Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010
Dæmalaust
19.3.2010 | 09:06
Hagkerfi þjóðarinnar er í rúst eftir síðasta fyllerí Sjálfstæðisflokksins og þjóðin hrópar á meira!
Þetta er þó altjent staðfesta.
Sjálfstæðisflokkurinn með 40,3% fylgi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Óvinsældir listamannalauna...
17.3.2010 | 17:38
Umræða um listamannalaun hefur aldrei verið listamönnum eins óhagstæð eins og síðustu vikur. Þar ræður mestu makalaust viðtal við Þráinn Berthelson alþingismaður þar sem hann skilgreindi alla sem eru á móti listamannalaunum sem fábjána. Sjálfur er Þráinn á listamannalaunum en ekki heppilegur talsmaður þeirra sem hljóta slík laun.
Raunar eru listamannalaun Þráins orðin til við pólitískt samsæri eða spillingu sem er annars mjög fátítt með listamannalaun. Þráinn sem hefur gert margt gott í kvikmyndagerð og skrifað nokkrar bækur beitti Framsóknarflokknum til að komast á heiðurslaunalistann sem er nokkurskonar eftirlaunasjóður. Eftir að hafa komist á listann hætti Þráinn í Framsóknarflokknum, gekk svo í hann aftur og úr honum aftur og er nú hvorki í þeim flokki né öðrum.
Sjálfur þekki ég ágætlega greinda og skemmtilega menn sem eru á móti listamannalaunum en ég er ekki sammála þeim. Til listamannalauna fara ekki háar upphæðir og þær mætti hækka þegar betur árar því það er fátt eins mikilvægt til að viðhalda sköpunarkrafti samfélagsins, menningu okkar og sjálfstæði í bæði efnahagslegu samhengi, pólitísku og andlegu.
Efnahagslegt mikilvægi manna eins og Þórbergs, Ásgríms og Megasar er í mínum huga hafið yfir allan vafa!
Ómerkilegt frumhlaup hjá ráðherra
15.3.2010 | 13:32
Hugmyndir Árna Páls Árnasonar um að lækka öll bílalán eru álíka ómerkilegar eins og allar slíkar hugmyndir um niðurfærslu skulda. Þar með verða þeir verðlaunaðir með hæstu ríkisstyrkjunum sem kræfastir voru í 2007 lifnaðinum. Mér er mjög til efs að fólk sem var raunverulega efnalítið á tímum góðærisins - og er enn efnalítið - hafi tekið bílalán.
Þessar hugmyndir eru nákvæmlega jafn siðlausar og hugmyndir sem Tryggvi Þór Herbertsson og fleiri hafa haldið fram um jafna niðurfærslu allra íbúðalána, allt í boði ríkisins. Eða þá hugmyndir um að skuldarar megi henda frá sér lyklunum af of skuldsettum eignum. Hverjir verða fyrstir til þess, - jú þeir sem eiga svo margar eignir að þeir geta losað sig við sumar og haldið öðrum.
Engar slíkar skuldaniðurfellingar verða nema með því að veita til þess ómældu fé úr vösum skattborgara. Greifar sem áttu tvö hús, þrjá bíla og tvo sumarbústaði gætu þar með í einu vettvangi náð til sín ríkisstyrk sem samsvarar margföldu því sem fatlaður maður fær úr samfélagssjóði alla sína ævi.
Eina réttlætið í þessum efnum og það eina sem stjórnvöld eiga að einbeita sér að er að aðstoða þá sem eru verst settir. Það verður gert með því að draga úr innheimtuhörku, með því að beina meira fé í þá sjóði sem aðstoða fátæka og með því að milda þau langtímaáhrif sem eru af persónulegu gjaldþroti. Þá er frumvarp Illuga Gunnarssonar um niðurfellingu dráttarvaxta allrar athygli vert þó að þar sé vissulega margt að varast.
Icesave og ESB
12.3.2010 | 19:02
Fíflalegustu kosningum Íslandssögunnar er nú lokið með niðurstöðum sem engum koma á óvart og engu munu breyta. Allar hugmyndir um að heimsbyggðin hafi staðið á öndinni yfir kosningum þessum eru hluti af þeirri íslenskri mikilmennskubrjálsemi sem hefur leitt þjóð þessa í marga ófæruna.
Fyrir kosningar mátti ætla að einhverjir hér tryðu því í raun og veru að Sjálfstæðisflokkurinn á Íslandi, óvart undir forystu Ólafs Ragnars Grímssonar, myndi nú á gamalsaldri beggja stýra einhverskonar heimsbyltingu alþýðunnar gegn fjármagnseigendum.
Í sama anda er sú bábylja að hin hetjulega barátta gegn Icesave-samningunum sé hluti af baráttu þjóðarinnar fyrir að standa utan ESB. Fátt er fjær sanni. Það er rétt að vinfengi Íslands við Bretland og Holland styrkist ekki eftir því sem Icesavedeilan dregst á langinn. En það vinfengi mun heldur engu skipta.
Ísland mun halda sjálfstæði sínu svo fremi að þjóðin nái að halda sjó í efnahagsmálum og samskiptum við aðrar þjóðir. Lausn Icesavedeilunnar er mikilvægur þáttur í að svo megi verða. Dragist mál þetta von úr viti er hætta á að efnahagsleg staða okkar veikist svo mikið að hin gömlu ESB-veldi eigi auðvelt með að gleypa hér landið og miðin.
Það ríkir stríð um sjálfstæði Íslands enda er þjóðin aldrei venjulegur þátttakandi í samstarfi ESB-þjóða. Til þess erum við of fámenn og alltof fjarlæg vettvangi. Við erum fyrst og fremst gómsætur auðlindabiti fyrir langsoltin og stöðnuð Evrópuríki og því veikari sem við verðum í samskiptum við þessar þjóðir því auðveldara er að sigra okkur.
Annað sem gæti orðið okkur ESB-andstæðingum mjög hættulegt er ef núverandi stjórnarandstaða kemst aftur til valda. Þá verða ESB-sinnar fljótir að ná undirtökum í bæði Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki og öll vígstaða okkar sjálfstæðissinna önnur en nú er.
Í reynd ríkir enginn ágreiningur meðal stjórnmálaflokka landsins um Icesavemálið. Þeir eru allir sem einn sammála um að leggja Icesave-klafann á herðar almennings. Það er settur upp sýndarágreiningur um vexti en í raun og veru eru menn bara ósammála um það hver eigi að vera í ráðherrastólnum þegar skrifað er undir.
Þessvegna voru kosningarnar síðastliðna helgi stærsta og dýrasta aprílgabb Íslandssögunnar. Og ekki einu sinni á réttum degi!
(Áður birt í Mbl. 11. mars 2010)
Þá veit ég hvar þú stendur...
10.3.2010 | 17:34
Athyglisvert að sjá ykkur Ómar Bjarka á pari saman. Til hamingju með það. Gott að vita hvar maður hefur þig.
Fékk þetta komment við síðustu færslu og svosem ekki einu ónotin sem ég hef fengið frá skoðanabræðrum mínum í ESB-andstöðunni. Ég er jafnvel sakaður um að vera krati og þá aðeins datt mér í hug að loka á kommentakerfið!
Morgunblaðið og þeir sem lesa það helst til gagnrýnislaust hafa sett samasem merki milli þess að vera á móti Icesave-samningunum og því að vera á móti ESB-aðild. Jafnvel talið sig geta komið í veg fyrir ESB-aðild með því að sprengja Icesave-málið.
Ekkert er fjær sanni og hverskyns öfgahyggja, þjóðremba og innistæðulaus gagnrýni er líkleg til að skemma fyrir ESB-andstæðingum, sérstaklega ef við færum allir með tölu ofan í skotgrafirnar með Davíð, Sigmundi Davíð og Bjarna Ben (sem langar að heita Davíð...)
Byltingin lætur á sér standa...
9.3.2010 | 23:28
Í umræðunni fyrir Icesavekosningarnar kom fram að með þeim myndi Ísland vekja alþjóðlega athygli fyrir það að hér væri staðið á móti fjármagnseigendum og þar með kveikja kjark með Írum og Grikjum og öðrum sem bágt eiga í þessum heimi.
Já - eiginlega að allur hinn vestræni heimur myndi nötra undan hinu háværa nei-i Íslands!
Auðvitað væri voðalega gaman ef að Ólafur Ragnar og Bjarni Ben. gætu leitt löngu þarfa heimsbyltingu smælingjanna gegn ríkisbubbum heimsins - en það var aldrei sennilegt og nú lætur þessi bylting alla á vega á sér standa.
Svona er nú heimurinn sinnulaus og andstyggilegur við góða menn...
Magnús og bræðurnir fimm
8.3.2010 | 18:51
Sigur helgarinnar er innflutningspartí Magnúsar sonar míns. Hann flutti semsagt í sína eigin íbúð í Ástjörninni og hélt þar hrossaketsveislu.
Að baki er löng, ströng og gefandi vinnutörn okkar feðga. Magnús er hér lengst til vinstri á myndinni með hálfbræðrum sínum fimm þeim Þórði Arnari, Baldri Hrafni, Aroni Breka, Agli og Gunnlaugi. Á myndina vantar Evu systur Magnúsar sem var enn að jafna sig eftir Góugleði í Öræfum...
Af öðrum fjölskyldufréttum er það helst að tónskáldið Elín er í Sviss að hlusta á þarlenda spila stutt og fallegt verk eftir sig. Hún er löngu komin yfir alla útrásarvíkinga í launum með heila 750 svissneska franka á mínútuna.
(Á minni myndinni er Magnús með foreldrum, einum afa og tveimur ömmum, f.v. Bjarni, Arndís, Elín, Magnús, Ingibjörg og Hörður.)
Skáldagáfa sem ég ekki hefi
7.3.2010 | 20:21
Nú hafa enn nokkrir orðið til að hrósa mér óverðskuldað fyrir skáldagáfu. Um daginn vélaði Karl Th Birgisson mig til að vera í þætti sínum RÚV, Orð skulu standa. Ég reyndi að bera fyrir mig að ég gæti ekki botnað vísur og hefði aldrei sett saman svo mikið sem hálfa vísu um ævina.
En Kalli sem er bæði Austfirðingur og krati tók ekkert mark á mér frekar en fyrri daginn og bauðst til þess að senda mér fyrripartinn fyrirfram og ég gæti þá látið einhvern botna hann fyrir mig.
Úr varð að Atli bróðir minn orti botninn sem svo margir hafa hrósað mér fyrir, svo margir að ég kann ekki við það lengur. En semsagt, vísan sem þeir ortu þar með í sameiningu Karl og Atli var svona:
Kennarinn vill koma á
kjólaeftirliti
og fletta klæðum frauku þá
sem fer í ranga liti.
En Atli gaf mér reyndar sjö mismunandi botna við þennan samt strembna fyrripart, ég valdi þennan sem er hér að ofan en hafði auk þess á blaði hjá mér:
Kennarinn vill koma á
kjólaeftirliti
laus við klæði líka má
Linda nakin fara á stjá.
Kennarinn vill koma á
kjólaeftirliti
og fötum kvenna fækka má
fagstjórinn af viti.
Kennarinn vill koma á
kjólaeftirliti
laus við klæði kuldablá
kvendin mega skjálfa þá.
Kennarinn vill koma á
kjólaeftirliti
því kenna þessum kvennsum má
að klæða sig af viti.
Kennarinn vill koma á
kjólaeftirliti
og fötum kvenna fækka má
fagstjórinn af viti.
Kennarinn vill koma á
kjólaeftirliti
skoppa ber um skjáinn má
og skemmta oss af viti.
Ekki þarf að taka fram að allt er þetta út af umræðu sem varð um klæðaburð þeirra Evu Maríu og Ragnhildar Steinunnar í söngvakeppni á dögunum þar sem fagstjóri Listaháskólans taldi kjóla sem þær stöllur klæddust mikið ljóta ef ekki hræmulega.
Að hlaupa apríl í mars
5.3.2010 | 17:25
Það skortir bæði óyggjandi lagarök og ennþá frekar siðferðilög rök fyrir þeirri endileysu að Íslendingar beri einir ábyrgð á Icesave. Þar er á ferðinni mikil nauðung frá gömlum samviskulitlum nýlenduherrum. En það breytir ekki þeirri staðreynd að kosningarnar á morgun eru ómerkilegt aprílgabb og þarmeð mánuði of snemma á ferðinni.
Lýðskrumarar hafa talið þjóðinni trú um að hún sé að kjósa af sér að greiða Icesave en það er ekki. Sömu menn hafa hvað eftir annað komið fram og lofað Bretum og Hollendingum því að þeir ætli að láta þjóðina borga skuldirnar að fullu. Þeir vilja bara gera það öðruvísi en Steingrímur og vitaskuld ekki nema þeir fái að sitja í ráðherrastólum á meðan!
Þegar ESB-andstæðingar fara svo að tengja þetta við hina ótímabæru ESB-umsókn verða menn að svara því af hreinskilni hvort þeir treysti Bjarna Benediktssyni og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni til þess að draga ESB-umsóknina til baka. Ég geri það ekki og óttast raunar að þessir tveir menn yrðu okkur ESB-andstæðingum margfalt skeinuhættari en tvíeykið Jóhanna og Steingrímur.
Sú hugmynd að semja með samstöðu allra stjórnmálaflokka er ekki bara barnaleg og vitlaus. Hún er líka tilræði við íslenska hagsmuni.
Það er algerlega ljóst að Bretar og Hollendingar hafa með aðstoð Skandínava, Bandaríkjamanna og allra ESB-þjóðanna ákveðið að beita Ísland nauðung í þessum efnum. Því breytum við ekki og mikill misskilningur að heimurinn standi á öndinni yfir kosningagabbinu sem hér á að halda á morgun. Það besta sem við gerum í dag er að samþykkja nauðung þessa með þeim fyrirvara að við ætlum okkur að taka málið upp aftur og aftur og aftur. Til þess að sú staða sé sem sterkust er ekkert sérstaklega gott við það að samningarnir séu gerðir með allsherjar hallelúja samkomulagi allra flokka.
Umræðan sem leidd er af sömu stjórnmálaöflum og komu okkur í Icesave vandann einkennist af sama oflætinu og mikilmennskubrjálsemi og einkenndi Ísland allan útrásartímann.Í þessari brjálsemi orga á okkur hugmyndir eins og:
Við getum boðið heiminum birginn!
Við getum lifað án samskipta við aðrar þjóðir, étum bara okkar mat!
Við getum rekið hagkerfið án þess að fá lánafyrirgreiðslu erlendis frá!
Við getum allt og heimurinn mun standa á öndinni á morgun þegar við fellum Icesave, þá mun alþýða heimsins þora að rísa upp gegn fjármagnseigendum um veröld víða!!!
Allt er þetta byggt á mikilli grunnfærni, óskhyggju og misskilningi. Fyndnast auðvitað að Ólafur Ragnar og Sjálfstæðisflokkurinn séu með kosningabulli þessu að leiða alþýðubyltingu í Evrópu.
Kann einhver annan betri?
Verðlag á mat og heimur í tölum
3.3.2010 | 21:52
Verðlag á matvöru vekur alltaf áhuga minn á ferðalögum. Frekar hallærislegt áhugamál en festist við okkur sem sjáum lengi um innkaup á stórum heimilum. Í Eþíópíu er almennt verðlag 5-20 sinnum lægra en á Íslandi. Þannig var algengt að fá ódýra hótelgistingu á 300 - 1000 krónur íslenskar, kaffibollinn kostaði yfirleitt 20 krónur, tebollinn 10 krónur, máltíð á veitingstað sækja 30-500 krónur.
Síðasta daginn fór ég svo á markaðinn því ég vissi að ég var ekki með nema um 12-15 kíló af farangri og því ekki að nota tækifærið og kaupa ódýrar baunir, grjón, krydd, kaffi, te og fleira góðgæti. En viti menn. Baunakílóið kostaði 200-230 krónur, hér heima kosta sömu baunir í mesta lagi 400 krónur og baunirnar hér heima eru í hærri verðflokk vegna umbúða, hvort það eru betri baunir skal ósagt látið. Þessar baunir á markaðinum í Merkato í eru allavega mun umhverfisvænni og hafa orðið til án vélvæðingar! Kaffi kostaði 500 krónur kílóið, hrísgrjón 150 krónur. Það er enginn tífaldur munur þarna.
Nú er verðkönnun á þriðja heims markaði ekkert einföld því það er hefð fyrir því að tvöfalda verðið fyrir túristum og stríða þeim svoldið. En við vorum tveir á þessum markaði og höfum báðir nokkra reynslu af svona prútti. Að lokum sannfærðumst við þegar við sáum heimamenn einfaldlega greiða þessi verð. Þetta voru verðin á bændamarkaði. Í yfirstéttarbúðum borgarinnar mátti fá sömu vörur innpakkaðar á 30-200% hærra verði, þ.e. allt að því jafn dýrar og hér heima.
Þetta segir okkur mikið um það hvar okrið verður í hinum vestræna sóunarsamfélagi. Það er ekki í grunnverðlagi þess sem myndar grundvöll lífsins og um leið samfélagsins heldur í því sem smurt er ofaná því við smyrjum þykkt, þykkt, þykkt þessir feitu hvítu rassar sem við erum.
(Ljósmynd Egils af sveitakonu í Omodalnum við einhverskonar þreskivinnu og líklega er starfsdagur í leikskólanum...)