Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

Gnarr-smjaður út yfir þjófabálk

Smjaður stjórnmálaflokka og fjölmiðla við Jón Gnarr er komið út yfir allan þjófabálk. Margt ljótt má segja um stjórnmálaflokkana en í landinu ríkir þó þúsund sinnum betra stjórnarfar heldur en þar sem ekki er stuðst við þingræði og lýðræði.

Besti flokkurinn er ekkert annað en skammarleg atlaga að lýðræðinu og hlutur þeirra manna sem þar standa að verki verður ekki betri við það að þeim hafi tekist atlagan. 

Hvenær ætla svo stjórnmálaleiðtogar að láta af þeirri kratísku firru að ef þeir fái ekki fylgi hafi þeir gert eitthvað rangt! Niðurstaðan er alltaf rétt út frá sjónarmiði lýðræðisins því það á að gilda. En hún er sjaldnast rétt út frá þjóðarhag eða skynsemi. Þessvegna á Jón Gnarr sína borgarfulltrúa en alvöru stjórnmálamenn ættu að sjá sóma sinn í að sneiða hjá þeim í samstarfi. 

Eða hvernig dettur íslenskri þjóð í hug að niðurstaða  kosninga sé allaf rétt þegar meirihluti hennar (ég þar á meðal sem ég hefi margoft beðist forláts á) kaus árum saman yfir sig þá flokka sem gáfu bankana og leiddu glæpalýð til valda í viðskiptalífinu. 


Til hamingju Árborgarar

Til hamingju Árborgarar með nýjan meirihluta. Niðurstaða kosninganna er komin fram og hún er alltaf rétt svo fremi að það sé rétt talið sem ég efa ekki með okkar góða kjörstjórnarfólki. Og auðvitað óska ég Sjálfstæðismönnum sérstaklega til hamingju og þakka um leið öllum þátttökuna í hörðum slag.

Auðvitað hefðum við vinstri menn í Árborg viljað sjá aðra niðurstöðu, bæði hér og víðar á landinu. Hér í Árborg hélt VG þó sinni stöðu og gott betur þannig að það má tala um varnarsigur. Það er greinilegt að á landsvísu stendur Vinstri hreyfingin grænt framboð frammi fyrir mjög erfiðri stöðu. Ríkisstjórnin öll fær skell en sá skellur er samt í heildina stærri hjá VG. Þar ræður reyndar mestu slakt gengi í Reykjavík þar sem óeining ríkti um listann meðal liðsmanna flokksins. 

Okkar sem nú stöndum að minnihlutanum í Árborg bíður mikilvægt verkefni. Það mun ekki af veita að óska meirihluta Sjálfstæðisflokksins velfarnaðar í störfum sínum. Um leið er ljóst að við þurfum að veita sama meirihluta öflugt aðhald, verja eins og hægt er velferðarkerfi bæjarfélagsins og vera á varðbergi gagnvart því að sérhagsmunir ráði ekki för í ákvarðanatöku. 

 


Tveggja stafa tala er sigur...

Spennan er nú nærri óbærileg þegar aðeins vantar nokkrar mínútur í fyrstu tölur í kosningunum hér í Árborg. Síðast var VG með innan við 10% atkvæða þannig að tveggja stafa tala er strax nokkur sigur.

...nei við gerum ekki ráð fyrir því að ná þriggja stafa tölu!


Áberandi fjarvera...

Yfirleitt eru þeir sem mæta meira áberandi en þeir sem eru fjarverandi. Það er þó ekki alltaf.

Á síðasta degi kosningabaráttunnar boðaði Pakkhúsið á Selfossi fulltrúa flokkanna á sinn fund til skrafs og fyrirspurna. Í Pakkhúsinu er nú rekið myndarlegt ungmennastarf sem tekur við þegar krakkarnir vaxa upp úr starfinu í félagsmiðstöðinni.

Meirihlutinn sem nú situr hefur komið þessu starfi af stað en minnihluti Sjálfstæðismanna gagnrýnt starfið. Í kosningablaði sínu benda þeir á hvað spara megi með því að setja 0 krónur í bæði Ungmennahús og heimili fyrir alzheimersjúklinga. 

Vegna þessa var áberandi að fulltrúar sjálfstæðisflokksins mættu ekki. Það er mjög fátítt og um leið sérkennilegt að flokkur í framboði skrópi með þessum hætti. 


Veljum af varkárni

Kosningarnar á laugardaginn skipta máli fyrir hag okkar allra. Sveitarfélagið Árborg er skuldugt sveitarfélag og frá hruni hefur reksturinn verið með tapi. Um þetta er enginn ágreiningur og þessi staða er uppi í öllum sambærilegum sveitarfélögum í landinu.

Hér í Árborg hafa aftur á móti unnist mikilsverðir varnarsigrar í baráttunni og Árborg er ekki í hópi þeirra mörgu sveitarfélaga sem komin eru í gjörgæslu yfirvalda vegna skuldaóreiðu. Þar skiptir miklu að sveitarfélagið Árborg hefur ekki selt frá sér dýrmætar eignir eða leitað annarra skyndilausna á vanda sínum.

En vitaskuld voru gerð mistök í rekstri Árborgar á liðnu kjörtímabili og nægir þar að benda á óþarflega dýra skólabyggingu á Stokkseyri og lítilsháttar tap í peningamarkaðssjóðum. Gjöld eru hér líka í hærra lagi og ef svigrúm gefst þarf að lækka þau. Við þurfum að geta rætt þessi mál öll feimnislaust og læra af þeim. En það voru líka teknar afdrifaríkar og mikilvægar ákvarðanir sem björguðu því að hér var ekki og er ekki óviðráðanleg skuldastaða. Það að slá út af borðinu stórkarlalegar hugmyndir Sjálfstæðismanna um dýrt fjölnota íþróttahús og nýja Sundhallarbyggingu á Selfossi er gott dæmi þar um. Í stað sundhallarbyggingar var farið í endurbætur á núverandi húsnæði og byggingu útiklefa þannig að við getum nú með stolti bent á sundlaugina okkar sem eftirsóknarverða ferðamannavin.

Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn gefið undir fótinn með nýja sundhöll og vill líka setja stórfé í Menningarsalinn í Hótelinu þó enginn viti fyrir víst hvort hann gagnist félagslífi hér á svæðinu. Hvoru tveggja er langt utan þess sem skynsamlegt getur talist.

Á kjörtímabilinu bíða okkar fjölmörg verkefni. Við þurfum að ganga í þau verkefni af heiðarleika og einurð. Til erum við og við treystum á ykkar atfylgi.

(Þórdís Eygló Sigurðardóttir og Bjarni Harðarson skrifa, birt í Dagskránni 27. maí 2010)


Vænn þingmaður tekur pokann sinn

Afsögn Steinunnar Valdísar kemur á einkennilegum tíma og virkar sem örvæntingarfullt útspil rétt fyrir kosningar. Sjálfum fannst mér útspil Hjálmars Sveinssonar ekki stórmannlegt á þessum tíma og mátti ekki túlka nema á einn veg; segðu af þér svo ég komist að! Með sama rétti má gagnrýna Dag B.

En allavega, afsögnin er samt eðlileg og krafa almennings um hana var réttmæt. Það breytir samt  ekki því að það er eftirsjá í Steinunni Valdís. Við unnum saman í fjárlaganefnd og Steinunn Valdís er vænn stjórnmálamaður, réttsýn og sanngjörn. Henni mun farnast vel utan þings.


mbl.is Eftirsjá af Steinunni Valdísi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjallagrös og VG sem vill allt banna...

ER það ekki svo að VG vilji banna allt annað mannlegt athæfi en það að einhverjir reiti upp fjallagrös?

Sjá nánar 


Allir í Hvíta húsið

Hápunkturinn í kosningabaráttunni hér í Árborg er í opnum fundi sem Suðurland FM 963 heldur í Hvíta húsinu á Selfossi í kvöld. Þar verða fulltrúar allra framboða og allir velkomnir. Þeir sem ekki komast á staðinn geta stillt útvarpið á 96,3 eða farið á vefinn á http://963.is/

Við lofum fjörugum umræðum.


Magma austur fyrir fjall

Nú ætlar Magma að hasla sér völl í Skaftártungunni. Við hér austanfjalls höfum ekkert við sænska skúffuspillingu að gera. Síðast þegar sænskir reyndu að hasla sér völl hér var þegar uppgjafaprestur þaðan var gerður biskupi í Tungunum. Honum var drekkt í Brúará.

Það verða einhver ráð.
mbl.is Magma á helming í Búlandsvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magma austur fyrir fjall

Nú ætlar Magma að hasla sér völl í Búlandsvirkjun. Við hér austanfjalls höfum ekkert við sænska skúffuspillingu að gera. Síðast þegar sænskir reyndu að hasla sér völl hér var þegar uppgjafaprestur þaðan var gerður biskupi. Honum var drekkt í Brúará.

Það verða einhver ráð.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband