enda veit hann manna best af sinni 1000 milljarða skuld. Ef reksturinn væri í lagi þyrfti hann ekkert leyfi ríkisbankanna til að halda sínum sjoppum.
Næst þegar fréttamenn segja frá ofsaakstri á vegum úti ætti að leita uppi einhvern sem hefur þá skoðun að leyfa eigi ofsaakstur.
Spánverjavígin og meðferð flóttamanna
3.11.2009 | 10:39
Árið 1615 fór Ari Magnússon sýslumaður í Ögri við Ísafjarðardjúp með harðskeyttu liði sínu að nokkrum baskneskum skipbrotsmönnum í Æðey í Ísafjarðardjúpi og vó þá eins og lög þess tíma mæltu fyrir að gert skyldi. Lög þess tíma sem voru sett suður í Evrópu, af þýsk-danskri valdastétt í Kaupmannahöfn og margir telja enn að betra sé að lög verði til þar en hér heima....
Ég geri mér alveg grein fyrir að mörgum þykir ósmekklegur samanburðurinn á Spánverjaleiðangri Ara í Ögri og þeirri hugsun nútíma rasista að vísa tafarlaust héðan öllu flóttafólki af landi brott. Og það er rétt að gerningurinn er í öllu ytra formi ólíkur. Þrennt eiga slíkar ákvarðanir þó sameiginlegt. Þær eru í fyrsta lagi löglegar, þær eru í öðru lagi innan einhverra þeirra marka sem stór hluti almennings fellir sig við og í þriðja lagi, þær ógna lífi þeirra útlendinga sem þær beinast gegn. Við getum svo eftir atvikum bætt því við að í báðum tilvikum er því borið við að þjóðin hafi ekki efni á að bæta fleiri ómögum á garða og í báðum tilvikum er sú röksemd reist á heimsku því almenna reglan er að flutningur fólks milli menninarheima (og blóðblöndum) stuðlar að auknum hagvexti og grósku.
Helga Ingólfsdóttir 1942-2009
2.11.2009 | 18:27
Mikil höfðingskona var borin til grafar í Görðum á Álftanesi í dag, Helga Ingólfsdóttir semballeikari og frumkvöðull að því mikla tónlistarstarfi sem þróast hefur í Skálholti undanfarna áratugi. Með starfi sínu á Skálholtsstað hefur Helga orðið mikill velgjörðarmaður menningarlífs hér í héraði og fyrir það ber að þakka.
Helga var minnisstæð þeim sem henni kynntust. Fyrir ungum sveitadreng í Tungunum fylgdi henni einhver sá framandleiki menningarinnar sem gaf fyrirheit um að lífið gæti verið margskonar. Aldraður faðir tónlistarkonunnar, grasafræðingurinn Ingólfur Davíðsson var þá oft ekki langt undan og ekki síður óvanalegur í augum okkar sveitamanna. Seinna kynntist ég Helgu og manni hennar Þorkeli í gegnum tónlistarstarf konu minnar og það voru ánægjuleg kynni.
Þorkeli Helgasyni sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur á þessum degi.
Baugur eða lífið!
31.10.2009 | 23:51
Þrátt fyrir Samfylkinguna verður því ekki trúað að ríkisstjórnin viðhaldi til langframa lífi Baugsveldisins. Það mun þá kosta þessa ríkisstjórn lífið. Almenningur sem borgar hverja krónu mun ekki líða það að 1000 milljarðamennirnir haldi áfram að stjórna og blóðmjólka íslenskt efnahagslíf.
Langsennilegast er að Kaupþing nýja sé að undirbúa einhverjar þær leikfléttur sem fyrr en seinna mun leiða af sér tímabundna þjóðnýtingu Haga.
1998: Eigendur njóta trausts | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þegar veröldin hrapar til helvítis!
31.10.2009 | 16:11
Dómsdagsspár vegna Icesave, ESB, ekki ESB, auðlindagjaldi, álveri í Helguvík og ekki álveri í Helguvík. Allt eru þetta bólur samtímans og koma svoldið í staðin fyrir hinar sprungnu bjartsýnisbólur. Athyglisvert að það eru nákvæmlega sömu kjánarnir og héldu því fram fyrir fáeinum árum að við værum á leið til himna í efnahag okkar sem nú boða ragnarök.
Sjá nánar í pistli mínum, Þegar veröldin hrapar til helvítis!
Hrun-flokkar sem hafa ekki svo mikið sem sagt sorrí
29.10.2009 | 17:49
Orð Þórðar Friðjónssonar í Viðskiptablaðinu í dag (birt t.d. hér) varpa enn skýrari mynd á þá skefjalausu spillingu sem hér átti sér stað við einkavæðingu ríkisbankanna.Spillingu sem við þáverandi stuðningsmenn þessara flokka hljótum að axla að einhverju leyti, að minnsta kosti með því að hugsa okkur tvisvar um héreftir.
Bakvið þessa spillingu stóðu forystumenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Samfylkingin fékk svo að vera með í gegnum Baug og Glitni.
Kerfishrun Íslands voru ekki náttúruhamfarir heldur manngerð græðgi og spilling sem þrifust og áttu upphaf sitt í því að stjórnmálamenn kusu að útdeila sameiginlegum eigum þjóðarinnar til valinna vina sinna.
Hrunflokkarnir hafa hvergi gert upp við kjósendur - ekki látið lítið að segja sorrí heldur benda á aðra og hver á annan og stundum útlendinga...