Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Allt er í allrabesta lagi...
6.9.2009 | 22:38
Það eru sífellt fleiri að gera sér grein fyrir að íslenska krónan er að gera kraftaverk í íslensku hagkerfi, sjá nú nýjast grein eftir Egil Jóhannsson í Brimborg.
Það eru líka sífellt fleiri að gera sér grein fyrir að eina leiðin út úr fjárhagsvanda heimilanna er að hið opinbera leysi til sín eignir og leigi þær aftur á sanngjörnu verði. Allt annað eru marklaus yfirboð og fals staðreynda. Sá nýjasti til að taka undir þessa leið er Skúli Thoroddsen hjá starfsgreinasambandinu og hafi hann sæll gert.
Svo er mjög gott viðtal við Steingrím J. Sigfússon í Mogganum um helgina og rétt hjá kalli að við þurfum ekkert að örvænta. Það er langlíklegast að kreppan verði á endanum til að styrkja en ekki veikja innviði samfélagsins og kannski er þetta nákvæmlega eins og Altúnga Voiltaries sagði, - þeir sem segja að allt sé í lagi eru fífl, það á að segja að allt sé í allra besta lagi...
Hvers á Ítalía í ESB að gjalda!
4.9.2009 | 11:51
Lang sverustu og um leið skemmtilegustu röksemdirnar fyrir því að Ísland eigi að ganga í ESB er að þar með yrði tími óstjórnlegrar spillingar og kunningasamfélags úr sögunni. Þessi rök falla með einum manni, Berlusconi þeim ítalska.
Morgunblaðið birtir í dag stórskemmtilega grein í miðopnu um þennan langspilltasta stjórnmálamann Evrópu.
Ef okkur tekst ekki að reita illgresið hér heima sjálf þá gerir það enginn fyrir okkur.
Dulin skilaboð Moggans og brunaútsala á auðlindum
1.9.2009 | 13:00
Ég er oft ósammála Láru Hönnu Einarsdóttur en í færslu hennar um Magma energy er ég sammála og gott að hún bendir á samsvörunina milli þess að það kostar álíka að yfirtaka þessi kaup og að ljúka við Tónlistarhúsið. Kannski hefur fréttastjóri Moggans haft eitthvað svipað í huga þegar hann ákvað að setja saman á forsíðuna málefni Hitaveitu Suðurnesja og Tónlistarskrímslið við Höfnina.
Lára talar um landráð af vítaverðu gáleysi í þessu efni og það kann að vera að einmitt þannig dæmi sagan þennan atburð sem gæti orðið fyrsta skrefið í brunaútsölu á íslenskum auðlindum.
Nýtt REI ævintýri siglir í gegn í sinnuleysi
31.8.2009 | 22:31
Erlendir auðmenn hafa nú samasem eignast auðlindir Reykjanesskagans við ótrúlegt sinnuleysi landsmanna. Ríkissjóður er vissulega tómur en það er engu að síður sorglegt að sjá stórkostlegar auðlindir hverfa með þessum hætti úr íslenskum yfirráðum.
Ég er enginn undantekning í því að vera seinn til að láta í mér heyra. Flest erum við löngu orðin dofin fyrir stórtíðindum en það er einmitt við þær aðstæður sem auðvelt er að taka okkur í bólinu. Reyndar finnst mér eins og VG hafi ályktað gegn því að þetta fyrirtæki Magma energy fengi að kaupa í Hitaveitu Suðurnesja en það hefur greinilega mátt sín lítils gagnvart tómahljóðinu sem nú er í ríkiskassanum...
Icesave samþykkt - afhverju?
28.8.2009 | 14:30
Af hálfu Breta og Hollendinga hefur því verið haldið fram að íslenska ríkið beri fulla ábyrgð á starfi íslensku bankanna þar sem höfuðstöðvar þeirra hafi verið á Íslandi og eigendur þeirra íslenskir ríkisborgarar. Reyndar var aðeins hluti þessara íslendinga með fasta búsetu á Íslandi. En að sjónarmið sem þessi komi frá hinum gömlu evrópsku nýlenduveldum er í besta falli broslegt. Um aldir hafa breskir, hollenskir og aðrir evrópskir nýlenduherrar farið um lönd annarra þjóða með þeim yfirgangi að oft hefur tekið kynslóðir fyrir þjóðir að jafna sig eftir þær heimsóknir. Sumt hefur aldrei jafnað sig.
Þá hafa evrópskir togarar þurrkað upp fiskimið fjarlægra þjóða, evrópskar sprengiflugvélar lagt heimili fjarlægra íbúa jarðar í rúst, nú síðast í Írak. Og áfram mætti telja þær búsifjar sem heimurinn hefur orðið að þola vegna drottnunargirni evrópskra þjóða. Sumt af þeirri stefnu er kyrfilega auglýst í söfnum í Lundúnaborg og víðar sem full eru af fornleifum og dýrgripum framandi landa. Menningarsöguleg ómetanleg verðmæti sem hrifsuð voru með yfirgangi. Það fer afskaplega lítið fyrir tilraunum þessara þjóða til að bæta fyrir söguna, frekar að bætt sé í yfirganginn.
En afhverju samþykkir Ísland Icesave?
Sjá nánar í pistli á AMX, http://www.amx.is/pistlar/9184/
Á skrollinu um Icesave klukkan fjögur
27.8.2009 | 15:56
Ég fjalla aðeins um Icesave málið í vikulegum pistli þætti á FM Suðurland 963 núna klukkan 16. Hægt að hlusta á hér http://www.963.is/. Þætti sem heitir einfaldlega Á skrollinu með Bjarna Harðarsyni.
Það sem ræður því að við tökum þessar skuldbindingar á okkur er aðkoma Alþjóða gjaldeyrissjóðsins inn í landið og ekkert annað. Ef við hefðum ekki heimilað sjóði þessum að yfirtaka í reynd öll samskipti okkar við erlend ríki þá eru engar líkur á að nokkur ríkisstjórn hefði samþykkt þessa nauðungarsamninga. Ekki nema þá meirihlutastjórn Samfylkingarinnar einnrar sem guð forði okkur frá að verði nokkurntíma.
En nánar semsagt á www.963.is núna og endurtekið klukkan 16 á sunnudag.
Icesave mótmæli í hádeginu
27.8.2009 | 11:20
Aðgerðasinnar víðsvegar að boða til mótmælaaðgerða í hádeginu gegn yfirvofandi Icesave samningum með hávaðaaðgerðum á Austurvelli, Ráðhústorginu á Akureyri og yfirleitt allsstaðar þar sem fólk er tilbúið til að mótmæla.
Þetta eru síðustu forvöð til að mótmæla hinum óréttlátu og vitlausu Icesavesamningum.
Bakkabræðalegar röksemdafærslur
26.8.2009 | 20:07
Bakkabræður hafa verið í fjölmiðlum í dag og fullir vandlætingar.
Í fyrsta lagi vegna þess að talað væri af ábyrgðarleysi um lögbrjóta þá sem slett hafa málningu á hús og bíla.
Í öðru lagi vegna þess að fólk hrópaði um lögbrot útrásarvíkinga sem ekki væri fullvíst að nokkur væru.
Er engin mótsögn í þessu?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Hver má upp á dekk og hver má það ekki!
25.8.2009 | 21:19
Krataelítur landsins taka andköf yfir að Kjartan Gunnarsson skuli tjá sig um Icesave og sama heyrðist þegar Davíð mætti á mótmælafund Indefence. -Hva, er maðurinn að mótmæla sjálfum sér sagði einn hinna hneykslunargjörnu og svipaða hneykslun mátti heyra á Hólaræðu Steingríms Joð þegar hann talaði um Kjartan.
Það nöturlega við þessa umræðu er að það skiptir höfuðmáli í hvaða liði menn eru. Þannig hefur Ólafur Arnarson sem vann fram að kreppu við spennandi verkefni hjá Landic property Jóns Ásgeirs verið talinn manna marktækastur á meðan skósveinar Björgólfanna eru brennimerktir.
Kannski er þetta vegna þess að Björgólfur gamli hefur lagt niður vopn og lýst sig gjaldþrota en Jón Ásgeir lætur duga að henda nokkur hundruð milljarða skuldum í andlit þjóðarinnar en heldur samt áfram að reka stórfyrirtæki og blóðmjólkar sömu þjóð, nú ári eftir hrunið.
Frekjupólitík á krepputímum
23.8.2009 | 10:58
Um langt árabil hafa menn barist fyrir bættum samgöngum um héraðið en einnig þar þurfum við að gæta okkur í kröfugerðinni. Það vita til dæmis allir sem hafa einhvern skynsemisvott að okkur dugar fullvel þríbreiður vegur yfir Hellisheiði sem er margfalt ódýrari en fjórbreiður vegur. Það sem við þurfum ekki í dag eru kröfugerðarpólitíkusar og neyslufrekjur heldur skynsemdarfólk sem lítur á hófsemi sem dyggð.
Sjá nánar í pistli á AMX, http://www.amx.is/pistlar/9030/