Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Krefjumst þjóðaratkvæðis
26.5.2009 | 17:47
Fundur Samtaka fullveldissinna haldinn í Reykjavík 25. maí beinir því til Alþingis og ríkisstjórnar að þjóðin fái að taka afstöðu til aðildarumsóknar að ESB í almennri þjóðaratkvæðagreiðslu.
Samtök fullveldissinna telja að fyrirliggjandi þingsályktunartillaga ríkisstjórnarinnar um
aðildarumsókn feli í sér svo afgerandi stefnubreytingu frá gildandi Stjórnarskrá lýðveldisins að ekki sé fært að stjórnvöld stígi slíkt skref án þess að þjóðin komi með beinum hætti að þeirri ákvörðun.
Þá vara Samtök fullveldissinna við þeim fyrirætlunum að senda sitjandi utanríkisráðherra á fund ESB með fjöregg og fullveldi þjóðar í farteskinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (44)
Ósmekkleg yfirráð yfir umræðu
25.5.2009 | 15:13
Meðan allt lék í lyndi réðu ESB-sæknir útrásarvíkingar yfir öllum fjölmiðlum landsins að Ríkisútvarpinu meðtöldu. Yfirráðin yfir ríkismiðlinum urðu sem framhald annarra yfirráða í landi þar sem blaðamannastéttin er lítil og einslit þannig að hér fór sem vill verða að sumir urðu kaþólskari en páfinn í sínum predikunum.
Nú hefur mjög skipt um í eignarhaldi og um landið leika kaldir vindar uppgjörs við þá menn sem misnotuðu sér viðskiptafrelsi innan EES svæðisins til bíræfinna áhættuviðskipta sem trauðla gátu farið nema á einn veg. Enginn efast í dag um að þeir hópar sem veita áttu aðhald í efnahagsundri nýrrar aldar brugðust.
Blaðamenn viðskiptablaða, þáttastjórnendur og leiðarahöfundar umgengust hina bíræfnu áhættufíkla viðskiptalífsins eins og poppstjörnur og reyndu hvað þeir gátu að læra utan að frekjukröfur sömu manna sem kröfðust meira frelsis, minni afskipta stjórnmálamanna og tafarlausrar inngöngu í ESB. Sama gerðu forsvarsmenn aðila vinnumarkaðarins í stórum stíl og fengu, til að syngja sína söngva, gott rými í fjölmiðlum. En ef þeir sungu falskt" og vildu ekki líkt og stelpan á prestssetrinu forðum lofann að ofan máttu þeir eiga von á útskúfun í almennri umræðu. Sama átti við um stjórnmálamenn og sumir þeirra sem hvatlegast gengu fram í gagnrýni uppskáru um leið háð og spé hinna alltumlykjandi ljósvakamiðla.
En hvað hafa blaðamennirnir eða talsmenn vinnumarkaðarins sem hraðast fóru með útrásarvíkingum okkar lands gert. Gert upp hina gömlu tíma, farið yfir hvar þeim sjálfum skjöplaðist í stjörnudýrkuninni, sagt af sér eða skipt um starfsvettvang? Nei, ekki almennt allavega.
Þeir eru enn við sama heygarðshornið og svosem ekki við því að búast að blaðamannastétt sem er svo skyni skroppinn sé fær um að veita öðrum aðhald. Það er afar slæmur siður á Íslandi að enginn axli nokkru sinni ábyrgð á nokkrum hlut og allir skuli alltaf fá að sitja í sínum stólum. Hvort sem horft er til vinstri eða hægri. Gömlu kommarnir sem lofuðu harðræði Stalíns skrúfuðu smám saman niður í þeim lofsöngvum en báðust aldrei forláts á að hafa varið þjóðfélagsbyltingar mannhaturs og morðæðis.
Þeir sem nú lærðu að kyrja ESB-söngva sína er eins farið, þó svo að gömlu kórstjórarnir séu á góðri leið með að lenda bak við lás og slá. Einn fárra sem gert hefur kröfu um uppgjör þessara afla var Davíð Oddsson þegar hann gagnrýndi endurreisnarnefnd Sjálfstæðisflokksins. Sú nefnd var undir forsæti samspillingarafla samfélagsins, sömu afla og halda enn kverkartaki um alla fjölmiðlaumfjöllun í landinu.
Ég mun í næstu greinum fjalla nánar um ESB-sótthita fjölmiðlamanna og hvað er þar til ráða.
(Birt í Mbl. 25. maí)
Rómantískasti staður í heimi
24.5.2009 | 23:53
Hótel Valhöll er rómantískasti staður í heimi.
Þar sátum við hjónakornið yfir selöngi og sauð nú í ljósaskiptunum og horfðum á regnboga sem var ýmist í hennar glugga eða mínum og rifjuðum upp sögur af skrýtnum bókum og enn skrýtnara fólki sem kaupir þær, selöngenum sem drukknaði í ölvesinu, frönskum mel sem býr til betra kaffi en annað fólk og horfðumst í augu sem grámyglur tvær.
Við vorum semsagt að halda upp á 22 ára brúðkaupsafmæli en giftingin er tengd tveimur stöðum öðrum fremur sem eru gamla bændakirkjan í Hoffelli þar sem síra Baldur vígði okkur saman í leyni, Valhöll þar sem við héldum seinna upp á herlegheitin með okkar fólki, jú og tveir aðrir, svítan á Hótel Höfn og lítil lækjarspræna í Álftaverinu en nú er þetta blogg komið á svo persónulegar nótur að jaðrar við úthverfu og snýst í annað.
Við Elín enduðum á að tala um húsið Valhöll sem er fínna nú en nokkru sinni enda kominn nýr og metnaðarfullur vert. Sjálfur hafði ég fundið hálfrar aldar mynd af Valhöll í gramsi og held að amma mín Kristín hafi tekið. Læt hana fljóta hér með en á henni sést hvað saga þessa húss er mikil og íslensk.
- Líklega bjargar kreppan þessu húsi, sagði konan mín vitra og fagra þegar hún kvaddi mig til að fara í útlegð á Snæfellsnes minnug þess að Össur og nokkrir aðrir metromenn vilja á það jarðýtu en eru nú blessunarlegas of blankir til.
Smá meira um hjónabandið sem byrjaði semsagt hjá séra Baldri Kristjánssyni á vordögum fyrir 22 árum. Löngu seinna sátum við saman í kaffi á Sunnlenska, ég, klerkurinn og Hólmfríður á Iðu sem var fyrir áratugum vinnukona hjá karli föður mínum eins og Elín mín seinna, en aldrei ég, og talið barst að hjónaböndum og Hólmfríður hafði orð á að þetta hjónaband hefði nú vel dugað.
- Já, fólk sem ég gef saman skilur aldrei. Það hefur aldrei gerst, sagði klerkurinn með pókersvip þess sem aldrei segir nema satt.
- Nú það er merkilegt, sagði ég og varð búralegur af því hvað ég hugsaði mikið en bætti svo við eftir svotla stund: Þú ættir eiginlega að auglýsa þetta Baldur og fá þannig til þín fleiri hjónavígslur!
Ég man að það kom löng þögn en á meðan varð ég þess áskynja að Hólmfríður sem er úr Tungunum eins og ég og því hrekklaus sál samsinnti þessari uppástungu. En Baldur varð sífellt dularfyllri í framan og laumaði svo út sér:
- Eruði vitlaus. Hver heldurðu að vilji svona hjónaband nútildags...
Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.5.2009 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Saari á ættarmóti en byltingin át samt börnin sín...
24.5.2009 | 13:00
Þór Saari alþingismaður sagði í Sprengisandi um helgina að það hefði verið eins og á ættarmóti að mæta á mótmælafund um helgina og allt gott um það að segja. Yfirleitt held ég að það hafi verið til góðs að Borgarahreyfingin náði inn á þing þó mikið hafi vantað til að ég kysi hana og þar réði mestu óljós afstaða til fullveldisins.
Um sumt hefur Borgarahreyfingin staðið undir væntingum sem hægt er að gera til fjögurra manna þingflokks sem er að feta sín fyrstu skref. Sjálfum hefur mér þótt hressandi að vita af Birgittu Jónsdóttur í þingsalnum. En um sumt hefur hreyfingin líka fallið á prófi heiðarleika og gagnsæis.
Ég velti fyrir mér hvort Saari hafi á laugardaginn haft fyrir að kynna ættmennum sínum á Austurvelli um þau hrossakaup sem hreyfing hans hefur tekið þátt í þar sem ákveðið var að taka tilboði Össurar Skarphéðinssonar um ríflegar nefndasetur gegn samstöðu um ESB málið. Það má auðvitað spyrja hvað Össur hafi verið að kaupa þar sem að minnsta kosti Þráinn og Þór Saari fóru inn sem gegnheilir ESB sinnar og stuðningsmenn aðildarviðræðna.
Hér gerðist aftur á móti það ógeðfellda að þeir kumpánar seldu sannfæringu alls hópsins og geirnegldu það að hreyfingin öll myndi taka afstöðu með aðildarviðræðum.
Það sem meira er. Heimildir herma að baktjaldasamningurinn geri ráð fyrir að hreyfing Búsáhaldabyltingarinnar muni leggjast gegn allsherjaratkvæðagreiðslu um það hvort fara eigi í aðildarviðræður og raunar hefur leikstjórinn flokkafimi þegar gefið út slíka yfirlýsingu. Almenningur fái þá fyrst að greiða atkvæði þegar allt er klappað og klárt í krumlu Brusselvaldsins.
Er nú ekki byltingin svoldið farin að éta börnin sín...
Gamla frænkan og sjóður 9
23.5.2009 | 23:45
Heimsótti gamla frænku í dag sem var ern og skemmtileg sem fyrr og sagði mér í óspurðum fréttum að hún ætti fullt af peningum. Sem hún hafði ekki átt áður. Hún hafði einfaldlega náð að selja eign fyrir hrunið og fengið mjög gott verð.
En alveg fram að bankahruni var hún að verjast því stöðugt að setja ekki krónurnar sínar inn i sjóði, þar á meðal sjóð 9.
Einn þeirra sem lagði fastast að henni kom til hennar eftir hrun og bað hana forláts á að hafa ráðlagt henni svona vitleysu sem hún blessunarlega fór aldrei eftir.
Afleiðingin; jú í fyrsta skipti á langri, já mjög langri ævi, sleppti hún því að kjósa íhaldið sitt í kosningunum núna í vor. Skyldi engan undra.
Hlín syngur upp á frönsku
22.5.2009 | 19:23
Franski dagurinn hefur verið vel heppnaður það sem af er og standandi traffík allan daginn.
Nú klukkan átta mæta svo tónlistarmennirnir Hlín Pétursdóttir söngkona frá Holti í Stokkseyrarhreppi og Vadím Federov harmoníkuleikari. Þar með verður hin franska kaffihúsastemning í hámarki og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Franskt vor á Austurveginum - PORTE OUVERTE
21.5.2009 | 22:56
Það er vorhátið okkar Árborgarbúa þessa dagana og vitaskuld tekur Sunnlenska bókakaffið þátt í því með frönskum degi á morgun, allan daginn frá klukkan 10. Það verða franskar kökur og franskar vöfflur, frönsk skáldakynning, frönsk ljóð og frönskumælandi búðarmær, franskir söngvar að kvöldi af vörum hinnar franskmenntuðu Hlínar Pétursdóttur og yfirleitt allt franskt,- en nei ekki franskir kossar, ekki í okkar boði allavega...
Meira um þessa hátíðarstemningu á morgun!
Þjóð sem getur ekki stjórnað eigin málum!
20.5.2009 | 20:12
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
Baráttufundur gegn ESB haldinn í Flóanum
18.5.2009 | 23:37
Er ESB fóbían óþörf?
16.5.2009 | 12:20
Minn latínuskotni bloggvinur Kalli Sveins kommenterar við síðustu færslu og veltir fyrir sér hvort ESB-fóbían sé ekki að verða óþörf. Það taki Íslendinga hvort sem er 30 ár að uppfylla öll skilyrði ESB fyrir ingöngu !!
Betra að satt væri að þessvegna gætum við öll andað léttar. Tilfellið er að það tekur andartaks sofandahátt að glutra niður aldalangri baráttu fyrir fullveldi og frelsi. ESB löndin horfa til Íslands og Noregs vegna þeirra gífurlegu auðlinda og ríkisdæmis í landi og sjó sem fylgir þessum löndum. Landvinningastríð eru nú háð við svokölluð samningaborð þar sem þó er um fátt að semja...
Ef við setjumst að slíku borði mun ESB beita okkur grímulausum þrýstingi til að ljúka málinu með inngöngu,- jafnvel viðskiptaþvingunum og við erum ekki beint í stakk búin til að mæta slíku núna!
Ég ætla að treysta því að Borgarahreyfingin hleypi málinu aldrei í gegn nema að fyrst komi til þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort fara eigi í aðildarviðræður. Eða til hvers var annars búsáhaldabyltingin...