Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Það sem fyndið á að vera...

Það er óneitanlega fyndið að fylgjast með málflutningi Sjálfstæðismanna, hvort heldur er í landsmálum eða hreppsmálum. Þegar ég orða það að sveitarfélagið okkar sé í traustum höndum vinstri meirihlutans sem hér ræður rjúka bloggarar til og hrópa að hér sé allt á vonarvöl skulda og óreiðu.

Vissulega skulda sveitarfélög mikið en ef borin er saman staða tveggja sveitarfélaga sem eru sambærileg, Árborgar og Reykjanesbæjar, birtist okkur lítið af fjármálasnilld Sjálfstæðismanna sem fara þó einir með völd í síðarnefnda bænum. Þar var tap á hvern íbúa nærri 600 þúsund meðan sambærileg tala var þó innan við 200 þúsund í Árborg. Þó eru tekjur á hvern íbúa í Árborg umtalsvert lægri en í Reykjanesbæ.

Svipað er farið höfundi Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins sem býsnast yfir því í dag að það sé vond leiðsögn sem þjóðin fær nú á þrengingartímum. Það má víst margt að henni finna en hvert leiddi Sjálfstæðisflokkurinn þjóðina síðast þegar hann var í forystu...


Stöðugleika í stjórn Árborgar

Sveitarfélagið Árborg stendur frammi fyrir vandasömu verkefni næstu árin líkt og landið allt og allir þeir sem þurfa að láta enda ná saman. Í landinu fer nú fram rústabjörgun eftir þann eyðingarmátt sem oflátungsháttur markaðshyggju og klíkustjórnmála hafa leitt yfir okkur.

Sveitarfélög eru vitaskuld afar misvel á vegi stödd og eðlilega er staðan hvað erfiðust þar sem fjölgun á bólutímanum var hvað mest. Það er þessvegna lofsvert að hér í Árborg er staðan þrátt fyrir allt viðundandi og því mikilvægt að áfram verði haldið á þeirri braut varkárni og festu sem hefur ríkt. Sveitarfélagið er vitaskuld skuldsett en hefur á móti enn í sinni hendi veitufyrirtæki og fasteignir sem samsvara þeim skuldum og gott betur.

Því fer samt vitaskuld fjarri að allt sé samt í besta lagi í okkar sveitarfélagi. Atvinnuleysi er hér umtalsvert, fjölmörg fyrirtæki glíma við mikinn skuldavanda og sama gera fjölmörg heimili og einstaklingar. Þessar aðstæður verða ekki leystar með neinum töfrabrögðum en glíman við þau byggir á því að sveitarfélagið búi vel að fólki og fyrirtækjum. Sóknarfæri alls Árborgarsvæðisins eru gríðarleg á sviði ferðaþjónustu, iðnaðar og framleiðslu. Þar er sveitarfélagið ekki gerandi nema að litlu leyti en öllu varðar að sú umgjörð sem það skapar sé traust og áreiðanleg. Þar reynir mjög á alla þætti stjórnsýslunnar.

Sveitarfélagið er aftur á móti gerandi í því að mæta þörfum þeirra einstaklinga og fjölskyldna sem þurfa aðstoð og leiðréttingu sinna mála á næstu misserum og árum. Slíkt tryggingarhlutverk er í reynd elsta og æðsta verkefni sveitarstjórna í landinu og það þarf að rækja af kostgæfni og sanngirni.

Með þetta að veganesti hefi ég ákveðið að bjóða fram krafta mína fyrir sveitarfélagið og geri það undir merkjum þeirrar þjóðlegu vinstristefnu sem er líklegust til að leiða þjóðina út úr ógöngum liðinna missera.

Höfundur er atvinnurekandi á Selfossi og skipar 2. sætið á lista VG í Árborg

(Áður birt í Dagskránni á Selfossi 25. mars 2010)


Í umboði skötusels

Svokallaðir aðilar vinnumarkaðarins eru mikil ráðgáta og einkanlega þegar maður veltir fyrir sér í umboði hvers þeir starfa. Meðal þeirra fjölmörgu atvinnurekenda sem ég þekki, stórra og smárra, er varla neinn sem telur sig tilheyra Samtökum atvinnulífsins. Og svipaða sögu má raunar segja af ASÍ sem er ólíkt fjarlægara almennu launafólki en guð almáttugur.

En nú vitum við það. Samtök þessi starfa í umboði kynjaskepnu í undirdjúpunum sem heitir skötuselur.


Glæsilegur framboðslisti

 frambod_vg_973653.jpg


VG hefur lagt fram lista sinn í Árborg og er það hinn föngulegasti hópur, f.v. talið og sætistala í sviga fyrir aftan, Valgeir Bjarnason líffræðingur á Selfossi (12), Sigurður Ingi Andrésson framhaldsskólakennari á Selfossi (14), Andés Rúnar Ingason háskólanemi, Selfossi (4), Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur á Stokkseyri (10), Margrét Magnúsdóttir garðyrkjufræðingur á Selfossi (5), Óðinn Kalevi Andersen skrifstofumaður á Eyrarbakka (6), Bjarni Harðarson bóksali á Selfossi (2), Þorsteinn Ólafsson dýralæknir á Selfossi (16), Helga Sif Sveinbjarnardóttir búfræðingur á Eyrarbakka (9), Sigrún Þorsteinsdóttir hugbúnaðarsérfræðingur á Selfossi (7), Þórdís Eygló Sigurðardóttir forstöðumaður Sundhallar, Selfossi, oddviti listans (1), Guðrún Jónsdóttir eftirlaunakona á Selfossi (17), .Monika Figlarska, túlkur á Selfossi (11), Sædís Ósk Harðardóttir sérkennari á Eyrarbakka (3), Hilmar Björgvinsson skólastjóri á Selfossi (8) og Jón Hjartarson bæjarfulltrúi, Selfossi sem skipar 18. sæti. Á myndina vantar þær Ingibjörgu Elsu Björnsdóttur þýðanda (13) og Iðunni Gísladóttur eftirlaunakonu (15).


Skelfur víða

Ofanritað barst hér með vindinum. Höfundur ku vera sá mæti Skagfirðingur Kristján Runólfsson í Hveragerði. 

 

 

Skelfur víða skorpa jarðar,

skrítin art í sunnan blænum,

og bókasalinn Bjarni Harðar,

brá sér inn hjá vinstri grænum.


Hreinsun að losna við bankana

Viðptalið við Jón var afar athyglisvert og undirstrikar allt það sem við krónusinnar höfum haldið fram. Ísland vinnur sig hratt út úr kreppunni. Tvennt vakti athygli mína öðru fremur, það voru orð hans um það hvað það hefði verið mikil innspýting fyrir raunverulegt atvinnulíf að losna við bankana og svo þeir töfrar sem Jón taldi krónuna ráða yfir.

Breytir engu um það að leiðin sem farin var er sársaukafull og það þarf að mæta þeim þrengingum sem lækkun krónunnar hefur valdið mörgum heimilum.


mbl.is Jón Daníelsson: Ísland stendur betur heldur en talið var
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru fjöldamorðingjar líka fólk

Eru fjöldamorðingjar eitthvað öðruvísi en við hin? Og eru ekki alltaf í gangi hjá okkur lögmálin um aðgreininguna sem við gerum á 'okkur' og 'hinum' sem ekki tilheyra okkur? Þessum og fleiri áleitnum spurningum var kastað í fang okkar sem sátum á frábærri frumsýningu Grís-horrors í gærkvöldi. Það er Leikfélag Nemendafélags FSu sem sýnir í Gónhól á Eyrarbakka. 4448002006_260120c69a

Frumsýningin er jafnframt eina sýning fyrstu sýningarhelgarinnar vegna umferðaróhapps sem óvart dæmdi einn aðalleikarann úr leik í bili en búist er við að sýningarnar hefjist að nýju í næstu viku.

Hér er sagt frá Fjöldamorðsskóla USSR þar sem nemendur fá vægast sagt einkennilega fræðslu hjá enn einkennilegri kennurum. En skóli er jú alltaf skóli og betra að fylgjast með í tímum svo maður verði ekki úti á þekju eins og Marty sem óvart var með tunguna uppi í Roger eða Sandy sem veit ekki neitt hvað er að gerast, eða hvað?

Leikstjóri er engin önnur en Garún sem jafnframt skrifaði handrit og ferst hvorutveggja afar vel úr hendi og nær að virkja krakkana í FSu með aðdáunarverðum hætti. Um leikarana er ég síður fær að dæma, allavega ekki hlutlaus en hér að neðan eru stoltir foreldrar með versta fjöldamorðingjanum...

fjoldamordingjar2


Dæmalaust

Hagkerfi þjóðarinnar er í rúst eftir síðasta fyllerí Sjálfstæðisflokksins og þjóðin hrópar á meira!

Þetta er þó altjent staðfesta.


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn með 40,3% fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvinsældir listamannalauna...

Umræða um listamannalaun hefur aldrei verið listamönnum eins óhagstæð eins og síðustu vikur. Þar ræður mestu makalaust viðtal við Þráinn Berthelson alþingismaður þar sem hann skilgreindi alla sem eru á móti listamannalaunum sem fábjána. Sjálfur er Þráinn á listamannalaunum en ekki heppilegur talsmaður þeirra sem hljóta slík laun.

Raunar eru listamannalaun Þráins orðin til við pólitískt samsæri eða spillingu sem er annars mjög fátítt með listamannalaun. Þráinn sem hefur gert margt gott í kvikmyndagerð og skrifað nokkrar bækur beitti Framsóknarflokknum til að komast á heiðurslaunalistann sem er nokkurskonar eftirlaunasjóður. Eftir að hafa komist á listann hætti Þráinn í Framsóknarflokknum, gekk svo í hann aftur og úr honum aftur og er nú hvorki í þeim flokki né öðrum.

Sjálfur þekki ég ágætlega greinda og skemmtilega menn sem eru á móti listamannalaunum en ég er ekki sammála þeim. Til listamannalauna fara ekki háar upphæðir og þær mætti hækka þegar betur árar því það er fátt eins mikilvægt til að viðhalda sköpunarkrafti samfélagsins, menningu okkar og sjálfstæði í bæði efnahagslegu samhengi, pólitísku og andlegu. 

Efnahagslegt mikilvægi manna eins og Þórbergs, Ásgríms og Megasar er í mínum huga hafið yfir allan vafa!


Ómerkilegt frumhlaup hjá ráðherra

Hugmyndir Árna Páls Árnasonar um að lækka öll bílalán eru álíka ómerkilegar eins og allar slíkar hugmyndir um niðurfærslu skulda. Þar með verða þeir verðlaunaðir með hæstu ríkisstyrkjunum sem kræfastir voru í 2007 lifnaðinum. Mér er mjög til efs að fólk sem var raunverulega efnalítið á tímum góðærisins - og er enn efnalítið - hafi tekið bílalán.

Þessar hugmyndir eru nákvæmlega jafn siðlausar og hugmyndir sem Tryggvi Þór Herbertsson og fleiri hafa haldið fram um jafna niðurfærslu allra íbúðalána, allt í boði ríkisins. Eða þá hugmyndir um að skuldarar megi henda frá sér lyklunum af of skuldsettum eignum. Hverjir verða fyrstir til þess, - jú þeir sem eiga svo margar eignir að þeir geta losað sig við sumar og haldið öðrum. 

Engar slíkar skuldaniðurfellingar verða nema með því að veita til þess ómældu fé úr vösum skattborgara. Greifar sem áttu tvö hús, þrjá bíla og tvo sumarbústaði gætu þar með í einu vettvangi náð til sín ríkisstyrk sem samsvarar margföldu því sem fatlaður maður fær úr samfélagssjóði alla sína ævi. 

Eina réttlætið í þessum efnum og það eina sem stjórnvöld eiga að einbeita sér að er að aðstoða þá sem eru verst settir. Það verður gert með því að draga úr innheimtuhörku, með því að beina meira fé í þá sjóði sem aðstoða fátæka og með því að milda þau langtímaáhrif sem eru af persónulegu gjaldþroti. Þá er frumvarp Illuga Gunnarssonar um niðurfellingu dráttarvaxta allrar athygli vert þó að þar sé vissulega margt að varast.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband