Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Í kóngsins...

Ég er í smá orlogi eins og það heitir í guðdómlegum bókmenntun Jochums Eggertssonar - þetta þegar menn lenda í ferðalögum í stað þess að ganga að sinni vinnu. Hefi semsagt frí frá því að vera kaffidama í sjö daga og er í Kóngsins Kaupmannahöfn í embættiserindum fyrir Heimssýn, samtök ESB andstæðinga á Íslandi.

Úti á Jótlandi halda Skandinavískir sjálfstæðissinnar nokkurra daga ráðstefnu og ég er orðinn svo hátt metinn hér með frændum vorum að mér hefur verið falið að flytja opnunarræðu! Það á einhverskonar Skandinavísku. Ég vona að það gangi skandalalaust enda nóg sem Íslendingar hafa á samviskunni hér meðal dana þessa dagana og er nú viðsnúið nokkuð frá millistríðsárunum þegar stoltir Íslendingar gátu skammast í Baunum fyrir þeirra aldalanga yfirgang á sögueyjunni.

En Danmark er dejlig og á morgun fer ég í grillveislu hjá frændum vorum og tek svo lestina eftir það vestur á bóginn. Það er reyndar tvennt sem má finna að Danmörku. Það er alltof heitt hérna í dag og það er allt allt of dýrt hérna. Það er dýrt fyrir Íslendinga en það er líka frekar dýrt fyrir danskinn sjálfan og veltir upp spurningum um hvaða lönd eru dýr og hver ódýr...

 

 


Vinsælustu bækurnar...

Nú um stundir ferðast landinn um Ísland og þykir þá gott að grípa með sér eina kilju í ferðalagið. Vinsælustu kiljurnar hjá okkur eru þessar: Karlar sem hata konur eftir Stieg Larsson, Óvinafagnaður og Ofsi eftir Einar Kárason, Bókaþjófurinn eftir Markus Zusak.

Ein bók er þó hvað vinsælust hjá okkur og það er vísnabókin ,,Ef væri ég söngvari". Bókin er fallega myndskreytt af Ragnheiði Gestsdóttur. Henni fylgir svo geisladiskur þar sem allar vísurnar eru sungnar af Kór Kársnesskóla en stjórnandi hans er Þórunn Björnsdóttir. Sannarlega góð bók fyrir börnin.

Pólitískar bækur hafa notið mikilla vinsælda síðustu misserin. Bækurnar sem tróna á metsölulistanum þar eru: Sofandi að feigðarósi eftir Ólaf Arnarson, Hrunið eftir Guðna Th. Jóhannesson og Hvíta bókin eftir Einar Má Guðmundsson.
Bækur um ESB eða ekki ESB eru einnig mjög vinsælar og vinsælust af þeim bókum núna er ,,Hvað er Íslandi fyrir bestu?" eftir Björn Bjarnason.

Upptalningu á vinsælum bókum lýkur svo með því að nefna Sandvíkur- Skruddu eftir Pál Lýðsson. Sunnlendingar sem og aðrir kaupa þá bók enda fátt betra í sumarfríinu en að lesa gamansögur.

-eg


Bör Börsson í íslenskri pólitík

Það er svoldill Bör Börsson í okkur öllum en hvergi eins áþreifanlegur eins og hjá þeim sem sjá aulalega sveitamenn í hverju horni á Íslandi, sauðskinnskó á fótum allra fullveldissinna og vilja ofan í kaupið rífa niður allt sem gamalt er...

Sjá nánar í pistli á AMX


Tilræðismenn nást á mynd

 


 

 hopur_a_ingolfsfjalli_883692.jpg

Í gærblogginu sagði ég frá aðför að mínu kyrrsetulífi, almennri nautnastefnu og leti. Nú hefur mér borist mynd af tilræðismönnum, öllum nema Jóni Inga Gíslasyni sem tók myndina og var eiginlega sá eini af þessum glæpalýð sem ég kunni fyrirfram almennileg skil á. Það má reyndar taka það fram að í hópnum hér er samt frænka mín ein önnur frá vinstri, Kristbjörg dóttir Sesselju sem er dóttir Kristbjargar sem var dóttir Sesselju langömmu minnar og myndarlegi drengurinn sem situr þriðji frá vinstri er sonur Ingunnar Sæmundsdóttur sem átti Ingunni Sæmundsdóttur að ömmu en sú var afasystir mín þannig að hér gerist sem oft vill verða að frændur eru ekki frændum endilega bestir nema það hafi svo verið komið í ættum mínum að kyrrsetur hafi mínar og hóglífi hafi talist áhyggjuefni...

Einhverjir hafa verið að spyrja mig  hvað ég eigi við með að kalla Jón Inga Deðrek í fyrra bloggi og er því til að svara að svo kallast menn sem komnir eru af Diðriki Stefánssyni bónda í Laugarási á fyrri hluta 19.aldar en um Deðreka þessa var sagt að þeir væru allir bæði ríkir og rasssíðir hvernig sem það nú passar við menn sem hlaupa fjöll eins og geitur. Út með Hlíðum í sömu sveit er sama orð svo haft um vinnudrengi sem hafa verið í Úthlíð og ég er Úthlíðardeðrekur en Jón Ingi er af Diðrikakyninu sem er merkileg ætt og fjölmenn...

 

 


Tilræði í hlíðum Ingólfsfjalls

Jón Ingi Gíslason hanabóndi í Dóminikanska er Deðrekur af Kjarnholtum. Svoleiðis menn eru varasamir. Ég hélt í einfeldni minni að hann væri vinur minn en hann er mér greinilega ennþá reiður fyrir að ég kaus mussukommana í VG. 

Í kvöld plataði hann mig í fjallgöngu á Ingólfsfjall og sagði að ég ætti að vera leiðsögumaður. Talaði um að koma með tvær eða þrjár vinkonur með sér -en slíkt er gjarnan á svermi umhverfis Kjarnholtadeðreka. Ég tók því mína spúsu með til að gætt yrði að siðgæði enda ótrúlega veikur á svellinu við slíkar aðstæður.

En þegar til kom mætti Jón þessi með fleiri tugi af mjög vafasömum íþróttapésum. Þar á meðal Skagamönnum sem tóku sig til og hlupu á fjallið, fjallinu sjálfu, mér og sauðfé í hlíðum þess til ama og vanvirðu. Og ég sem var neyddur til að fylgja hópnum hné tvívegis örendur í ferð þessari en var komið á stað aftur með lyfjagjöfum, snickers orkuskotum og skensi en ætlaði þó varla að duga til. Það var ekki fyrr en ég sá mína egta flóafrenju æða á undan mér og komin í félagsskap með íþróttabelgjunum að ég ákvað að ég yrði að rísa til lífs og láta mig hafa það að gengið væri á þetta aldna og virðulega fjall með slíkum rassaköstum.

Allt var þetta þó mikil mannhætta sökum hjartsláttarkasta, fótriðu, mæði og almennra þreytuverkja og enginn vafi að þetta var tilræði og allt að því pólitískt morð sem hér var reynt. Ég mun á næstu dögum rannsaka hvort Jón Ingi sé orðinn hallur undir ESB og þessvegna svona annt um að koma mér fyrir kattarnef. Það kemur mjög margt til greina og málið þarfnast djúprar íhygli og rannsókna enda mun alvarlegra en nokkurntíma Icesave eða titlingaskítur útaf einhverjum matarklúbbi í Brusselinu.

Atvik þetta kennir mér að fara varlega í að ganga á fjöll og enn varlegar í vinfengi við Deðreka sem reka hanabúgarða á Dóminikanska.

Ég ætti auðvitað að vera sigri hrósandi að hafa lifað þessi ósköp af en bæði er ég með slíkum verkjum að ég ekki veit nema ég sé raunverulega dauður og í ofanálag gerir þessi árstími mig alltaf svoldið dapran þegar daginn fer að stytta svona skart og ég þarf ljós til að rata á stjákli hér um gangana á Bakka.


Að veifa jafnan röngu tré

Það er löng hefð fyrir þeirri vondu reglu á Íslandi að minnihlutinn skuli alltaf ráða og helst sá minnihluti sem hefur ranga skoðun.

Til áratuga réði Sjálfstæðisflokkurinn ríkjum í landinu þrátt fyrir að mikill minnihluti landsmanna væri tilbúinn til að fallast á skoðanir þess flokks og við súpum nú að nokkru seyðið af því ráðslagi. En af þeirri gullvægu reglu stjórnmálanna að lengi skuli vont versna var ákveðið að breyta til hér á landi um síðustu áramót þegar Sjálfstæðisflokkurinn ákvað í algeru ráðleysi sínu að afhenda Samfylkingunni kefli ráðsmennskunnar. Síðan hafa allir lotið þeirri reglu að kratar skuli ráða landi voru og verri reglu er líklega ekki hægt að innleiða landsmönnum enda sannast hér spakmæli Þórbergs heitins Þórðarsonar að kratinn er vissulega lægsta skepna jarðarinnar. ...

Sjá nánar pistil mill á AMX í vikunni


Gungur og druslur og óbilgjarnir kratar

ESB sinnar sýndu þjóð sinni mikla óbilgirni í dag að hafna því að við fengjum að kjósa um það hvort sótt yrði um. Þingmenn Vinstri grænna sýndu að þeir eru það sem góður og að ég held týndur stjórnarandstæðingur af Langanesinu kallaði eitt sinn "gungur og druslur".

Engin þjóð hefur sótt um aðild að ESB með eins naumu fylgi meðal þings og mikilli almennri andstöðu þjóðar. Í dag gerist það að frekur minnihluti kúgar þjóðina með mútufé á veiklynda samstarfsmenn. 

Ég hefi fram til þessa reynt að verja þá ákvörðun mína að hafa kosið VG en játa mig sigraðan og biðst forláts á að hafa ráðlagt nokkrum manni annað eins.

En eigi skal gráta Steingrím bóndason heldur safna liði og nú gildir að sigra stríðið þó ein orusta hafi tapast.


Verri en útrásarvíkingarnir

Þessir skálkar eru verri en útrásarvíkingarnir, sagði fastagestur sem var að kveðja hér í Sunnlenska bókakaffinu og var að tala um VG menn og Framsóknar sem ætla í kvöld að greiða atkvæði með ESB. Og bætti við:

Þeir hafa verið varaðir við og látið kjósa sig á Alþingi út á andstöðu við ESB en ætla samt. Það varaði enginn útrásarvíkingana við, þeir voru alltaf klappaðir upp og gerðu sér enga grein fyrir hvað þeir voru að gera en Ögmundur og Steingrímur vita það vel.

Við fyrstu sýn er samlíkingin gróf en þegar að er gáð er þetta rétt. Staðreyndin er að Íslendingar verða lausir út úr skuldum útrásarvíkinga, hvort sem þær heita Baugur eða Icesave, á sirka  100 árum en það getur tekið okkur 8 aldir að endurheimta sjálfstæðið ef það verður nú fært evrópskum nýlenduherrum á silfurfati.


Klækjapólitík eða sinnaskipti Steingríms J.

Steingrímur J. Sigfússon fær alvarlega ádrepu frá nokkrum háttsettum flokksfélögum í eigin kjördæmi í bréfi sem fjölmiðlar birtu í dag. Undir bréfið skrifa m.a. bæjarfulltrúi VG á Akureyri, stjórnarmenn í svæðisfélögum og nokkrir meðframbjóðendur Steingríms J. Það er auðvitað sársaukafull aðgerð hjá þessu mæta fólki að verða að fara með gagnrýni sína á formann flokksins fram með þessum hætti en framtakið er lofsvert en bréfið í heild má lesa hér.

Í því segir m.a.:

Hvernig má það vera að eftir á allt sem undan er gengið og skýra stefnu flokksins í þessum málaflokki ætlir þú Stengrímur J. Sigfússon að styðja frumvarp um aðildarumsókn Ísland að Evrópusambandinu. Ef ekki hafa orðið sinnaskipti hjá þér þá hlýtur að vera ætlan þín að flækjast fyrir málinu á öðrum stigum málsins. Ef svo er ert þú farinn að stunda þau klækjastjórnmál sem að mínu viti var verið að berjast gegn í búsáhaldarbyltingunni og Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur svo oft fordæmt....

 


Skundum á Þingvöll

ESB-ógnin er nær en nokkru sinni áður og þó svo að allar líkur séu á sigri sjálfstæðissinna þá verður hann ekki nema allir leggi nokkuð af mörkum.

Í dag barst mér bréf frá eldheitum lýðveldis- og lýðræðissinnum sem ætla að skunda á Þingvöll klukkan átta annaðkvöld og strengja þar heit og hollustu til handa Íslandi, fullveldi þess og frelsi.

Sjá nánar hér í bréfi Guðna Karls Harðarsonar.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband