Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Alltaf sami bankinn... og Bjarnabófarnir á mynd!

Atburðir dagsins eru ekki til þess að hafa í flimtingum og samstaðan um aðgerðir Seðlabankans í nótt sem leið mikilvæg fyrir þjóðarhag. Kannski þurfum við lexíu eins og þessa til að skilja að þrátt fyrir allt þrasið og alla ofgnóttina eigum við í raun og veru öll sameiginlega hagsmuni af því að halda hér hagkerfi á floti. Og það er verkefni dagsins.

Hitt er umhugsunarvert að það skuli alltaf vera svo gott sem sami bankinn sem lendir hér í hremmingum. Gamli Íslandsbanki var stofnaður af dönum fyrir liðlega 100 árum og fór á hausinn í kreppunni miklu um 1930. Á rústum hans reis svo Útvegsbankinn sem fór á hausinn í Hafskipsmálinu og upp úr þeim banka og nokkrum litlum öðrum litlum bönkum varð til Íslandsbanki síðari seint á síðustu öld og sá banki skipti svo um nafn í byrjun þessarar aldar og hefur síðan heitið Glitnir. Hann varð í dag ríkisbanki líkt og Útvegsbankinn sálugi var um áratugaskeið eða frá 1957 og fram að Hafskipsævintýri.

Hvort þessi endurteknu örlög eru tilviljun er rannsóknarefni.

Læt svo hér flakka með til gamans mynd af okkur Bjarnabófunum sem tekin var á Litla Hrauni þegar félagsmálanefnd Alþingis fór þangað í heimsókn í vikunni. Þar hitti ég meðal annarra heiðursmanna Bjarna þann sem í eina tíð var í Kjarnholtum og nafna hans,- nærstaddur heimamaður var ekki seinn á sér að bregða upp myndavél með þeim orðum að þar næði hann nú mynd af Bjarnabófunum og hún er birt hér með góðfúslegu leyfi, semsagt frá vinstri Bjarni, Bjarni og Bjarni.

bjarnabofarnir


Leiðindablogg og fagur bautasteinn

100_3410Það voru löngu tímabærar skammir um daginn sem ég fékk frá vini mínum Lýði Pálssyni um að blogg þetta væri bara um efnahagsmál og evruþras. Mér er sjálfum farið að þykja þetta leiðinlegt með köflum og kannski er ég bara ekki í skemmtilegri vinnu en þetta. En þetta er líka meginástæðan fyrir því hversu margir eru glópskir í Evrópuumræðunni,- það nennir enginn að setja sig inn í hana því hún er svo leiðinleg. Einn kommentaði um daginn hjá mér og sagði,- nei aldrei færi nú nokkur stjórnmálamaður að fallast á Evrópusambandsaðild ef það væri engin leið út! Sem er þó tilfellið. Og sami maður er vís til að segja já við því að við eigum að hefja viðræður við ESB! (Ég veit ég veit ég veit,- ég er byrjaður aftur í pólitík...)

Ég ætlaði að skrifa hér smávegis af fjölskyldunni en hefi nú sagt frá flestum af hyski mínu í eitt og annað sinnið. Meira að segja talað um köttinn sem hefur mikil hljóð og farsælar gáfur. Kannski helst að ég eigi eftir að blogga um Snorra frænda minn sem ég hitti fyrir óvænt um daginn. Og af öllum Áshreppingum efast ég um að nokkur eigi honum fallegri stein í Kálfholtskirkjugarði og var hann þó allra karla fátækastur austur þar.

Flestir liggja hér undir steyptum steinum og reisulegum - sumum mikið haganlegum en samt er steinninn hans Snorra í smæð sinni merkilegri. Ekki samt fyrr en við feðgin höfðum reitt ofan af honum mesta grasið og vissulega þyrfti að losa aðeins um og hækka steininn en það gerum við ekki í leyfisleysi. Það var Eva sem hér sést við steininn sem fann karlinn,- ég gekk einn hring næsta sannfærður um að auðvitað lægi allt mitt fátæktarfólk í ómerktum gröfum. 100_3403

Ég er ekki steinafróður en ímynda mér að þetta sé einhverskonar móbergssteinn. Ofan í hann hefur verið höggvið þannig að eftir standa haganlega gerðir upphleyptir stafir þar sem á eru letruð nöfn þessara sæmdarhjóna Snorra í Húsum og Guðbjargar konu hans. Hún dó 1957 á tíræðisaldri en hann nálægt sjötugu 1922. Afkomendur þeirra eru flestir syðra eða lengra frá.

Um Snorra þennan voru sagðar kímisögur líkt og bróður hans Guðlaug langafa minn og systur þeirra Margréti í Ranakoti sem var sögð göldrótt og gekk aftur. Þau voru frá Látalæti á Landi, sjö sem komust upp og öll dvergvaxin af beinkröm. Sagt var um Snorra sem bjó rétt við Þjórsárbrúna að hann hefði illa þorað að ganga yfir það ferlíki eftir brúarvígsluna 1895 en látið sig hafa það þegar hann var leiddur yfir með trefil fyrir augum. Sami karl hefur vísast verið óhræddur við að sundleggja jökulvötn!

Á ættfræðivef sem bróðir minn kom upp í vetur leið birti ég eftirfarandi um foreldra Snorra, Jón og Helgu í Látalæti og þeirra fólk:

Hjónin Helga Snorradóttir og Jón Jónsson í Látalæti voru vel meðalmenn að hæð og mesta myndarfólk samkvæmt lýsingu sem Eyjólfur Landshöfðingi gefur í bréfi til Skúla Helgasonar fræðimanns um miðbik 20. aldar. Barnabörn þeirra urðu mörg og flest vel að manni eins og sagt var um þá sem voru bæði eðlilegir að stærð og líkamsburðum. Sama var ekki sagt um Guðlaug og systkini. Þau voru öll afar smávaxin og pasturslítil. Tveggja álna fólk, þ.e. um 130 sentimetra há. Fræðimaðurinn Helgi Hannesson sem mundi þetta fólk sagði þeim sem hér ritar að þau hafi öll verið afturkreistingar en áréttaði það með orðinu uppkreistingur þegar ég ekki skildi fyrrnefnda hugtakið öðruvísi en sem einhverskonar fúkyrði. (Nyrðra voru þetta kallaðir kramar-aumingjar).

Orðið vísar vissulega til fordóma og harðneskju fyrri tíma en líka þeirra flimtinga sem fyrri tíðar fólk hafði í vörn sinni um það sem miður var. Hugtakið merkir einfaldlega að viðkomandi hafi fengið beinkröm í æsku og ekki náð eðlilegum vexti. Lýsingin á foreldrunum á Látalæti og líkamsvöxtur afkomendanna tekur af öll tvímæli um að hugtakið átti hér fullkomnlega við þó svo okkur geti svo mislíkað hvað hljóðan þessara orða er niðurlægjandi. Rétt eins og viðhorfin gagnvart þeim sem minna máttu sín í samfélagi þessa tíma. Beinkröm fengu börn af næringarskorti og var af sumum kallað „enska veikin" þegar börn voru orðin sljó af matarleysi. Látalætissystkinin ólust upp á einu harðasta tímabili þjóðarinnar á harðbalakoti í sveit þar sem geysuðu látlausar náttúruhamfarir á þessum tíma, uppblástur uppsveita Rangárþings en þessar náttúruhamfarir urðu síðan drifkrafturinn að stofnun Landgræðslu ríkisins.

Einn bræðra Guðlaugs var Jón Jónsson bóndi á Svínavatni, afi Jóns Ingileifssonar sem þar býr nú. Ingileifur bróðursonur Guðlaugs sem var sveitarhöfðingi í Grímsnesi var stór maður og stæðilegur en faðir hans að sama skapi lítill. Einhvern tíma á millistríðsárunum kom Lýður heitinn á Gýgjarhóli við á Svínavatni á leið sinni upp í Tungur og þeir vinirnir, hann og Ingileifur fóru að metast um líkamsburði sína. Sagan gerist fyrir þann tíma að best þyki að vera sem léttastur og hér gilti þvert á móti að hafa verið sem þyngstur. Jón sagðist þyngstur hafa verið 17 fjórðungar (um 85 kg.) og Lýður hélt sig hafa náð 18 fjórðungum. Gellur þá í Jóni karli sem var þegar hér kom orðinn fjörgamall:

Ég var nú þyngstur 13 fjórðungar.

Ingileifur, sem var fljótmæltur mjög, svarar þá strax:

„Hvað er um þig að tala pabbi, sem aldrei hefur maður verið!"

Að aflokinni myndatöku af Evu dóttur minni við legsteininn trúði ég henni fyrir að fengi ég svona fallegan stein gæti nú bara verið reglulega gaman að vera dauður...


Borðiði bara kökur...

Danskir bankar hrynja nú og svo er víðar um versu en þeir íslensku standa, furðu keikir bara. Hversvegna skyldi það nú vera,- það skyldi þó ekki vera af því að hér er ekki evra. Við getum bókað að ef gengið hefði verið sett fast við evru fyrir ári síðan þá væri viðskiptabankarnir allir þrír við það að fara á höfuðið núna og fjölmörg innlend fyrirtæki önnur eftir ágjöf allra síðustu missera. Enda eru bankarnir hér heima bara hættir að tala um nauðsyn þess að taka upp evru,- skrýtið!

Það sem hefur bjargað því að hin alþjóðlega lánsfjárkreppa hefur ekki drepið hér atvinnulífið er sveigjanleikinn í genginu, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Og það er auðvitað ekki hægt að tala um að skipta um gjaldmiðil þegar gengisvísitalan er komin yfir 180 og við fengjum eiginlega ekkert fyrir allar okkar krónur.

En það eru vitaskuld til blindir Evrópusinnar sem segja sem svo að bankar og atvinnulíf megi fara í kolað bara ef kaupmáttur skrifaðra launataxta stendur. Minna í raun svolítið á drottninguna frönsku sem sagði hungruðum brauðlausum almúganum að borða þá bara kökur...

Annars má ég til með að vekja athygli ykkar á frábærri úttekt  Egils Jóhannssonar forstjóra Brimborgar um hvernig hér væri umhorfs í evrulandi...

- en semsagt egill, takk fyrir snöfurmannlega úttekt.


Reikniskekkjur skjálfhentra ESB - sinna

Handarskjálfti getur tíðum leitt til þess að rangt er slegið inn á reiknivélum og svo virðist nú farið þeim aðildarsinnum sem reiknað hafa út að aldrei hafi fleiri Íslendingar verið hlynntir ESB - aðild en nú. Ef litið er á tölur á heimasíðu Samtaka iðnaðarins sést að þetta er rangt. Fylgið við aðild að ESB náði meiri hæðum í netbólukreppunni í byrjun þessarar aldar en rénaði fljótt um leið og um hægðist á mörkuðum.

Þannig töldu 67% þeirra sem tóku afstöðu í febrúar 2002 að Ísland ætti að ganga í ESB en nú er sambærileg tala 60%. Frændur okkar Svíar gengu í ESB í krafti einnar atkvæðagreiðslu sem sýndi meirihlutafylgi við aðild. Bæði fyrir og eftir þá kosningu hefur meirihlutinn verið andvígur ESB - aðild þar í landi en úr ESB er engin leið út.

Skrýtla í skrifræðinu

Í nýjum Lissabonsáttmála er reyndar ein skrýtla um úrsögn þar sem gert er ráð fyrir að þjóð megi ganga úr ESB en verði þá fyrst að sæta því að vera gíslingu hinna ESB landanna í tvö ár án þess að ráða nokkru um sín mál eða koma nokkuð að ákvörðunum innan sambandsins. Í öllu skrifræði sambandsins er þetta eitt af örfáum dæmum um skopskyn og enn fyndnara þegar einhver tekur reglu sem þessa alvarlega.

En áfram um talnafræðin. Þegar horft er til sögu Svía og niðurstöður skoðanakannanna á Íslandi síðustu ár er handarskjálfti ESB - sinna hér heima ofur skiljanlegur. Reynslan kennir þeim að meirihlutafylgi við ESB - aðild er mjög hverfult. Fæstir hafa skoðað málið til þrautar og fyrir flestum rennur upp önnur mynd þegar þeir átta sig á að með aðild að ESB hefur Ísland glatað nýfengnu fullveldi um alla framtíð. Fullveldi sem hefur skilað okkur svo fram á brautina að frá því að vera frumstæðust og fátækust allra Evrópuríkja erum við nú þau efnamestu.

Reynsla Norðmanna bendir raunar til að við kosningar sé þjóðleg hollusta og skynsemi mun meiri en í yfirborðslegum skoðanakönnunum. Meirihluti Norðmanna hefur samþykkt ESB aðild í könnunum en hafnað hinu sama í kosningum.

En hinu er ekki að neita að ef fjármálakreppan dýpkar enn og verðbólgan heldur áfram er líklegt að fylgi við ESB aðild eigi jafnvel enn eftir að aukast - áður en það hjaðnar hratt á ný, líkt og gerðist á árinu 2002. Þá gerðist það að fylgi við ESB féll mjög hratt um mitt ár 2002 og hefur síðan lónað í 40% allt fram til ársins 2006 að það fór að skríða hægt uppundir helming en sú þróun stöðvaðist í raun og veru fyrir ári síðan. Munurinn á ágústtölum Samtaka Iðnaðarins nú (48,8%) og ágústtölunum frá 2007 (47,9%) er innan skekkjumarka.

Almenningur á að hlýða ESB!

ESB - sinnar eiga ekki langt að sækja það að vera ónákvæmir á reiknivélum þegar kemur að skoðunum almennings. Hjá sjálfu Brusselvaldinu hefur aldrei tíðkast að farið sé eftir skoðunum almennings, - það er almenningur sem á að fara eftir skoðunum valdsins. Kosningar eru til að staðfesta þegar markaða stefnu og ef almenningur hafnar því sem fyrir hann er lagt er það vegna þess að sami almenningur hefur ekki skilið kosningarnar. Þessu er nú haldið fram um Lissabonkosningar Íra.

Frakkar höfðu hafnað sömu tillögum í þjóðaratkvæðagreiðslu með mjög afgerandi hætti og sama gerðu Hollendingar. Í stað þess að farið væri að vilja almennings var nafni á hinni nýju stjórnarskrá breytt og hún kölluð Lissabonsamningur. Síðan sjá þjóðþingin um að keyra það í gegn sem almenningur hafði hafnað.  Andstaða almennings við Evrópusamrunann innan ESB landanna er orðin áþreifanleg og feigðarmerki sambandsins flestum augljós.


Hvað ef hér hefði verið evra!?

Framsóknarflokkurinn kynnti merka skýrslu um gjaldmiðilsmál þjóðarinnar, ítarlegt plagg. Engum blandast hugur um að okkar agnarsmáa og fljótandi króna er ekki gallalaus, hvorki fyrir heimilin né fyrirtækin sem keppa í ólgusjó heimsviðskipta.

Af skýrslu þessari má ýmsa lærdóma draga en kannski þann merkastan að ástandið væri hér fjári skítt ef við hefðum nú glapist á að taka upp evru fyrir svosem áratug síðan.

Þá hefðum við aldrei farið í gegnum netbólukreppuna í byrjun aldarinnar nema með gjaldþrotum. Sem hefðu svo kallað á atvinnuleysi.

Kreppan sem skall á í vetur leið hefði kallað fram hrinu gjaldþrota, verulegt atvinnuleysi og næsta víst að einhver bankanna væri þá farinn veg allra vega. Sem og orðspor okkar og traust í alþjóðlegu fjármálaumhverfi. Kreppan væri okkur því miklu erfiðari en hún þó er - en það hefði ekki orðið gengisfelling launa með sama hætti og orðið hefur.

Og það væri örugglega minni froða í hagkerfinu í dag ef við hefðum haft evru sl. áratug en hagvöxturinn hefði líka verið umtalsvert minni og atvinnuleysið töluvert. Sem hefði svo aftur gert okkur mun verr í stakk búin til að mæta þeim stórsjó sem nú ríður yfir alla heimsbyggðina.

Og auðvitað hefði gengið sveiflast - gagnvart dollara til dæmis með tilheyrandi hörmungum fyrir áliðnaðinn í landinu.

Þeir sem halda að þetta sé einfalt og gangi út á patentlausnir ættu að hugsa um eitthvað annað,- eitthvað þar sem patent raunverulega virka!


Sakleysi Seðlabankans og mýrarljós mannanna!

Þeir dagar eru liðnir að pólitískir valdhafar hér norðan Alpafjalla telji sig óskeikula. En embættismenn eru meira og minna við sama heygarðshornið og sumir svo drýldnir yfir óskeikulleika sínum að yfir flóir. Þannig skrifar einn Seðlabankastjóra þjóðarinnar í Morgunblaðið 9. ágúst sl. í svargrein til til þeirra Einars Benediktssonar og Jónasar Haralz;

„Sé með þessu gefið til kynna að Seðlabankinn hafi látið hjá líða að gera eitthvað sem honum bar að gera þá er misskilningur á ferð..."

Seðlabankastjóri vísar hér til gagnrýni á peningamálastefnu bankans. Ef rétt reynist að til sé stofnun sem alltaf hefur gert allt það sem hún á að gera þá væri það vitaskuld þakkarvert en því fer fjarri þegar Seðlabanki Íslands á í hlut. Staðreyndin er að mikið af þeim óförum sem íslenskt hagkerfi hefur ratað í á undanförnum árum tengist röngum ákvörðunum og aðgerðarleysi sömu stofnunar.

Siðapredikari í fjárglæfrum

Með nýjum lögum um Seðlabankann 2001 var bankanum falið aukið sjálfstæði og bankinn setti sér í framhaldi af þeim lögum verðbólgumarkmið sem miðast við 2,5% verðbólgu. Til þess að fylgja því eftir hefur stofnunin notað stýrivexti sem upphaflega var ætlað að hemja eftirspurn eftir lánsfé. Í upphaflegum markmiðum árið kom hvergi fram að stýrivextir ættu að hafa önnur áhrif s.s. þau að skapa hér peningamaskínu jöklabréfa eða að spenna upp gengi krónunnar.

Stýrivaxtavopn til baráttu gegn þenslu er gamalkunnugt í hagfræðinni en hefur verulega sljóvgast og orðið marklítið í aukinni alþjóðavæðingu peningamarkaðar. Þannig eru hvorki fyrirtæki né einstaklingar bundnir af stýrivöxtum síns Seðlabanka í eðlilegu árferði heldur geta þeir á öllum tímum sótt sér lán og fyrirgreiðslu þar sem best kjör bjóðast. Með stýrivöxtum má hafa lítilsháttar áhrif á skammtímaskuldir og skuldir þeirra sem standa höllum fæti, s.s. í gegnum dráttarvexti o.fl. Þrátt fyrir að þessi þróun hafi mátt vera öllum ljós strax í byrjun 21. aldarinnar og enn betur eftir því sem liðið hefur á eru engin merki um að Seðlabankinn hafi séð ástæðu til að endurskoða aðferðir sínar.

Enda fór svo að stýrivaxtavopnið virkaði tímabundið þó það væri með mjög annkanalegum hætti og líkast því sem það virkar að pissa í skó sinn í miklum kulda. Fyrst í stað hitnar þeim sem það gerir þó fljótt bregði mjög til hins verra. Stýrivextir sem voru miklu mun hærri en gerist í öðrum löndum með sæmilega þróuð hagkerfi urðu til þess að skapa hér óeðlilegar væntingar fjármálaspekúlanta og braskara með íslensku krónuna og eru þannig til komin svokölluð jöklabréf sem hanga nú yfir hagkerfinu eins og fallöxi. Ásakanir Seðlabanka um árásir vondra manna á íslenskt hagkerfi hljóma því eins og vandlætingaræður aflátssala.

Aukin eftirspurn braskara eftir krónunni olli hækkandi gengi langt upp fyrir það sem raunhæft gat talist. Um það er ekki efast í dag, hvorki af talsmönnum Seðlabanka, ríkisstjórnar eða hagfræðingum. Þar með er í raun og veru viðurkennt að það var Seðlabankinn sjálfur sem gerði út á áhættusama fjárglæfra í viðleitni til að fela verðbólgu. Því vitaskuld sífellt þýddi hækkandi gengi að verð á innfluttum varningi lækkaði um leið og útflutningsgreinar og samkeppnisiðnaður fengu sífellt minna í sinn hlut. Þannig var í reynd grafið undan burðarásum hagkerfisins með mjög ófyrirleitnum hætti. Hafi það verið raunveruleg trú þeirra sem stjórna í Seðlabankanum að með þessu hafi verið unnið gegn þenslu þá er ástæða til að efast um hæfni sömu manna til starfa sinna. Staðreyndin er að of hátt gengi í landi sem reiðir sig jafn mikið á innflutning og við gerum hlýtur að stuðla að aukinni neyslu. Innfluttar vörur voru einfaldlega á útsölu sem ferðaþjónusta, fiskvinnsla og önnur gjaldeyrissköpun landsmanna sá um að niðurgreiða.

Niðurgreiðsla á innfluttum varningi, erlendum vöxtum og reyndar erlendum hlutabréfum einnig (útrásin) olli svo vaxandi þenslu og hafði þar mun meiri áhrif heldur en nokkurn tíma Kárahnjúkar eða breytingar á íbúðalánum. Það er því rangt sem Eiríkur Guðnason seðlabankastjóri segir að Seðlabankinn hafi einn barist við þensluna og allir aðrir borið eld að. Með vaxtastefnu sinni og gengishækkunum framan af niðurgreiddi Seðlabankinn í reynd erlenda vexti og átti þannig ríkan þátt í að kynda þenslubálið  .

Þegar allt frýs!

Stýrivaxtahækkunum í þeim hæðum sem hér eru ástundaðar verður sem fyrr segir helst líkt við það að verjast fótarkali með því að pissa í skó sinn. Sé frostið mikið kemur svo að því að allt frýs saman, maður og skór með öllu sem í milli er. Er þá mjög illa komið og sama má segja um íslenskt hagkerfi um þessar mundir þar sem frostkrumla efnahagskreppu skellur nú yfir. Þar ræður miklu alþjóðleg bankakreppa og niðursveifla á mörkuðum en þrákelkni Seðlabanka á stýrivaxtasvipunni hefur líka mikið að segja.

Sem fyrr segir er það klassísk hagfræði að draga megi úr eftirspurn eftir lánsfé með háum vöxtum. Minna lánsfé dragi síðan úr þenslu sem aftur dregur úr verðbólgu. Ráði sá sem hækkar vexti mjög litlu á markaði hafa slíkar hækkanir mjög lítið að segja og það átti við hér á landi allt fram að bankakreppunni. Nú þegar lokast sífellt meira fyrir vexti á alþjóðamörkuðum gegnir allt öðru máli og skyndilega hefur Seðlabankinn ofurvald yfir íslenskum fyrirtækjum sem hann hefur ekki haft síðan einhvern tíma á síðustu öld.

Ef einhverjir ábyrgir aðilar telja að þensla sé í hið raunverulega vandamál hagkerfisins nú á haustdögum 2008 þá væri hægt að sjá einhverja skynsemi í því að hafa stýrivexti hér hærri en í nágrannalöndum okkar. Það væri samt mikið vafamál að þeir ættu nokkru sinnum að geta farið þrefalt yfir stýrivexti nágrannalanda okkar. Nú eru aftur á móti allir sammála um að vandamál hagkerfisins nú og á komandi vetri sé verulegur samdráttur sem muni leiða til minnkandi atvinnu, gjaldþrota og minni kaupmáttar. Sumt er þegar komið fram, annað ekki. Verðbólgan sem mælist er vegna gengisfellingar og er í raun eðlileg afleiðing af hágengisstefnunni sem Seðlabankinn ýtti undir áður. Þannig er Seðlabankinn höfundur núverandi verðbólgu en ekki vörn gegn henni.

Þrátt fyrir að Seðlabankanum hafi á þenslutíma mistekist svo hrapalega að slá á þenslu bætir hann ekki fyrir það með því að slá hagkerfið niður nú þegar það liggur sérlega vel við höggi. Það sem nú þarf er að auka kraft hagkerfisins og það verður ekki gert með því að okra á þeirri vöru sem öll fyrirtæki þurfa fyrst og síðast til að halda lífi,- lánsfé. Hin alþjóðlega lánakreppa sér um að gera allan atvinnurekstur erfiðan og Seðlabankinn nú hefur það hlutverk að örva hagkerfið. Allt annað getur leitt til þess að íslenskt hagkerfi sigli á erfitt blindsker sem mun svo aftur verða til gengisfellingar og enn meiri verðbólgu.

Hinir óskeikulu

Tilefni þessarar greinar voru öðru fremur orð Eiríks Guðnasonar seðlabankastjóra þar sem hann talar fyrir óskeikulleika sinnar stofnunar. Það er vont mýrarljós að trúa slíku um sjálfan sig og enn verra að trúa á óskeikulleika annarra líkt og sá mæti bankamaður Jónas Haralz virðist nú gera þar sem hann predikar Evrópusambandsaðild.  Þeir Seðlabankamenn virðast ekki hafa skilið það að árangursrík stjórn peningmála og raunar efnahagsmála í yfirleitt byggist á vandlegri skoðun á aðstæðum hvers tíma, en ekki  einföldum þumalfingursreglum sem hannaðar voru fyrir mörgum árum fyrir allt annað hagkerfi en við búum við í dag. Staðreyndin er að efnahagsmál verða aldrei leyst með patentlausnum og mýrarljós eru fyrir grillufangara.

(Birt í Mbl. 11. september 2008)


Engin kreppa hjá okkur þingmönnunum!

Í öllum þeim aragrúa af skilgreiningum hagfræðinnar á hugtakinu „kreppa" er aðeins ein sem stenst tímans tönn. Hún er svona orðuð á Vísindavef HÍ:

„...að viðmiðið eigi að vera að þegar atvinnuleysi eykst, þá teljist það samdráttur nema þú verðir sjálfur atvinnulaus, þá sé það kreppa."

Þetta kom glöggt fram í umræðum Alþingis um stöðu efnahagsmála þar sem loksins gerðust þau undur að talsmenn Samfylkingar tjáðu sig um efnahagsmál án þess að fara einvörðungu með trúarjátningar um Evrópusambandsaðild. Kannski hefði þetta samt betur verið ógert en Samfylkingin situr jú í ríkisstjórn þessa dagana og í þessum flokki er boðskapurinn skýr: Það er engin kreppa á Íslandi. Aðalatriðið er að varast ofþenslu!

Nýjar hagfræðikenningar!

Nokkrir af talsmönnum krataflokksins eyddi líka tíma sínum í að lýsa yfir hollustu við stýrivaxtastefnu Seðlabanka Íslands. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sló óborgarlegar keilur í ræðu sinni þegar hún færði sönnur á að það gæti ekki verið kreppa á Íslandi: Jú þar sem það er verðbólga á Íslandi og háir stýrivextir þá getur ekki verið kreppa!!!

Nokkrir af minni spámönnum sama flokks með Árna af Stóra Hrauni í broddi fylkingar tók síðan upp merkið og skammaði Framsóknarflokkinn fyrir að vilja lækka hér stýrivexti, skipta þannig um hest í miðri á og losa um ofurþenslu og ofurhagvöxt í samfélaginu. Að efna til framkvæmdafylleríis nú væri ekki sjálfbær atvinnustefna. Nú yrði að efla stöðugleikann og standa fast á 15% stýrivöxtum.

Arfur aftan frá allaböllum!

Samfylkingin er vissulega skrýtinn flokkur, samsuða úr Kvennalistanum sem mér fannst nú alltaf mjög falleg hreyfing, Alþýðuflokknum þar sem saman komu í gamla daga alltof margir kaldlyndir gáfumenn og svo hreyfingu sósíalista sem bjó yfir mikilli réttlætiskennd en flestir áttu það líka sammerkt þar að skilja ekki baun í hagfræði. Þetta síðastnefnda held ég stundum að sé hið eina sem Samfylkingin tók í arf úr gamla Alþýðubandalaginu.

Það hefði allt mátt vera okkur meinalaust nema að nú situr hópur þessa fólks að landsstjórninni og skilur ekki að Ísland er að detta inn í alvarlegt kreppuástand. Vita ekki að háir stýrivextir eru við slíkar aðstæður hrein og bein skemmdarverkastarfssemi. Að verðbólga samtímans er ekki vegna þenslu heldur gengisfalli og þessvegna verður þessi verðbólga aldrei barin niður með stýrivöxtum eða öðrum baráttuaðferðum gegn þenslu. Og að engir, ekki einu sinni við Framsóknarmenn, gætum galdrað fram ofþenslu við núverandi aðstæður.

Það að hafa hátt stýrivaxtastig til sanninda um að það sé ekki kreppa er eins og sanna það á mánudagsmorgni að enn sé helgi með því að vakna drukkinn. Já,- og það að trúa því að Ísland geti við núverandi aðstæður lent í framkvæmdafylleríi bendir til einhvers sem ég treysti mér ekki um að tala.

Asnakreppa íhaldsins

Við þessar aðstæður er íhaldið gamalgróna í reglulega asnalegri kreppu og veit vel af því. Það duldist reyndar ekkert í umræðum í þinginu þar sem fleiri en einn af þingmönnum þess tók algerlega undir að auðvitað þyrfti að hefja hér vaxtalækkunarferli.

Og jú,- helsti talsmaður Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum, Illugi Gunnarsson taldi líkt og sá sem hér skrifar að hávaxtastefna við þessar aðstæður stæðist afar illa en sagði að samt sem áður væri ekki hægt að hrófla við Seðlabankanum. Það yrði hreinlega of áberandi út um veröld alla.

Ég varð eiginlega hrærður við þessa hreinskilni. En þetta er svo sannarlega asnaleg staða sem hagstjórnin hjá íhaldinu er lent í. Og með alla Samfylkinguna sér til ráðuneytis!

(Ég veit að einhverjir efast um að þingumræðan hafi verið svona óborganleg en bendi þeim hinum sömu á að skoða vef alþingis, fara þar undir liðnum „þingfundir" inn á fundinn sem haldinn var 2. september og lesa tilvitnaðar ræður - til dæmis þetta hér, hér eða hér og ræða Illuga hér)

Birt í 24 stundum sl. laugardag


Mál Cumara fjölskyldunnar leyst!

Mark Cumara þarf ekki að fara úr landi fyrir 16. september heldur fær hann að vera í landinu uns umsókn hans um dvalarleyfi hefur verið afgreidd hjá útlendingastofnun. Fyrirheit um þetta fékk ég staðfest hjá Útlendingastofnun nú á ellefta tímanum. 477450

Það er þó fjarstæða að ég þakki mér þessa lyktir málsins en þrýstingur margra stjórnmálamanna í málinu hafði hér áhrif. Sjálfur heimsótti ég fjölskylduna í gærkvöldi sem vissi þá ekki betur en frestur Marks til að pakka niður og yfirgefa landið væri að renna út á allra næstu dögum. Fjölskyldan var mjög áhyggjufull þar sem ekkert var tryggt að sonurinn fengi að koma aftur heim í Þorlákshöfn.

Mál þetta er allt hið undarlegasta og kallar á fjölmargar spurningar.

Í stuttu máli er saga Filippseyingsins Marks sú að kom til landsins 17 ára ásamt móður sinni. Það var árið 2003. Foreldrar hans og fleiri ættingjar höfðu þá búið hér og starfað frá því laust fyrir aldamót.

Mark sem taldist á barnsaldri þegar þetta var fékk dvalarleyfi sem barn móður sinnar en það leyfi rann út þegar hann var 18 ára.

Mark fékk atvinnu hjá Frostfiski í Þorlákshöfn þar sem hann hefur unnið samfellt í fjögur ár og var algerlega grunlaus um að dvalarleyfi hans hefði runnið út árið 2004. Foreldrar hans fengu á næstu árum ríkisborgararétt á Íslandi enda þá bæði búið hér lengi og orðnir nýtir borgarar í Þorlákshöfn þar sem flestir úr fjölskyldunni starfa við fiskvinnslu.

Mark fékk vitaskuld kennitölu þegar dvalarleyfi var veitt, greiddi staðgreiðslu af launum, greiddi til lífeyrissjóðs og stundaði venjuleg viðskipti við sinn banka eins og aðrir Íslendingar. Hvergi hringdi neinum bjöllum og vinnuveitandi hans var jafn grunlaus um að ekki væru allir pappírar í lagi.

Í ársbyrjun 2008 fór fjölskyldan að kanna hagi Marks þar sem til stóð að öll fjölskyldan færi í heimsókn til Filippseyja þar sem móðuramma Marks býr enn, áttræð að aldri. Þá rak fjölskyldan sig á að ekki var allt með felldu og fékk þau svör hjá útlendingastofnun að Mark gæti ekki verið lengur í landinu og yrði að fara. Hann fékk frest til 16. september og stofnunin gerði á þeim tíma skilyrði að ströngustu lagaskilyrðum yrði fylgt um að Mark færi út áður en nýtt erindi hans um dvalarleyfi yrði afgreitt.

Nú hefur þeirri ákvörðun verið snúið við og er það vel. Það er enn engin trygging fyrir að Mark Cumara fái dvalarleyfi (eða þá ríkisborgararétt) en það verður að teljast vel mögulegt og jafnvel sennilegt. Við hljótum að vona það besta, Marks vegna og íbúa í Þorlákshöfn þar sem lítið samfélag Filippseyinga hefur auðgað mannlífið og stutt dyggilega verðmætasköpun í hinni fornu verstöð.

Ég vil hér í enda þessa pistils þakka Hauki Guðmundssyni forstjóra Útlendingastofnunar fyrir lausn málsins og vona að hann beiti sem oftar og sem oftast þeim mannúðarlegu og mildu taugum sem ég veit að hann á til enda maðurinn af Tjarnarkotsættinni...


mbl.is Kom 17 ára – sendur úr landi 23 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýrafræði fréttastjórans

Fréttastjóri 24 stunda skrifar ágætan leiðara í blaði sínu fyrir skemmstu þar sem hann gerir að umfjöllunarefni kröfu okkar Framsóknarmanna um bætt siðferði í viðskiptum og aukið eftirlit með þeim hlutafjármarkaði sem hér hefur þróast hratt á undanförnum árum.

Svolítið skriplast leiðarahöfundi þó þegar hann fjallar um meint tengsl Framsóknarflokksins við Samvinnutryggingarnar sálugu og hlutafélög þeim tengd. Það er rétt að Framsóknarflokkurinn hefur staðið vörð um samvinnurekstur í landinu. Við sem þeim flokki tilheyrum teljum að samvinnuformið sé gott mótvægi við einkarekstur. En flokkurinn ber enga ábyrgð á viðskiptum þeirra manna sem sýsla með fé innan þeirra félaga, ekki frekar en að Sjálfstæðisflokkurinn beri ábyrgð á öllum sem starfa innan einkahlutafélaga.

Hin nánu tengsl samvinnuhreyfingarnar sálugu við Framsóknarflokkinn voru barn síns tíma og áttu sér samsvörun í tengslum Alþýðuflokksins við ASÍ annarsvegar og Sjálfstæðisflokksins við fjölskyldurnar fjórtán. Ekkert slíkt á við í dag og tilfellið er að fæstir þeirra sem nú koma að umsýslu hinna gömlu SÍS félaga og sjóða þeirra tengjast Framsóknarflokki. Sumir þeirra eru flokksbundnir í Sjálfstæðisflokki og aðrir utan flokka.

Hér skal ekkert mat lagt á ásakanir fréttastjóra 24 stunda í garð þeirra sem sýsla með eignarhaldsfélagið Gift eða önnur félög í landinu en aðeins endurtekið það sem ég hefi fyrr sagt að full ástæða er til að velta við öllum steinum nú þegar fallið er mesta rykið í hlutafjárviðskiptum sem ekki eiga sinn líka í sögu þjóðarinnar.

Ef það er alvara blaðamanna í Hádegismóum að skilgreina sektir og sakleysi í þeim efnum eftir dýrafræði flokkapólitíkur er hætt við að fari um þá tegund sem mest hefur verið ráðandi bæði við ritstjórn Morgunblaðsins og 24 stunda.

(Birt í 24 stundum í september 2008 - umræddur leiðari er birtur hér að neðan í kommenti)


Ekki lengur blaðaútgefandi...

eigendaskipti_sunnlenska

Í júnímánuði 1987 byrjaði ég minn feril sem blaðaútgefandi og hef verið að síðan þá, alveg þar til nú að við hjónin seldum Sunnlenska fréttablaðið. Kaupendur eru núverandi ritstjóri Guðmundur Karl Sigurdórsson og Jóhanna S. Hannesdóttir en þau skötuhjú búa ásamt Nönnu sinni í Stóru Sandvík í  Flóa. 

Ég hætti reyndar að skipta mér af ritstjórn Sunnlenska um leið og ég fór í prófkjörsslag fyrir réttum tveimur árum en hef haft puttana í rekstrinum engu að síður og Elín mín hefur unnið við reksturinn en hún var víðs fjarri í dag þegar við Gummi og Jóhanna stilltum okkur upp í myndatöku.

Ég gaf mitt síðasta blað út í síðustu viku og fyrsta blað Guðmundar kom til áskrifenda nú kvöld. Þó svo að hann hafi nú um langt skeið séð um ritstjórnina þá finn ég samt fyrir eftirsjá - en líka feginleika að sjá blaðið í góðum höndum. Blað sem ég hef gefið út óslitið frá 1991 og var orðinn skelfilega samgróinn.

Áður stofnaði ég Bændablaðið og gaf út í nokkur ár en seinna keyptu bændasamtökin það blaðheiti af okkur Jóni Daníelssyni frá Tannastöðum sem áttum um þetta útgáfufélagið Bændasyni hf. 

Það er vitaskuld sagt betur frá þessu öllu í Sunnlenska en rétt að taka það fram að við Elín rekum áfram bókakaffið og styttist reyndar í að verslunin sú opni bloggsíðu hér á Moggablogginu...


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband