Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013
Fimm prósenta grýlan er plat
8.4.2013 | 15:44
Auðvitað er 5% grýlan bara plat búið til af stóru flokkunum til þess að einoka sviðið.
Nú hafa þeir allir sannað algeran vanmátt sinn til að stjórna þessu landi og tímabært að þjóðin snúi sér annað.
![]() |
Þingsæti möguleg óháð 5% reglunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Atvinna er mannréttindi
7.4.2013 | 11:23
Manngildi ofar auðgildi er slagorð sem flestir stjórnmálaflokkar hafa tekið í þjónustu sína, orðað á mismunandi vegu en merkingin sú sama og aftur og aftur letruð í spjöld loforðanna. Bjarni heitinn Benediktsson eldri, forsætisráðherra og sjálfstæðismaður setti þau fram í ræðu á sjöunda áratug 20. aldar, hinar evrusinnuðu flokksleifar VG hampa sama á plakötum í dag og í millitíðinni hafa bæði kratar og Framsóknarmenn talið þetta í sínum söfnuði.
Þetta slagorð er athyglisvert í þeirri efnahagsumræðu sem á sér stað í dag þar sem öðru hvoru heyrist að stöðugleiki í peningamálum sé æðsta hnoss hvers ríkis. Allir þeir sem stungið hafa svomikið sem nefinu ofan í hagfræðiskruddu vita þó að samfélag þar sem verðbólga er engin er samfélag algerrar stöðnunar.
Evrópulöndin sem nú sigla hvert af öðru í strand reyna það nú hvað það er að búa við hinn stöðuga gjaldmiðil sem lætur sig engu varða hvernig þjóðarskútan berst af. Það sannast betur og betur í þeirri kreppu sem nú gengur yfir að valið er milli stöðugleika gengis með miklu atvinnuleysi annarsvegar og óstöðugleika hins vegar þar sem gjaldmiðillinn mælir einfaldlega virði hagkerfisins á hverjum tíma og sveiflast með því. Því fylgja margir ókostir en einnig sá stóri kostur að atvinnuleysi er haldið í lágmarki. Þetta eru afgömul og sígild sannindi hagfræðinnar.
Ef við horfum á hag þeirra sem eiga peninga og peningalegir eignir þá er verðbólgan vitaskuld varasöm. Fjármagnsöflin tryggja sig síðan eftir mætti með verðtryggingu en margt af efnislegum eigum lætur þó mjög á sjá í dýrtíðinni. Auðstéttin reynir eftir mætti að koma og eftir sitja hinir lægstu og hafa fátt til varnar við dýrtíð og rýrnandi kaupmætti.
Enn verri er þó staða hinna lægstu í löndum þar sem allt kapp er lagt í að viðhalda kaupmætti gjaldmiðilsins og auðgildið svo sannarlega sett langt ofar manngildi. Þar tekur ekki annað við hjá almenningi en atvinnuleysi sem nú slagar í og yfir 50% hjá ungu fólki víða við Miðjarðarhafið. Rasískar fullyrðingar ESB sinna um leti og spillingu Miðjarðarhafsbúa eru vitaskuld ekki svaraverðar.
Íslenskt hagkerfi er lítið og það er opið fyrir sveiflum sem verða við mismunandi aflabrögð og sveiflur á erlendum mörkuðum. Við getum auðvitað sagt að við viljum ekki verða vör við sveiflurnar en það er hvorki mjög gáfulegt né farsælt til hagstjórnar. Ef að gjaldmiðillinn fær ekki að sveiflast með hagkerfinu verða aðrir sveiflujafnarar að taka að sér hans hlutverk og þeir eru miklu mun hastarlegri fyrir samfélagið.
Kapítalískir hagfræðingar og blindir trúmenn á markaðslögmál tala um atvinnuleysi sem eðlilegt meðal til þess að lagfæra hagkerfið. Offramboð á vinnuafli á þá að leiða til launalækkana sem aftur verða til þess að atvinnuvegirnir geta komist á lappir þrátt fyrir áföll.
En þá fer minna fyrir manngildishugsjónum. Einstaklingur sem ekki fær atvinnu finnur fyrir höfnun samfélagsins sem hann tilheyrir og hættir til að efast um að hann tilheyri því. Eða þá að hann telur sig ekki vera neins virði því sama samfélagi. En einmitt það að hafa hlutverk og vera samferðafólki sínu einhvers virði er það mikilvægasta í sjálfsmynd hvers manns.
Séu þessi skilaboð send ungu fólki skilja þau eftir sig ör sem alltof oft verða til að viðkomandi fótar sig aldrei fyllilega í lífsbaráttunni. Leggjumst aldrei svo lágt fyrir auðhyggjunni að við teljum atvinnuleysið hégómamál. Segjum nei við ESB.
(Birt í Sunnlenska fréttablaðinu 4. apríl 2013)
Markaðsvæðing stjórnmála og hagsmunir þjóðar
5.4.2013 | 13:33
Tvö þúsund ára reynsla segir okkur að sé von kraftaverka þá verði slík aksjón helst á morgni páskadags. Hér við Ölfusá hafa menn horft á sólardans þennan morgun og suður í Palestínu hafa krossfestir risið upp. Við sem lifum í voninni gátum látið okkur dreyma að íslenskir stjórnmálaflokkar settu þjóðarhag í fyrsta sæti en það varð ekki. Ekki á þessum páskum.
En fréttir sem okkur bárust af Norður Kóreu og fleiri sóknum jarðarkringlunnar hugguðu einhverja við það að stjórnarfar er víða lakara en hér hjá okkur. Það losar okkur samt ekki undan því að ráðast í lagfæringar.
Markaðsvæðing stjórnmálanna
Samkeppni varð fyrir fáeinum áratugum lykilorð til lausnar á öllum vanda líkt og aflátsbréf nokkrum öldum fyrr. Við sem höfum svo fylgst með svokölluðum samkeppnislögmálum innanfrá í atvinnurekstri sjáum hvernig hún hefur skekkt allt sem heitir jafnræði á markaði. Risafyrirtæki sem reglulega skipta um kennitölu henda tapinu á herðar almenningi, gefa banksterum innkomuna og valta niður fyrirtæki sem rekin eru af heiðarleika og forsjálni.
Stjórnmálin hafa svo dregið dám af sama. Þar hefur einnig ríkt andi samkeppninnar. Ef að flokkur A segir já þá segir flokkur B nei og svo er sett upp skrautsýning orðagjálfurs og loforða. Eftir því sem stjórnmálaflokkarnir hafa fest sig betur í sessi verður samkeppnisandi umræðunnar sterkari. Stjórnmálin sjálf eru orðin að hópíþrótt þar sem markaskor miðar að hagsmunum flokks en ekki þjóðar.
Markmið og markaðsvæðing
En það er einmitt markið sem meginmáli skiptir í stjórnmálum, þ.e. að hvaða marki stjórnmálamenn keppa. Með flokksræðinu verður markmið stjórnmálamanna að vinna fyrir sinn flokk enda litið á þá sem starfsmenn flokkanna ekki þjóna þjóðar. Einhver kynni að segja að flokkarnir eigi sér það markmið að vinna þjóð sinni gagn og því sé þetta allt í allra besta lagi.
Staðreyndin er þó að stjórnmálaflokkarnir hýsa fyrst og síðast hagsmunaöfl samfélagsins og styrkur hvers þeirra fer eftir peningalegu vægi. Um áratugi hefur mikill meirihluti þingmanna verið kjörinn á þing með það að stefnumið að afnema verðtryggingu en á sama tíma hafa þau öfl verið sterkust í bæði stjórnmálaflokkum og verkalýðshreyfingu sem tryggja hag fjármagnseigenda. Afleiðingin er sú að verðtryggingin blívur og almenningur borgar.
Annað dæmi um samspil lýðræðis, flokksræðis og hagsmuna þjóðar eru boðaðar breytingar á kvótakerfi. Í síðustu kosningum kaus mikill meirihluti flokka sem lofuðu að bylta núverandi kerfi með hagsmuni byggða og þjóðar að leiðarljósi. Þegar til átti að taka reyndist hagsmunagæsla útgerðarmanna sterkari innan VG en nokkurn gat órað fyrir. Flestar tilraunir sjávarútvegsráðherra til breytinga voru í reynd brotnar á bak aftur af fulltrúum útgerðar í forystu VG.
Stjórnmálaflokkar sem gefið hafa flokksgæðingum ríkisbanka og ríkisfyrirtæki, flokkshestar sem raðað hafa flokksbræðrum á garða við embættaveitingar og flokkslegar línur við veitingu styrkja og fjárveitinga eru allt dæmi um það sama.
Verjum lýðveldið
Íslenska lýðveldið er ungt, liðlega hálfrar aldar og það er enn í mótun. Í mörgu hefur vel til tekist og á aldarlöngum fullveldistíma höfum við risið frá því að vera ein fátækasta þjóð Evrópu í fremstu röð. Skugga sem nú ber á vegna skuldasöfnunar breytir engu um þá heildarmynd. En stjórnkerfið og traust almennings á því hefur beðið hnekki. Til þess að vinna traust þjóðar dugar ekki orðagjálfur og innantóm umræðustjórnmál. Þjóðin veit að stjórnmálamenn ganga of oft erinda annarlegra afla og meðan svo er skapast ekki sátt milli þings og þjóðar.
Kjörnir fulltrúar þjóðarinnar verða að vera frjálsir undan oki, hagsmunagæslu og heimsku íslenska flokkakerfisins. Regnboginn sem býður fram nú í komandi kosningum gerir nú tilraun innan kosningakerfis fjórflokksins til þess að koma á einstaklingskjöri og skapa stjórnmálamönnum möguleika til starfa án þess að tilheyra flokki. Hvorki lífeyrissjóðir, bankar né kvótaeigendur geta gengið í Regnbogann því hann er aðeins bandalag þeirra sem bjóða fram en ekki stjórnmálaflokkur þar sem peningaöfl rísa til áhrifa. Það er von okkar að þessi tilraun geti orðið skref í þá átt að hrista upp í spilltu kerfi hagsmunagæslu og flokksræðis. En ekkert slíkt gerist án atbeina kjósenda.
(Birt í Morgunblaðinu 3. apríl 2013)
Allt fyrir séreignaraðalinn
4.4.2013 | 11:01
Í gær skrifaði Auður Jónsdóttir rithöfundur mjög góða ádrepu á fésbókarsíðu sína, sem lesa má hér.
Sjálfstæðisflokkurinn sendi mér kosningabækling í gær og þar má lesa um það hvernig þeir sem hafa skattskyldar tekjur og eiga húsnæði geta notað skattinn sinn til þess að greiða niður húsnæðislánið. Svoldið súrrealískt eins og kannski við er að búast. En eftir stendur spurningin, hvað með þá sem ekki eiga húsnæði, í hvað fer skatturinn þeirra. Jú, þeir eiga að borga samneysluna!
Og hvað með þá sem eru svo tekjulágir að þeir borga ekki skatta. Hvað fá þeir? Eru það ekki þeir sem fyrst og fremst eiga að njóta góðs af almannafé. Ég hélt í mínu barnshjarta að við hefðum einmitt stofnað skattheimtu og allsherjarríki fyrir ellefu hundruð árum til þess að mæta þörfum þeirra lægstu og skipa þeirra málum með skikki. En slík þúsund ára jafnaðarmennska á ekki við í dag þegar séreignaraðallinn undirbýr að taka völdin að nýju.
Eða hvað? Það hlýtur nú að vera eitthvert svar við þessu á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins hugsaði ég og lenti á síðunni http://2013.xd.is/ þar sem stendur skýrum stöfum: Aðgerðir sem gagnast öllum. Síðan velur maður það heimilisfyrirkomulag sem hentar og viti menn undir takkanum "Ég leigi húsnæði" bendir flokkurinn á að hann muni lækka skatta og allir græði á því. Engin sérúrræði eins og fyrir húsnæðiseigendur. Hvað gengur mönnum til í svona málflutningi!
Ég hef aðeins skrifað um þetta fyrr og held að þessi umræða sem hér veður uppi nú sé alvarlega á villigötum. Bendi á grein sem ég skrifaði um daginn og lesa má hér en lofa líka að koma betur að þessum mikilvæga málaflokki á allra næstu dögum.
Talsmenn atvinnuleysis
3.4.2013 | 16:26
Andrés Magnússon er ekki talsmaður manngildis.
Ofar öllu í mannlegri reisn er að hafa atvinnu. Nú talar verslunin um að leggja niður heila atvinnugrein þar sem hundruð manna hafa atvinnu auk afleiddra starfa.
Grein sem byggir í vaxandi mæli á innlendu fóðri og er hluti af fæðuöryggi þjóðar. Það má margt betur fara í hvíta kjötinu og full þörf á að ganga þar lengra í að brjóta upp einokun. En við höfum ekki efni á að fara að ráðum þeirra sem vilja koma hér á atvinnustigi líku því sem er í hinni sælu Evrópu.
Ef það er svona lítið mál fyrir verslunina að selja hænur á sama verði og erlendis afhverju eru þá aðrar vörur sem enga tolla bera seldar hér á hærra verði en í samanburðarlöndum!
![]() |
Segir Aðalstein misskilja orð sín |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
RÚV tekur sér kjörstjórnarvald!
3.4.2013 | 10:08
Skýr skilaboð kjósenda
2.4.2013 | 18:25
Skilaboð kjósenda eru skýr. Almenningur hafnar ESB flokkunum þremur og hann hafnar útrásarvíkingum Sjálfstæðisflokks.
Forysta Sjálfstæðisflokksins veðjar svo sannarlega á rangan hest þegar hún dregur nú í land í ESB andstöðunni og býðst til að svíkja landsfundarsamþykktir.
Framsókn má líka vara sig á að þegja þunnu hljóði um öll mál. Þar á bæ óttast menn mest að hafa einhverja þá skoðun sem geti styggt einhvern hluta af fylgisaukningunni.
Könnunin sem hér er sagt frá mælir fylgið frá 14. mars síðastliðnum og það segir sína sögu að nýtt framboð eins og Regnbogans - sem hafði þá ekki einu sinni tilkynnt um framboð - skuli samt ná mælingu.
Þegar framboðsfrestur rennur út eftir vikutíma taka við nýir tímar og nýjar tölur!
![]() |
Fylgi Sjálfstæðisflokks dalar enn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Myntbandalag sem eyðileggur heila kynslóð
2.4.2013 | 12:49
Atvinnuleysið í Suður Evrópu verður fyrst og síðast skrifað á reikning evrunnar. Hér á landi tókst okkur að ná okkur fljótt út úr atvinnuleysi hrunsins með sjálfstæðum gjaldmiðli en í þessum löndum versnar ástandið jafnt og þétt og mun gera þar til myntbandalagið brotnar upp.
Atvinnuleysið bitnar verst á ungu fólki og eyðileggur heila kynslóð. Það að fá ekki með nokkru móti atvinnu þegar starfsþrekið er mest og væntingar til lífsins í hámarki er miklu meira en alvarlegt. Það hefur eyðileggjandi áhrif á þann sem fyrir því verður. Sá sem ekki fær vinnu fyrir starfsfúsar hendur finnur fyrir höfnun samfélagsins og kraftur viðkomandi, sjálfstraust og vilji til að láta til sín taka bíður hnekki.
Heimsvaldastefna Evrópusambandsins eyðileggur heilar kynslóðir í evrulöndunum.
![]() |
Metatvinnuleysi í sögu evrusvæðis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Æsispennandi músaveiðar
1.4.2013 | 22:42
Rétt þegar við hjónakornin, barnlaus af aldurdómi, vorum að draslast þetta út um dyrnar hér til að heimsækja enn eldri hjón uppi í honum Suddakrók kom kattarafmánin með hálfdauða mús inn í stofuna. Ég tók köttinn upp á hnakkadrambinu og vonaði að hann héldi í músina þannig að ég gæti hent báðum út í einu en það gerði hann ekki. Konan skrækti, hún skrækir undan músum.
Músin hljóp bakvið kommóðu. Kötturinn var úti á hlaði. Konan lokaði sig inni í svefnherbergi. Ég beygði mig sem mér finnst alltaf svoldið erfitt og kíkti undir kommóðuna. Þarna var músin. Svo gerði ég tilraun til að höggva af henni hausinn. En þá hljóp hún undir bókahilli. Þá potaði ég í hana og músin stökk undan bókahillunni, framan í mig og hljóð bakvið sófa og týndist.
Konan náði í köttinn og skipaði honum að veiða músina en við fórum í Hveragerði og slórðum þar í mat og kaffi fram eftir degi. Um kvöldið komum við heim og þá var allt kyrrt í húsinu. Kötturinn ansaði ekki, músin ansaði ekki, ég prófaði meira að segja að tala við hana á ensku.
En rétt þegar ég var komin að tölvunni hér á hanabjálka heyrðist skrækur. Músin og konan voru báðar í forstofunni og mátti ekki milli sjá hvor var hræddari. Ég náði mér í plastpoka og læddi hönd um músina sem virtist sprellilifandi þó sjálfsagt sé hún dauðsærð eftir kattartönn. Bar hana út í lófanum og sleppti á músarlegum stað úti á landareigninni.
Nú ætti sagan að vera búin en korteri seinna kom kötturinn inn og rak upp langdregin dimman væl eins og hana langi til að herma eftir Bob Dylan. Þá vitum við að hún er komin með mús. Þetta var ekki sú sama og núna var skömmin örugglega hálfdauð.
Læðan Ása Signý horfði á mig með fyrirlitningu þegar ég tók músina af henni og bar út. Úr augum hennar mátti lesa að ég mætti stela öllum þeim músum sem mig lysti en - vittu, það strákur, það erum við kettirnir sem ráðum hér í þessum heimi, yfir bæði músum og mönnum.
Eftir snyrtilegt líknarmorð á þessari seinni mús dagsins fékk sú virðulega útför í ruslatunnu heimilisins. Við Ása höfum fengið nóg af veiðum í bili!
Páskar og 1. apríl
1.4.2013 | 14:43
Þetta passar einhvernveginn alls ekki saman. Hátíð þar sem haldið er upp á kraftaverk og svo 1. apríl. Hvernig haldiði að það færi ef einhver risi nú upp frá dauðum á degi eins og í dag. Það tryði honum enginn.
- Ho ho, þú varst ekkert krossfestur, bara að plata!!
Meira að segja kötturinn hér á bænum sem dansaði páskadans í garðinum í gærmorgun er hálfundarlegur í dag og konan mín læðist um ljúgandi, þóttist hafa séð pöddu í eldhúsinu, stól á hlaðinu, hund í búðinni og nú síðast týnt hægri mjöðminni og bað mig að leita.