Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Að skrifa eins og ESB-sinni

ESB umræðan í landinu er svo sannarlega í skotgröfum en samt verð ég alltaf jafn undrandi þegar ég les greinar frá hörðum ESB-sinnum þar sem ekki örlar á röksemdafærslum heldur er haldið uppi látlausum fúkyrðaflaumi og klifað á innihaldslausum sleggjudómum. Og þegar höfundar ná að tvinna svoleiðis saman án þess að komast nálægt því að vera fyndnir er ástæða fyrir okkur kaupendur Morgunblaðsins til að biðjast vægðar.

Þannig er ritstjórnargrein Kolbrúnar Bergþórsdóttur í Morgunblaðinu í dag þar sem 70% af Sjálfstæðisflokki er afgreidd með hugtakinu „litla harðlínuklíkan." Víst er Sjálfstæðisflokkurinn orðinn lítill miðað við það sem hann var en það er nú Morgunblaðið líka! Og að tala um að hinn almenni frjálslyndi armur Sjálfstæðisflokksins þurfi að snúa af sér litlu harðlínuklíkuna er ekki í neinu samræmi við hlutföllin í grasrót Sjálfstæðisflokksins. Síðasti landsfundur þar á bæ sýndi að LITLI hópurinn þar er sá sem Kolbrún kallar hinu frjálslyndu en heita Evrópukratar hjá almenningi.

Vinstri grænir eru afgreiddir sem óstjórntækur afturhaldsflokkur en fær einnig einkunnina þjóðlegur sem er líklega skammaryrði í munni Evrópukrata. Stefnumál VG er eitthvað sem skoppar úr munni þeirra, þeir missa út úr sér korteri fyrir kosningar og byggja málflutning sinn á andúð! Það er von að sá sem svona skrifar reikni með að andúð sé almennt hreyfiafl stjórnmálanna og að umræða geti ekki verið vitræn heldur skoppist hún út úr munni andstæðinganna.

Reyndar eru þau tvö mál sem Kolbrún tekur um gefna heimsku VG klaufalega valin. Annarsvegar sýndi Katrín Jakobsdóttir þann manndóm að viðurkenna fyrir kjósendum að framtíðin fæli í sér skattahækkanir, launalækkanir og upptöku eignaskatta. Hinsvegar upplýsti starfandi umhverfisráðherra efasemdum með olíufyrirætlanir á Drekasvæðinu. Býst einhver við að olíuleit verði hafin hér án þess að einhverjir efist um ágæti þess. Í Noregi hefur olíuleit verið umdeild, í hvert skipti, vegna umhverfismála og hagsmuna sjávarútvegs. En það er rétt sem greinarhöfundur tæpir á, í kosningabaráttunni voru líka vænir og ESB-sinnaðir frambjóðendur sem lofuðu seint og snemma að ríkið muni taka að sér að borga skuldir húseigenda í landinu og jafnfram að engar skattahækkanir séu í farvatninu.

Það eru skynsamir menn og það eru svoleiðis menn sem Kolbrún telur að Samfylkingin eigi nú að tala við.

Grein Kolbrúnar Bergþórsdóttur má lesa í Morgunblaðinu en líka hér:

http://bjarnihardar.blog.is/blog/bjarnihardar/entry/869273


Ráðstefna um Pál í Sandvík

pallyds200langMorguninn hefur farið í að fínslípa ræðu um fræðimanninn Pál Lýðsson í Sandvík en núna klukkan tvö hefst í Fjölbrautaskóla Suðurlands ráðstefna um þennan mikla vesír okkar Árnesinga.

Ráðstefnan um Pál er öllum opin, aðgangur ókeypis og dagskráin forvitnilega en um hana má nánar lesa hér, fraedslunet.is


...þann tudda sem launafólk púar á...

Alþýðuleiðtoginn Gylfi Arnbjörnsson var púaður niður á Austurvelli í dag þar sem hann flutti sinn venjubundna áróður um nauðsyn þess að Ísland gangi í ESB og taki upp evru. Það er í raun og veru með miklum ólíkindum að Alþýðusambandsleiðtogi sem sækir sín ágætu laun til allra launamanna í landinu skuli verja mestum sínum tíma til að reka áróður fyrir ESB-aðild. Það er ekkert sem bendir til að meirihluti vinnandi fólks í landinu aðhyllist ESB-aðil, ekki frekar en annar meirihluti. Fjórar kannanir Fréttablaðsins í röð benda til að það sé minnihluti þjóðarinnar sem vill leggja fram umsókn um innlimun í ESB.

Þegar kemur að hag verkafólks lítur dæmið þannig út að ESB-aðild myndi hér sem annarsstaðar fylgja kjararýrnun, aukið atvinnuleysi, sterkari staða alþjóðafyrirtækja gagnvart launþegum og að lokum landflótti vegna miðflóttaafls hins evrópska stórríkis.

Kannski að alþýðunni á Austurvelli hafi tekist að opna augu Gylfa á Austurvelli í dag, þá loksins stóð frammi fyrir vinnuveitendum sínum. Sjálfur hefur hann ekki tilheyrt hinni vinnandi alþýðu eins og verkalýðsleiðtogar fyrri tíðar gerðu heldur kemur að embættinu í gegnum hagfræðistörf fyrir ASÍ. 

Uppákoman í dag minnir mig á vísu sem ort var um allt annan leiðtoga sem var eins og Gylfi svoldið svíradigur og þrútinn.

Nú lokið er tíð minnar trúar á
þann tudda sem launafólk púar á!
Ég held því að héðan
sé fljótskroppið meðann
í bíltúr austur að Brúará!

Og nú kemur getraun dagsins, um hvern var ort, hver er talinn höfundur og hversvegna er talað um bíltúr að Brúará í limru þessari.

 


Truntuleg svínapest

Nútíminn er trunta söng Þursaflokkurinn í den og sannast jafnt í dag eins og þá. Nú er komin upp slæm flensa sem þegar hefur lagt marga að velli og á eftir að leggja fleiri. Fyrr meir hefur slíkt gerst og margir eiga í sinni fjölskyldusögu að ættfeður dóu í spænsku veikinni, þar áður í stóru bólu og svartadauða. Og það er smá reisn yfir þessu í dánartilkynningum.

En að deyja úr svínapest! Þvílíkt smekkleysi í nafnvali.


Hversu sterk er staða ESB sinna?

Fréttamenn fara mikinn í að tala upp stöðu Samfylkingarinnar og ESB sinna og hafa mjög túlkað úrslit kosninganna sér í hag. Að hluta til er þetta vegna þeirrar stefnubreytingar sem gerð var hjá Framsóknarflokki á síðasta flokksþingi og var vitaskuld mjög slæm samþykkt. Margir ESB-andstæðingar gengu þá glaðhlakkalegir út af flokksþingi með það í farteskinu að það hefðu náðst fram svo ströng skilyrði að þetta skipti engu máli. 

Í dag skiptir þetta máli og nýr formaður flokksins hefur reyndar ekki dregið af sér í að aðstoða ESB-sinna Samfylkingarinnar. Sama gerir Siv þegar hún segir að flokkurinn sé alveg til í að fara í ESB stjórn. Það er samt talsvert hik á þeim báðum og við sem þekkjum innviði flokksins vitum að hann ætti afar erfitt með að taka að sér þetta hlutverk,- þ.e. að fara í stjórnarsamstarf sem hefði aðildarumsókn sem aðalmál. Flokkurinn myndi einfaldlega loga og í þingflokknum yrðu þegar á reyndi tveir eða jafnvel fjórir þingmenn sem myndu reyna eftir megni að þvælast fyrir málinu. Bæði vegna sinna eigin sannfæringar að þetta væri vond niðurstaða og einnig vegna þrýstings frá sínum umbjóðendum sem þeir lofuðu í kosningabaráttunni að vera sem harðastir á móti ESB-aðild. Ég þekki Borgarahreyfinguna minna og ætla ekki að leggja neitt mat á hana í þessu sambandi.

Það er reyndar mikið vafamál að Ísland geti sótt um aðild meðan ekki er vitað hvort það er þingmeirihluti fyrir umsókn og meðan skoðanakannanir sýna slag í slag að meirihluti þjóðarinnar er andvígur umsókn. Sjá hér og hér og hér.

Ef frá er talin sterk staða Samfylkingarinnar hjá fjölmiðlum þá held ég að VG hafi miklu sterkari stöðu til samninga og kratarnir geri nánast allt til þess að vera ekki þvælt inn í stjórnarsamstarf með Borgarahreyfingu og Framsókn. 


Brussel er enginn mátunarklefi!

Eiríkur Bergmann er hvorki skoðanabróðir minn né neinn uppáhaldsfræðimaður en honum ratast mjög satt á blogg í dag þegar hann bendir á það sem við ESB-andstæðingar höfum löngum sagt;

það er ekki hægt að sækja um ESB-aðild nema að í landinu sé ríkisstjórn sem raunverulega vill inn í ESB. Annars er umsóknin einfaldlega ekki tekin til greina enda er Brussel enginn mátunarklefi. Það er þessvegna útilokað að ríkisstjórn Samfylkingar og VG geti sótt um aðild og því fyrr sem menn átta sig á því, því betra.

Sjá hér og enn frekar hér.

Hitt vita allir sem vilja vita að auðvitað geta Samfylking, Borgarahreyfing og Framsókn ekki myndað starfhæfa ríkisstjórn þannig að í raun og veru er það Steingrímur J. sem hefur öll tromp í hendi,- hvað sem fréttastofa Samfylkingarinnar segir.


OSB-stjórnin eðlilegur valkostur

RÚV og kratarnir hampa því nú mjög að ESB hafi unnið sigur í kosningunum og það væri þá eðlilegast að ESB-flokkarnir taki völdin. Jóhanna getur kallað það vinstri stjórn ef hún vill! VG og Sjálfstæðisflokkur færu þá saman í að leiða andstöðuna við ESB-aðild og yrðu firna sterkir í þeirri baráttu.

Ég er allavega ánægður með minn þingmann, Atla Gíslason, að hann skuli í hreinskilni benda Jóhönnu á að tala við aðra en VG um ESB-stjórn.

Hitt er svo annað mál að þessi túlkun á niðurstöðu kosninganna er auðvitað ekkert einhlít. Að minnsta kosti 5 af 9 þingmönnum Framsóknarflokksins fengu sig kosna á Alþingi út á það að þeir væru gallharðir ESB andstæðingar. Þetta eru þau Vigdís Hauksdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Höskuldur Þór Þórhallsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og formaðurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (sem talaði reyndar í báðar áttir.) Birkir Jón, Eygló og Guðmundur Steingrímsson eru einhversstaðar á óvissu róli í málinu en líklega má telja Siv sem eina örugga ESB-sinna flokksins.

Fjölmargir ESB-andstæðingar kusu líka Borgarahreyfinguna og liðlega eitt þingsæti féll milli skips og bryggju með atkvæðum Frjálslyndra. Þannig að þegar RÚV, ASÍ, VSÍ, SI og fleiri elítustofnanir tönglast nú á því að meirihluti kjósenda hafi með atkvæði sínu verið að segja, við viljum í ESB, þá er það beinlínis rangt.

Hitt er rétt að meirihluti kjósenda gáði ekki að sér á kjördag og kaus óvart yfir okkur flokka sem eru ótraustir í að verja fullveldið.


mbl.is „Ætti að leita annað miðað við áherslu á ESB-umsókn"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

OSB vann ESB sigur og er VG að linast!?

Það er vandalítið að fagna sigri í pólitík, það reynir fyrst á þegar orustur tapast.

Í nótt töpuðum við fullveldissinnar þessa lands einni orustunni og það kemur nú vel í ljós hvað ESB-samþykkt Framsóknarflokksins var afdrifarík. Sigmundur Davíð er varla vaknaður þegar hann byrjar að berja á VG að þeir verði nú líka að verða ESB sinnaðir.

Og það er því miður merki þess að Vinstri grænir muni gugni og svíkja bæði kjósendur sína og fullveldið fyrir ráðherrastóla. Ef það verður niðurstaðan skal ég viðurkenna að hafa kosið vitlaust, -þó ég viti ekki hvað ég hefði getað kosið annað!

En höfum eitt á hreinu, stríðið er ekki tapað þó að við höfum beðið lægri hlut í einni orustu. Ennþá benda allar tölur til að meirihluti þjóðarinnar vilji standa utan ESB og ekki leggja inn aðildarumsókn. Ég veit ekkert hvernig þeim þjóðhollu fullveldissinnum líður sem fyrir barnaskap kusu O og B lista í gær en þeir voru margir og mega skammast sín í dag.

Heiðvirt fólk setur ekki flokkshollustu ofar þjóðhollustu!


Er Ísland í þínu liði?

Í pólitík undanfarinna áratuga höfum við vanist því að spila í liðum, líkt og á íþróttamóti. Míns er betri en þíns af því að hann er grænn og aldrei skal ég flokkinn minn svíkja. Þetta er vitaskuld ekki mjög málefnalegt en afar mannlegt.

Utan að frá höfum við horft til þess að munurinn á flokkunum er frekar smáskitlegur og allt meira og minna sem sami grautur í sömu skál. En nú eru runnir upp alvarlegri tímar, fyrir framtíð barna okkar og barnabarna um ókomnar aldir.

Fámennur hópur hefur um langt árabil unnið að því að koma fullveldi og frelsi Íslands fyrir kattarnef. Krafan um að Ísland tilheyri miðstýrðu stórríki Evrópu hefur aldrei verið háværari og aldrei eins líkleg til að verða að veruleika eins og nú í kjölfar bankakreppu.

S+O+B=ESB

Að baki þessari kröfu eru margskonar ástæður og þar vegur þyngst ótti margra ESB-sinna við að Ísland einangrist og valdi ekki því hlutverki að vera fullvalda í veröld hákarlanna. Slíkur hræðsluáróður á greiðari leið að mörgum nú eftir að EES-samningurinn hefur hrundið af stað keðjuverkun í peningalegu hruni meðal landsmanna. Í þessari vanmetakennd er klifað á áróðri gegn íslenskri krónu og íslenskri hagstjórn. Vill þá gjarnan gleymast að hin íslenska króna hefur leitt Ísland frá því að vera fátækastir allra yfir til þess að verða eitt ríkasta land í heimi og Ísland mun halda þeirri stöðu jafnvel þó Icesave reikningarnir kæmu á bök okkar af fullum þunga.

Þrátt fyrir þetta hafa þrír af þeim flokkum sem nú bjóða fram til þings sammælst um að farsælast sé fyrir Íslendinga að leggja fram umsókn til ESB um að þeir yfirtaki stjórn mála í landinu. Ekki þarf lengi að skima um heimspressuna til að sjá að Evrópusambandslöndin eru þau lönd þar sem hagvöxtur er hvað lakastur og vaxtabroddar fáir. Ef þessir þrír flokkar, Samfylking, Framsókn og Borgarahreyfing ná meirihluta á Alþingi er líklegt að efnt verði til skyndibrullaups um stjórnarsamstarf sem hefði fullveldisafsal og innlimun í ESB efst á blaði. Þrír flokkar, Sjálfstæðisflokkur, Frjálslyndur og VG hafa lýst yfir andstöðu við ESB aðild en eru þó mislausir í rásinni.

Fullveldi ofar flokkshollustu

Þó svo að marga taki sárt að yfirgefa sinn gamla flokk er ástæða til þess að hvetja alla þjóðholla Íslendinga til að gæta að sér á kjördag. Setjum hollustuna við fullveldið ofar flokkshollustu og verum viss um að vera í liði með Íslandi.


Lýðskrumið í hæstu hæðum

Ætli Tryggvi Þór og Bjarni Ben. telji sig of góða til að lesa samflokksmann sinn Pétur Blöndal alþingismann sem skrifar ágætan pistil í Moggann í gær þar sem hann reynir heiðarlega að tala von í þessa þjóð og bendir réttilega á að ástandið er ekki nálægt því eins slæmt og lýðskrumsdeildir stjórnmálaflokkanna halda fram. Hægri flokkarnir sem fyrr meir stýrðu landinu fara nú mikinn í að halda því fram að

- landið sé nú alveg að fara á hausinn (þessvegna megi vinstri menn ekki stjórna) - sem er mikil rökleysa.

- öll heimili í landinu séu á heljarþröm og því verði ríkissjóður að gefa öllum pening, helst svona 20% eftirgjöf allra skulda. Ríkissjóður hefur aldrei verið verr búinn til að leika slíkan jólasvein og mikilvægt að nota þá litlu peninga sem til eru af mikilli varkárni.

- kratarnir aftur á móti halda stíft við að allt sé í rauninni í lagi bara ef við samþykkjum innlimun í evrópskt stórríki en því trúir nú enginn.

En semsagt, lesið grein Péturs, hún heitir Von og er góð lesning.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband