Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Átök um vitleysur og verkefnin bíða

Jóhanna Sigurðardóttir hefur sagt að kreppan verði að líkindum dýpri en ráð var fyrir gert.

Hvað gerir nýja ríkisstjórnin við því?

Jú - það er paufast við að koma i gegn frumvarpi um Seðlabanka sem mun engu breyta um gang mála enda peningamálastjórnunin sem stendur í höndum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

Svo er unnið að breytingum á kosningalögum.

Tekist á um stjórnlagaþing og hvort að það megi eyða fé í að setja þar 63 á rökstóla.

Jú og nýi viðskiptaráðherrann er kominn í stæla við Steingrím fjármálaráðherra um hvaða gjaldmiðil megi nota á Íslandi. Hver kaus aftur þennan viðskiptaráðherra?

Svo eru að koma kosningar þannig að bráðum má enginn vera að því að hugsa um annað en atkvæði. Gaman að þessu - eins og krakkarnir segja. 


Ólafur Ragnar á að segja af sér

Ég hef ekki verið mikið fyrir að skrifa um það hverjir eigi að segja af sér enda tel ég að slíkt eigi menn fyrst og fremst að finna sjálfir. Hvenær þeirra vitjunartími er kominn og hvenær þeim er þannig sjálfum fyrir bestu að axla sín skinn.

Þegar bankarnir hrundu í haust hefði verið eðlilegast að:

Geir Haarde segði af sér því hann veðjaði á það að þetta myndi reddast sem það ekki gerði.

Davíð Oddsson sem oddamaður Seðlabanka sem ber mikla ábyrgð á ástandinu með hágengisstefnunni. Varnaðarorð í sumar skipta þar mjög litlu.

Ólafur Ragnar Grímsson sem gekk alltof langt í að lofa útrásarvíkingana og ala upp í þeim og þjóðinni fáránlega hátt stemmda dýrkun á auðvaldi sem við hrunið sást að átti minna en engar innistæður fyrir því lofi.

Ég tel líklegast að allir þessir menn hefðu komið sterkari út við afsögn en þeir gera nokkru sinni úr því sem komið er. Geir er reyndar farinn en ekki að eigin frumkvæði og Davíð er væntanlega á förum með vorinu þó að honum takist ef til vill sitja út líftíma 100 daga stjórnarinnar. 

Eftir er Ólafur Ragnar sem hefur nú kórónað vonda stöðu með afar óheppilegum blaðaviðtölum. Hann er enn í þeirri stöðu að geta orðið maður að meiri með afsögn og óskandi að hann átti sig á þvi. Ólafi hefur farnast margt vel í forsetaembætti og verið afar góður talsmaður þjóðlegra gilda í því starfi. Gagnrýnin á hann er oft á tíðum óvægin og ósanngjörn. Eina leiðin fyrir hann til að dómar verði sanngjarnir er að standa upp og um leið setur hann þrýsting á Davíð að gera slíkt hið sama. 

Svo held ég að þessu til viðbótar tel ég að allir þeir þingmenn sem gengdu ráðherraembættum í síðustu tveimur ríkisstjórnum - að þeir verði allir að axla ábyrgð með því að gefa frá sér frekara framboð og þar með væri kominn vísir að því að íslenskir stjórnmálamenn og hegðan í íslensku stjórnmálalífi sé í takt við það sem tíðkast í siðuðum löndum.

En ekkert af þessu verður...

 

 


Fjórflokkurinn og skjaldborgin um vini hans

Hin stóru pólitísku tíðindi liðinna daga eru í reynd ekki að Jóhanna Sigurðardóttir hafi verið gerð að forsætisráðherra þó vissulega sé það vænn áfangi. Stórtíðindin eru heldur ekki tilraun Jóhönnu til að slá skjaldborg um heimilin heldur vel heppnuð skjaldborg sem vinstri stjórnin slær nú um hagsmuni útrásarvíkinganna.

 

Snemma í stjórnarmyndunarferlinu tóku Framsóknarmenn að sér það vafasama hlutverk að slá út af borðinu allar hugmyndir um að eigur yrðu kyrrsettar. Samfylkingin tók þá undir þau falsrök að þetta væri vitaskuld ekki hægt vegna stjórnarskrárvarinna réttinda. Þar með gat andað léttar sú dúsín íslenskra fjölskyldna sem samviskusamlega skaut hundruðum milljarða undan um leið og hún setti íslenskt hagkerfi á kaldan klaka.

Það er vitaskuld fráleitt að hér megi í skjóli efnahagsörðugleika víkja öllum mannréttindum til hliðar. Ennþá fráleitara er að í landinu skuli vera sá forréttindahópur að mannréttindi hans skuli varin framar mannréttindum allra annarra. Alkunna er að við rannsókn venjulegra brota, sem oftast snerta örfáar krónur, er heimilt að skerða tímabundið stjórnarskrárvarin réttindi brotaþola. Það er gert með gæsluvarðhaldi og upptöku ýmissa eigna sem vandlega er rökstutt með vísan í lög. Vitaskuld er hægt að hreyfa við lögvörðum réttindum stórtækari brotamanna með sama hætti ef pólitískur vilji er fyrir hendi.

Innan íslenska flokkakerfisins eru aftur á móti sáralitlar líkur til að sá pólitíski vilji skapist. Fjórflokkurinn er allur samspyrtur og margflæktur hagsmunum þeirra afla sem farið hafa með og fara enn með fjárhagslegt forræði atvinnuvega landsmanna. Fáir stjórnmálamenn eru svo lítilssigldir að hafa ekki þegið einn eða fleiri styrki frá útrásarvíkingunum blessuðum. Meiru varðar þó að sömu víkingar hafa um áratugi haft fjárhagslega heilsu sjálfra flokksvélanna í landinu í hendi sér.


Óborganlegur Matthildingur

david_oddssonÞað er í raun og veru ekki hægt að blogga um annað en Davíð núna. Hann sýnir enn og aftur að hann er óborganlegur Matthildingur en gleymum ekki að þegar reynt er að breyta grafalvarlegu ástandi í gamanþátt er stutt í sorgarleik.

Það er vitaskuld hægt að vera sammála mörgu sem frændi minn segir í bréfinu til Jóhönnu en samt er svo merkilega tilgangslaust hjá honum að sitja. Og andstætt þjóðarhagsmunum.

Og raunar leikur að þeim eldi að mótmælin sem til þessa hafa sloppið geta breytst í eitthvað miklu alvarlegra. Mótmælastarf er nú ekki allt knúið áfram af  mannviti.


Lymskast um á lánahaugi

Skáldið G. Springfield sendi mér eftirfarandi:

Ekki verður Ásgeir lengur efst á Baugi,

lymskast um í lánahaugi;

líkastur er fjárhúsdraugi.

 

Annars ætlaði ég aðallega að minna hér á fund með Birni Bjarnasyni sem Heimssýn boðar til í dag, sunnudag klukkan fjögur í Kaffi Rót þar sem karlinn fjallar um nýútkomna bók sína um Ísland og ESB. Við fáum svo einn ESB sinna og einn andstæðing til að kommentera á bókina og spjöllum svo í þægilegu sunnudagskaffi. Allir velkomnir. Sjá nánar á www.heimssyn.is

 

 


mbl.is Er draumurinn á enda?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokkakerfið ræktar illgresið

Undir lok 20. aldar voru ríkisbankar á Íslandi einkavæddir. Í raun og veru var þeim skipt milli stjórnmálafylkinga, þremur stjórnmálaflokkum voru tryggð undirtök í þremur bönkum. Aðilar tengdir Sjálfstæðisflokki fengu í sinn hlut  Landsbankann, Framsóknarmenn Búnaðarbanka og aðilar tengdir og með velvild til Samfylkingar komust yfir Fjárfestingabanka atvinnulífsins sem var síðar sameinaður Íslandsbanka.

Áratug síðar eru þessir þrír bankar gjaldþrota og þá bregður svo við að hinir einkareknu en flokkstengdu bankar reyndust allir starfa í umboði og með ábyrgð skattgreiðenda í landinu. Síðan bankagjaldþrot þessi urðu hafa landsmönnum vikulega borist fregnir af spillingu og fjármálasukki tengdu bönkum þessum, stjórnmálaflokkunum og flokksgæðingum sem starfa á óljósu bili viðskipta og stjórnmála.

...

Sá sem hér ritar hefur tilheyrt þessu flokkakerfi og skal fúslega játa að það voru mikil mistök að gangast því á hönd, jafnvel þó að það hafi skilað mér sæti á hinu háa Alþingi. Þessi mistök voru margfalt stærri en röng tölvupóstsending sem enda varð mér til þeirrar gæfu að losa um álög mín í hinu íslenska flokkakerfi. Það verða auðvitað einhverjir í mínum gamla flokki til að afgreiða skrif mín sem öfundartal þess sem fyrir borð féll. Með líkum hætti voru lengst af afgreiddar viðvaranir manna fyrir bankahrunið.

Sjá nánar í grein minni á Smugunni. 


Klekkir Davíð á vinstri stjórninni

Ég bloggaði aðeins um Davíð í morgun. Aðallega af því að mér þótti það við hæfi þar sem ég hélt að ríkisstjornin og sérstaklega Jóhanna myndi spila út því trompi að hann hlyti að fara út úr Seðlabankanum. Til dæmis afdráttarlausari vantraustyfirlýsingu í opinberri tilkynningu.

En eftir daginn er Davíð yfir. Ekki það að ég telji þetta eitthvað sniðugt hjá honum og það er alger misskilningur að ég telji að hann eigi að sitja slímusetu þar sem hann situr. En ég bakka ekki með að hann stóð sig vel Glitnisnóttina forðum. Þessi mynd er nefnilega alls ekki svart/hvít heldur miklu líkari einhhverjum dataisma eða súrrealískri vitleysu eftir Dalí sem enginn skilur og allra síst þeir sem eru hafðir á myndinni.

Og nú er ég eiginlega viss um að Davíð er að því leytinu til fremri ríkisstjórninni að hann er með eitthvað tromp sem hann skellir fram á morgun eða kannski ekki fyrr en á mánudag. Lögfræðiálit um að Jóhanna megi ekki reka hann eða eitrað tilboð sem tryggir honum setu fram að kosningum. Þar með tækist honum að niðurlægja Samfylkinguna með miklu afdrifaríkari hætti en Jóhönnu tekst nokkurn tíma að auðmýkja hann.

Og þó svo að Davíð sé óvinsæll í seinni tíð þá er ég ekki viss um að þetta eigi eftir að verða krötunum mjög farsælt...


Til varnar Davíð sem varði peningatanka þjóðarinnar

geir_ogh_dabbi_jpg_550x400_q95_684872.jpg

Við erum stödd þar í sögu landsins að nú stendur til að bera Davíð Oddsson út úr Seðlabankanum. Banka sem í hans tíð hélt uppi einni vitlausustu peningamálastefnu í sögu lýðveldisins. Með henni var í reynd ákveðið að niðurgreiða verðbólguna á kostnað útflutningsatvinnuvega og stunda hér vaxtamunabrask á alþjóðamörkuðum af þeirri stærðargráðu að jafnvel bæði Siggi Einars frá Miðey og Jón Ásgeir blikna. Og þarf svoldið til.

En þessa vitlausu stefnu fann Davíð ekki upp enda var hún komin í gagnið fyrir hans tíma í bankanum. Og Davíðshatrið er mestan part lýðskrum þeirra sem ekki þora að tala um raunveruleg verkefni. Það mun engu breyta að gefa sérfræðingunum alræðisvald í bankanum - þeir hafa nú nánast haft það og ekki reynst vel. 

EN ég er enn sannfærður um að Davíð fór rétt að þegar Glitnisdrengirnir komu til hans og báðu um að fá að fara eins og Bjarnaræningjar inn í hálftóma peningatanka þjóðarinnar. Meðan allir aðrir, sérfræðingar, stjórnmálamenn úr öllum fylkingum og allskonar múgmenn öskruðu á að það yrði að hjálpa bönkunum var Davíð kallinn sá eini sem þorði að segja nei. Það var mjög óvinsælt nei þá þó allir sjái betur nú.

Nú þegar við sjáum æ betur ofan í ginnungagap taprekstrarins og lyginnar hjá Baugi og öðrum útrásarvíkingum verður stöðugt augljósara hversu mikilsverða hagsmuni þjóðarinnar Davíð varði með því að taka völdin algerlega  í sínar hendur helgina örlagaríku og þjóðin horfði á hvernig hann tók fjármálaráðherra og forsætisráðherra þeirra daga sinn undir hvorn - og sagði líkt og Skarphéðinn, tekið hefi ég hvolpa tvo. Setningin heyrðist reyndar ekki í gegnum bílrúðu en atvikið er til á mynd. Á meðan svaf bankamálaráðherra og það var kannski nauðsynlegt því hefði hann vaknað er eins víst að Jóni Ásgeiri hefði tekist að beita honum fyrir sig til að komast inn í peningatankinn. 

Þetta var vissulega gerræðislegt allt saman en líka á gerræðislegum tímum og þó þetta sé engan vegin minningagrein um þennan fjarskylda frænda minn úr Fljótshlíðinni þá langar mig að þakka Davíð fyrir þessa nótt og er sannfærður um að þjóðin stendur hér í nokkurri þakkarskuld við karlinn. Hvað sem okkur svo finnst um eilífðarlanga stjórnartíð sama manns...


Ólöf Nordal og fyrirboðar stórtíðinda

gullkalfur.jpgInni í Fróðárdölum á afrétti Biskupstungnamanna eru hníflóttir hestar. Horn þessi sem ekki eru nema þumlungslöng og þunn ganga upp úr höfði hestanna rétt norðan við eyrun þegar vindur er að austan og skeflir í af jöklinum. Fáir núlifandi hafa þó séð furðudýr þessi og jafnvel færri heyrt þeirra getið enda af þeim engar sögur. Ekki þá aðrar en þær sem sagðar voru af körlum og kerlingum þegar Þorvaldur Thoroddsen reisti Kjalveg árið 1888 og nú eru gleymdar. Sögur sem eitt sinn lifðu en reyndust í blóra við þær hégiljur nútímans að til séu skil milli sagna og raunveruleika. Hégiljur gerðar af þeim sem líkt og postulinn Tómas geta engu trúað nema snerta berum fingurgómum. Slíkt fólk gerir veröldina kámuga með puttum sínum.

Í fyrra bar kýr tvíhöfða kálfi, ær sexfættu lambi fyrir vestan en morauður einlembingur á Tjörnesi var kýklópur. Horfði sá sínu eina auga út í veröldina sigri hrósandi og slökknaði. Einhyrndur hrútkettlingur fannst í fjárhúsi fyrir norðan og hvarf skömmu síðar. Í sjó fundust síldfiskar með fleiðrum og öfuguggar í heiðarvötnum.

Náttúran hafði talað en enginn var til að hlusta. Og hefði einhver heyrt er líklegast að landvættirnir væru sagðir öfundsjúkir yfir mekt nútímans. Það er af að innst í baðstofum liggi karlæg og margvís kerling undir skóbótarstagi og lesi í þegar heyrist af lambi með hrafnsgogg eða sjái fyrir mannfelli af gangi tungla. Okkur er horfin sú spektin að skilja táknmál náttúrunnar.

Dýrin sem hér birtast eru raunveruleiki á sama hátt og við sjálf. Þau eru afsteypur af teiknum ársins og eiga sér systur fylltar tróði í skápahillum í náttúrugripasöfnum austanfjalls. Önnur finnast í sögum sem eru jafn áþreifanlegar og allar þær vísitölur sem nú í engum hilluskáp finnast.

Fljúgandi ég sauðinn sá,
saltarann hjá tröllum,
hesta sigla hafinu‘ á
hoppa skip á fjöllum.

                         (Bjarni skáldi, d. 1625)

(Ofanskráð skrifaði ég í prógram listasýningar Ólafar Nordal, Þrjú lömb og kálfur, sem opnuð var formlega í Start Art listamannahúsinu á Laugavegi 12B í dag og verður þar fram í mars. Á sama stað sýna einnig Kristín Pálmadóttir og Sigríður Melrós Ólafsdóttir og vel þess virði að verja þar með listagyðjunni nokkurri stund.)


Birkilanskir auðmenn og hetjusögur í bókahillum

saemundur_stefansson.jpgÁ birkilönskum degi eins og þessum er eiginlega ekki við hæfi að blogga um pólitík. Jón Ásgeir sem þjóðin hefur borið á höndum sér lengi kennir nú öllu öðru en sjálfum sér um sínar ófarir og vorkennir sér að tapa úr höndum sér búðasjoppum í London. Honum er aftur á móti slétt sama um þann skaða sem hann hefur unnið íslenskri þjóð með glannaskap sínum. Og kennir svo Davíð um!

Þetta er eiginlega ófyrirleitnari og vitlausari farsi en svo að gaman sé að og nær á degi eins og þessum að lesa bækur en fréttir. Rakst uppi í skringihillunni minni í bókabúðinni  á næfurþunnt blátt harðspjaldakver frá 1929 eftir Sæmund Stefánsson niðursetning sem heitir Æfisaga og draumar. Karl þessi var fæddur 1859 á Bjarnastöðum í Hvítársíðu og ólst upp sem niðursetningur við illt atlæti:

 Eg man ekki betur, en að eg væri barinn því nær á hverjum degi í fjögur ár...

Hér er grimmdarleg lýsing á uppvexti manns sem nær fyrir vikið aldrei fullum líkamsþroska, veikist af holdsveiki og lifir það að finna útlimi, bein og holdstykki  detta af sér, ýmist af kali eða veikindum. En í stað þess að klæmst sé á þessu eins og Laxnes óneitanlega gerir í sambærilegri ævilýsingu í Ljósvíkingnum eða þá að höfundur sé fullur sjálfsvorkunnar í anda Birkilands er sagan sögð blátt áfram. Höfundur er þakklátur fyrir þá sem reynast honum vel en sleppir því að nafngreina hina.

Sæmundur niðursetningur er því alls ólíkur Jóni Ásgeiri í því að kenna veröldinni um það sem miður fer og hefði þó frekar efni á því. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband