Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007
... þá hló marbendill!
30.1.2007 | 23:42
Marbendlar hlóu yfirleitt af meinfýsni og svoldið á maður að vara sig sjálfur á þessháttar hlátri. Ég get samt ekki varist því að mér er skemmt í þessari umræðu og tel hana samt snúast um háalvarlega hluti sem alltof lítið hefur verið talað um. Það er hvort viðurkenna megi að maður brjóti vísvitandi lög öðru hvoru eða hvort að maður eigi í lengstu lög að þegja um slíkt,- svona eins og forhertir kvennamenn gera þegar þeir eru staðnir að framhjáhaldi. Ég hallast að hreinskilninni, allavega þegar kemur að þessu með lögin. Ég þarf vonandi aldrei að hugsa um hitt.
Þetta snýst aðallega um skynhelgi (eða er það skinhelgi, ég veit það ekki). Ég held að það sé enginn svo vitlaus að halda að hann brjóti aldrei nein lög. Að minnsta kosti ætti ég erfitt með að treysta slíkum manni. Flestir brjóta einhverjar smá reglur, meðvitað eða ómeðvitað, en bera samt virðingu fyrir lögunum í heild. Hafa til dæmis keyrt um á bíl með bilað stefniljós eða drepið mink án veiðileyfis. En þó svo að allir geti verið sammála mér um þetta eru ótrúlega margir sem telja samt að vissar persónur samfélagsins verði að lifa á einhverju fjólublái astralplani þegar kemur að þessu. Og súpa svo hveljur yfir mætum mönnum eins og sjávarútvegsráðherra í lundaveiði, forsætisráðherra með bermúdaskál eða bandaríkjaforseta á kvennafari. Allt dauðans hégómi.
Einn bloggari sem hefur verið að skrifast á við mig hér í skeytunum spyr hvar ég vilji setja mörkin og hnýtir við að þetta snúist um virðingu fyrir lögunum ekki einhvern einn tiltekinn verknað. Ég get að vissu leyti skilið og tekið undir að þeir sem bjóða sig fram til Alþingis eigi að bera ákveðna lágmarksvirðingu fyrir lögum þessa lands. Með lögum skal land byggja og allt það. Ég tel mig líka vera fullkomnlega í þessum hópi og raunar töluvert snoppaður gagnvart fyrirbærum eins og lögum, fánum, faðirvorinu, íslensku krónunni og ýmsu öðru sem okkur er líka innrætt að bera virðingu fyrir. En ég geri mér grein fyrir að þetta eru mannanna verk og ekki til þess að fara á límingunum yfir. Og til guðs lukku held ég ekki að mörkin í minni hegðun stjórnist af lagafyrirmælum. Mörk mín og allra annarra siðaðra manna stjórnast af siðferði. Lögin eru svo meginreglur sem eru meðal annars sett til að fyrirbyggja árekstra og fá fram leiðir til að greiða úr þeim. Það er auðvitað svo að innan ramma þessara laga geta allskonar ódó þessa lands stundað andlegt ofbeldi, siðlaus viðskipti og almenn leiðindi. En það er allt siðlaust, - nema kannski leiðindin sem oft eru ósjálfráð.
Það fyndnasta í öllu þessu er svo að líklega er þetta upphaflega sprottið af misskilningi. Hið meinta lögbrot sem einhver bloggari benti hér á var það að ég hefði hjólað eftir fjöru þar sem enginn vegur er. En ég hef í þessu gert eins og svo margir aðrir jeppa- og hjólamenn að spæna í fjöruborðinu þar sem flóðið þurrkar út sporin. Nú ku það vera talið mikið vafamál að heimilt sé að banna umferð ökutækja um þetta fjörusvæði og einn sýslumaður hér skrifað um þetta mál lærða ritgerð þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að á þessu svæði megi keyra öll skráð ökutæki og nánast hvernig sem er...
ps. enn eitt blogg barst mér í framhaldi af þessu sem endar í já/nei spurningu, bara svo það sé á hreinu að svarið við þessari spurningu er já. (nema hvað sjávarútvegsráðherra þurfti ekkert að þræta fyrir að þetta hafi verið lögbrot enda á maður alltaf að segja satt en hann átti alls að hengja haus yfir því eða viðurkenna rétt manna til að tala um þetta eins gert var - maðurinn var að drepa nokkra fugla sér til matar... já bloggið sem ég er hér að svara er svohljóðandi:
"Skýrustu dæmin um þetta í seinni tíð eru Einar Guðfinnsson lundabani annarsvegar og kvennaljóminn Clinton hinsvegar. Hvorugur gerði nokkuð það af sér sem orð var á gerandi en voru samt báðir svo aumir að hengja haus. Það var ljótt."
Ertu virkilega að segja mér það Bjarni, að þér finnist allt í lagi að brjóta lög?? Þá er ég auðvitað að vitna í ólöglegar veiðar Einars K. Guðfinnssonar.
"Það er alltaf ljótt að beygja sig fyrir heimsku."
Ertu hér með að segja að það hafi verið bæði lélegt af honum að viðurkenna lögbrot og ertu einnig að segja að ég og margir séum "heimskir" fyrir að hafa staðið upp á afturlappirnar og andmælt þessum veiðum?
Aftur, já ég er að segja það... - en þú sem fórst á afturlappirnar (merkilegt) yfir þessum lundum, fannst þér þá í lagi hvernig heimsbyggðin lét yfir ástarleikjum Clintons og Moníku... - bara svona til að geta haldið áfram í röfli um einskisverða hluti!
PPS: Þetta með heimskuna - ég tel þetta hafa verið heimskulæti að amast við títtnefndum lundum,- það er ekki þar með sagt að ég telji þig, sem ég ekki þekki eða aðra sem komu að þessu heimska. Greindasta fólk er oft uppvíst að ótrúlegri heimsku enda bæði greindin og heimskan með flóknustu fyrirbærum mannlífsins...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Veiðileyfi á mig, enda af nógu að taka!
30.1.2007 | 00:39
Hluti af því að gefa sig í stjórnmál er að verða allra skotspónn. Komast í almannaeigu.
Þó svo að það þurfi veiðikort til að skjóta svartfugl og máv og enginn megi lengur drepa sér álft til matar skulu stjórnmálamenn án kvóta. Þingmenn og ráðherrar hafa látið þetta yfir sig ganga og lúbast undan eins og barðir hundar. Eins og það sé þeirra aðal að hneigja sig fyrir vitleysum. Skýrustu dæmin um þetta í seinni tíð eru Einar Guðfinnsson lundabani annarsvegar og kvennaljóminn Clinton hinsvegar. Hvorugur gerði nokkuð það af sér sem orð var á gerandi en voru samt báðir svo aumir að hengja haus. Það var ljótt. Það er alltaf ljótt að beygja sig fyrir heimsku.
Sjálfur get ég nú varla talist stjórnmálamaður en samt finnast þeir margir sem hafa á mig sjálfskipað veiðileyfi. Þannig sagði ég í gær í sakleysi af því að ég hefði farið, eins og barn, út að leika mér. Tryllt og tætt á 600 kúbika mótorhjóli og reyndar í ofanálag leyft fötluðum syni mínum próflausum að gera það sama.
Viðbrögðin létu ekki á sér standa og mér bárust hér á bloggsíðunni allrahanda skammir. Aðallega á þeim nótum að svona menn gætu nú ekki farið á Alþingi, svona lögbrjótur.
Ég vil nú fyrst til að fyrirbyggja allan misskilning koma því skýrt að, að það er auðvitað lygi að allir torfæru mótorhjólamenn séu landníðingar eins og margir bloggarar halda og það er líka lygi að ég hafi í þessari ferð gerst stórkostlegur lögbrjótur. Ég ek ekki utan vega á þessu hjóli nema hvað ég fer þar sem ég kem því við eftir sjávarsöndum, t.d. á Eyrarbakka, Þykkvabæ og Hraunsskeiði. Ég ek ekki utan vega innan sandgræðslu á þessum stöðum en það eru vegir um þessar sandgræðslur. Og ég ek ekki um viðkvæm fuglafriðlönd á varptíma en ég ók eftir vegum í kríuvarpinu á Eyrarbakka í gær. Krían er farfugl og ég taldi litlar líkur á að hitta hana fyrir í janúarmánuði.
Eitt enn: Ég ek á torfæruhjóli og hef gert lengi. Þetta er ekki krossari og þessvegna ekki ekið innan afmarkaðra keppnissvæða. Hjól sem þetta er ferðatæki líkt og fjallajeppar og á því fer ég þvers og kruss um landið. Ég hef lengi talað fyrir bættri umferðarmenningu hjólamanna og mun gera áfram. Ég hef líka lengi talað fyrir auknu umburðarlyndi í samfélaginu sem er á hröðu undanhaldi eins og athugasemdirnar sem ég fékk í gær eru gott dæmi um.
En ég er oft lögbrjótur og ég ætla samt á Alþingi. Til dæmis leyfði ég syni mínum að aka hjólinu í fyrsta gír undir minni tilsjón eftir öruggum vegi á mjúkum sandi. En ég veit að það er lögbrot. Svona svipað eins og það að drepa lunda án þess að hafa veiðileyfi,- sem ég myndi gera ef svo stæði á. Hef reyndar haft mjög gaman af lundadrápi þó ég hafi ekki komist í það lengi.
Ég er einfaldlega ekki trúaður á öfga þegar kemur að því hvað sé löglegt og hvað sé ólöglegt. Í torfæruakstrinum á ég til dæmis til að aka á meira en 90 á sléttum sandvegum. Það kemur líka fyrir að ég snúi við bíl án þess að setja á mig belti. Og svo á ég til að ganga yfir götu án þess að það sé þar gangbraut. Er líka latur að taka til og skipti sjaldan um sokka. O.s.frv. O.s.frv.
Bara eins og venjulegur maður. Ég er venjulegur breiskur maður. Kannski óvenjulega breiskur meira að segja því að ég reyki, ég safna spiki, ég skila skattframtalinu alltaf of seint og það kemur fyrir að ég hugsi girndarlega um alls óviðkomandi og þroskaðar konur. Svo er ég í tilbót trúlaus og fer aldrei svo mikið sem í anddyri á leikfimihúsum.
Ég man ekki hvað ég get talið fleira en ef það er ætlun hæstvirtra kjósenda að ekki skuli aðrir en vammlausir menn fara á Alþingi þá er ég ekki rétti maðurinn. Það getur vel verið að þessir vammlausu menn séu til einhversstaðar en það hefur ekki verið sannað. Flestir þeirra sem taldir eru vammlausir reynast undir smásjá lygarar og sumir segja að summa lastanna hjá okkur sé jöfn!
En jafnvel þó til væru 63 vammlausir menn í landinu, 100% löghlýðnir og sléttgreiddir þá efast ég um að það séu alveg réttu mennirnir á Alþingi Íslendinga. Aðallega vegna þess að þá verður nú ósköp leiðinlegt þar.
Og guð forði okkur frá því að þeir snillingar sem höfuðsátu mig fyrir mótorhjólaferðina komist svo mikið sem niður á Austurvöll því engir eru leiðinlegri en það lið sem skortir umburðarlyndi. Það er einmitt þessi skortur á umburðarlyndi sem notast þegar við reykingamenn, hjólamenn og aðrir tilfallandi eineltishópar erum reknir út og suður. Svo er það þessi sami skortur á umburðarlyndi og jákvæðni sem mestu veldur um vandræði og óhöpp í umferðinni, kröfugerðar og hlutafrekju í samfélaginu og yfirleitt fjölmörgum öðrum leiðindum í lífi okkar allra.
Og ég veit að þetta lið - ef það er enn að lesa - gnístir nú tönnum og hugsar,- dettur honum í hug að lögbrjótur geti setið á löggjafarsamkomu. Það eru jú alþingismenn sem samþykkja lögin. Þeir hinir sömu geta þá ekki leyft sér að brjóta þau. En þetta er nú álíka vitlaust og að tannlæknar megi ekki borða nammi, eða leirkerasmiðir brjóta disk.
Og reyndar vitlausara því það er einfaldlega pólitísk afstaða sem ræður því hversu miklir laga- og reglugerðarþrælar við viljum vera. Ég er sjálfur afskaplega svag fyrir einhverskonar viturlegu framsóknarlegu blandi af skynsemi og anarkisma. Og ég ætla að verða stjórnmálamaður sem alltaf tekur sér sjálfskipað skotleyfi á alla þá sem fara að mér með leiðindum og nöldri. Og hana nú!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Hjólað í vatni
29.1.2007 | 02:26
Góður dagur og fyrsti almennilegi frídagurinn í langan tíma. Fór á ströndina - hljómar ótrúlega sólarlandalegt - en við Magnús sonur minn fórum semsagt í fjöruna á Eyrarbakka og lékum okkur á torfæruhjólinu. Ferðina endaði ég svo með því að strauja eftir Hraunsskeiði og Skötubót á 100 km hraða í geðveikri rigningu. Það er ótrúlega góð tilfinning að leika sér á mótorhjóli niðurrigndur og hamingjusamur.
Eitthvað var hamingjan samt að skríða frá mér þegar ég horfði á sjálfan mig í sjónvarpinu í kvöld því þó þátturinn hafi verið góður stakk það mig illa að Jón Ársæll skyldi taka upp það sem ég sagði um Kolbrúnu frænku mína. Það var samt allt satt og rétt en stundum má satt kjurt liggja og ég get engum nema sjálfum mér um kennt að hafa verið að blaðra þetta. Hitt sem sagt var um mína eigin brennivínsnáttúru mátti vel koma fyrir almenning. Ég vil ekki eiga nein leyndarmál þar. En í heildina var þátturinn góður og Jón er frábær í að byggja upp skemmtilega stemmningu á mörkum gamans og alvöru. Það er nefnilega engin alvara góð nema henni fylgi eitthvað gaman og gamanmál án alvöru ná ekki almennilega máli.
Dagarnir hafa verið viðburðaríkir í pólitík og ekkert leyndarmál að þriðja sætið tók á samstöðu okkar Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi. Ég er eftirá stoltur af því að hafa þar staðið með eigin sannfæringu sem var að við hefðum ekki leyfi til að láta kné fylgja kviði í þeirri baráttu sem átti sér stað um sætin. Úthlutun á þessum lausa stól til þeirrar mætu Njarðvíkurkonu Helgu Sigrúnar Harðardóttur er farsæl lausn í anda þeirrar sáttahyggju sem einkenna á okkar góða flokk. Og viðbrögð Eyglóar að þeim leik loknum aðdáunarverð og drengileg.
Semsagt, eins og sá vísi Altúnga sagði jafna, það er rangt að segja að allt sé í lagi, það rétta er að allt er í allrabesta lagi.
Ps. Myndin hér að ofan er ekki úr ferðinni í dag heldur af hjólavinum mínum við Laka í sumar í ótrúlega skemmtilegri rigningu, f.v. Loftur, Hrafnkell, Guðmundur, Loftur yngri og Baldur en þeir voru allir fjarri góðu gamni í dag en eru yfirleitt miklu duglegri en ég á hjólunum...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Hvalveiðimisskilningur
25.1.2007 | 23:59
Ég veit ekki nema það sé misskilningur hjá Íslendingum að veiða hvali. Góðu fólki í útlöndum þykir ljótt af okkur að vera að þessu. Sér í lagi Bretum og Könum sem eru upp til hópa gott fólk og gerir yfirleitt ekki flugu mein. Ekki nema þá þeim vondu.
Það er reyndar allt í lagi að pína hænsnfugla, svín og annan búsmala, murka lífið úr fiskum og hérum úti í náttúrunni og binda enda á líf allskonar villidýra suður í heimi. Að þessu slepptu eru allir góðir við alla sem eru góðir og eiga það skilið. .
Ef einhver er vondur er það auðvitað skylda hvers manns að vera vondur á móti og skylda lýðræðissinna að fylgja því eftir. Vonda og ókristilega menn má sprengja og drepa og alla þá sem samneyta þeim, alla frændur þeirra, mæður og börn. Að ekki sé talað um geitfé þessa arma fólks. Heima fyrir má líka beita vont fólk hörðu. Dauðarefsingar og fangabúðir henta ágætlega enda alveg öruggt og yfir allan vafa hafið að gott fólk beitir ekki slíku nema á vont fólk. Annars væri það ekki gott og vonda fólkið ekki vont.
En það er einmitt þarna sem misskilningur hvalveiðanna liggur. Skeiðamaður einn, vinur minn benti mér á grundvallaratriði þessa máls um daginn. Okkur hefur semsagt láðst að segja útlendingum að hvalir eru vondir. Regluleg ódó og heiðnir í þokkabót. Vissulega vitskepnur en nota gáfur sínar til ills. Það þarf ekki annað en að útskýra fyrir útlendingum nöfnin á þessum slepjulegu ólýðræðislegu kvikindum. Náhvalur sem er beinlínis hvalur dauðans. Háhyrningar sem heita reyndar Killer whale í útlöndum. Blettahníðir sem á ef til vill að vera blettaníðir eða hvalur sem fer um með níði og róg. Grindhvalur, vitaskuld af því að hann á heima bakvið rimla og slár. Skíðishvalir sem ekki þarf um að tala eins og mörg illmenni sögunnar hafa náð að forða sér á skíðum. Nægir að vísa þar til Bond mynda fyrir þá sem eru ekki sögufróðir.
Sem kunnugt er lifa hvalir í sjó. Þar lifa líka önnur og smærri dýr. Nú mætti ætla að vitskepnur þessar bæru virðingu fyrir lífi og borgaralegum réttindum þessara meðbræðra í undirdjúpunum. Virtu lýðræðislegan rétt fiska og skeldýra. En því fer fjarri. Hvalir hafa sést fremja miskunnarlaus fjöldamorð með kjaftinum einum saman. Hvalir eru í þessum efnum nauðalíkir morðóðum hryðjuverkamönnum sem fela sig í fjöllum í Afganistan og öðrum vondum bælum þessa heims. Það má með sanni segja að þar hæfi kjaftur skel í samlíkingu skíðishvala við Osama bin Laden og hans illa hyski. Báðir eru langleitir og toginleitir í útliti, skíðishvalurinn og Ósami, klæddir svörtum kuflum og tala tungu sem enginn skilur. Báðir eru af ætt spendýra og báðum getur skolað upp á strandlengjur okkar fagra lands.
Með þessu er ég ekki að segja að við getum réttlætt hvalveiðar eins og þær eru stundaðar í dag enda engin ástæða til. Við getum aftur á móti dæmt þessa morðóðu fjandmenn lýðræðisins í heiminum til dauða. Einn fyrir alla og alla fyrir einn. Skipað svo Kristján Loftsson sem yfirhershöfðingja í sérstakri aftökusveit til varnar hinu vestræna og góða samfélagi. Hver sá sem hefur uppi efasemdir um að ódó þessi séu elt uppi og drepin er óvinur vor.
Frábær þjóðlendufundur
25.1.2007 | 23:58
Hélt ég væri framsókn...
23.1.2007 | 20:43
Ársæll Þórðarson bað mig að vera sjálfstæðan Íslending. Og auðvitað gat ég
ekkert sagt nema já og er síðan búinn að vera eins og ofurmódel í tvo daga.
Vantaði bara að tökumaðurinn Steini væri með okkur Elínu í rúminu í gærkvöldi.
Eða vantaði eiginlega ekkert upp á það því þeir félagar náðu mér á brókinni í
morgun. Munaði engu að allt kæmi í mynd - þá værum við að tala um áhorf sagði
Jón Ársæll í grallaraskap. En ég átti hreinlega bágt með svefn í gærkvöldi fyrir
hausverk sem ég veit svosem ekki alveg hvaðan kom en hann er farinn núna.
Líklega ofhitnun því ég hugsaði í kaffitímanum þennan dag. Allavega þar sem ég
barðist við að sofna og gætti þess að hugsa alls ekki um pólitík gerðist það sem
einstöku sinnum gerist og er mér alltaf frekar hvumleitt. Elín tók að hrjóta.
Eftir að hafa snúið þessari yndislegu konu minni tvisvar ákvað ég að ekki væri
annað að gera en fara í stofuna og svaf þar draumlausum svefni frá 3 til 10. Þá
var barið dyra og sjónvarpsmenn komnir. Elín fór til dyra en ég varð að
skáskjóta mér framhjá drengjunum upp á loft því úr stofunni var engin önnur leið
að lörfunum mínum. Hjálpar að ég er ekki spéhræddur. Dagurinn fór svo í að
heimsækja æskuslóðir, þvælast með Þjórsá og endaði í kaffi í Heiðarbrúninni hjá
foreldrum mínum þar sem móðir mín kvað upp úr með að Rósa amma hefði spáð mér
því ófæddum að ég yrði ekki mjög rólegur. Man ekki að hafa heyrt það áður en
amma mín hefur auðvitað vitað lengra nefi sínu...
Takk, takk, takk, takk, takk, takk, takk
21.1.2007 | 23:34
svona var vinur minn Ólafur Ketilsson á Laugarvatni sem sagði þetta hvellt
og svoldið eins og hamarshögg á hörðum steðja. Það fylgdi því notalegt bland
af hrissingi og hlýju. Takkið sem mig langar að segja á þessari stundu er
allt öðru vísi. Lágt, einlægt, auðmjúkt og titrandi en samt þannig að
heyrast. Ég er ekkert viss um að kunna að segja það eins og ég vil að það
heyrist, svoddan strigi sem ég er. En eftir svona úrslit er maður eins og
opin und í þakklæti og auðmýkt, stoltur en samt smár. Stoltur af því að eiga
svo marga að en líka smár gagnvart öllu því trausti og þeim væntingum sem
því fylgja. Sigurinn er ekkert bara minn enda á ég hann ekki einn. Hann er
allra þeirra sem lögðu á sig ómælt erfiði í hringingum og fortölum. Ekki
trúi ég að þetta fólk hafi gert það fyrst og síðast til að hampa mér, enda
væri það til lítils. Ég vil trúa að þetta hafi verið gert fyrir þá pólitík
sem ég hef talað fyrir - þær áherslur sem ég tel mestu skipta í komandi
endurreisn Framsóknarflokksins.
En ég er að verða svo væminn og leiðinlegur að engu tali tekur. Systir mín
hnoðaði saman vísu eftir að hafa heyrt af úrslitunum og lesið hér á síðunni
af bauli Þorgeirsbola sem kom eins og fyrirboði hinna stóru tíðinda...
Boli söng sitt sigurljóð
er Bjarni sigraði slaginn.
Happafengur verður þjóð
til hamingju með daginn!
Og semsagt T A K K .
Þorgeirsboli fyrir stórtíðindum!
21.1.2007 | 23:34
Rumskaði millum draumfara og hlandsprengs rétt að ganga fjögur í nótt. Það sem samt ruskaði mér úr draumalandinu var forvitnin því úti fyrir í vetrarnóttinni heyrði ég langdregið baul. Eilítið dimmraddað en aðallega ógnarlega langt og kveðandinn svolítið rámur eins og af elli. Vinalegur en samt uggandi tónn.
Ég reif mig því úr mókinu og hausinn af koddanum en heyrði þá ekkert nema bílhljóð af Austurveginum inn um opinn svefnherbergisgluggann.
Baul sem þessi hafa nokkrum sinnum heyrst á seinni öldum eða allt frá því fyrst spurðist til hins mikla Þorgeirsbola. Baul hans þykja boða stórtíðindi. Þegar hann baular illskulega getur það verið fyrir hafís, mannfelli eða rosa. En vinalegt baul eins og þetta hefur miklu heldur verið fyrir hvalreka, góðu strandi eða gestakomum.
Engum sögum fer af því í fornum skræðum að boli þessi hafi baulað fyrir sigri í prófkjörsbaráttu en einhverntíma er allt fyrst...
Fjölmennum og fögnum
21.1.2007 | 16:36
Það er óneitanlega skrýtið að kosningabaráttan skuli búin. Og enn skrýtnara að vita ekki neitt fyrr en klukkan 6 í dag. Það er mikilvægt að við fjölmennum hjá kjörstjórninni í dag og tökum við tölunum í hópi öflugra stuðningsmanna. Slík stemmning getur hjálpað okkur mikið í því að halda uppi öflugri framsóknarsveiflu fram á vorið - og ekki mun af veita.
Semsagt mætum sem allra flest í Hóteli Selfoss um hálfsex í dag!
Lokasprettur - allir með!
19.1.2007 | 17:16