Bloggfærslur mánaðarins, október 2007
Vestmannaeyjar: Rúgbrauð og rjómi í rigningunni
30.10.2007 | 17:58
- En ég á rjóma,- sagði heiðurskonan Guðbjörg Sigurgeirsdóttir sem er allt í senn blaðakona, framsóknarkona og Tungnakona þannig að betri getur blandan ekki orðið.
Samtalið átti sér stað inni á ritstjórn Frétta þar sem 8. þingmaður Suðurkjördæmis stóð blautur, hrakinn og hamingjusamur eftir volk í alltof stuttum og hægfara Herjólfi. Erindið er stjórnmálafundur í Eyjum í kvöld og upphaflega ætlaði ég að fljúga frá Bakka en varð að snarhætta við það vegna veðurs og snarast í hasti af miðjum fjárlaganefndarfundi í morgun til að ná ferjunni frá Þorlákshöfn á hádegi.
Svart kaffi gerir vissulega sitt gagn en samt skárra að fá í það mjólk en slíkan munað var ekki að finna á ritstjórn vina minna á Fréttum. Svo lifnaði yfir Guðbjörgu þegar hún mundi eftir rjómalögginni sem er auðvitað margfalt betri kostur og bætti samt um betur:
- Svo á ég rúgbrauð,- restin af nestinu mínu. Þá er þetta orðið alveg eins og í gamla daga. Þú hlýtur að vera svangur eftir siglinguna.
Sem ég var þó ég fyndi það ekki almennilega fyrr en ég byrjaði á kaffinu. Líkaminn allur var hálfvegis þaninn og vitlaus eftir einhverja þá svakalegustu siglingu sem ég hefi lent í. Veðurofsinn slíkur að öðru hvoru var eins og barið væri með sleggju í kinnunginn utan við kojuna og svefninn hálfvegis slitróttur.
Mest blöskraði mér samt verðið. 4000 krónur fyrir að koma einum bíllausum kalli yfir sundið. Dýr tollur fyrir þá sem búa hér....
Um REI málið, spillingu og Framsóknarflokkinn
29.10.2007 | 10:22
Harkaleg umræða um málefni Orkuveitu Reykjavíkur og útrásarfyrirtækja er nú ítrekað beint í þann farveg að málið komi Framsóknarflokki sérstaklega við. Því til sönnunar er bent á að 2,2% af hlutafé hins nýja REI fyrirtækis séu í eigu félags sem nokkrir Framsóknarmenn eiga aftur hlut í, þar á meðal einn fyrrverandi ráðherra flokksins.
Hér verður ekki lagt mat á það hvort um réttmæta viðskiptahætti þessara manna hafi verið að ræða enda er það málefni til umfjöllunar á formlegum vettvangi m.a. með aðkomu dómstóla og umboðsmanns Alþingis. Hitt er allrar umhugsunar vert hvort aðkoma þessara manna geri málið tengdara Framsóknarflokki heldur en öðrum flokkum.REI menn eru úr mörgum flokkum!
Það er alveg ljóst af fréttum liðinna daga að meðal eigenda að hinu nýja félagi eru margir menn tengdir öðrum stjórnmálaflokkum en Framsóknarflokki og flestir þeirra auðvitað Sjálfstæðisflokki enda er hann stærstur allra flokka. Tvö af um tuttugu til þrjátíu nöfnum athafnamanna sem hafa komið upp á yfirborðið í málinu tengjast Framsóknarflokknum. Það er sambærilegt hlutfall og væri í slembiúrtaki meðal þjóðarinnar, m.v. skoðanakannanir Gallup.
Eru öll umferðarslys Kópavogsbúum að kenna?
Raunar er þessi fréttamennska sambærileg því ef að við alla umfjöllun um umferðarslys væri tekið fram ef einhver viðkomandi slysinu væri búsettur í Kópavogi en þar býr nú tæplega tíundi hluti landsmanna. Með því að tilgreina svo aldrei búsetustað annarra sem lenda í umferðarslysum fengi þjóðin fljótlega þá mynd að umferðarslys væru aðallega íbúum í Kópavogi að kenna, einfaldlega vegna þess að þeirra þáttar væri getið í að minnsta kosti tíundu hverri slysafrétt og aldrei talað um íbúa annarra hreppa. Umfjöllunin um Framsóknarþátt REI málsins einkennist þannig af ákveðinni krossferð og þjónar þeim tilgangi fyrst og síðast að festa í sessi ómaklegan spillingarstimpil á orðspori Framsóknarflokksins. Víst er reiði Sjálfstæðismanna gagnvart borgarstjórnarflokki Framsóknar mikil en réttlætir samt engan vegin þessi vinnubrögð.
Óháð stofnunum flokksins
Þegar horft er á þátt einstakra stjórnmálamanna hafa menn á vegum Framsóknarflokksins vissulega komið að þessu máli en þá má það ekki gleymast að þeir hafa komið að því beggja vegna. Annarsvegar sem gerendur með samstarfsflokki og nú samstarfsflokkum í borgarstjórn. Og hins vegar sem gagnrýnendur en þar hafa bæði formaður flokksins, varaformaður og sá sem hér ritar talað mjög skýrt. Talsvert skýrar reyndar heldur en forysta Sjálfstæðisflokks. Málið sjálft varð einnig til án hlutdeildar formlegra stofnana Framsóknarflokksins.
Ég mun á næstunni fjalla nánar um Framsóknarflokkinn, sögu hans og almennan áróður um spillingu þess flokks.
(Birt í Morgunblaðinu 26. okt. 2007 - Myndin er af umferðarslysi í Kópavogi. Ef því alltaf væri tekið fram þegar Kópavogur og menn þaðan kæmu við sögu umferðarslysa en önnur sveitarfélög ekki nefnd á nafn í slíkum slysafréttum fengi þjóðin fljótlega þá mynd að umferðaslys væri öll Kópavogsbúum að kenna. Slík er aðferðafræði þeirra sem vilja gera nafn hins gamla og góða Framsóknarflokks sem óhreinast. Myndin er tekin af einum af betri ljósmyndavefum netsins, steinar.is, en ljósmyndari þar er Steinar Hugi,- hnuplað þar en reyndar ekki að sjá að lagt sé bann við því á vef þessum - biðst annars forláts!)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Þegar litla systir varð júristi og Birna Þórðar fór í splitt en Lolla söng
28.10.2007 | 15:04
Laugardagskvöldið var viðburðaríkt. Við hjónakornin lentum á miklu Reykjavíkurrandi þar sem Kristín Þóra systir mín bauð til útskriftarveislu en hún fagnar því nú að hafa lokið sínu þriðja og mesta framhaldsskólaprófi og er ofan á garðyrkjumenntun og heimspeki orðin lögfræðingur frá HÍ. Fjölmenni var í Skipasundinu af þessu tilefni og veislan öll gjörð af mikilli snilli.
Nú bíðum við afkomendur Sæmundar í Garðsauka þess að júristi ættarinnar taki upp þau dómsmál sem þessum málaferlaglaða forföður auðnaðist ekki að klára...
Eftir Kristínarteitið lá leið okkar Elínar í fimmtugsafmæli Hrannar Hafsteinsdóttur sem er bæði Þykkbæingur og Kjarnhyltingur. Að öðrum ólöstuðum átti ég fáa ef nokkra eins liðsmenn í kosningabaráttu liðins vetrar eins og Kjarnholtahjón Jón Inga og Hrönn. Þetta var reyndar í annað skipti sem ég mætti í þetta afmæli en mér og okkur Elínu tókst að toppa eftirminnilega eigin fánahátt fyrir viku síðan þegar við mættum galvösk í afmæli þetta viku of snemma! Samt eitthvað sem er eiginlega undarlegra að ég skuli ekki hafa lent í fyrr,- jafn viðutan ég get verið. En teitið var semsagt haldið í gær og mikið fjör. Meðal góðra gesta þar var Birna Þórðardóttir byltingarkona sem sló í gegn með því að fara í splitt fyrir afmælisbarnið.
Enduðum svo á balli hjá Lollu og hennar Heimilisvinum í Iðnó, - eða eiginlega forleik þess balls því heldur komast borgarböll seint í gang fyrir sveitamenn sem vilja komast snemma í bólið...
Af réttlæti og samanburði í neytendamálum - pistill fyrir EKG
22.10.2007 | 23:02
(Bolvíkingurinn Einar Kristinn Guðfinnsson bað mig að skrifa pistil á síðu sína í dálk þar sem heitir önnur sjónarmið. Afrit birt hér. Veit svosem ekkert hvort sjónarmið okkar Einars eru svo ólík á öllum sviðum, allavega líkaði mér ágætlega við margt sem er að finna á vel uppsettri heimasíðu ráðherrans - og er að vona að við séum ekki mjög ósammála þegar kemur að landbúnaðarmálum.)
Mér er heiður að því að fá að skrifa pistil á heimasíðu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og þykir við hæfi að víkja hér að klassísku deilumáli í íslenskum stjórnmálum undanfarinna áratuga sem snertir landbúnaðarpólitíkina. Verði á matvælum.
Í áratugi hafa reglulega orðið rokur í dægurumræðunni vegna þess að matvælaverð á Íslandi er hærra en víðast hvar annarsstaðar. Í því hlýtur að vera fólgið mikið óréttlæti, segja krossfarar lýðskrumsins og eiga jafnvel til að koma með patentlausnir eins og þær að við göngum í einhver samtök eins og Evrópusambandið og þar með muni matvælaverð sjálfkrafa lækka í landinu.
Göngum í Afríkusamband frekar en ES
Ég ætla að taka röksemdafærslurnar hér á eftir að hætti þess mælska Vestfirðings Jóns Baldvins Hannibalssonar í fyrsta lagi, öðru lagi og þriðja lagi.
Í fyrsta lagi þá er Evrópusambandið ekki það ríkjabandalag þar sem meðaltals matvæla er hvað lægst. Það er mun lægra í Einingasambandi Afríkuríkja og raunar ekkert fullvíst í því að okkur yrði meinað að ganga í það félag fyrir það fólk sem heldur að verðlag fylgi félagsaðild.
Í öðru lagi þá er ekkert opinbert verðlag til innan Evrópusambandsins heldur er matvælaverð þar mjög mismunandi rétt eins og allt annað. Meira að segja vextir eru misháir innan Evrópusambandsins,- okurháir á Írlandi miðað við Þýskaland o.s.frv.
Verðlagning og réttlæti
Í þriðja lagi og það er aðalatriði málsins þá er hátt verðlag á Íslandi ekki rakið til óréttlætis í hagkerfinu hér heima heldur til réttlætis. Ef við gefum okkur að við viljum hafa sama verðbil milli matar og annarra verðþátta þá erum við um leið að gefa okkur að það ríki meira réttlæti í hinum meintu samanburðarlöndum. Svo er alls ekki.
Tómatar í Evrópusambandslöndum eru framleiddir af gestaverkamönnum úr Austantjaldslöndum sem búa í gámum og afgreiðslufólk í stórmörkuðum í Þýskalandi hefur mikið lakari kjör heldur en afgreiðslufólk í Bónus á Íslandi, sem þó eru ekki til að hrópa húrra yfir. Störf í matvælaiðnaði hérlendis eru bág en þó til muna skárri en víðast í Evrópu. Svo mætti áfram telja.
Þegar lýðskrumsmenn fara fram með endalausar kröfur um lægra verð á þeim varningi og þeirri þjónustu sem veitt er af láglaunafólki þá er það ekki krafa um betri kjör alþýðunnar heldur einfaldlega verri. Samanburður við önnur lönd sýnir okkur að því lægra sem verð á nauðsynjavörum er því verri eru kjör hinna lægstu. Almennt er það vitaskuld svo að því hærri sem þjóðartekjur eru á hvert mannsbarn því hærra er verð nauðsynjavara og því betri eru kjör almennings. Norðurlöndin í samanburði við aðra heimshluta sanna þá kenningu ágætlega.
Fyrirmyndir í heiminum
Við höfum líka dæmi þar sem saman fer lágt verðlag nauðsynjavöru, viðunandi þjóðartekjur á mann og hörmuleg kúgun og eymd hinna lægstu í samfélaginu. Bestu dæmin um þetta eru mörg velmegandi olíuríki en sömu tilhneigingar gætir raunar víða í Bandaríkjunum þar sem vaxandi fjöldi lifir við kjör langt utan alls velsæmis, þrátt fyrir hagvöxt og góðar meðaltekjur. Í þessum löndum hafa læknar og verkfræðingar margföld laun við það sem tíðkast á Íslandi.
Baráttan við verðlagið kemur hástéttinni og öllum í efri millistétt vel enda getur hið raunverulega markmið aldrei verið annað en að auka stéttskiptinguna. Af öllum fyrirmyndum í heiminum eru það einmitt lönd eins og Noregur og Ísland sem helst geta verið til fyrirmyndar og okkur ber þessvegna að standa vörð um þetta réttlæti en ekki að berjast hér fyrir ranglæti.
Lýðskrumarar í öllum hornum
Sú spurning sem við hljótum að spyrja er hvaða verði viljum við kaupa það að fá hér lægra verð nauðsynjavöru og fyrir hvern er sú barátta háð. Það hefur margoft verið bent á að í láglaunaríkjum, t.d. við Miðjarðarhafið, þar sem matvælaverð er mun lægra en hér á landi eyðir almenningur jafn stórum hluta tekna sinna til matvælakaupa eins og á Íslandi og í Noregi. Munurinn er sá að aðrar þarfir eru mun líkari Íslandi í verðlagi sem þýðir að sama fólk þarf að vinna mun fleiri vinnustundir fyrir þeim þörfum heldur en það þyrfti við sömu vinnu á Íslandi. Í mínum huga er það undarlegt sambland af lýðskrumi og heimsku þegar baráttu verkalýðssamtaka fyrir kjörum hinna lægstu er með þessum hætti beint gegn búðafólki og bændum.
Fyrir hófsaman landsbyggðarþingmann, eins og eiganda þessarar heimasíðu, sem fær það erfiða hlutverk að vera landbúnaðarráðherra í ríkisstjórn sem styður sig við frjálshyggjumenn og evrópukrata er mikilvægt að hafa þessi sannindi í huga og standa fast á verði gagnvart heimskunni sem stundum flæðir að okkur úr öllum áttum eins og sósurnar sem flæddu að honum Þórbergi Þórðarsyni forðum tíð, bæði austanað og vestanað.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Íslandi allt á aldarafmæli Ungmennafélags Íslands
20.10.2007 | 18:09
(Ungmennafélag Íslands er 100 ára í dag og haldið var upp á afmælið á Þingvöllum í morgun þar sem saman voru komnir framámenn hreyfingarinnar, forseti Íslands og fleiri gestir. Ég flutti þar stutta ræðu og hafði svo mikið við að skrifa hana áður - læt hana fylgja hér til gamans. Eins og svo margt sem ég skrifa ekki til birtingar allt með litlum stöfum...)
ísland ögrum skorið,
eg vil nefna þig
og blessað hefur yfir mig
fyrir skikkun skaparans.
Vertu blessað, blessi þig
blessað nafnið hans.
það er við hæfi hér að rifja upp kveðskap eggerts ólafssonar.
ekki vegna þeirra sérkennilegu og pólitísku skoðana sem eggert ólafsson hafði á þingvöllum og umhverfinu hér en hann lýsir á einum stað þeirri skoðun sinni að þingvellir séu afskaplega og frámunalega ljótur staður, næstum eins hræmulegur og mývatnshraun sem þó tók öllu öðru út í okkar kalbrunna landi.
ég segi að þetta hafi verið pólitísk skoðun skáldsins, 18. skáldsins sem dó alltof ungur og það er ekki nóg með það. þetta er pólitísk sýn framsýnna manna á 18. öld, litlir neistar búauðgistefnunnar og forrómantíkur en um leið kannski fyrsti neisti ungmennafélaganna. já, forrómantíkur sem sá landið í björtum en líka matarlegum litum. það er ekki matarlegt á þingvöllum og hefur aldrei verið,- ekki einu sinni áður en ölkofri brenndi hér skóginn í ölhitun sinni fyrir miðaldamenn. forrómantíkin og búauðgistefna eggerts ólafssonar var með vissum hætti fyrsta skrefið til þeirrar sjálfsvirðingar sem íslenska þjóð skorti tilfinnanlega á dögum eggerts. sjálfshafningar sem var með vissum hætti andsvar við þá strauma sem þá voru annars ríkjandi í menntamálum og ekki allir til þess fallnir að auka með íslenskum sveitamönnum reisn eða tiltrú. þá eins og á öllum tímum til þeir menn sáu önnur ljós og aðra þræði, sumir niðurlútir og aðrir grillugjarnir. og kannski var forrómantíkin talin grilla rétt eins og ungmennafélögin seinna...
ef þú étur ekki smér
eða það sem matur
dugur allur drepst úr þér
danskur íslendingur
raunar með ólíkindum að konunghollur 18. aldar maður skyldi þora að yrkja með þessum hætti. það varð enda með vissum hættum menningarlegt bil eftir drukknun eggerts ólafssonar en seinna fetuðu hans slóð boðberar þjóðernisrómantíkurinnar jónas og tómas og löngu seinna megas - því það er samhengi í boðskap allra þessarra manna og það er samhengi í boðskap rómantíkurinnar og þeirri rækt sem enn verður okkur mikilsvert umhugsunarefni til heiðurs öllum þeim snjöllum sem hér hafa skrimt og hrokkið, svo vitnað sé í skáldið.
ungmennafélagshreyfingin fyrir 100 árum var beint afsprengi þjóðernisrómantíkurinnar og hafði samt mikið vatn runnið til sjávar frá búauðgistefnunni. kjarninn var sá sami og nú á hundrað ára afmæli þegar atómöldin er meira að segja að baki og heimurinn orðinn að litlu þorpi á tölvuskjá er kjarninn enn sá sami í okkar baráttu fyrir ræktun lands og lýðs, ræktun þjóðar og fyrst og síðast, sem mikilvægast er handan alls þjóðernis og þess vatns sem rann, ræktun æskunnar.
íslandi allt.
Alvarleiki þenslunnar í þingræðu...
17.10.2007 | 21:17
(Það eru margar þingræðurnar sem fluttar eru og ekkert alltaf fyrir stórtíðindum en þegar ég var að lesa próförk að ræðu núna áðan sem ég flutti á fimmtudag þá fannst mér hún það fjári góð að full ástæða væri til að skella henni hér inn en ég er hérna að býsnast yfir ríkisútgjöldum í umræðunni um fjáraukalög og veitir ekki af eins og fjárlagafrumvarpið er núna. Fyrr í þessari ræðu hafði ég reyndar orð á að fjármálaráðherra ætti að taka inn fjárveitingu í fjáraukalögin fyrir Grímseyjarferju og sama hafa aðrir Framsóknarmenn bent á í umræðuna. Þetta er reyndar bara niðurlag á ræðunni.)
...Það sem er aftur á móti mikið umhugsunarefni eru þeir 70 milljarðar sem fundust í ríkiskassanum við endurmat á ríksreikningnum og koma fram í fjáraukalögum. Þessir 70 milljarðar og þessi góða staða ríkissjóðs hefur skapað mikla stemningu í hinni nýju ríkisstjórn. Það hefur svo sem lengi verið ákveðin Klondyke-stemning í íslensku efnahagslífi og það er máli að linni. Í stað þess að ríkisstjórnin taki á efnahagsvandanum og átti sig á því að vandamálið er ekki það að lítils háttar hefur safnast fyrir í ríkissjóði heldur er vandamálið ofkeyrsla hagkerfisins þá ákveða ríkisstjórnarflokkarnir að koma fram með þenslufjárlagafrumvarp og þarf í rauninni að fara aftur fyrir tíma þjóðarsáttar til að finna jafnmikla aukningu ríkisútgjalda milli ára og nú er boðuð.
Að hluta til er þetta byggt á spádómum sem voru hér aðeins til umræðu í svörum og andsvörum milli hæstv. fjármálaráðherra og hv. þm. Jóns Bjarnasonar. Ég get alveg tekið undir með hæstv. fjármálaráðherra að ég held að efnahagsskrifstofa þingsins, jafnvel þótt þær væru þrjár, mundu litlu breyta um þetta ástand, mundu lítið laga stöðuna. Við sem sitjum í fjárlaganefnd höfum kynnst því á undanförnum dögum að það koma fram mjög margar og mismunandi spár um efnahagsástandið. Það sem ríkisstjórnin gerir er að velja eina þeirra, fjármálaráðuneytið gerir mat á þessum spám og gerir sína eigin út frá þessu og út frá henni eru ríkisútgjöldin ákveðin.
Herra forseti. Við getum einfaldlega aldrei lagt þá ábyrgð á sérfræðinga þjóðarinnar hvernig ástandið verður í hagkerfinu og þess vegna erum við kjörnir til þeirra starfa sem við gegnum hér. Það sem er lykilatriði að komi til viðbótar er hið pólitíska mat. Hið pólitíska mat segir okkur að þessar spár um gang efnahagslífsins eru allar vanáætlaðar og hafa verið það um mjög langt skeið. Það er ekkert sem bendir til að þar sé að verða stórfelld breyting á og fjáraukalögin koma í rauninni þessu máli við þannig að þau sanna það að enn og aftur eru spár hagfræðinga og sérfræðinga, sem vinna þær eftir bestu samvisku, ég ætla ekki að gagnrýna þá og þeim að töluverðu leyti saman, ekki endanlegar, það þarf að leggja á þær pólitískt mat.
Þetta er alveg sami hlutur og við höfum rætt hér lítillega í sambandi við þorskstofninn, ég ætla ekki að fara út í það í smáatriðum en mundi gera það ef hér væri viðstaddur hæstv. byggðamálaráðherra vegna þess að honum hefur ekki gengið sem öðrum að skilja gildi þessa. Það er í rauninni ekkert undrunarefni í mínum huga að hv. þm. Jón Bjarnason og hæstv. byggðamálaráðherra skilji þetta svolítið öðruvísi. Þeir tímar voru að menn trúðu á vísindalega stjórnun samfélagsins og arfur af þeirri hugsun er víða í pólitískri hugsun samtímans að það sé einfaldlega hægt að reikna þetta allt út. (Gripið fram í: Með Byggðastofnun?) Byggðastofnun er ekki reiknistofnun eftir því sem ég best veit og kemur þessu máli ekki við. Þetta er ekki svo einfalt að við leggjum bara hina pólitísku ábyrgð og hagstjórnina alla í hendur hagfræðinga og segjum: Komið með vísindalega niðurstöðu.
Mitt helsta átrúnaðargoð í bókmenntum, Þórbergur heitinn Þórðarson, talar um þetta á einum stað, að þeir tímar muni koma að hér verði vísindaleg stjórnun á samfélaginu. Margir trúa á þetta enn, þeir eru farnir að trúa þessu í Brussel aftur núna. Það leysir ekki vandann að þrátta um það hér hvort spárnar séu réttar, það er ekki vandamálið varðandi fjárlagagerðina á Íslandi. Vandamálið er að það vantar kjark og raunsæi til að taka á efnahagsmálum. Það vantar þann kjark að leggja pólitískt mat á allar þessar spár, það þarf ekkert að horfa mjög lengi á þær og bera þær saman við það sem verið hefur undanfarin ár og ég held að allir hugsi það sama þegar þeir horfa á þessa spá: Þetta er vanáætlað, kreppan er ekkert að koma. Tilefni til að koma með kreppufjárlög er ekki fyrir hendi, herra forseti. Það er einfaldlega ekki þannig að við höfum leyfi til að keyra efnahagslífið upp með þeim hætti sem núverandi ríkisstjórn vill gera í kapp við einkageirann og í kapp við hið frjálsa efnahagslíf. Það er ekki hlutverk ríkisstjórnarinnar.
Hitt skal ég fyrstur manna viðurkenna að þegar harðnar á dalnum þurfa stjórnvöld vissulega að grípa inn í, þá þurfa þau vissulega að vera tilbúin. Ég stóð sjálfur í kosningabaráttu minni margoft frammi fyrir þeirri spurningu frá kjósendum mínum og þeim sem kannski voru að hugsa um að kjósa mig og kannski hættu við að kjósa mig af því hvernig ég svaraði: Á ekki að ráðast í stórfelldar vegaframkvæmdir, á ekki að gera þetta allt á næstu árum? Svar mitt var alltaf það sama, að það ætti ekki að ráðast í stórfelldar vegaframkvæmdir við núverandi aðstæður í efnahagslífi. Það ætti ekki að ráðast í stórfellda þenslu ríkisútgjalda við núverandi aðstæður í efnahagslífinu en ríkisstjórnin metur hlutina öðruvísi og hún gerir það með tvennt að leiðarljósi, ákveðna óskhyggju og ákveðna tegund af kjarkleysi. Kannski er það samstöðuleysi en það gerðist auðvitað í ríkisfjármálunum núna í nýrri ríkisstjórn að gullgrafaralyktin af þessum 72 milljörðum skiptir miklu máli í þessari mynd, þessir 72 milljarðar sem fundust á miðju sumri. Um það erum við hæstv. fjármálaráðherra sammála og höfum báðir sagt í þessum stól á síðustu dögum að það þarf sterk bein til að þola góða daga. Gulllyktin af þessum 72 milljörðum er einfaldlega svo sterk að það er ekki auðvelt fyrir nýskipaða ráðherra, fyrir menn sem eru nýsestir í fallega stóla að eiga að sitja á sér en það þurfa þeir bara að gera. Ef aðstæður breytast skyndilega til hins verra, ef skyndilega verður samdráttur þá gerist það samt ekki svo hratt að það sé ekki fært, með þeim forsendum sem eru í stjórnkerfinu, með nýjum fjárlögum. Það koma nefnilega alltaf aftur ný fjárlög. Mér finnst reyndar að hv. þingmenn átti sig ekki alveg á afstæði tímans, stundum tala menn eins og allt sé endanlegt. Þannig fáum við framsóknarmenn oft og einatt að heyra þá gagnrýni að við höfum ekki mikið um þetta að segja af því að við vorum í ríkisstjórn fyrir tæpu ári og af hverju við löguðum þetta ekki þá. Ef menn trúa því að allt sé svo endanlegt, spyr ég á móti: Af hverju var verið að kjósa eftir síðustu ríkisstjórn fyrst hún var svona góð? Var ekki bara búið að ákveða þetta allt saman?
Auðvitað þarf sífellt að taka á hlutunum, auðvitað er þetta sífellt viðfangsefni. En þegar við komum að stöðunni núna og berum saman þau fjárlög sem nú eru til umræðu og þau fjárlög sem hafa verið til umræðu undanfarin ár, segjum undanfarin 12 ár, þá eru fjárlögin og fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar núna alveg einstök, kannski vegna þess hve búið frá Framsóknarflokki er gott, frá samstarfi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks svo öllu sé til skila haldið, og kannski vegna þess að samstaðan í ríkisstjórnunum tveimur, ríkisstjórn Samfylkingar og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks er ekki eins góð og vera ætti.
Ég er ekki viss um að þingið geri sér alltaf grein fyrir því hvað er svona alvarlegt við það að keyrt sé hratt í kapp við einkaframtakið, að keyrslunni sé haldið uppi með einkaframtakinu og þenslunni sé haldið uppi. Við höfum fregnir af því að í hverri viku sé verið að bera fátækt fólk út úr húsum sínum í Reykjavík. Við höfum fregnir af því að á Íslandi séu hæstu vextir í heimi. Allt eru þetta afleiðingar af of harðri keyrslu á efnahagslífinu. Það er langt í frá að það eina eftirsóknarverða í hagstjórn sé meiri og meiri hagvöxtur, það er ekki svo einfalt. Eitt það eftirsóknarverðasta í hagstjórn er jafnvægi. Fjáraukalagafrumvarpið sem nú er til umræðu sýnir okkur fullvel að hér hefur skort nokkuð á þetta jafnvægi en afleiðingarnar af þessum fjáraukalögum og þeim 72 milljörðum sem þar eru til staðar boða okkur að ríkisstjórnin ætlar að standa að enn meira ójafnvægi í hagkerfinu og af því hef ég áhyggjur, herra forseti.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Flensuhelgi með nóbelshöfundi í rúminu
15.10.2007 | 12:33
Er nú vissulega tímabært - þó ótímabært sé um eilífð - að hefja þá óþrifnaðarsýslu að rita vanhelga bók um djöfulsins öfugsnúnu furður og stórmerki þá bók sem enginn getur lesna frá sér látið sér að skaðlausu og er þó ekki öllum gefið að mega stafa hana á enda. Þetta er sagan af þeim Birni og Sveini en hafa get ég sagt því ég var þar sjálfur... (Megas: Björn og Sveinn, bls. 51 )
Lífið sjálft er ekki á fundum, jafnvel þó þar sé setið með bráðskemmtilegum mönnum eins og segja má um t.d. formennina báða í fjárlaganefnd. Í eina tíð var lífið úti á því sem kallað var úti á lífinu en þeir erfiðu dagar eru nú góðu heilli liðnir í mínu kotkarlslífi enda slíkt ekki nema fyrir hraustmenni og börn. Og kannski ekki þó...
Í dag á ég mér lífið mest í bókum og líkar vel og byrjaði þennan pistil á tilvitnun í stórmerka bók meistara Megasar um þá feðga og kumpána Axla-Björn og Svein skotta. Það sækir aðeins að mér að skrifa um þessa bók því það hafa fáir gert og flestum þótti hún torlesin þegar hún kom út fyrir rúmum áratug. Einnig mér og henti henni þá frá mér hálflesinni en hefi þroskast það síðan að nú gat ég lesið hana til enda og mér til ánægju enda þótt söguþráður hennar sé nánast enginn, boðskapur óljós og efni fyrst og síðast mannvonska og heimskupör. Það sem gerir þessa bók heillandi er það sama og gerir bækur Þórbergs Þórðarsonar að snilldarverkum enda þótt sumar þeirra fjalli heldur ekki um neitt nema þá snilldarlegu hrynjandi máls sem ekki er nema örfáum okkar gefin. Björn og Sveinn er kannski ekki annað en 400 blaðsíðna torlesing stílæfing. Eiginlega ættu bæði Suðursveitarbækur Þórbergs og þetta furðurit Megasar að vera skyldulesning öllum sem vilja skilja íslenskuna og vegferð hennar á 20. öldinni.
En helginni eyddi ég með Doris Lessing í rúminu í vægri og eiginlega ljúfsárri flensulegu sem gaf mér löggilt leyfi til að gera ekki neitt. Ekki svo að skilja að kona þessi hafi verið hjá mér með holdi og blóði enda ku hún vera komin nokkuð til ára sinna og ég sjálfur ekki til skiptanna millum kvenna. En þar eð heimurinn ákvað að sæma þessa konu Nóbelnum gat ekki minna verið en ég hesthúsaði einni kilju eftir hana, þá fyrstu sem ég les frá hennar penna og sé ekki eftir því. Bókin heitir Grasið syngur á íslensku og eftir lestur hennar geng ég ekki að því gruflandi að kona þessi er vel að verðlaununum komin.
Ekki nenni ég að leita að mynd að Dorisu þessari enda kannski engin fríðleikskona lengur á tíræðisaldri og þaðan af síður myndi það gera síðu þessa fallegri að setja hér mynd af Megasi þó merkur sé svo sjálfum mér til yndisauka set ég hér frekar fjórðu myndina frá opnun bókakaffisins en þessi er af búðalokunum og kaffidömunum á nýja kaffibarnum okkar, Guðbjörgu Runólfsdóttur starfsmanni Sunnlenska og Elínu Gunnlaugsdóttur konu minni sem stýrir bæði fyrirtækinu og mér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þegar rólegheitin ríða manni að fullu...
13.10.2007 | 20:45
Hef verið hálfvegis slappur af flensu í heila viku en haldið mér uppi á keyrslunni. Í dag var rólegheitadagur og ég var eins og svo oft á laugardögum í hlutverki kaffidömu í Bókakaffinu mínu fram til klukkan fjögur. Náðugt starf miðað við darraðardans þess að vera Framsóknarþingmaður.
En það fór líka svo að þessi rólegheit riðu mér að fullu því nú helltist flensan yfir mig að fullu og einhverjir höfðu orð á að ég hefði líklega verið í of nánu sambandi við ónefndan Reyvískan hreppsnefndarmann sem líka ku hafa flensu. Hefi reyndar eins og
þjóðin látið duga að sjá hreppsnefndarmennina í sjónvarpi en flensan er búin að liggja hér í húsi undanfarna daga. Í stað þess að standa nú í Laugardalshöllinni og dá meistara Megas á stórtónleikum er ég undir sæng heima á Sólbakka og verð víst að slá á frest fyrirhugaðri sláturgerð á morgun. En það er líka ósköp ljúft að vera þannig bundinn heima hjá sér þar sem ég næ yfirleitt alltof fáum stundum.
Síminn hefur verið óvanalegur rólegur þrátt fyrir margskonar REI fréttir en þó hefi ég talað við Framsóknarfólk sem er á tánum með að ganga úr flokknum vegna frétta daganna. Skil það vel en hefi talað
fólk á að bíða um sinn. Nú skiptir miklu að flokkurinn taki sér tak þannig að heiðarlegu framsóknarfólki finnist því áfram líft í okkar gamla góða flokki. Guð gefi að vel fari.
Birti hér með myndir frá bókakaffinu mínu sem teknar voru á ársafmælinu um sl. helgi.
Sá sem segir mig ljúga er rekinn!
11.10.2007 | 02:05
Þó ríkisútvarpið sé orðið að ohf-i þá er ég ekki viss um að þar á bæ taki menn eftir að nú lag að spara og segja upp spaugstofunni og öllu sem fyndið er en spila til áramótamóta valda kafla úr sápuóperu stóra REI-málsins.
Þar hrannast upp brandarnir og eru orðnir fleiri en tölu verði á komið. Toppurinn er í dag er hugmyndin í flokki borgarstjóra að rétt sé nú að reka Guðmundinn þann sem sagði borgarstjóra fara með ósannindi. Kannski á bara að leiða það í lög að embættismenn sem segja stjórnmálamenn skrökva séu reknir! O tempora, o mores..
P.S: Fundir, sumir meira að segja átakafundir, taka nú svo þessa dagana að ég læt þetta duga sem bloggfærslu dagsins enda vaknað snemmendis á Sólbakkanum þessa dagana, aldrei þessu vant. Bendi samt á mjög athyglisverðar færslur um stóra ljóta og spillta Reimálið á heimasíðu Guðmundar J. Kristjánssonar og athugasemdir frá nafna hans Ingvasonar...
Aðalatriði og aukaatriði í stóra REI málinu
9.10.2007 | 18:02
Flokksbróðir minn Björn Ingi var í Kastljósviðtali í gærkvöldi um hið umtalaða REI-mál og lagði þar áherslu á að menn horfðu á aðalatriði málsins sem er sá mikli ávinningur sem Íslendingar geta haft af útrás orkufyrirtækjanna. Ég er sammála Birni að mögulegur og reyndar næsta vís ávinningur okkar af orkuútrásinni er mikilvægur. En hin pólitíska hlið þess máls snýr ekki að þeim ávinningi. Hin pólitíska hlið snýr að því að fulltrúar fólksins í borginni hafa orðið uppvísir að spillingu og óheiðarlegu gróðabralli með það sem almenningur á. Það er ekki hægt að skjóta sér undan þeirri umræðu og sinni ábyrgð með því að tala um eitthvað annað.
Björn Ingi vék líka að því aðspurður að ég hefði einhverjar sérskoðanir á orkumálum sem ekki væru nú í samræmi við samþykktir flokksins. Það er algerlega fráleitt enda veit ég ekki hverjar þær sérskoðanir ættu að vera. Ég hef eins og Björn Ingi talið að við Íslendingar eigum að hasla okkur völl í alþjóðlegri orkuútrás og að þar sé fullkomnlega eðlilegt að til komi samstarf einkafyrirtækja og opinberra. Innan þessa starfs geta menn svo rætt það hvort útlendingar megi eignast hluti í íslenskum orkufyrirtækjum og eins hvort æskilegt sé að einkaaðilar eigi í fyrirtæki eins og Hitaveitu Suðurnesja. Það er enginn stórfelldur ágreiningur um þessi mál innan Framsóknarflokksins.
Gagnrýni mín og annarra Framsóknarmanna á stóra REI-málinu snýr að aðferðafræðinni sem viðhöfð hefur verið og ég ætla ekki að dæma um það í smáatriðum hverjir hafi verið gerendur í einstökum leikþáttum þessa máls, kauprétti Bjarna Ármannssonar, áformuðum kaupum annarra o.s.frv. Að ég tali ekki um þá ákvörðun að þessi stóru fyrirtæki voru aldrei verðmetin af viðurkenndum aðilum. Í málflutningi rekst hvað í annars horn. En ég fullyrði að þeir menn sem að öllu þessu ferli stóðu hafa ekki gætt hagsmuna sinna umbjóðenda og þeir hafa einnig unnið útrás íslenskra orkufyrirtækja ómældan skaða því að fyrirtækið REI verður ekki svipur hjá sjón á eftir. Á Vesturlöndum hefur það tíðkast um áratugaskeið að stjórnmálamenn axli ábyrgð sinna gerða. Það sama á að gilda á Íslandi.
Að lokum þetta: Í daglegum störfum legg ég mig fram um að styðja eigin flokksmenn og á það til að sitja á mér og mínum skoðunum af tillitssemi við þá og þeirra sjónarmið. Reyni þá frekar að ræða slíkt á lokuðum vettvangi. Þetta á við um skoðanamun innan heilbrigðra stjórnmálahreyfinga. Þegar kemur að spillingu gilda þessi lögmál samstöðunnar alls ekki nema stjórnmálaflokkur sjálfur sé í eðli sínu spilltur. Bara svo það sé á hreinu, þá er Framsóknarflokkurinn það ekki. Þessvegna er þetta rætt hér.
PS: Vegna komments við síðustu grein; Jóhann, það styttist í að greinaskrif mín um spillingu í stjórnmálum líti dagsins ljós,- geymt en ekki gleymt. Þakka kommentið.
PPS: Það verður viðtal við mig á Stöð2 núna á eftir, frekar tvö en eitt reyndar, eitt í fréttatíma og annað í magasínþættinum...