Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Baráttan gegn fátæktinni

Baráttan gegn fátæktinni en brýnni nú en nokkru sinni áður. Í stað hennar hafa þrýstihópar og stjórnmálamenn staðið fyrir skaki um að ríkið gefi öllum pening með flötum niðurfærslum skulda. Þá yrði ríkum gefið mest og þeir fátækustu jafn fátækir og áður.

Harpa Njáls kommenterar á velferðarkerfið á Íslandi og hefur mikið til síns máls. Það er ólíðandi að stór hópur fólks eigi varla til hnífs og skeiðar og þurfi að standa í biðröðum hjálparsamtaka eftir matargjöfum.

Ein leiðin út úr þessum vanda er að efla stórlega velferðarkerfið en eitt og sér dugar það ekki. Það ekki síður mikilvægt að hækka lægstu laun sem eru í dag 150 þúsund krónur. Það segir sig sjálft að velferðarkerfið hlýtur alltaf að yfirbjóða slíka launataxta og þá er allt kerfið lent í alvarlegum vítahring. Þessi vítahringur og vaxandi fjöldi fátækra í landinu er stærsta pólitíska verkefni okkar daga. Þar þurfa ríki, þing, og sveitarfélög að taka höndum saman.


Auðvelt að villast

Ég er ekki þaulkunnugur á því svæði þar sem fólkið varð úti innan við Einhyrningsháls en hef komið þar nokkrum sinnum. Og með öllum sínum krókóttu vegum, fjallatindum og gríðarlegri fjölbreytni í landslagi  hefur þetta svæði virkað á mig sem völundarhús. Það er því ekki að undra að fólk geti villst á þessu svæði en hörmulegt er það og minnir okkur enn og aftur á hversu ógnvænlegt íslenskt fjalllendi er í sínum vetrarham.

Vér mótmælum öll, Kristján Möller!

Ráðherrrar og ráðuneytismenn fá oft ótrúlegar hugmyndir, misjafnlega gáfulegar. Ég hefi enga trú á að það verði nokkru sinni þingmeirihluti fyrir vegtolli á Hellisheiði líkum þeim sem er í Hvalfjarðargöngum.

Ef þetta á að vera svokallað skuggagjald má okkur svosem vera sama. Þá eru bílarnir taldir sem framhjá fara og ríkið reiknar af hverjum bíl gjald sem ríkið greiðir ríkinu og nær þar með að plata sjálft sig með svipuðum hætti og gera þau sveitarfélög sem kosta nýjar fasteignir með fjármögnunarleigu. Þetta getur gagnast mjög vel stjórnherrum sem vilja eyða meiru en þeir mega en er aldrei farsælt.

Vegtolli munum við öll mótmæla, þvert á flokka.


mbl.is Alfarið á móti vegtollum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar sólin dansaði og ég vaknaði í timburmönnum

Sólin dansaði á himninum í morgunsárið eins og hún gerir alltaf þegar páska ber upp á réttum degi eins og nánar má lesa um hér. En sjálfur svaf ég þau firn af mér eins og hina 49 páskamorgnana. Vaknaði ekki fyrr en á tíunda tímanum og þá með skerandi timburmannahöfuðverk.

Við Egill vorum við gólfmálningu í bókakaffinu í gærkvöldi og gengum þaðan út úr terpentínusvækjunni hálfvegis rykaðir. En óskaplega montnir því þetta er okkur mikið afrek. Hér á bæ eru allir mjög samtaka í leti sinni til verklegra framkvæmda. Það var því stór sigur þegar fjölskyldunni var allri smalað á skírdag til málningarvinnu sem ég er að vona að hafi lokið í gærkvöldi.

Málshátturinn sem ég fékk í morgun innan úr rúsínu:

Ekki er gott að selja kaffi í málningarsvækju.

Aftan á málsháttamiðanum voru þau heilræði að hafa búðina lokaða fram á þriðjudag en þá verður nú dansað og þá verður lesið á fagurbrúnu trégólfi.


Einhverntíma hefði verið rekið tafarlaust

Nú er moldviðri umhverfis Álfheiði og víst getur hún verið hvöss.

En er þetta ekki allt partur af pólitík.

Ráðherra setur vinstri-reglugerð um aukna samhjálp til handa þeim sem þurfa tannréttingar.

Ríkisforstjóri sem áður gengdi trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn þybbast við að fara eftir henni af því að kannski sé hún ekki nógu góð.

Kannski megum við bara þakka fyrir að Álfheiður ákveði ekki einfaldlega að leggja stofnun Steingríms Ara niður...


Í íslensku fátæktarhverfi...

Fór á Kóngaveg í Háskólabíói í gær. Myndin er einkar vel leikin, persónusköpun skemmtileg og um margt heillandi. Söguþráðurinn - semsagt handritið - er samt of laust í reipum og það eiginlega vantar fléttuna í söguna, plottið eða festuna í frásögnina.20091221155549984.jpg

Þó að margir hér búi við kröpp kjör var í myndinni dregin upp ýkt mynd af íslenskum lúserum sem búa í hjólahýsaslömmi. Hugtakið "white trash" var hér heimfært á íslenskan veruleika. Fyrir öllum sem hafa kynnst  fáránleika fátæktarinnar í gettóum Vesturlanda og ríkjum þriðja heimsins þá var myndin raunsönn lýsing á því hvernig Ísland, eða hluti þess, gæti orðið ef fátækt eykst hér að marki.

Fyrir þá sem heillast af þessari tegund mannlífsflórunnar er upplagt að berjast fyrir því að Ísland gangi í ESB, þá verður nóg af ólæknandi og viðvarandi atvinnuleysi hér með tilheyrandi efnalegri og andlegri fátækt.

Önnur leið að sama marki er að fylkja sér undir frjálshyggjufánana og berjast með íslenskum belgingi fyrir því að Ísland verði ríkasta land í heimi! Í þeirri vegferð vantaði síðast ekki nema herslumuninn til að koma landinu almennilega fram af bjargbrúninni. 


Við Þórðarfell á Fimmvörðuhálsi

fimmvorduhals001.jpgKomst í vikunni á Fimmvörðuháls sem var bæði tilkomumikið og skemmtilegt. Þórðarfellið fagra býr  yfir krafti og frumleika líkt og nafngjafi þess Þórður í Skógum. Þarna uppfrá sló ég tölu á yfir 100 farartæki og úr einu þeirra komu frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins hér í bæ með Eyþór Arnalds í broddi fylkingar.

Það var vitaskuld við hæfi að tekin væri mynd af okkur keppinautum og nágrönnum saman.


Atvinnuleysi eða hvað?

Kreppan birtist okkur með ýmsum hætti og víst að fjölmörg heimili eiga erfitt með að ná saman endum. Atvinnuleysistölur eru líka háar en segja þó ekki alla sögu. Sjálfur þekki ég til atvinnurekenda sem eiga í basli með að manna sín störf og nýlega var auglýst í blöðum og netmiðlum eftir fólki í kvöldvinnu með 2000 króna tímakaupi. Allt sem viðkomandi þurftu að gera var að senda inn nafn og símanúmer á netfangið kvoldvinna@gmail.com en viðbrögðin urðu sáralítil. Tveir svöruðu.

Rétt eins og við vorum öll upptekin af því fyrir nokkrum árum að í landinu væri góðæri og allir hefðu það svo gott þá erum við nú öll upptekin af því að það sé kreppa og allir hafi það svo skítt. Í reyndinni er minni munur á þessum tímabilum en ætla mætti af fjölmiðlaumfjöllun. Flestir lifa sínu venjulega lífi í gegnum góðæri og kreppur og á báðum þessum tímaskeiðum er dálítill en samt alltof stór hópur sem hefur það reglulega erfitt.

Skammarlega erfitt í allsnægtarsamfélagi okkar. 


Beðið eftir skýrslu

Beðið eftir skýrslu

Íslenska þjóðin bíður nú eftir skýrslu í svipuðum fáránleika og þeir Vladimir og Estragon biðu á sínum tíma eftir Godot. Hvert mannsbarn veit að eftir engu er beðið. Staðreyndin er að við höfum fyrir löngu fengið að vita allt sem máli skiptir varðandi hrun bankanna á Íslandi og hinir refsiglöðu munu seint fullnægju fá. Þeir sem hér með sparifé landsmanna léku höfðu um sig þá hjörð lögfræðinga að ekkert hald verður á. Allt refsivaldið í þessum efnum í höndum kjósenda.

Við sem studdum á sínum tíma ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gerðum það í þeirri trú að heiðarleiki hefði verið hafður að leiðarljósi við einkavæðingu banka og annarra fyrirtækja. Nú er öllum sem sjá vilja augljóst að það var ekki svo. Það er auðvitað mannlegt að berja hér hausnum við stein og segja víst, víst, víst - en það má deila um hvort það er stórmannlegt.

Staðreyndin er að við sem studdum þessa stjórn, einkavæðinguna og flokkana sem að þessu stóðu vorum öll höfð að fíflum. Rót þess gríðarlega vanda sem íslenskt hagkerfi lenti í haustið 2008 liggur ekki bara í göllu regluverki og EES-samningi. Sá samningur var líka í gildi í Noregi. Rótin liggur heldur ekki í falli einhverra Lehmansbræðra sem bjuggu hér frekar en í Guðbrandsdal.

Meginástæða þess hve fall íslenska hagkerfisins var mikið, óviðráðanlegt og óskiljanlegt var sú spilaborg sem hér varð til í kringum íslensku bankana. Það var ekki fyrr en eftir hrun sem almenningi varð ljóst að til þess að kaupa Búnaðarbankann var tekið lán í Landsbankanum og öfugt þegar Landsbankinn var keyptur. Þetta var mun glæpsamlegri mynd en stjórnarandstöðunni hafði nokkru sinni dottið í húg. Og þessi gerningur skýrir mjög margt í því sem á eftir kom.

Hefðu bankarnir verið seldir raunverulegum kapítalistum sem lagt hefðu sitt eigið fé í kaupin þá hefðu sömu eigendur gætt eðlilegrar varúðar. Í staðin voru þessar verðmætu peningastofnanir íslensku þjóðarinnar látnar af hendi í einkavinavæðingu til fjárhættuspilara sem komu að rekstrinum með skuldsettri yfirtöku. Það hefði um margt verið betra að gefa bankana algerlega því þannig hefði þá óhjákvæmilega skapast eign og þar með ögn af ábyrgð hjá hinum íslensku oflátungum.

En með hinum ofurskuldsettu og reynslulausu bankaeigendum skapaði íslenska ríkið viðskiptaleg villidýr sem gátu aðeins haldið lífi með vaxandi glannaskap og áhættusækni af því tagi sem við lesum nú daglega um í uppgjöri kreppunnar. Hér gildir að sá sem ekkert á, nema ókleyfar skuldir, getur tekið hvaða áhættu sem er og er engri skynsemi háður. Frjálshyggjumönnum er títt að tala um fé án hirðis en hér var bæði íslenskt og erlent sparifé fremur falið ræningjum en fjárhirðum.

Það er haldlaus vörn að tala um að hinir íslensku kapítalistar hafi misnotað það frelsi sem vel gerðir stjórnmálamenn gáfu þeim. Staðreyndin er að það voru íslenskir stjórnmálamenn sem misnotuðu það traust sem kjósendur þeirra gáfu þeim.

(Birt í Mbl. 29. mars 2010)


Gott er að slóra...

Bestu sunnudagarnir eru þeir sunnudagar þegar ekkert er gert nema slóra. Í morgun slóraði ég yfir bókum uppi í rúmi fram að hádegi eða þar til ég dottaði aftur um tólfleytið. Svo slóraði ég yfir gömlu drasli hér í kompunni minni og um kaffileytið fórum við hjónakornið í slórlegan göngutúr um Ölfusforirnar.

Það var kalt en fátt eins heillandi eins og ullargult sinuteppið sem liggur hér yfir endalausu víðerni þar sem er ekkert er nema einn og einn skurður og örfáir slóðar.

Eftir þetta slóraði ég svo við að elda sunnudagamat og ætla að hengslast í tölvunni í kvöld án þess að ætla mér nokkuð sérstakt með því og draga mig snemma inn í kuðung yfir bók og vindlareykingum.

Svona á að lifa lífinu. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband