Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Göldrótt kvöld í Bókakaffinu

Það verður óvenju fjörugt upplestrarkvöld í Sunnlenska bókakaffinu næstkomandi fimmtudagskvöld 11. desember. Þá mætir Hörður Torfason trúbador og mótmælandi og kynnir splunkunýja ævisögu, Tabú. Skrásetjari er Ævar Örn Jósepsson. Á bókarkápu segir m.a.: baldur-6

Þeir eru til sem hafa hærra og sperra sig meira, en rétt eins og dropinn sem holar steininn hefur Hörður náð að búa um sig í íslenskri þjóðarvitund og breyta henni nánast án þess að nokkur tæki eftir því.
   Að vísu tóku nánast allir eftir því þegar hann lýsti því yfir opinberlega, fyrstur Íslendinga, að hann væri „hómósexúalisti" í viðtali í tímaritinu Samúel árið 1975. Þá fór allt á hvolf, enda glæpsamlegur öfuguggaháttur að vera hinsegin. Hörður, sem hafði verið einn dáðasti og vinsælasti tónlistarmaður landsins, eftirsóttur leikari og fyrirsæta, hraktist af landi brott, ofsóttur og forsmáður jafnt af almenningi og þeim sem ferðinni réðu í listalífinu. Það sem hann gerði í framhaldinu (og gerir enn) hefur ekki farið jafnhátt...

Annar gestur kvöldsins er lífskúnstnerinn Helgi Guðmundsson fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans í bók sinni Til baka. Þar lýsir Helgi í sögulegri skáldsögu baráttu sinni við lífið og heilsuna, skálduðum samferðamönnum og spennandi atburðarás..

Þriðja bókin sem kynnt verður er bók Jóhanns Óla Hilmarssonar um Lundann. Tilvalin jólagjöf til allra náttúruunnenda, heima og erlendis.

Síðast en ekki síst er svo að kynna galdramennina Gunnar Sigurjónsson og Baldur Brjánsson sem bregða á leik með okkur, galdra fram jafnt bækur sem kanínur og eru til alls vísir. Gunnar hefur áður komið í bókakaffið og vakti þá einstaka lukku með töfrabrögðum sem enn hanga óútskýrð í loftinu. Saman hafa þeir félagar sent frá sér ævisögu Baldurs, Töfrum líkast.

Upplestrarkvöld í Sunnlenska bókakaffinu eru öllum opin og aðgangur ókeypis. Húsið opnar klukkan 20:00.


Varðlið Baugsmiðlanna

Páll Vilhjálmsson blaðamaður og í eina tíð félagi í Samfylkingunni skrifar afar athyglisverða grein í nýjasta hefti Þjóðmála þar sem rakið er samhengið milli efnahagskreppunnar nú og afdrifa fjölmiðlafrumvarpsins árið 2004. Þar tókst fjölmiðlaveldi Jóns Ásgeirs Jóhannssonar að hrinda áformum stjórnvalda um dreifða eignaraðild fjölmiðla.

Páll rekur á greinagóðan hátt þátt einstakra stjórnmálaflokka í málinu og endar á óhappaverki Ólafs Ragnars Grímssonar sem í júníbyrjun 2004 neitaði að skrifa undir lög sem meirihluti Alþingis hafði samþykkt.

Einna athyglisverðastur í þessum farsa öllum er framganga þáverandi formanns Blaðamannafélags Íslands sem jafnframt var fréttamaður á Stöð 2 á þeim tíma. Sá maður er Róbert Marshall núverandi aðstoðarráðherra og varaþingmaður. Hann skrifaði 14. maí bréf til allra blaðamanna þar sem frumvarpið um fjölmiðla var kallað fantafrumvarp og hvatti þar alla til að leggjast á eitt með öllum hugsanlegum ráðum til að koma í veg fyrir samþykkt þess. Í bréfinu segir Róbert meðal annars:

"Sendið tölvupóst á ALLA sem þið þekkið, hringið í fjarskylda ættingja úti á landi sem þið hafið ekki heyrt í í sjö ár. Nú er tíminn til að endurnýja kynnin. Fáið fólk til að skrifa nafn og kennitölu á askorun.is. Sé fólk fylgjandi frumvarpinu, fáið það samt til að skrifa undir sem persónulegan greiða við ykkur..."

Langt var seilst til varnar Baugi og afleiðingin blasir nú við að mati greinarhöfundar...


Ég styð Höskuld

hoskuldurEr oft spurður að því þessa dagana hvern ég styðji í formannsslag Framsóknar. Veit svosem ekkert hvað ég á eftir að skipta mér mikið af þeim slag en get svarað því hér á blogginu að ég styð Höskuld Þórhallsson. Meira síðar.


Frá nútíma fasisma aftur til Maríu Magdalenu

litlastÍ jólatíðinni á bóksali vissulega að blogga um bækur. Hefi enda náð að hesthúsa einum 11 af jólabókunum og þegar sagt frá nokkrum eins og hinni frábæru ævisögu síra Hallgríms eftir Úlfar Þormóðsson. Ennþá er hún best og merkust þeirra sem ég hefi lesið nú í haust. Fær einkunnina 8,8 sem er mjög hátt.

Fast á hæla henni kemur frábær bók um fasisma okkar tíma, Litla stúlkan og sígarettan. Skyldulesning nú á tímum vaxandi sefjunar og heimsku. maria_magdalena

Önnur perla þessara jóla er bók Þórhalls Heimissonar um Maríu Magdalenu og hina áleitnu spurningu um það hvort hún hafi verið vegastjarna eða vændiskona - nema hvorttveggja hafi verið. Frábær lesning um sögu landsins helga, dýpkar biblíusögurnar og leiðir okkur með afar skemmtilegum hætti um myrka sögu gyðinga og frumkristninnar.

Langar svo í lokin að vekja hér athygli á tveimur frábærum bókum, annarsvegar Leyndardómum sjávarins við Ísland eftir Jörund Svavarsson og Pálma Dungal. Þar er að finna ómetanlegar ljósmyndir af lífríkinu við landið, lífríki sem afar fáir hafa barið augum.

Hin er myndskreytt útgáfa af Tímanum og vatninu með myndum Sigurðar Þóris Sigurðssonar listmálara. Látum Stein hafa orðið:

Sofa vængbláar hálfnætur
í þakskeggi mánans,
koma mannstjörnur,
koma stjarnmenn,
koma syfjuð vötn.


Varnarveggir fullveldisins laskast...

Las í morgun afar vonda grein eftir góðan vin minn og leiðtoga Vinstri grænna hér á Suðurlandi, Jón Hjartarson bæjarfulltrúa. Lét mér detta í hug að skrifa eitthvað um þá grein strax í morgun í þá veru að nú væri meira að segja VG að velta sér í ESB málum en lét það vera. Fannst það svo við nánari umhugsun ekki sanngjarnt þar sem Jón Hjartarson talaði hér varla fyrir munn allra flokksmanna. Hann óttast mest að VG geti einangrast ef þeir taki ekki þátt í ESB þróuninni ...

En nokkrum klukkustundum síðar berast af því fréttir að VG vill efna til kosninga um ESB málin. Þetta er sama tillagan og við Guðni Ágústsson börðumst á móti innan Framsóknarflokksins en var að lokum lögð fyrir Alþingi af Birki Jóni Jónssyni í óþökk formannsins og orsakaði raunar klofning innan þingflokksins.

Það breytir engu þó að VG segi að þeir séu ennþá á móti inngöngu í ESB. Við sjáum af greinaskrifum Jóns Hjartarsonar á Selfossi, umræðu ungliða VG og svo þessari tillögu að VG er að linast í afstöðunni. Félagi minn sem er mikið erkiíhald sagði við mig um daginn þegar Sjálfstæðisflokkurinn  byrjaði að velta sér,- jæja það fer þá víst þannig að við verðum báðir að kjósa kommana í næstu kosningum! En ég er hræddur um að það sé búið með það nú.

Nú hefur Geir Haarde lýst yfir vilja til að hefja aðildarviðræður og VG lýst yfir vilja til að efna til kosninga um það að hefja aðildarviðræður.

Með þessu er ég ekki að halda því fram að það eigi ekki að fara fram upplýst umræða um kosti og galla Evrópusambandsaðildar. Ég hef sjálfur tekið mikinn þátt í þeirri umræðu. En landslagið er nú breytt, mjög breytt. Þangað til í gær var ljóst að formaður Sjálfstæðisflokksins var á móti aðildarviðræðum. Það breyttist í gær. Þangað til í dag var til einn stjórnmálaflokkur sem stóð harður á því að ekki ætti skerða fullveldi þjóðarinnar, hvorki með kosningum né öðrum ráðum. Nú er það frá þar sem VG heldur upp á 90 ára afmæli fullveldisins með því að troðast ofan í nauðhyggjuskurð Evrópusinna. Breytir þá engu þó Steingrímur Joð segi að hann telji að ESB aðild þjóni ekki hagsmunum Íslendinga.

Í dag fagna ESB sinnar innan VG áfangasigri enda vegferð þeirra í átt að stefnubreytingu hafin.

Á sama tíma berast þau tíðindi að fylgi við ESB meðal þjóðarinnar fari minnkandi og ástand efnahagsmála suður þar í álfu fari mjög versnandi...


Ríkið kemur hákörlunum til hjálpar...

Við skulum ekki gleyma því að á undanförnum árum hafa stórskuldug stórfyrirtæki og keðjumenn tekið litlar verslanir, prentsmiðjur, flutningafyrirtæki, sjoppur, fjölmiðla, kjötvinnslur, sláturhús, trillukarla og guð má vita hverja fleiri og ýtt þeim útaf borðinu.

...

Nú mega landsmenn allir leggja skattpeninga sína sem eigið fé í stórfyrirtækin sem drápu litlu byggingavöruverslunina á horninu, settu Jóa flutningabílstjóra á kúpuna og sáu til þess að blómaverslunin hennar Hönnu komst í þrot. Er þetta réttlætið sem ríkisstjórn jafnaðarmanna færir okkur? Má ég þá heldur biðja um Geirslegt aðgerðarleysi og slen.

- Sjá nánar í grein minni á frábærum AMX fréttavef Óla Björns og félaga, http://amx.is/?/pistlar/624/

 


Drekkti sér í Lómatjörn...

Fátt í haginn framsókn gengur
furðu lin í sókn og vörn.
Og Bjarni þessi dáðadrengur
drekkti sér í Lómatjörn.

Þessa rakst ég á inni á vef vinar míns Dofra Hermannssonar og er talin eftir Jóhannes á Gunnarsstöðum. Hann hefur fyrr ort listilega um mig og aðra.

Enn er fólk að býsnast yfir þessu og vottar mér jafnvel samúð,- þeir sem þora. Aðrir verða vandræðalegir. Ekki þó hún frænka mín í Rangárþingi sem sagði af þeirri einurð og heiðríkju sem mér jafnan þykir yfir konum í þeirri sýslu:

- Ertu ekki hnugginn yfir þessu, frændi!

En ég er það ekki. Flesta daga manna sælastur og hefði illa unað mér í  þingflokknum að Guðna gengnum. Þar hefði ég illa átt heima undir ESB forystu Valgerðar. Kannski jafn illa og Valgerður átti heima undir forystu Guðna! Og jafnt þó aldrei hefðu nein tölvuskeyti skotist úr tölvunni minni.

Fólk á aldrei að vera þar sem það unir sér ekki og kemur sínum baráttumálum ekki fram.

Þegar þetta kom uppá voru margir sem skoruðu á mig á að sitja sem fastast - ég gæti bara sagt mig úr flokknum og látið þar við sitja. Enn heyri ég þessu haldið fram. Ég hefði sjálfur aldrei fellt mig við það. Ég fór inn á vegum Framsóknarflokksins og vilji ég sitja án þess að vera í honum þá vil ég gera það undir nýrri kosningu. Nýju umboði kjósenda. Sem vel getur orðið, ef það er bæði vilji kjósenda og minn. Veit auðvitað ekki með kjósendur og ég veit ekki heldur með sjálfan mig.

Og svo er ég spurður hvort ég sjái eftir þessu. Ég veit það varla, - held kannski að þetta hafi átt að fara svona. Ég er baráttumaður og hef barist fyrir hugsjónum fullveldisins inni í Framsóknarflokknum. Gengið þar vasklega fram auðvitað farið aðeins framúr mér í þessu síðasta. En það allt í sama baráttuhug gert. Innanhúss í okkar flokki var ástandið fyrir löngu orðið óbærilegt vegna baráttunnar milli sanntrúaðra ESB - sinna og fullveldissinna. Það varð einhvernveginn að höggva á þann hnút. Ég hefði auðvitað kosið að spottarnir skytust öðruvísi við það högg - en það er léttir að það er af.


Hallgrímur og Spegilsritstjóri með vinninginn...

hallgrimurHef nú hesthúsað allavega 9 af jólabókum ársins og enginn vafi hver hefur þar vinninginn. Bók Úlfars Þormóðssonar um Hallgrím Pétursson er eitt af stórvirkjum þessara jóla. Ekki bara að Úlfari takist hér að draga upp trúverðuga lýsingu á sálmaskáldinu ástsæla og lífi á Íslandi á 17. öld.

Það sem er i raun og veru meira um vert er að Úlfari tekst frábærlega til við skáldsöguþátt þessarar bókar. Við vitum auðvitað mjög lítið um persónu Hallgríms Péturssonar utan það sem kveðskapur hans og beinagrind af lífshlaupi segir okkur. Þegar þessu tvennu sleppir þarf skáldið að taka við og það gerir Úlfar svikalaust og með þeim hætti að bókin stendur sem ein af betri skáldsögum ársins, jafnframt því að vera góð heimildarsaga.

Þessi bók tekur langt fram fyrri bókum gamla spegilsritstjórans þó hinar hafi verið allgóðar.

Ég á svo eftir að lesa hinn Hallgríminn, þ.e. Helgason en geri fljótlega enda í miklu uppáhaldi hjá mér og skrifa þá um hann og fleiri bækur hér á næstu dögum. Sem stendur er bók Þórhalls Heimissonar á reykborðinu.


Flokksræðið er verst...

Mikið er nú skrafað um máttleysi Alþingis og vonum seinna að um það sé fjallað. Sá sem hér skrifar hefur lítilsháttar reynslu af þingsetu og óneitanlega kom mér margt mjög á óvart í starfsháttum þessarar stofnunar. Mest þó ósjálfstæði einstakra þingmanna sem kann að vera lykillinn að því að veikja þingræðið gagnvart þremur höfuðóvinum þess; framkvæmdavaldi, flokksvaldi og embættismannavaldi.

(Sjá nánar á Smugunni þar sem ég skrifaði minn fyrsta pistil í dag um þingræðið og Alþingi, http://smugan.is/pistlar/adsendar-greinar/nr/244)


Davíð og Halla koma líka

Davíð A. Stefánsson sem er eins og afnafni hans á síðustu öld, skáld að norðan, kemur líka í bókakaffið í kvöld. Halla Gunnarsdóttir bauðst til að grípa piltinn með sér en hann gefur út Tvískinnu sem er afar áhugaverð unglingabók svo það fer að verða verulega áhugavert fyrir unglingana að mæta - og alla sem leita að jólagjöfum handa þeim. Semsagt kl. 20:30 í Sunnlenska bókakaffinu, sjá nánar hér næstu færslu fyrir neðan.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband