Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Reiðin er mikil meðal Framsóknarmanna

Svandís Svavarsdóttir VG segist í viðtali við Mbl. að hún finni fyrir mikil reiði meðal almennings vegna viðskiptanna sem átt hafa sér stað með þekkingu og auðlind Orkuveitu Reykjavíkur. Þessa reiði finna fleiri en vinstri grænir. Ég get bara tekið undir með Svandísi og sjálfur hefi ég orðið var við þessa reiði og það held ég að allir í okkar góða þingflokki Framsóknar hafi orðið. Bæði meðal Framsóknarmanna í Reykjavík og líka utan Reykjavíkur. Vegna afskipta okkar manna verða nógir til að kenna flokknum í heild um og það er mjög miður og ég get fullyrt að aðferðafræði eins og sú sem þarna á sér stað er mjög fjarlæg venjulegu framsóknarfólki að ekki sé dýpra tekið í árina.

abggbs

Ég hef reyndar ekki rætt þetta persónulega við hlutaðeigandi trúnaðarmenn Framsóknarflokksins í borginni en á undanförnum dögum hafa fjölmargir hringt, framsóknarmenn hvarvetna og það eru sömu viðbrögðin allsstaðar. Við erum reið og okkur sárnar sú framganga sem hér á sér stað. Það er sárt að sjá verðmæti sem eiga að vera í sameign margra vera með þessum hætti mulin undir gróðaöflin. Ég er alls ekki að tala um það að við megum vel í útrás, ég er að tala um kaupréttarsamninga, milljónagróða upp úr vösum almennings o.s.frv.

Það er líka sárt fyrir alla þá sem unnið hafa að endurreisn og orðstý  Framsóknarflokksins undanfarnar vikur og mánuði heyra af þessum atburðum og þarf svosem ekki fleiri orð um það að hafa. En ég fullyrði líka að ekkert af þessu var rætt á vettvangi flokksins á landsvísu og er öðrum en tilteknum fulltrúum okkar í borgarstjórnargeiranum óviðkomandi.

En þetta verður rætt á vettvangi flokksstarfsins,- svo mikið er víst! Ég hef eiginlega sjálfur verið of bit til að blogga um þetta fyrr en núna.


mbl.is Finnur fyrir mikilli reiði í samfélaginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afmælisveisla í bókabúðinni

Sunnlenska bókakaffið er eins árs í dag, laugardag og það verður haldið upp á það klukkan tvö. Skáldin Matthías Johannesen og Þórunn Valdimarsdóttir heiðra okkur með upplestri og söngkonur stíga á stokk.

matti

Verslunin hefur líka tekið miklum stakkaskiptum, verið stækkuð og er um leið mun meira kaffihús en áður var,- semsagt hvorutveggja í einu, kaffihús og verslun. Fornbókadeildin hefur verið stækkuð talsvert og þar er nú að finna marga dýrgripi. Mest munar um einkasafn Kristjáns heitins frá Djúpalæk, skálds sem í eina tíð bjó í Hveragerði. Kristján yngri sonur skáldsins bað okkur um að taka bækur þessar í sölu en meðal gripa í safninu er margt af merkum árituðum ljóðabókum frá samferðamönnum skáldsins.

Kristján yngri þekkti ég ekki áður en til þessa kom (og þá ekki þann eldri sem dó 1994) en það er kunningskapur með Kristjáni jr og Atla bróður mínum, enda báðir heimspekingar. Það er bæði skemmtilegt og magnað að vera með þetta safn skáldsins í hillunum, þar er hver bók annarri merkari. Skondin tilviljun líka fyrir það að fyrir hálfum fimmta áratug átti ég í nokkur misseri heimili í húsi Kristjáns frá Djúpalæk í Frumskógunum í Hveragerði,- reyndar fyrir mitt minni en foreldrar mínir leigðu á þeim tíma hús skáldsins eftir að skáldið sjálft flutti norður á Akureyri. Og ég ekki kominn til máls á þeim tíma...


Suðurnesin eru land tækifæranna!

"Hvílík hneisa fyrir þig Bjarni minn sem þingmaður framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi að slá af álver í Helguvík..."

Eftir ágætt útvarpsviðtal við Höskuld félaga minn og þingmann flokksins í hoskuldurNorðausturkjördæmi í gær (efnislega sama kom líka í sjónvarpi) hafa nokkrir Suðurnesjamenn hringt og sumir talið að við Guðni værum hér með orðnir sérlega andsnúnir okkar eigin héraði. Hinir eru þó fleiri sem hafa lýst stuðningi við þessi viðhorf en gagnrýnina ber að virða af heilindum og virða svars. Tilvitnun hér að ofan er eitt dæmi um þessi viðhorf en þetta er úr kommenti sem kom á síðuna hjá mér í gærkvöldi.

Nokkuð er þetta málum blandið. Framsóknarflokkurinn hefur engan hug á að slá af álver í Helguvík og raunar er Höskuldur aðeins að segja það sem augljóst er að forgangsröðun stjórnvalda hefur verið og er væntanlega enn þessi, Bakki, Helguvík og síðan Þorlákshöfn og Keilisnes. Pólitísk og efnahagsleg rök mæla líka með því að nú þegar verði ráðist í framkvæmdir nyrðra en hinkrað við hér syðra. Þetta er spurning um hagsmuni almennings og þar með hagsmuni almennings í Reykjanesbæ, - ekki einvörðungu hagsmunagæslu fyrir sveitarsjóði eða hag stórfyrirtækja.

Það er nefnilega mikill misskilningur að álversuppbygging á Suðvesturhorninu sé skynsamleg á þeim þenslutímum sem nú ríkja á því svæði og þeir sem það gera hafa ekki verið að hlusta á efnahagsráðgjafa eða þá hæstvirtan Seðlabankastjóra sem einn má nú glíma við að kæla hagkerfið.

Ég sé að í nýju fjárlagafrumvarpi eru veikburða tilraunir til að slá á þenslu með því að klípa einhverja milljón af styrk til skátahreyfingar og aðra af ungmennafélögunum. Það verður til harla lítils ef við ætlum okkur að ofkeyra hagkerfið með stóriðjuvæðingu í landi þar sem hvorki er vöntun á störfum né hagvexti.

Einhver kynni að segja að hagvöxtur sé alltaf af hinu góða og aldrei nógur en það er einfaldlega rangt. Meira að segja mjög mikil vitleysa. Ofþensla í hagkerfinu er slæm fyrir hag almennings, spennir upp kostnað, vexti, íbúðaverð, brask, eftirspurn eftir vinnuafli o.s.frv.  Þeir einu sem græða á því að ráðast í álversuppbyggingu hér og nú og strax, hvort sem er í Þorlákshöfn eða Reykjanesbæ, eru í rauninni þeir sem byggja álverin sjálf, gróðaöflin sem eru í kapphlaupi um ódýra eða ókeypis losunarkvóta.

Hagur almennings er fyrst og síðast að hér verði jafnvægi og stöðugleiki í efnahagslífinu. Og það eru ekki bara beinir peningalegir hagsmunir fólks sem kalla á það. Allt mannlíf er mengað og undirlagt af þeirri ofurspennu sem ríkir í samfélaginu. Of mikil eftirspurn eftir vinnuafli á öllum sviðum bitnar á daglegu lífi okkar allra, samveru okkar með börnum og ættingjum, menningarlífi okkar og mér liggur við að segja vitsmunalífi því hvenær er hægt að hugsa í þesser um skarkala öllum. Þar fyrir utan hefur verið mikil pólitísk óeining um stóriðjuuppbyggingu og ef við ætlum ekki að færa öfgafullum andstæðingum slíkrar uppbyggingar alla sigra á silfurfati þá verðum við að hægja á ferðinni. Hamagangurinn er engum til góðs.

Sjálfur er ég hvorki stóriðjusinni eða stóriðjuandstæðingur, neita hreinlega að láta draga mig í slíka dilka. Ég tel að stóriðja geti oft átt rétt á sér og tel raunar að álver muni koma í Helguvík og það er vel. En ef við böðlumst um of áfram, bæði þar og í virkjunum í neðri hluta Þjórsár færum við öfgaöflunum í Vinstri grænum og þaðan af róttækari hreyfingum öll tromp í hendurnar og uppbygging atvinnulífsins mun líða fyrir þeirra forræði. Við sem viljum byggja upp verðum að kunna okkur hóf.

Loksins þetta: Það er misskilningur að það séu aðeins vandamál á landsbyggðinni á Íslandi. Vissulega er stöðnun og samdráttur vandamál byggðarlaga eins og Þingeyjarsýslnanna og Vestfjarða að ég tali nú ekki um mínar kæru Skaftafellssýslur. En á öllu Suðvesturhorni landsins er líka mjög mikill aðsteðjandi og erfiður vandi ofþenslu. Þessi ofþenska bitnar fyrst og fremst á hag þess fólks sem býr á hinu ofurspennta svæði. Ríkisstjórnin stendur sundurlynd gagnvart þeim vanda og innan sveitarstjórna á svæðinu heyrist stundum (einkanlega þar sem D-listar eru í meirihluta) að græðgisvæðingin ein skuli ráða og ríkja. Allir sem augu hafa í höfðinu sjá að brýnasta vandamálið í stjórnmálum í dag er að slá á þenslu á suðvesturhorninu og álversuppbygging á Keilisnesi, Helguvík eða Ölfusi er örugglega ekki leiðin til þess!

Því fer fjarri að almenningur á Suðvesturhorninu sé svo heillum horfinn að heimta álver einum rómi. Í allri kosningabaráttunni – og prófkjörsbaráttu síðasta haust – talaði ég fyrir nákvæmlega sömu sjónarmiðum og Höskuldur gerði í útvarpi í gær og fékk góðar undirtektir. Sérstaklega kom mér á óvart hvað fundarmenn á einum prófkjörsfundinum í Framsóknarhúsinu í Reykjanesbæ voru mér margir sammála í þessari forgangsröðun. Auðvitað voru ekkert allir sammála mér enda væri nú lítið varið í þann heim þar sem allir væru sammála um allt og margir af álverstalsmönnum færðu mjög málefnaleg rök fyrir sínum skoðunum, m.a. atvinnuleysistölur sem eru í hærra lagi á Suðurnesjum og þar hafa líka margir lækkað í launum eftir brotthvarf hersins. Allt eru það atriði sem kalla á umhugsun en það er líka mjög mikil gerjun í atvinnulífi þar suðurfrá og heilt álver með öllum ruðningsáhrifum sem við þekkjum af stóriðju verður böl en ekki blessun við núverandi aðstæður í Reykjanesbæ. Það er ekki þannig að við getum farið þá leið að byggja allt upp, að við getum fengið allt og sleppt engu. Þannig er það aldrei í hinum raunverulega heimi. Álver mun ýta til hliðar, fresta og skúbba jafnvel út af borðinu öðrum og meira spennandi hugmyndum á Rosmhvalanesi, bæði netþjónabúum, útrás á flugvallarsvæði, háskólauppbyggingu o.s.frv.

Það er kannski auðveldara að vera þingmaður Suðurnesja með allt aðrar skoðanir og vera þar með í álverskórnum. En ég er í stjórnmálum en ekki vinsældaleik og það sem ég hefi hér skrifað var mín skoðun í prófkjörsbaráttunni fyrir ári síðan, í kosningabaráttunni í vor og þetta er enn mín skoðun og mínar skoðanir eru aldrei leyndarmál, hvorki fyrir né eftir kosningar!


Davíð rekur þjóðina í Evrópusambandið

Til var það fólk sem trúði að flengja skyldi sífrandi börn og því meira flengt sem sífrið var hærra.  Þetta gat átt til að gagnast en miklu oftar urðu flengingarnar til þess að auka enn á skælið,  en sá flengdi oft hálfgerður kramaraumingi á eftir.  Á sumum bæjum var samt haldið á með þetta kynslóð af kynslóð, lögmáli vandarins fylgt dyggilega.david_oddsson

Í hagfræðilögmáli ku skrifað að hækka skuli vexti til að draga úr eftirspurn eftir lánsfé og því meiri sem eftirspurnin var því meira skuli hækkað. Fastar beitt vaxtavendinum til flenginga á fátækri alþýðu.  Og lögmálið er þarna óhagganlegt og öruggt í sinni fávísi þrátt fyrir að heimurinn hagi sér ekkert eftir lögmálinu. Patentlausnir eiga það til að svíkja.

Vaxtasvipa og flottræfilsháttur

Þar til fyrir fáeinum árum bjó íslensk þjóð við skömmtun á lánsfé þannig að í raun og veru hafði enginn verulegar áhyggjur af því að safna of miklum skuldum. Bankinn passaði það. Það var helst áhyggjuefni að ná ekki nógu miklum lánum, því verðbólgan borgaði lánin og aðeins óvitar lögðu fé inn í banka.

Þó svo að það séu síðan liðin mörg ár eða allavega nokkur, eftir því hvernig er talið þá tekur það mannskepnuna lengri tíma að læra. Í hinni óþolinmóðu pólitík samtímans er gert ráð fyrir að maðurinn breyti í samræmi við óorðna hluti en reyndin er að við erum öll full af löngu úreltri þekkingu, þeir mestri sem telja sig nútímamenn. Og auðvitað virkar vaxtasvipa ekki á íslenskan almenning eins og þann sem búið hefur við jákvæða vexti og opinn lánamarkað um aldir.

Bruðlunarsemi og skuldasöfnun er höfuðlöstur þjóðarinnar og verri hér en í nokkru öðru landi. Grunnur alls þess er flottræfilshátturinn þar sem ríki og sveitarfélög ganga í dag á undan með vondu fordæmi.  Skólakrakkarnir okkar mæta í skóla sem eru alsettir skrifstofustólum af sama klassa og við systkinin nurluðumst til að kaupa í sameiningu handa föður okkar sjötugum. Og auðvitað apar alþýðan þetta eftir og nú verða láglaunamenn að keyra um á milljóna jeppum um malbikuð stræti.

En ekkert af þessu lögum við með vaxtaokri.  Það hefði líklega meira að segja ef Seðlabankinn flytti sig í iðnaðarhúsnæði, seldi flottræfilshúsið við Arnarhól og bankastjórarnir færu að aka í vinnuna á gömlum Lödum. Því þetta er spurning um þankagang.

 

Lögmálsmenn sem trúa á þá patentlausnir eru dæmdir til að gera vitleysur. Með vaxtaokri Seðlabankans gerist það eitt að almúginn reiðist og heimtar evru og inngöngu í Evrópusambandið, bara af því að þar er ekki verið að berja hann daglangt með hnútasvipu hávaxtanna.  Við þurfum vissulega vexti í hærra lagi en öfgar leiða alltaf í ógöngur.

Það getur vel verið að hér verði einhvern tíma tekin upp önnur mynt en króna og þá frekar dollar eða pund því allir sjá að evran er bara matadorpeningur. En myntbreytingu er ekki hægt að ráðast í á þenslutímum. Það hefði m.a. þau áhrif að snarlækka vexti og auka þar með enn á neyslu- og skuldafylleríið sem er okkar mesta vandamál. Stjórnleysið í efnahagsmálum yrði þá algert.

Seint og snemma er það höfuðvandi mannskepnunnar að hún kemur sér hjá því að hugsa en fer að þess í stað að trúa á patentin,- vaxtalögmál eða evruský. Þegar það er samt svo augljóst að það mun auðvitað taka Íslendinga einhverja áratugi enn að jafna sig á vitleysu verðbólguáranna og neikvæðu vöxtum eftirstríðsáranna. Á meðan verður auðvitað erfitt að stjórna hagkerfinu - en það er bara eitt sem er algerlega nauðsynlegt fyrir vinnufriðinn.:

Það er að Seðlabankinn hætti þessum barsmíðum.

(Birt í Blaðinu sl. laugardag.)

(Þessi grein var skrifuð sem nokkurskonar svar inn í mjög skemmtilega umræðu sem þeir vöktu hreppamaðurinn Sigmundur Sigurgeirsson í Ameríku og Atli bróðir minn á Skaganum. Til þess að koma henni inn í Blaðið liðinn laugardag þurfti ég að skera hana aðeins niður en hér á eftir fer hún í fullri lengd, - samt er hún eiginlega betri styttri og því alveg nóg að lesa hér að ofan...)

Patentlausnir í krónumálum

Til var það fólk sem trúði að flengja skyldi sífrandi börn og því meira flengt sem sífrið var meira. Þetta gat átt til að gagnast en miklu oftar urðu flengingarnar til þess að auka enn á sífrið og skælið en þeir sem fyrir urðu hálfgerðir kramaraumingjar á eftir.  En samt var þessu haldið áfram kynslóð af kynslóð að fylgja dyggilega lögmáli vandarins og sumir lögmálsmennirnir hafa jafnvel ekki enn áttað sig á að mannleg hegðun og miklu flóknari en þessar aðferðir gera ráð fyrir.

Í hagfræðilögmáli er skrifað að hækka skuli vexti til að draga úr eftirspurn eftir lánsfé og því meiri sem eftirspurnin var því meira skyldi hækkað. Fastar beitt vaxtavendinum til flenginga á fátækri alþýðu.  Og lögmálið er þarna óhagganlegt og öruggt í sinni fávísi þrátt fyrir að heimurinn hagi sér ekkert eftir því nema þegar honum sýnist svo.

Á Íslandi býr þjóð sem allt þar til fyrir fáeinum árum bjó við skömmtun á lánsfé þannig að í raun og veru hafði enginn verulegar áhyggjur af því að safna of miklum skuldum. Bankinn passaði það. Lengi var reyndar aðal áhyggjuefnið að ná ekki nógu miklum lánum í sinn hlut því neikvæðir vextir urðu þess valdandi að lán var í reynd happadrættisvinningur aðeins óvitar lögðu fé inn í banka.

Nú eru auðvitað áratugir síðan neikvæðir vextir voru ríkjandi á Íslandi, meira en aldarfjórðungur og mörg ár síðan bankar hættu að skammta lán en fóru að falbjóða þau eins og hrossaprangarar. En einmitt þar skjöplast allri okkar pólitík og reyndar mörgum okkar félagsvísindamönnum einnegin að halda að almenningur breyti forriti sínu samhliða breyttum aðstæðum. Það hefur aldrei verið þannig. Okkur er einmitt eiginlegt og heilbrigt að burðast með gamla úrelta þekkingu og haga okkur í samræmi við liðna reynslu en ekki komandi veruleik. Þannig er mannskepnan einfaldlega.  Þessvegna virkar vaxtasvipa Seðlabankans auðvitað ekki á íslenskan almenning,- ekki með sama hætti og hún gerir í löndum sem búið hafa við jákvæða vexti og opinn lánamarkað um aldir.

Ég hafði orð á því um daginn á heimasíðu minni (bjarnihardar.blog.is) að Sjálfstæðismenn væru nú einn af öðrum að hætta sér út á þann ís að gagnrýna hávaxtastefnu Davíðs Oddssonar sem er enn sem fyrr valdamestur allra manna á Íslandi. Vesturíslendingurinn Sigmundur Sigurgeirsson svaraði mér um hæl og margir síðan bent á að hann hafi rétt fyrir sér:

„Í "vaxtaokrinu" sem þú svo kallar, kann að verða óánægja með krónuna. Það er hinsvegar einkenni sjúkdómsins en ekki orsök. Ennfremur veldur núverandi ástand því að fátækir skuldarar verða fátækari, og ríkir fjármagnseigendur verða ríkari. Hversvegna heldurðu að það sé? Það er ekki af því að skuldararnir eignast ekki pening - heldur vegna þess að þeir eyða honum öllum - ýmist jafnharðan eða fyrirfram. Reyndu að koma í veg fyrir það með skrifum og skrafi - og ástandið lagast. Þó er ég ekki að hvetja til að við verðum eins og Japanir, en einhverstaðar þar á milli væri ágætt. Íslendingar yrðu þannig sælir með sína krónu."

Og þó ekki séum við flokksbræður enda Sigmundur reblúblikani, þá er ég honum algjörlega sammála. Aðal vandamálið á Íslandi er vissulega eyðslusemi og algerlega glórulaus skuldasöfnun almennings og nánast allra lögaðila í landinu. Á því pólitíska vandamáli þarf að taka. Grunnur alls þess er flottræfilshátturinn þar sem ríki og sveitarfélög ganga í dag á undan með vondu fordæmi.  Dæmin eru hvarvetna. Í opinberum störfum borgum við lakari laun en velflestar nágrannaþjóðir en sömu stéttir ganga um þau marmaraslegin gólf sem útilokað er að finna í nokkru öðru landi. Við höfum slegið algert heimsmet í sóun og bruðli, farið langt á undan öllum nágrönnum okkar. Skólakrakkarnir okkar mæta í skóla sem eru alsettir skrifstofustólum af sama klassa og við systkinin nurluðumst til að kaupa í sameiningu handa föður okkar sjötugum. Og auðvitað apar alþýðan þetta eftir og nú verða láglaunamenn að keyra um á milljóna jeppum um malbikuð stræti.

En ekkert af þessu lögum við með vaxtaokri, Sigmundur. Lögmálsmennirnir sem trúa á þá patentlausnina gera annað með vitleysu sinni. Þeir reka almenning í kvína hjá andstæðum og hálfu vitlausari lögmálsmönnum sem trúa að hægt sé að leysa vandann með því að ganga í Evrópusambandið og höndla hér með platmyntina evru.  Þar með væru efnahagsleg stjórntæki okkar engin og það sem verst væri, - enn gefin innspýting fyrir nýju skuldafylleríi.

Vandamálið er þegar mannskepnan nennir ekki að hugsa og trúir í staðin á patentin,- vaxtalögmál eða evrulögmál. Þegar reyndin er að það mun taka Íslendinga einhverja áratugi enn að jafna sig á vitleysu verðbólguáranna og neikvæðu vöxtum eftirstríðsáranna. Það verður ekkert auðvelt að stjórna landinu á meðan en það er eitt sem algerlega nauðsynlegt fyrir vinnufriðinn.

Það er að Seðlabankinn hætti þessum barsmíðum.


Mikil afköst og góð...

Ég var ekki í þeim hópi sem kaus Ólaf Ragnar Grímsson olafur_ragnarhér um árið þegar Vigdís hætti, mest vegna þess að mér fannst ekki rétt að mjög umdeildir stjórnmálaforingjar ættu að setjast í þennan stól.

En allar götur síðan þá hefur forseti lýðveldisins unnið á hjá mér og þó aldrei eins og við þingsetningu í gær þar sem hann talaði m.a. um nauðsyn þess að við héldum landinu í byggð... Ræðan í heild var raunar eins og út úr mínu hjarta enda Ólafur gamall framsóknarmaður.

En ekki bara að forsetanum aukist réttsýni og skerpa með aldri heldur er dugnaður hans á sjötugsaldri með algerum ólíkindum og aðdáunarverður. Um helgina síðustu var hann bæði í New York og á Hellisheiði, á mánudag við þingsetningu og á þriðjudag í Kína. 


mbl.is Ólafur Ragnar Grímsson fundaði með forseta Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband