Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Brimborgar-Egill á Heimssýnarfundi og afbragðs-Moggi

Heimssýn, samtök sjálfstæðissinna í Evrópumálum halda sínu striki og verða með enn einn sunnudagsfund í kjallaranum í Kaffi Rót í dag kl. 14. Að þessu sinni er það Egill Jóhannsson forstjóri Brimborgar sem mætir til okkar og ræðir meðal annars um það hvernig farið hefði í bankahruninu ef við hefðum haft evru. Egill er einn af fremstu bloggurum landsins og hefur víða komið við í snarpri þjóðfélagsumræðu þannig að ekki er að efa að fyrir lestur hans verður mjög athyglisverður.

Fyrir þá sem ekki eiga heimangengt er rétt að benda á Sunnudagsmoggann. Þar er ein af eðalgreinum Einars Más Guðmundssonar um kreppuna, þensluna og frjálshyggjuna sem er skyldulesning allra hvort sem þeir telja sig til hægri eða vinstri. Á undan þeirri grein er afar athyglisvert viðtal við Margeir Pétursson bankamann um hrunið og glannaskapinn. 

Ég er sammála Agli Helgasyni að Morgunblaðið er betra en nokkru sinni nú þegar enginn á það. Eða er blaðið kannski einmitt í þjóðareign þessa dagana í gegnum ríkisbankann Glitni sem heitir reyndar Íslandsbanki í dag og eitthvað annað á morgun. Kannski fer bara best á því að Mogginn verði áfram í þjóðareign.

Langar svo í lokin að óska Þóru Kristínu til hamingju með blaðamannaverðlaunin. Hún er vel að þeim komin.


Helgi Ívarsson im memoriam

 

helgiholum_l.jpg

 

Helgi Ívarsson vinur minn og starfsmaður Sunnlenska fréttablaðsins um árabil er genginn til feðra sinna. Ekkert í þeirri atburðarás þarf að koma á óvart og síst held ég að Helga hafi verið mjög brugðið þegar sýnt var að hverju stefndi síðustu dagana í hans jarðvist. Hafi raunar vitað þetta allt Helgi var einn þeirra manna sem vissi lengra nefi sínu og mér er ekki grunlaust að hann hafi einmitt verið búinn reikna út að nú á þessu ári væri komið að hans endadægri. Veit þó vel að hann hefði sjálfur kosið að fá að eiga einn kjördag enn í lífinu og þá til að kjósa í sinni óbilandi trú sinn mæta gamla flokk, Sjálfstæðisflokkinn. Kannski réttlætismál að gamli flokkurinn hans fái eitt aukaatkvæði svo litlu sem munar að Helgi lifi kjördaginn.

 

En þó svo að við Helgi værum ekki sammála um það hvernig verja ætti kjörseðlum þá grunar mig að það hafi raunar verið okkar eini pólitíski ágreiningur. Oftlega ræddum við stjórnmál af nokkru kappi og þá reyndust skilin milli okkar skoðana lítil og sýn okkar á hvað væru brýnust úrlausnarefni sú sama. Menn sem eru þannig sammála um aðgerðir í stjórnmálum alla daga nema þann eina þegar gengið er að kjörborði mega þannig telja sig skoðanabræður og það hygg ég að hafi verið gagnkvæmt með okkur Helga þó hvorugur hefði þar orð á. En víst var það svo að honum þótti ég nokkuð hvatvís og skjótráður með köflum og mér að sama skapi þessi forvitri öldungur hægfara í sínum gerðum.

Fyrir nokkrum mánuðum sátum við Helgi á tali. Ég með kaffibolla en hann kókglas, en sá drykkur var honum miklu mun kærari en kaffið. Barst þá talið að áfalli sem þessi gamli maður varð fyrir nokkrum árum þegar hann vegna heilablóðfalls lenti á sjúkrahúsi en náði undraverðum bata. Helgi rifjaði upp fyrir mér gengna vini sína sem lent höfðu í sama og fengið fyrir töframátt læknavísinda heilsu að nýju. Það hefði dugað þeim til að lengja ævina um nokkur ár og allt að áratug. Ég tali hans lá þakklæti og hamingja yfir að hafa sjálfum hlotnast það sama og sáttin við að þetta væri vitaskuld aðeins stutt viðbót. Við veikindi Helga nú rifjaðist þetta samtal upp og mér fannst eins og hann hefði þá verið segja mér að þetta færi að styttast. Tvö önnur atvik frá allra síðustu vikum benda til hinnar sömu forvísi.

Eins og stundum áður barst okkur fjölskyldunni jólakort frá þessum aldna heiðursmanni um síðustu jól. Nú var þó meira við haft en áður því Helgi hafði látið sérprenta kort með þremur myndum sem sýndu Hólabóndanná þremur æviskeiðum. Bak hátíða hafði kona mín orð á þessu við Helga og að henni hefði þótt vænt um kortið. Helgi rétti úr sér á hækjunum eins og hann oftlega gerði nú síðustu ár og spurði kankvíslega hvort frúin hefði þekkt manninn. Bætti svo við að hann hefði orðið þess áskynja að það væri nú siður að senda myndir af öllum fjölskyldumeðlimum í jólakortum en þar sem fátt væri í heimili hefðu myndirnar af honum orðið að vera þrjár.helgiholum_heimahjaser.jpg

Þriðja atvikið sem fellur að þeirri mynd að Helgi hafi nú um mánaðaskeið með sínum kyrrláta hætti undirbúið kveðjur sínar er greinarstúfur í Sunnlenska fréttablaðinu nú í janúarmánuði. Grein þessi var unnin úr fyrirlestri sem hann hafði sjálfur flutt fyrir eldri borgurum hér á Selfossi nokkrum dögum fyrr. Þar fer hann yfir farinn veg eins og sá einn gerir sem veit sig á leiðarenda. 

Ég segi hér að ofan að Helgi hafi verið starfsmaður Sunnlenska fréttablaðsins og þykir máske stórt til orða tekið. En eftir að Hólabóndi seldi jörð og flutti á Selfoss hóf hann að skrifa sagnfræðipistla í blaðið. Til þess verks lágu áskoranir margra en að lokum var þó frumkvæði Helga sem tók starf þetta að sér af mikilli alúð og vann það af þeirri kostgæfni að einstakt má telja. Við sem með honum unnum að því að koma greinum þessum á prent smituðumst oftar en ekki af starfsgleði hans og áhugasviði. Blaðið missir nú mikils við og sama gerir fræðasamfélag okkar Árnesinga.

(Meðfylgjandi myndir tók ég í heimsókn til Helga í Hólum fyrir um áratug síðan.)


Veldingar Zoegum betri

Var aðeins að skopast um ættarnafn okkar Lárusar bankamanns en þó Veldinganafnið sé ekki flekklaust þá er eftir gærdaginn minni glans yfir Zoégum. Gylfi hagfræðingur sem ber þetta glæsta ættarnafn kom í RÚV fréttum í gær og var þar miður sín að Íslendingar skyldu ætla að þybbast við að greiða allar skuldir útrásarvíkinganna upp í topp.

Hafa einhver þjóðríki á einhverjum tímum gengist með þeim hætti í ábyrgðir fyrir óvandaða einstaklinga. Og það sem Gylfi sagði um íslenskt regluverk var í grunninn rangt. Það rétta er að  við höfðum vegna EES mjög takmarkaða möguleika á að stöðva taumlausa og fyrirhyggjulausa útrás íslenskra bankamanna inni í Bretlandi og annarsstaðar í Evrópu. Drápsklyfjarnar sem nú leggjast á þjóðina eru vegna þess að við höfum um of legið hundflöt fyrir að hlýða á alþjóðavettvangi. 

Leiðin út úr vandanum liggur ekki í gegnum enn frekari undirlægjuhátt og inngöngu í ESB eins og hagfræðingurinn heldur fram. 

(Enginn skyldi þó taka alvarlega að ég hermi þessa orðræðu upp á tiltekin ættarnöfn í landinu og allir vita að margt afbragðsfólk ber hin einkennilegustu nöfn.)


Vér vesælir Veldingar

Þegar ég var að punkta niður sögur af Hafnfirskum ömmum mínum fyrir áratugum síðan lenti ég á tali við gamlan mann á elliheimili þar í bæ sem sagði mér þá sögu um Veldinganafnið að það hefði verið hálfur Hafnarfjörður um aldamótin 1900. En svo fækkaði Veldingunum mjög hratt.

Ekki vegna þess að viðkoman væri léleg eða að heilu árgangarnir pipruðu heldur vegna þess að það fór að þykja ófínt að bera þetta nafn. Veldingarnir þóttu um of drykkfelldir. Hjá mínu fólki lagðist það af vel fyrir aldamótin 1900 að nota þetta nafn en Sesselja langamma mín átti samt til Veldinga að telja. Afi hennar var Bjarni Velding sonur Kristjáns Velding yngra sem var sonur ættföðurins Christians Velding eldra. 

Þessi saga rifjaðist upp fyrir mér þegar ég rak augun í Séð og heyrt úti í búð og sé að ein af vonarstjörnum fjármálalífsins til skamms tíma er nú hættur að bera nafn þetta og er í staðin bara Lárus Snorrason.Hann er eins og ég sjöundi maður frá Christians Velding eins og ég og hvorugur okkar ber nafn ættföðurins.

Segiði svo að sagan endurtaki sig ekki.


Hvíli hinn enski íssparigrís í friði

Icesave viðræðurnar liggja niðri sem er kannski eins gott.

Þetta er núsjálfumgleði að vitna svona í sjálfan sig en ég hef verið beðinn um að skýra afhverju ég er ánægður með að Icesave viðræðurnar liggi niðri. Ástæðan er að það eru líkur á að það megi koma í veg fyrir að þær verði nokkurntíma teknar upp aftur. Fyrir því eru eftirfarandi rök.

- Krafa Breta og Hollendinga er vitaskuld lögleysa og lokleysa af versta tagi en styðst við kúgun þess stóra á þeim litla. Engum dettur t.d. í hug að krefja Bandaríkjastjórn um skuldir vegna Lehmanbræðra eða Madoff fjárfestis en vegna beggja þessara fjármálafyrirtækja töpuðu menn um allar jarðir margfalt þeim tölum sem töpuðust með íslensku glæponanna.

- Nú þegar allt fjármálakerfi riðar styttist í að Bretar, Írar og fleiri standi frammi fyrir algerlega sambærilegum kröfum og þá getur verið að hinir bresku kratar snúi hratt við spilunum og segi,- sko við getum ekki borgað, ekki frekar en Íslendingar og auðvitað borgar enginn svona skuldir. Þetta voru prívat gangsterar. 

- Byrjum á að fá hér að stjórnun landsins menn sem þora að taka á fjármálamönnum þeim sem komu landinu á kaldan klaka og gerum það með skýrslutökum, eignakyrrsetningum og gæsluvarðhaldi þar sem það á við. Þá fyrst skilur umheimurinn að hér á landi eru ekki við stjórn þeir varðhundar útrásarvíkinga sem Bretar máske réttilega telja stjórnvöld hér heima vera. Hvað þarf lengi að tala um rökstuddan grun um peningaþvætti í embættum og fjölmiðlum áður en einn einasti maður er færður til yfirheyrslu!!!


Össur sem ekkert veit

Kostulegt að fylgjast með umræðunni á Alþingi um Icesave og aðgerðir breta, kyrrsetningu eigna o.s.frv. Össur veit ekki til að Íslendingar hafi gert nokkuð af sér! Bara enginn, ekki nema þá Davíð, allir aðrir eru saklausir!! Og nei það hefur ekkert verið talað við Brown ennþá en það hefur rifjast upp fyrir fráfarandi forsætisráðherra að hann talaði einu sinni við vin Browns þessa sem hefur að nafnfesti að vera mesta giggóló.

Bresk stjórnvöld krefja okkur um skrilljónir.

Icesave viðræðurnar liggja niðri sem er kannski eins gott.

Kannski er líka eins gott að hvorki Geir né Björgvin töluðu við Brown, aldrei að vita hverju þeir hefðu lofað. 

En ég vil að Jóhanna fari og tala við þennan samflokksmann sinn í Downingsstrætinu og mætti taka Álfheiði með sér.

En áður en þær fara þurfum við að fara að sem siðaðar þjóðir og kyrrsetja eigur útrásarvíkinganna og taka af þeim skýrslur. Þá fyrst geta Bretar skilið að við, Íslendinar, erum í sama liði og annað heiðarlegt fólk en ekki er við einhverskonar gangsteraforingja að eiga. Meira að segja í Eystrasaltslöndunum eru stórefnamenn látnir finna til tevatnsins og allir þeirra samningar langt aftur í tímann ógiltir með sérstökum lögum. En hér, hér eru ráðherrar að semja við þá með sms - sendingum...

Bófar sem njóta vafans

Áttu þessir nýríku fjármálasnillingar lögvarinn og stjórnarskrárbundinn rétt til að féfletta og veðsetja þjóðareignir og innistæður okkar í bönkum?
Eiga þessir sömu aðilar fullan rétt til að fela þessa fjármuni "sína."?

Ofanritað á blaði færði Hjörtur Þórarinsson fyrrverandi framkvæmdastjóri SASS mér í liðinni viku sem fyrirspurn til valdhafa og þar með alþingismanna. Spurningin sem Hjörtur leggur hér fram lýtur hér að því hversu lengi stjórnmálamenn ætla að slá skjaldborg um þá sem hvað verst léku hagkerfi okkar. 

Þar hafa fulltrúar allra flokka nema VG staðið fast á því að ekki megi ganga of hart fram af ótta við að þar með sé gengið á stjórnarskrár varinn rétt. Þetta er afar órökréttur fyrirsláttur flokka sem hafa alið manninn undir handarjaðri auðmannanna. Vitaskuld er hverskyns skerðing á réttindum manna, t.d. þeirra sem nú gista Litla - Hraun, skerðing á þeim almennu réttindum sem frjálsir menn eiga að búa við. En í öllum samfélögum hefur verið litið svo á að þau réttindi veiti mönnum ekki rétt til ránskapar og það er rökstuddur grunur um að þessa dagana er verið að koma undan gríðarlegu þýfi af íslenskum þjóðarauð í gegnum viðskipti sem enginn veit fyrir vissu hvernig brutu gegn íslenskum lögum.

Við stjórnarmyndunarviðræðurnar nú í janúar gengu mínir gömlu félagar í Framsókn harðast fram í því að auðjöfrarnir fengju sem lengst að njóta vafans. Venjulegir karamelluþjófar njóta ekki slíkrar verndar heldur eru þeir hnepptir í gæsluvarðhald - síðan rannsakað og dæmt. Hvenær ætlar borgarahreyfing Harðar Torfa að hætta að æpa á Davíð einan og snúa sér að því sem máli skiptir!


Þeir áttu afmæli um daginn...

IMG_1830

magnus_thor_bjarnason.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Þeir áttu afmæli um daginn,
þeir áttu afmæli um daginn,

þeir áttu afmæli Magnús og Egill
þeir áttu afmæli um daginn...

 

Það var glatt á hjalla á Sólbakkanum yfir kvöldmatnum þar sem kjarnafjölskyldan söng fyrir miðbörnin mín tvö sem fagna nú 25 og 21 árs afmæli.

Ég man að þegar ég var á þessum aldri þá þóttu mér þrítugir menn ákaflega gamlir og nú er ég sjálfur að verða þrjátíu og tuttugu...

 

Rifjast þá upp sagan af því þegar ég byrjaði í háskóla eftir áratuga hlé. Það hefur líklega verið á öðru ári þessarar aldar og Egill vel skriðinn yfir fermingu.  Eftir fyrsta daginn í skólanum kom ég heim og eldaði ýsu eins og jafnan á mánudögum og montaði mig heil ósköp af þessum fyrsta skóladegi. Og hvort sem það var nú af geðvonsku yfir þessu monti eða yfir mataræðinu segir unglingurinn hálf fýlulega loksins þegar hann kemst að fyrir malanda föður síns og talaði af þeirri einlægni sem börn ein geta. 

- Hvað ert þú svo að fara í skóla og læra eitthvað og svo ferðu bara að drepast!

Og ég er enn að reyna að upphugsa eitthvað svar...


Myntráð á sunnudagsfundi

loftur_2007_768203.jpgVikulegur sunnudagsfundur Heimssýnar verður haldinn á Kaffi Rót núna klukkan 14 og að þessu sinni er umfjöllunarefnið Myntráð. Fyrirlesari er Loftur Altice Þorsteinsson verkfræðingur sem hefur verið ötull talsmaður breytinga í peningastefnu þjóðarinnar en nánar má lesa um athyglisverðar skoðanir Lofts á heimasíðu hans, http://altice.blog.is/blog/altice/.

Fundurinn sem hefst klukkan 2 er öllum opinn og ókeypis aðgangur. Við verðum í kjallaranum í Kaffi Rót sem er í Hafnarstræti 17.


Kata Jak og norska lendingin

Katrín Jakobsdóttir er ein af mínum uppáhalds þingmönnum og ég er ánægður að hafa hana í stóli menntamálaráðherra. En ég jafn óhress með ESB daður hennar í Mogganum í dag þar sem hún segir að VG og Samfylking þurfi að ná sameiginlegri ESB stefnu ef þeir ætli að halda áfram.

Vonandi er það bölsýni hjá mér en eftir þetta útspil þarf Katrín að sýna það með afgerandi hætti að hún og flokkur hennar sé afl sem treystandi er í þessu mikilvæga máli.

Það að ná sameiginlegri stefnu með Samfylkingunni í ESB getur í raun og veru ekki falið í sér annað en að leyfa krötunum að þoka landinu í átt að fullveldisafsali. Það er einfaldlega ekkert ásættanlegt við það. 

Eina ásættanlega leiðin í þessu er norska lendingin. Þar eru saman í ríkisstjórn ESB sinnar og andstæðingar en flokkarnir eru sammála um að stíga að sinni engin skref í átt að ESB.


mbl.is Ekki verið samið um framhald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband