Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Ófyrirleitið skuldaskrum

Er það ekki réttlæti og þá gætum við verið á svipuðum skuldareit og við vorum við upphaf kreppunnar. Þessi krafa hefur heyrst öðru hvoru allt frá því fjármálakrísan skall á og einstaka sinnum heyrist í fólki sem virðist tala af hugsjónahita um þetta hugðarefni sitt.

Í verunni er ekki til meiri ófyrirleitni og meira siðleysi í umræðunni en þessi krafa.

Sjá nánar í pistli mínum á AMX


Þín miskunn ó guð

Fyrir okkur sem erum Megasarfan er hvert nýtt lag opinberun. Og það skemmtilega við endurútgáfu diska hjá meistaranum eru aukalögin öll sem hafa verið sett aftan við. Þar leynast gómsætir gullmolar eins og sálmurinn Þín miskunn ó guð aftan við nýja Millilendingu. Sálmur þessi er bæði hjartnæmur og fallegur í anda frelsunarguðfræði.

Seinasta erindið þar er svohljóðandi:

þín miskunn ó guð er svo gengdarlaus feit
mér gengur næst hjarta allt spikið
en sem ég hér eigra um ein grasbitin geit
að mér geltir: hvað finnst þér það mikið...


Seinni og enn lakari Icesave umferð í gang

Seinni og ennþá óskiljanlegri Icesave umferð er nú að hefjast en í henni verður eins og þeirri fyrri tekist á um aukaatriði með stóryrðum.

Raunar ljóst að eftir að Indefence hópurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og að síðustu Framsókn gengust inn á að við ættum og yrðum að borga Icesave að hér er rifist um keisarans skegg.

Mér er mjög til efs að það hafi átt að  semja um þessar skuldir yfirhöfuð en geri mér alveg grein fyrir að það fólst nokkur áhætta í þeirri leið að loka þeim dyrum. Úr því að samið var munar mjög litlu hvort ríkisábyrgð fellur niður árinu fyrr eða seinna þar sem Ísland mun borga þessar skuldir upp í topp, þrátt fyrir alla fyrirvara.

Sjálfstæðismenn reyna nú að blása málið upp þrátt fyrir að þeir hafi sjálfir lagt drög að mun verri samningi í tíð Geirs-stjórnarinnar og þrátt fyrir að þeir streitist við að halda öllum dyrum opnum svo þeir geti fyrirhafnarlítið stokkið inn í stjórnarsamstarf ef tækist nú að sprengja upp núverandi stjórn.


Sigurður Karlsson 1945-2009

cpalsprov4_siggi_kalla.jpgPláss eiga sér svipi í landi sínu, götum og fjallasýn. En ekki síður í rismiklum karakterum. Nú í þessum skrifuðu orðum er til moldar borinn hér á Selfossi einn af okkar dýrmætustu mönnum, Sigurður Karlsson verktaki, liðlega sextugur.

Siggi Kalla var ljósgeisli í Flóamennskunni, skjól fjölmörgum og mikill hamingjuhrólfur í sínu lífi. Honum tókst enda að geisla þeirri hamingju út til sinna samferðamanna. Stór í andanum, gjöfull og höfðingi í lund. 

Bærinn er fátækari að slíkum manni gengnum en líka ríkari að hafa átt. 

Ingunni, afkomendum og öðrum ástvinum sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur.

(Myndin er af vef Árborgar af þeim Sigga og Einari Njálssyni fv. bæjarstjóra, tekin 2006)

Hrappur að velli lagður

Skiptastjórar Baugs og 365 eru nú um það bil að rifta samningum sem Jón Ásgeir gerði við sjálfan sig rétt fyrir gjaldþrot þessara félaga þar sem hann tók undan þeim báðum mjólkurkýrnar. Þó fyrr hefði verið. 

Raunar held ég að Jón Ásgeir hafi aldrei látið sig dreyma um að hann kæmist upp með þetta heldur sé í báðum tilvikum um að ræða tilraun til að tutla út úr þessum stórfyrirtækjum með sætt er. Það er enn langt í að við fáum að vita hversu mikið hefur verið tekið út úr þessum tveimur fyrirtækjum til einkaneyslu og aflandsfélaga frá því hrunið varð.

Nú er þessi hrunadans á enda og Jón segist eiga fyrir díet-kóki. Þetta lífhræðslulega smekkleysi að drekka ekki almennilegt kók kemur mér einhvernveginn ekki á óvart.

Í faraldri heimskunnar...

Það er utan þess sem ég almennilega nenni að elta ólar við umræðuna sem verið hefur undanfarið um tóbaksfaraldur þjóðarinnar enda er nær í þessum efnum að tala um faraldur heimsku og sefjunar.

Staðreyndin er að tóbak er eitt af meinlausustu nautnalyfjum mannkyns og fráleitt eins mikill skaðvaldur í samfélaginu eins og til dæmis majones og áfengi. Áfengið eitt og sér útheimtir margfalt meiri löggæslu, stærri fangelsi og fleiri sjúkrastofnanir en væru í áfengislausu landi. Ekki að ég vilji banna áfengi og þaðan af síður majones enda trúi ég lítið á bönn. Við höfum þegar gengið allt of langt með því að banna fólki að leyfa tóbaksnotkun á veitingastöðum. 

Lífið hefur þann einan tilgang að njóta þess og þeir sem ekki skilja lífsnautnina eru og verða eins og segir í alþekktri stöku eftir Martein Lúter siðbótarmann, andstyggð góðra manna. Hvert nýtt líf sem kviknar felur í sér dauða og það er hin eðlilega hringrás. Hvort sá dauði er tímabær eða ótímabær þegar hann mætir er eins og hver annar útúrsnúningur. Dauðinn bara er. 

Að við sem reykjum kostum samfélagið svo mikið er byggt á afar hæpnum grunni. Ef það er rétt að við deyjum ungir þá spörum við heilbrigðiskerfinu einmitt milljónir.  Það gleymist algerlega í útreikningum að hinir þeir deyja víst líka og þannig eru nú dánir í landinu allir landnámsmennirnir og er þó næsta öruggt að enginn þeirra reykti. 

Stóri kosturinn við tóbak sem nautnalyf er að öfugt við áfengi, amfetamín og hass sturlar það neytendur frekar lítið. Það er aftur á móti bæði ávanabindandi og óhollt en þeir sem trúa því að heimur án lasta sé virkilega eftirsóknarverður hafa illilega misskilið lífið og mannskepnuna. 

Reyndar er helsta ástæðan fyrir því hvað hart er sótt að reykingafólki meðan t.d. áfengisneysla er látin í friði og engum dettur í hug að banna franskar kartöflur er að við tóbaksmenn erum að lenda í afgerandi minnihluta. En þessar árásir á okkur lýsa óneitanlega lágkúrulegri skrílmennsku.

Eins og ég sagði ætlaði ég alls ekki að skrifa tóbaksvarnapistla (sannar tóbaksvarnir eru auðvitað varnir okkar sem reykjum) núna en meðfylgjandi mynd sem vinur minn Ólafur Örn Haraldsson sendi mér í morgun og er tekin á liðnu sumri inni í Þverbrekknamúla kveikti í mér. Á henni sést beinlínis hvað það getur verið gaman að reykja.

img_3068.jpg


ðe big red bastard - im memorian -

2374420.jpg

Lengi og raunar mjög lengi getur vont versnað. Fyrir ári síðan fóru nokkrir sparisjóðir vestanhafs á hausinn og í framhaldi af því var lokað fyrir nokkra glæpabanka á Íslandi sem enginn þurfti að býsnast yfir. 

Nú réttu ári eftir þennan atburð verða enn verri tíðindi og alvarlegri því Stóri Rauður er dauðvona. Eftir mat sérfræðinga er það samdóma álit að þessi trausta og hrausta skepna sé nú komin með þau innanmein að enginn mannlegur máttur fái þar rönd við reist.

Stóri Rauður sem er hálfþrítugur að aldri hefur marga fjöruna lapið, ausuna étið, brekkuna dregið og fjallveginn að velli lagt á langri og viðburðaríkri ævi, hýst jafnt höfðingja sem portkonur, verið vettvangur heimspekilegra samræðna og drykkjutúra og yfirleitt átt ævi bæði mikla og stóra.

Hann var skapmikill, dyntóttur eins og títt er um kana, dekurrófa hin mesta og ekki nema í meðallagi félagslyndur. En vinur vina sinna og gat komið á óvart með óvæntum rykkjum. Í yfirferð var hann sem sambland af þýskri herfreigátu eða norðlenskri prestmaðdömu. Riðaði á malbiki en gat verið allra fastastur fyrir í vondu og festist aldrei svo séð væri. 

Við Rauður minn vorum lengi jafnaldrar. Kom þar mest til að fram eftir vist sinni hér á Sólbakka sýndi Rauður þann sprækleik að ætla mætti að hann yrði á dögum lengur en yngstu menn sem þá lifðu og mátti á stundum ætla að skepna þessi hefði mannsvit. Síðustu tvö ár hafa aftur á móti verið kvellisöm með drunti og oftlega að hlutar lágu eftir í hlaði þá farið var af bæ og höfðu þá oxast af undirvagni ofan í malarhlaðið.

Rauður var mikil áhugaskepna um landgræðslu og vann ötullega að landbótum. Hann stóð lengstum á gróðurleysu en hafði farið langt með að rækta upp þann skika á langri ævi svo þar má nú heita beit fyrir hálft geitfé dagpart og mest gómsætur arfi.

Stóri Rauður verður haugsettur á Sólbakka. Blóm og kransar vinsamlega afþakkaðir.


Hvenær verður Obama krafinn um skuldir Madoffs?

Eva Joly bendir nú réttilega á að margt sé líkt með íslenska bankahruninu og bandaríska fjársvikaranum Madoff.

Sú spurning sem þá liggur beinast við að spyrja er hvenær Bretar taki sig til að skilgreina Bandarísku þjóðina sem hryðjuverkamenn og geri fjárkröfur á hendur Bandaríkjastjórn fyrir þá milljarða sem breskir lögaðilar sannarlega töpuðu á fjárglæfrum bandaríkjamannsins.

Næsta spurning er svo hvenær íslensk stjórnvöld taki sér tak og fangelsi hina íslensku fjárglæframenn eins og bandarikjamenn voru fljótir að gera við Madoff.

Kannski er samhengi milli þessara spurninga. Meðvirkni íslenskra stjórnvalda með hinum íslensku þrjótum er allavega ekki til að draga úr líkum á að Bretar og Hollendingar telji okkur öll samsek sem er erfiðara í máli Bandaríkjamanna.


mbl.is Bankahrun líkist máli Madoffs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað viljum við á Selfossi?

Við hér í Árborg eigum að velta því fyrir okkur hvort við viljum raunverulega að það gangi eftir sem samþykkt meðan vitleysan stóð sem hæst. Viljum við samt glerhallirnar í miðbænum og viljum við ryðja hinu fallega og mannlega mjólkurbúshverfi niður fyrir aðrar glerhallir. Eða viljum við nýja hugsun.

Sjá nánar í Sunnlenska í dag og hér á blogginu


Fyndnir fundir!

Mogginn sagði um daginn frá grátklökkum Þorsteini sem klagaði undan því að nú mörgum vikum eftir að ESB-umsóknin var lögð fram hafi enginn áhuga á henni nema Össur. Ekki einu sinni Jóhanna sé almennilegur ESB-sinni að ekki sé nú talað um kommakvikindin. (Þetta er svoldið fært yfir á mannamál enda talar Þorsteinn mjög settlegt stofnanamál).

Núna segir sami Moggi frá því að Össur sé reglulega á fundum heima hjá Þorsteini. Þá vitum við það hver það var sem klagaði ESB áhugaleysi Jóhönnu í Þorstein!

Segiði svo að veröldin sé ekki skemmtileg!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband